Miðvikudagur 24.08.2011 - 15:33 - 15 ummæli

Hver á eyðibýlin og hvað eru þau mörg?

 

Ég hef fengið margar fyrirspurnir vegna færslna minna um eyðibýli fyrr í mánuðinum. Fólk spyr hvað eyðibýlin séu mörg og hver eigi þau?.

Hér koma nokkrar tölur:

Á landinu öllu eru skráð 6562 býli, þar af eru 2272 skráð sem eyðibýli. Búið er á 4290 jörðum. 

Hagþjónusta landbúnaðarins taldi að í árslok 2009 væru alls í eigu ríkisins 163  jarðir í eyði. Þarna eru ekki taldar allar jarðir Landgræðslunnar og Skógræktar Ríkisins sem almennt eru ekki skilgreindar sem lögbýli í eyði. Ekki veit ég hvort bújarðir í eigu kirkjunnar séu þarna meðtaldar. Sennilega ekki.

Til viðbótar koma eyðibýli í eigu sveitarfélaga. 

Samkvæmt þessu má álykta að eyðibýli í eigu ríkis, sveitarfélaga og kirkju skipti nokkrum hundruðum.

Finna þarf ráð til þess að snúa þróuninni við og skapa umhverfi sem fær fólk til þess að ráðast í  endurbyggingu. Skapa þarf aðstæður sem auðvelda fólki að hefja uppbyggingu. Færa frumkvæðið til fólksins.

Hugsanlega væri hægt selja á eyðibýlin til áhugasamra án þess að jörðin fylgi með. Fella á út hugsanlegar kvaðir um búsetu eða landbúnaðarnot og heimila afnot sem sumarhús.

Hvert eyðibýli yrði selt á svo sem eina krónu með kvöð um faglega uppbygginu innan einhverra tímamarka.  Eyðibýlunum eða rústunum fylgdi landspilda uppá svona 4-10 þúsund fermetra.

Þessi leið mundi vonandi verða til þess að menningarverðmæti færu ekki til spillis. Þetta gæti  skapað mikla vinnu fyrir öll stig byggingariðnaðarins frá hönnun til framkvæmda.

Uppbygging færi af stað án fjárhagsaðstoðar úr tómum sjóðum hins opinbera.

Hjálagðar eru myndir sem ég tók fyrr í sumar af Baugaseli norður Barkárdal innaf Hörgárdal sem gert hefur verið upp af áhugasömum.

Býlið situr fallega í landinu eins og það sé hluti af náttúrinni og sprottið úr henni. Húsin gefa umhverfinu mælikvarða sem eykur skilning vegfarandans á því sem fyrir augu ber.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (15)

  • Góðan daginn,
    ég eins og fleiri hér að ofan er að leita að upplýsingum um eyðibýli tl sölu.
    Er einhver sem veit hvert á að leita??

  • Mig langar til að festa kaup á eyðibýli en fæ engin svör eða hjálp hvar hægt sé að nálgast það …Er einhver sem veit hvar það er hægt ?

  • Sveinbjörn Sigurðsson

    Ég hef líka tekið eftir þessu sem Ólafur nefnir að gömlu húsin á byggðum jörðum eru annaðhvort rifin eða látin grotna niður og í þeirra stað byggð “pappahús”. Ég hef líka tekið eftir því að sumir bændur hafa endur byggt gömlu húsin. Sumir hafa gert þau að sumarhúsum fyrir fólkið sitt. Þannig er það eftir því sem mér skilst á Narfastöðum í Þingeyjarsýslu, Kiðafelli í Kjós, Flatey og víðar. Það eru gríðarleg tækifæri falin í þessum húsum og staðsetningu þeirra.

  • Íþessum tölum eru ekki öll gömlu íbúðarhúsin á jörðum sem eru í notkun. Ég hef unnið sem sölumaður og keyrt í hvert einasta hlað á landinu (sem voru mikil forréttindi :), á mjög mörgum sveitabæum er gamalt íbúðarhús sem er að grotna niður. Bændur fá sér fjöldaframleidd eininga eða timburhús (sem líkjast ódýrum sumarbústað) í stað þess að gera upp gamla bæinn.

    Það virðist sem margir bændur séu enn í módernismanum og sjái ekki fegurðina og menningarverðmætin sem afi þeirra og amma reistu af dugnaði og hörku.

  • Stefán Guðmunds

    Það var fjallað um eyðibýli á Rás 2 í gærmorgunn. Það er hægt að nálgast það á vefnum, ruv.is

  • Rómó umræða en við úti á landi pakkið erum ekki alltaf ánægð með þá umræðu að landsbyggðin sé frístundasvæði borgarbúa sem vilja ekkert með okkur hafa þess á milli. Sorry en þetta viðhorf er mjög ríkjandi og of oft sem maður hittir borgarbúa í furðufuglaskoðun út á landi. Vill fólk bara ekki fá tækifæri aftur til að nýta þessar jarðir til að stunda sjálfbæran landbúnað þar sem það er hægt frekar en rómó sumarhús fyrir borgarbúa í furðufuglaskoðun ?

    • Nákvæmlega það sem við frúin viljum gera.
      Er engin leið að nálgast eyðibýli+jörð á skikkanlegum kjörum? Klæjar í fingurnar að geta byrjað að rækta upp land og koma upp lítilli gróðrastöð!

  • Ásta Guðjónsdóttir

    Mér finnst afar sorglegt að aka um þar sem áður voru blómlegar sveitir og sjá hvernig heilu jarðirnar og húsakostur drabbast niður. Það er sorglegt að vita að oftast er það af því að afkomendur vilja ekki taka við búskapnum sjálfir en hugnast þó engan veginn að aðrir taki við nema því aðeins að þeir græði stórar upphæðir á því sjálfir. Á sama tíma er lífsins ómögulegt fyrir þá sem gjarnan vildu yrkja þessar jarðir að hefja búskap því hver hefur slíkar fjárhæðir sem þarf til að kaupa jarðirnar?
    Ekki ég a.m.k.

    Ef mér byðist að taka við jörð/eyðibýli tæki ég því aðeins ef hægt væri að nýta til búskapar, ég gæti ekki hugsað mér að búa í bænum og geta bara dvalist í sveitinni í stuttum fríum.

    Á sama tíma og ég þrái að búa í sveit, sem ég er örugglega ekki ein um, þá eru bændur að neyðast til að flýja sveitina sína er aldurinn færist yfir þar sem erfingjar (ef einhverjir eru) virðast ekki vilja setjast þar að…

  • Var einmitt inni í Barkárdal ekki fyrir löngu og drakk kaffið við Baugasel.

    Tók eftir því að það er steypt gólf hægra megin við aðalinnganginn. Veistu hvað gæti hafa verið þar? Einhvers konar skemma kannski?

  • Sigurður Guðmundsson

    Hér er bent á leið sem er fær ef vilji er fyrir hendi.

    Ríkið á að ríða á vaðið

  • Er þessi listi yfir eyðibýli aðgengilegur almenningi? Ef svo er hvar er hægt að nálgast hann.

  • Anna Benkovic

    Eg var að leita að eyðibýlum í ættareign, eða fjölskyldu. Hvernig eru þau skráð?

    Ps: takk fyrir að vekja umræðu um þetta mál

  • Björn Erlingsson

    Ég get tekið undir það að í þessu liggja mikil verðmæti. Það er ekki víst að mannvirkin séu í sjálfu sér mjög verðmæt en það er alltaf afstætt. Hvert hús á sér sögu í samfélaginu, staðsetningin er hluti af húsinu og verðmætt í sjálfu sér. Hvernig brugðist var við vanefnum eru líka skilaboð til framtíðarinnar í sjálfu sér, ss. farið er um allan torfbæja og hleðslukúltúrinn.

    Auk þess eru til kirkjur, vitar, skólahús og samkomuhús um allt land. Það má líka draga fram og þróa smáhúsbyggingaarf inn í framtíina í stað þess að vera með alla þessa garð- og skógarkofa dritaða einvhernvegin um jarðirnar. Það má læra mikið um staðsetningu húsa í landinu með því að skoða þessa gömlu bæi, staðsetningar út frá veðri og birtu líka sem hefur alltaf skipt miklu.

    Hilmar bendir á leið sem skapar veðmæti og menningu án þess að það kosti nokkuð, en verðmætin sem verða til koma þeim sem taka staði og hús í fóstur til góða. Það er flott nálgun og alltaf betri en að láta hluti grotna niður eins og nú ber mest á.

  • Óskar Þorsteinsson

    Í mínum huga er þessi umræða um eyðibýli lituð af fortíðarþrá fólks á höfuðborgarsvæðinu sem sér fyrir sér sætt og fallegt lítið hús með risi í gömlu túni sem logar af sóleyjum.
    Raunverkuleikinn er sá að flest þessi eyðibýli eru eins langt frá höfðuborginni og hugsast getur t.d. á Langanesi og því afar óhagkvæmur kostur sem sumarhús fyrir borgarbúa. Það er eftir því sem ég best veit lítið af eyðibýlum í Borgarfirði og Árnessýslu.
    Raunveruleikinn er líka sá að mörg þessara húsa voru byggð af miklum vanefnum á fyrri hluta og um miðbik síðustu aldar og örugglega sárafá þeirra teiknuð af arkitektum eða fólki með þekkingu á húsagerðarlist. Það er því örugglega afar kostnaðarsamt að endurbyggja flest þeirra og óvíst hversu menningarleg útkoman yrði.
    Ég hef hinsvegar fullan skilning á því þegar afkomendur jarðeigenda halda við og endurbyggja íbúðarhús á jörðum til að halda tengslum sínum við æskuslóðirnar

  • Guðmundur Ingólfsson

    2272 eyðibýli í okkar litla landi.

    Ekki lítið

    Það er um það bil 25% af öllum sumarbústöðum landsins.

    Ég tek undir með pistlahöfundi sem segir í fyrstu færslu sinni um þetta mál:

    „Þau skipta trúlega hundruðum yfirgefin eða illa haldin hús sem væru algerir demantar sem sumarhús. Það er alltaf notalegt gista og gæla við hús með sögu“.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn