Fimmtudagur 16.06.2016 - 11:29 - 5 ummæli

Hverfaskipulag – Stórgóð sýning í Ráðhúsinu.

ss

Ég átti leið um ráðhúsið í Reykjavík í gær og sá þar stórmerkilega sýningu um hverfisskipulag Reykjavíkur.

Þarna er fjallað um hverfisskipulag í 4 borgarhlutum Reykjavíkur af 10. Það eru Árbær, Breiðholt, Háleiti-Bússtaðir og Hlíðar.

Sýningin er ekki bara merkileg heldur hugmyndin um að gera hverfisskipulag fyrir alla 10 borgarhluta Reykjavíkurstórmerkilegt frumkvæði í skipulagsmálum hvert sem litið er. Aðkoma grunnskólanema að verkefninu vekur sérstaka athygli. Þarna er eftir því sem ég best veit í fyrsta sinn sem grunnskólanemar fá tækifæri til þess að kynnast skipulagsmálum í leik og starfi í sjálfu skólastarfinu.

Í þessari vinnu hefur borginni verið skipt í 10 borgarhluta sem aftur er skipt niður í 3-4 hverfi. Borgarhlutarnir hafa mismunandi staðaranda, andrúm og aðstæður sem hverfaskipulagið á að rækta. Styrkja kostina og draga úr göllunum. Skapa manneskjulega og sjálfbæra framtíðarsýn með skipulagi.

Hverfaskipulagið á að einfalda borgarbúum um að breyta eigin húsnæði innan marka hverfisskipulagsins.

Þessi hugmynd á rætur að rekja til Aðalskipulags Reykjavíkur AR 2010-2030 þar sem stóru línurnar eru lagðar.

Lögð er mikil áhersla á samráð við borgarbúa í þessu ferli. Ein leiðin til þess að ná til borgaranna var að fela nemendum í 13 grunnskólum borgarhlutanna fjögurra til þess að gera líkan af sínu hverfi. Þetta er mjög nikilvæg og skynsamleg aðferð til þess að virkja nemendur og heimilin í skipulagsumræðunni. Við fáum ekki virkilaga gott umhverfi nema með aðhaldi frá upplýstum notendum skipulagsins. Við þurfum meiri umræðu og þéttara samtal um þessi mál við upplýsta borgara. Það dugir ekki að láta arkitektana og stjórnmálamennina eina um þetta mikilvæga mál.

++++

Hjálagt eru nokkrar myndir sem ég tók á sýningunni í gær.

Til hamingju með þetta. Þeð verður spennandi að fylgjast með framhaldinu. Sérstaklega borgarhluta 2 sem er miðborgin og Vatnsmýrin.

+++++

P.S. Það vekur furðu og undrun að ekki hafi verið fjallað um þetta merkilega starf í fjölmiðlum að neinu marki. Skipulagsmál er gríðarlegt hagsmunamál fyrir alla. Þarna er skapaður rammi um allt okkar líf. Fjölmiðlar hafa klikkað hér að mér sýnist.

Sjá einnig:

http://hverfisskipulag.is/

Hverfisskipulag er löngu tímabært

 

+++++

Efst er ljósmynd af líkani af Árbæ og Breiðholti sem grunnskólabörn hafa smíðað. Að baki eru spjöld sem skýra út einstök atriði skipulagsins, hlaðin upplýsingum.

Að neða koma svo nokkrar myndir frá sýningunni sem óhætt er að mæla með. Til skýringar þá eru íbúðahús fjólublá, stofnanir rauðar og atvinnustarfssemi gul.

Breytt 6.06.2016. kl 14:44

Ég var upplýstur af starfsmanni skipulags- og umhverfissviðs Reykjavíkurborgar um að sýningin hafi verið tekin niður í morgun og er því ekki aðgengileg fyrir borgarbúa lenngur. Starfsmaðurinn sagði að upphaflega hafi þessi merka sýning átt að vera í húsnæði Kennaraháskólans en henni hafi verið „troðið“ inn í ráðhúsi. Ég hélt í minni miklu bjartsýni að sýningin hafi verið sett upp til þess að upplýsa þann mikla fjölda borgarbúa sem verður væntanlega í miðborginni á morgun og um helgina.

En svo er ekki.

Skipulagið víkur fyrir einhverju öðru sem fólki þykir merkilegra eða betur viðeigandi. Það er synd fyrir skipulagsumræðuna. Ég læt þessa færslu samt standa þó ég hafi hugsað hana sem auglýsingu fyrir shverfisskipulagið.

hh

Bakkarnir í Breiðholti. Þarna sést hvernig skipulagið er hugsað. Þjónusta og skólar í miðjunni. Fjölbýlishúsin næst. Síðan kemur hringvegur umhverfis þéttustu byggðina þar sem eru almenningssamgöngur. Þá koma sérbýlin og þá opin útivistarsvæði með góðu aðgengi fyrir íbúa.

ff

Hér er horft vestur eftir Bústaðaveginum. Borgarsjúkrahúsið er rautt efst til vinstri og Kringkan efst fyrir miðjugg

aa

Að ofan er uppstylling sem sennilega er hugsuð vegna leiðsagnar um sýninguna og opnar umræður um þau tækifæri sem opnast manni þegar sýningin er skoðuð.

IMG_5955-1024x683

Þórhildur Sif Blöndal og Sigurður Páll Matthíasson nemendur í 6. bekk voru stolt af þessari vinnu og tóku á móti viðurkenningarskjali frá borgarstjóra fyrir hönd hópsins.

„Þetta var bæði fræðandi og skemmtileg vinna,“ segir Sigurður og að nemendum hafi verið skipt upp í hópa til að gera líkan af Fossvogi og koma með hugmyndir um framtíðarmótun hverfisins. Foreldrar fengu svo tækifæri til að koma, skoða og bæta við góðum hugmyndum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • stefán benediktsson

    Stærsta hindrunin í fjölbreyttari notkun Ráðhússins er Íslandslíkanið sem enginn þakkar borginni fyrir að hýsa. Á betrumbættu Lækjartorgi ætti þetta líkan að vera undir glergólfi þannig að gestir og gangandi geti gengið um og yfir Landið. Ég er sammála því að Ráðhúsið á að vera stöðugur vettvangur upplýsinga og umræðu um skipulagsmál.

  • „Troðið“ inn í ráðhúið. Þarna eiga að vera stöðugar sipulagssýningar og kynningar og hvegi annarsstaðar.

  • Þórður Jónsson

    Lokað?

    Við hjónin vorum einmitt að tala um að kíkja á þetta á morgun og finna húsið okkar á líkaninu með börnunum!

  • Guðmundur Jónsson

    „Það dugir ekki að láta arkitektana og stjórnmálamennina eina um þetta mikilvæga mál“.

    Hárrétt!

    En hvar eru dagblöðin og ljósvakamiðlarnir í þessari umræðu.

    Ef þetta er ekki „sexy“ efni þá þarf að gera það „sexy“

    • Hilmar Þór

      Þetta er rétt hjá þér Guðmundur.

      Það þarf á einhvern hátt að gera skipulagsumræðuna opnari og auka áhugann fyrir henni.

      Og það er sennilega best að gera í gegnum skólakerfið. En það tekur baba svo langan tíma.

      Þó ég nefni arkitekta með þessum hætti þá er ég ekki að segja að þeir eigi ekki að tala um arkitektúr. Þeir eiga að hanna og kynna. Verja verk sín, skýra þau út og taka tillit til sjónarmiða leikmanna hver sem á í hlut.

      Þetta hugtak „sexý“ er svoldið gott. Gerum skipulagsmálin sexy!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn