Þriðjudagur 18.03.2014 - 16:05 - 24 ummæli

Hver hannaði Hörpuna?

 

Það vakti nokkra athygli meðal arkitekta að Tryggva Tryggvasonar var hvergi getið þegar tónlistarhúsið Harpa  fékk hin virtu Mies van der Rohe verðlaun á síðasta ári.

Það var mál manna að Tryggvi hafi verið lykilmaður þegar hönnunarteymið var stofnað og hafi verið virkur í allri hugmyndavinnu hússins fram að Hruni.

Svo fór að bera sífellt minna á aðkomu Tryggva að verkinu þar til að hann var hvergi nefndur þegar verðlaunin voru afhent á síðasta ári í Barcelona.

Eðlilega hefur Tryggva ekki líkað þetta og því kærði hann framkomuna til Siðanefndar Arkitektafélags Íslands sem hefur nú fellt sinn úrskurð, Tryggva í hag.

Ég geri ráð fyrir að siðanefnd hafi fellt sinn úrskurð að vandlega athuguðu máli og byggt hann á traustum gögnum.

Fyrir okkur sem erum að vasast í byggingarlist er sæmdin og höfundarrétturinn mjög mikilvægur.

Maður lætur sér nánast í léttu rúmi liggja hvort einhver hafi af manni  fé eða sé jafnvel rændur einhverjum veraldlegum verðmætum. En höfundarréttinn og sæmdina lætur maður ekki frá sér fara. Enda er það varla hægt.  Maður er alltaf höfundur verka sinna eins og maður er alltaf faðir barna sinna. Sama hvað á kann að ganga. Enda er höfundarrétturinn persónubundinn. Enginn arkitekt lætur persónulegan metnað bera siðferðinu ofurliði.

Sæmdarréttur er persónulegur réttur sem höfundur getur ekki afsalað sér. Þetta vita allir. Ég nefni bækur Halldórs Laxnes eða lög Mcartney og Lennons.  Þeir geta selt útgáfuréttinn en ekki framsellt höfundarréttinn. Höfundarréttur er annað.  Höfundarnir eiga og geta ekki  hlaupið frá verki sínu eða gefið hann öðrum. Það er heldur ekki hægt að taka höfundarréttinn frá neinum enda er hann persónubundinn eins og fyrr er getið..  Nafngreiningarréttur er annar hluti sæmdarréttarins. Ef höfundarnir eru tveir eða þrír ber að geta þeirra allra.  Annað hvort eru allir nefndir eða enginn. Annaðhvort njóta allir viðurkenningarinnar, verðlaunanna eða enginn.

Í niðurstöðu  Siðanefndar AÍ kemur fram að höfundarréttur sé mjög mikilvægur og að hann beri að virða. Siðanefndin telur að fyrrum samstarfsmaður  Tryggva, Sigurður Einarsson arkitekt,  hafi brotið gegn honum hvað varðar höfundarrétt að Hörpu og telur brotið alvarlegt í ljósi þess að hér er um mikilvæga byggingu að ræða sem hlotið hefur æðstu verðlaun veraldar í byggingalistinni.

Ef ég skil þetta rétt þá voru arkitektar sem teljast höfundar Hörpu  fjórir en ekki tveir eins og mátt hefur skilja.  Þ.e.a.s.  Tryggvi Tryggvason arkitekt, Per Teglgaard Jeppsen og Ósbjörn Jacobsen  arkitektar (Henning Larsen architects) og Sigurður Einarsson arkitekt (Batteríið arkitektar).

Spurning sem vaknar er  af hverju eru menn að taka af fólki sæmdina? Hvað vakir fyrir þeim?  Hvaða máli skipti hvort arkitektar Hörpunnar eru tveir eða þrír?  Hverjir gera svona lagað?

Ástæða er til þess að óska Tryggva Tryggvasyni til hamingju með niðurstöðuna og með Mies van der Rohe verðlaunin þó seint sé. Samkvæmt úrskurðinum hefur verið beitt blekkingum til þess að leyna aðkomu annars íslenska arkitektsins sem kom að verkinu sem höfundur þess.

Maður trúir þessu varla. En svona er þetta samt.

Efst er mynd líkani af Hörpu á vinnslustigi og að neðan er mynd sem tekin var á fundi þeirra Tryggva og professor Henning Larsen ásamt öðrum í upphafi verks.

Hér er úrtdráttur úr úrskurði siðanefndar AÍ dags. 4. mars s.l..:

„ Siðanefnd telur ljóst að Tryggvi Tryggvason hafi á þeim árum sem hönnun Hörpu stóð yfir margoft komið fram sem einn af hönnuðum hússins Hörpu ásamt Batteríinu og HLT, síðar HLA. Framangreindir aðilar hafi nefnt TT sem einn af höfundum hússins, og hans hefur margsinnis verið getið sem slíks með vitund og vitneskju framangreindra, án mótmæla eða andstöðu þeirra. Því séu samkomulög sem gerð voru milli Batterísins og HLT/HLA um að þeir tveir aðilar séu höfundar Hörpu í mótsögn við það sem áður hafi komið fram af beggja hálfu um höfunda hússins. Það sé því skýrt brot á grein 2.2. í siðareglum félagsins um að arkitekt beri að virða höfundarétt annarra. SE hafi borið að sjá til þess að réttur TT væri ekki fótum troðinn í samkomulagi við HLT/HLA, þar sem hann hafi sjálfur eða fyrirtæki hans marglýst því yfir, t.d. í auglýsingum, tölvupóstum og á heimasíðu sinni að TT væri höfundur hússins. […] Höfundaréttur er arkitektum mjög mikilvægur og hann ber að virða. Siðanefnd Arkitektafélags Íslands telur Sigurð Einarsson arkitekt FAÍ hafa brotið gegn Tryggva Tryggvasyni arkitekt FAÍ hvað varðar höfundarétt að Hörpu, tónlistar- og ráðstefnuhúsi. Í ljósi þess að hér er um svo mikilvæga byggingu að ræða, sem mikla athygli og æðstu viðurkenningu hefur hlotið, svo sem Mies van der Rohe verðlaunin 2013, telur siðanefnd brotið alvarlegt.“

 

Sjá einnig:

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/05/14/harpa-eins-ars/

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/04/29/harpa-fekk-mies-verdlaunin/

Ég á von á að þessu verði gerð ýtarleg skil innan tíðar á vef Arkitektafélags Íslands þar sem öll gögn málsins verði aðgengileg.

 

Austurhofn _ Group

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (24)

  • Jón Þórður

    Það er von að spurt sé: Hver hannaði Hörpuna?

  • Ég veit ekki mikið um þetta mál annað en það sem kemur fram í færslunni að ofan og svo á vefnum dv.is.

    Svör Sigurðar Einarssonar sem koma fram þar eru ekki traustvekjandi eða styrkja hans málstað.

    Svörin ljóma af svínslegum hroka í stað málefnalegra upplýsinga um sjálft málið.

    http://www.dv.is/menning/2014/3/19/mun-enginn-faera-mer-thessa-stund/?fb_action_ids=10151978413991272&fb_action_types=og.recommends

  • Pétur Örn Björnsson

    Um leið og ég óska Tryggva til hamingju með að nafn hans skuli nú getið að verðleikum sem vitaskuld hefði strax átt að vera ef allt hefði verið með felldu

    þá langar mig til að benda fólki á að lesa athugasemdir Tryggva sjálfs við pistil Hilmars um Hörpu eins árs:

    http://blog.pressan.is/arkitektur/2012/05/14/harpa-eins-ars/#comments

    • Pétur Örn Björnsson

      Sú gagnrýni sem þar kemur fram hjá Tryggva er verðug lesning og kannski ekki hvað síst umfjöllun hans um „úrvinnslu-hönnuðina“ og það hvernig ákveðnir menn, „ofur“-verkfræðingar, töldu sig vera yfir aðra hafnir og þar með sem Ólympsguðir að gína yfir öllu.

  • Þórður Björnsson

    Það er ánægjulegt að vera vitni að því að arkitektar hafi aðgang að sterkri og virkri siðanefnd eins ogþetta dæmalaua dæmi sýnir.

    Hvaða einstaklingar sitja í siðanefnd arkitekta og hvernig er hún skipuð.

    Já og btw til hamingju með Mies van de Roghe verðlaunin Tryggvi.

    • Hilmar Þór

      Jú það er vissulega mikilvægt að hafa sterka og óumdeilda siðanefd í félagskap á borð við Arkitektafélagið.

      Siðanefndin er skipula af fyrrum formönnum félagsins. Þessi úrskurður var unninn af sterkum óumdeildum einstaklingum.

      Það voru þau Albína Thordarson, Valdís Bjarnadóttir og Vilhjálmur Hjálmarssom.

    • Gunnlaugur Stefan Baldursson

      Þessir einstaklingar nefndarinnar eru ,án nokkurs vafa, algjörlega óháðir.
      Hefur kollegi ,sem brýtur gróflega grundvöll AI, rétt á að vera áfram meðlimur? Ég tel nauðsynlegt ,að um það verði í kjölfar útskurðar fjallað.

    • Hilmar Þór

      Þetta hlýtur að fá ærlega umfjöllun innan Arkitektafélagsins fljótlega. En fyrst þarf að birta málskjölin á vef AÍ svo fólk geti kynnt sér málið. Það er að segja kæru Tryggva Tryggvasonar, málsvörn Sigurðar Einarssonar og svo í þriðja lagi úrskurð siðanefndar AÍ. Ég var rétt í þessu að skoða heimasíðu AÍ en þar er ekkert að finna ennþá enda ekki liðnir „nema“ 15 dagar frá því að úrskurðurinn var undirritaður.

      Maður verður að gera ráð fyrir að SE hafi haft eitthvað bitastætt sér til málsbóta. Það verður spennandi og nauðsynlegt að kynna sér það áður en mjög stór orð verða látin falla.

    • Gunnlaugur Stefan Baldursson

      Ekkert málefnalegt svar,fyrir utan hroka, er kunngugt af „fyrrverandi vin“ og kollega Tryggva.
      Áþekkt grip,sem bítur gras á framandi bæ og skeytir hvorki um skömm né heiður.

  • Jæja Tryggvi, þetta hlýtur hafa verið þér erfið lífreynsla. Vona að þú uppskerir allt það sem þú hefur sáð.
    Hef aldrei skilið hvernig hægt er að koma svona framm við kollega..

  • Ef það sem Örnólfur Hall segir hér er rétt – sem ég dreg ekki í efa – hljóta hönnunargallar og fúsk að koma fram í miklum viðhaldskostnaði.

    Er hægt að leyna honum?

    Menn geta svo deilt um bygginguna. Í mínum huga lýsir hún íslensku oflæti og er þannig hlutgerving sturlunar.

    • Örnólfur Hall

      — Rósa ! Ég get staðfest þetta sem ég segi með myndum (úr stóru safni) sem ég hef tekið reglulega. Við kollegi Guðmundur Kr. höfum fylgst með Hörpu“smíði“ og líka ósvöruðum kostnaði í botnlausa hítina frá 2010-2014. – Einnig hefur vinur minn járnsmíðameistari myndað líka.

    • Örnólfur Hall

      — Ennfremur: Einkunnarorð Mies voru: LESS IS MORE. Eftir því þá hefði hann verið mjög ósáttur við að láta bendla sig við m.a. allt samsetningahnoðið –og fúskið í hjúpnum með Mies-verðlaunum. – Var verðlaunaiðnaðurinn þarna enn að verki, spyrja menn víða ?

  • Að missa sæmdina er vont, verra er þó stolin sæmd.

  • Gunnlaugur Stefan Baldursson

    Glæsileg niðurstaða fyrir Tryggva Tryggvason!
    Ömuleg að sama skapi fyrir kollega hans,sem auðsjánalega beitti aðferðum,sem flokkast neðan siðamarka og fyrfti frekari umfjöllun hjá AI.

  • Örnólfur Hall

    Til hamingju Tryggvi – með áfangasigurinn !

    — Ég hef löngun verið þeirrar skoðunnar að tónlistarhúsið Harpa liti betur út og í betra ástandi og væri ekki hlaðin göllum og smíðafúski ef Tryggvi hefði, með sinni frábæru arkitekts-hæfni, verið við stafn áfram og leiðbeint Dönunum en ekki verið bolað burtu. – Trúi að þá hefði verið margt þar til betri vegar í hönnun og útfærslu.

    — Raunin er því miður sú að fyrir utan stóra hönnunargalla þá er mikið smíðafúsk þarna og ryðmyndanir komið í ljós (en verið yfirmálaðar). —Hjúpurinn er oft heimsóttur af bómukranabílum með ‚líknandi‘ tækni- og rúðumönnum hangandi í körfum. – Oft sjást menn í þakati (t.d. í nóv. og des.). Hver vegna skyldi það nú vera?
    -– Í dag er allt þvers og kruss í köðlum, tólum og tækjum í hjúphornum og miðsvæðis. – Hversvegna skyldi það nú vera ? – Þolir hjúpur ekki vindálagið eða hitabreytingarnar ? Er spenna og þensla í hjúp ? — Vonandi eigum við ekki eftir að sjá útkomu eins og þá með síðasta gallaða (sprungna) glerstássvegg (no.1) sem fór í sólarlandaferð til Spánar sem brotajárn í smábútum (Sjá fjárlög 2011: Viðhald vegna Hörpu 44 milljónir).

    NB: Hörpu“smíði“ fór fram í miklum hamagangi til að standast fasta setta dagsetningu í maí 2011 til að geta montrassast !

    • Torfi Hjartarson

      Sæll Örnólfur.
      Ástæðan fyrir köðlum, tólum og tækjum í hjúpnum að sunnanverðu er sú að verið var að koma fyrir festingum efst í glerhjúpinn, í þakkubbana, til að hægara verði um vik við að þvo gluggana að innan. Þú hefðir einfaldlega getað spurt okkur, starfsfólk hússins, að þessu þegar þú áttir síðast leið hér um.
      Öðrum vangaveltum þínum og fyrirspurnum höfum við áður svarað bréflega.
      Kv, Torfi

    • Örnólfur Hall

      — Þetta er mikið at eftir bráðum þrjú ár frá vígslu (maí 2011). Átti þá ekki að hugsa þetta fyrir vígslu ? Nógu eru nú rúðurnar skítugar og mattar víða.

    • Örnólfur Hall

      Af AÐSPURÐU HÖRPU-STARFSFÓLKI o.fl. :

      — Dæmi um svar við fyrirspurn:

      — I- Spurning: Spurt var um hjúp-ferðir bómukranabíls með tæknimenn með sprautubyssur í körfum .

      — II- Svar: Það er verið að þrífa rúðurunar ! Ónýt svör !

      — Nefnt er sent rýrt bréf til okkar Guðm. Kr.: Við sjáum ótal spurningum enn ósvarað um Hörpu“smíði“.— Það þyrftu óháðir þriðju aðilar að koma þar að (t.d. verkfræðingar og útektarmenn).

  • Sigríður

    Óheilindi

  • Jón Jón Jónsson

    Gott og réttlátt að Tryggvi hafi unnið málið! Til hamingju Tryggvi.
    Um aðra aðila málsins segi ég ekkert, en vonandi láta þeir og viðlíka „stórmenni“ af fyrri hegðun sinni og breyti nú héðan í frá til hins betra.

  • „Spurning sem vaknar er af hverju eru menn að taka af fólki sæmdina? Hvað vakir fyrir þeim? Hvaða máli skipti hvort arkitektar Hörpunnar eru tveir eða þrír? Hverjir gera svona lagað?“

    Ef til vill er svarið að finna í hatri, metnaði, sjálfsmiðun og sjúklegri veruleikafyrringu?

    • Eða íslenskum landlægum skítamóral!

      Til hamingju með verðlaunin Tryggvi, who ever you are!

  • Þetta gæti bara ekki gerst meðal tónlistarmanna svo ekki sé talað um rithöfunda.

    Annar íslenski höfundurinn er settur út í skuggann meðan hinn baðar sig í frægðarljóma.

    Hvernig er þetta hægt?

    Hvar er hægt að nálgast úrskurðinn?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn