Mér er sagt að íbúarnir í Úlfarsárdal kalli sumir hverfið sitt “Hverfi brostinna vona”.
Þetta er á margan hátt skiljanlegt. Þegar íbúarnir sóttu um lóð eða keyptu húsnæði þarna á sínum tíma sáu þeir fyrir sér líflega byggð með þrem skólahverfum og margþættri nærþjónustu með öflugu miðhverfi. Þarna áttu að búa milli 15-20 þúsund manns í borgarhluta í grennd við fjöll og náttúru. Þetta er nokkurnvegin af sömu stærðargráðu og Akureyri. Hefði getað orðið nánast sjálfbær og vistvænn borgarhluti. Þetta lofaði góðu.
Sökum efnahagskreppu hefur uppbyggingin þarna gengið miklu hægar en fólkið gerði ráð fyrir en það vonaði að betri tíð með blóm í haga væri í augsýn.
Í tillögu að aðalskipulagi sem nú er í kynningu er ekki gert ráð fyrir frekari uppbyggingu þarna. Þarna á ekki að byggja meira, þvert á fyrri ákvarðanir. Þetta er ein af stærri breytingum sem gerð er tillaga um í aðalskipulaginu 2010-2030.
Mönnum kann að finnast þessi breyting ósanngjörn gagnvart því fólki sem þarna hefur búið í von um að þær væntingar sem borgin og höfundar skipulagsins gáfu því mundu rætast. Ég veit ekki hvernig á að efna gefin loforð öðruvísi en að ljúka höfnu verki. Klára dæmið.
Kannski er hægt að bæta fólkinu skaðann að hluta með því að tengja hverfið betur Grafarholtsbyggðinni eins og talað er um og bæta þannig þjónustustigið. En það er bara plástur.
Nú er athugasemdartíminn brátt að renna út. Þetta ásamt mörgum þáttum aðalskipulagstillögunnar hafa verið kaffærðir í umræðunni um Vatnsmýrina. En ég á von á að þeir ráðgjafar sem unnu Úlfarsárskipulagið geri formlegar athugasemdir við við þessa breytingu og verji sína faglegu ráðgjöf á þeim vetvangi. Annað er varla bjóðandi. Íbúar og aðrir hljóta að hafa rætt þetta og komist að einhverri niðurstöðu.
Ég hef sagt það áður varðandi umræðuna um aðalskipulagið að ég er undrandi yfir fálæti fagfélaga um aðalskipulagið. Arkitektafélagið, Félag skipulagsfræðinga, háskólarnir þegja allir þunnu hljóði og leiða þetta hjá sér. Hér er ég ekki að kalla eftir gagnrýni heldur umfjöllun því að ég fyrir minn hlut er sammála öllum meginþáttum aðalskipulagsins og bara nokkuð ánægður og óska eftir umræðu um það. Hnökrana þarf hinsvegar að ræða á faglegum og félagslegum nótum og leita lausna sem sátt næst um.
Efst er mynd af Úlfarsárdal sem sýnir afmökun þess svæðis sem fyrirhugað er að byggja.
Ef smellt er á myndina að ofan stækkar hún. Þá sést hvernig borgarhlutinn Úlfarsárdalur var hugsaður með þrem skólahverfum og öflugu miðhverfi sem þjónar 15-20 þúsund manna byggð sem er svipuð að stærð og Akureyri (um 18.000).
Að neðan eru er áhugaverð tafla þar sem teknar eru saman nokkrar lykiltölur um vöxt borgarinnar “innávið”. Þarna kemur fram hvað vel er unnið að því að gera borgina skilvirkari og hagkvæmari í AR 2010-2030 en verið hefur með umtalsverðri þéttingu innan núverandi byggðarmarka. Tölurnar sýna fjölgun íbúða í eldri hverfum á skipulagstímabilinu samkvæmt AR ásamt aukningu atvinnuhúsnæðis og fjölgun íbúða.
Það hefur alltaf verið góður siður að standa við orð sín og ljúka því verki sem hafið er
Skilaboð til Borgarstjóra.
Ég og aðrir íbúar í Úlfarsárdal höfum sýnt Reykjavíkurborg og starfsmönnum hennar, sem í raun eru starfsmenn okkar og eiga að þjóna sem slíkir, mikla biðlund í fjögur til 5 ár eða frá Hruni. Biðin eftir því að hafist væri handa í hverfinu samkvæmt:,,Handbók stjórnunarkerfis (gæðahandbók) embættis byggingarfulltrúa, vinnulýsingu 005.“ Ég vona að starfhættir ykkar, eftirfylgni og verklag verði raunbetra en reynsla mín af þessum fallega texta og góðum fyrirheitum, þó tekur nú fyrst steininn úr þegar ÍSÓ staðlarnir taka við.Það bíða allir spenntir eftir hreinsun og tiltekt af Borgarinnar hendi og gróðursetningu trjáa í framhaldi af því.
Á óðæri árunum fyrir hrun voru fimm arkitektar í svo kölluðu ,,austurteymi“ Byggingafulltrúa, þeir höfðu á orði um skipulag hverfisins að þetta væri algert ,,naumhyggju náhorn“ enda unnið af arkitekt sem býr í stiga út í París, þekki ekki nánari deili á því, veit samt að hann var valinn eftir forval til Deiliskipulags gerðarinnar sem byggt var samkvæmt.
Er ekki tímabært eftir 5 ár í biðstöðu að endurskoða allt skipulagið hjá Reykjavíkurborg, ekki aðeins Úlfarsárdal, með það fyrir augum að byggja yfir, færa og flytja stofnanir stjórnkerfisins úr 101 helst austur fyrir Elliðaár og Reykjanesbraut,í Kópavog,Garðabæ, Hafnarfjörð og Mosfellsbæ, með því eru margar skipulagsflugur slegnar í einu höggi og margir milljarðar í vasa íbúa(sveitarfélaga).Hættum að flytja þúsundir manns kvölds og morgna í 20 km löngum bílalestum, niður í og úr 101, úr öllum þessum bæjum og hverfum.
Svo vonumst við til að Gæðastjórnunarkerfið hjá Reykjavíkurborg tefji ekki frekar hreinsunarstarfið í Úlfarsárdal.
Með snyrtilegum kveðjum
G.Ben.
Ég skil ekki hvernig ábyrgum stjórnmálamönnum leyfist að svíkja fjölskyldufólk svona og skilja það eftir í einhverjum draugabæ eða jaðarbyggð án þeirrar þjónustu sem þeik vr lofað.
Það hlýtur að vera til lausn á þessum vanda sem ekki leiðir af sér umferðaöngþveiti með slysum og útgjöldum fyrir samfélag og einstaklinga.
En spurningin er: Lá ekki fyrir að fólkið þyrfti að komast heim til sín og að heiman þegar þetta var skipulagt og ákveðið?. Hvernig hugsaði Hr. Skipuleggur sér það? svo vitnað sé til „Útvarps Matthildar“
Þegar hagfræðingar og bankamenn semja lærðar skýrslur um skipulagsmál er ekki von á góðu. Það var gert í upphafi hrunsins, bankarnir tóku í handbremsurnar og allt stoppaði. Nokkuð sem okkur var kennt, að mætti ekki gerast í skipulaginu. Nú sitja bankarnir eins og púkar á gulli yfir tómum íbúðum um allt land og bíða eftir að verðið skrúfist upp fyrir veðböndin. Leiguverðið hækkar enn meira og fókið fer að múra sig inn í bílskúra og yfirgefnar „Toyota“lóðir. Meira að segja hönnuð elliheimili verða almennar leiguíbúðir í greiðslufrestinum.
Grafarvog og Grafarholt vantar íbúa og börn. Þessvegna er gert ráð fyrir fjölgun þar. Þétting byggðar í Grafarvogi og Grafarholti bætir forsendur fyrir almenningssamgöngum og uppbyggingu atvinnustarfsemi í hverfunum.
Væri ekki réttara að hugsa að góðar samgöngur væri forsenda fyrir þéttingu byggðar?
Í Örestaden á Amager var ekki byrjað að byggja að neinu ráði fyrr en búið var að leggja METRO þangað.
Sama var gert í einu úthverfi Vínarborgar. Þar var neðanjarðarlesti lögð áður en byggt var.
En á þessum stöðum eru ábyrgir skipulagsfræðingar sem geta sannfært stjórnmálamennina um aðalatriði málsins.
Varðandi Úlfarsárdal virðist hvorutveggja hafa klikkað stjórnmálamennirnir og skipulagsráðgjafar.
Eða annars í alvöru talað; hvaða skipulagsráðgjafar voru með í að ráðleggja byggð þarna og aftur hvaða skipulagsráðgjafar ráðlögðu núverandi borgarstjórn að hætta við allt saman?
Ef einhver bragur á að vera á borgarskipulaginu þarf borgin þegar hún brýtur land fyrir nýja byggð að útvega rafmagn, hita, vatn og frárennsli, götur og endilega öflugt almenningssamgöngukerfi. Þettta þarf að liggja fyrir og vera í fullum rekstri strax þegar fyrstu lóðinni er úthlutað. M.a. til þess að iðnaðarmenn í byggingariðnaði komist til vinnu sinnar. Þess vegna er það rétt hjá Hilmari að þessi byggð (heil Akureyri) ætti að njóta öflugrar almenningsamgangna við borgina um samgönguásinn. Þá er þessi ótti um aukna bifreiðaumferð, slys og útgjöld ástæðulaus.
En ef ekkert er gert þá er sjónarmið Stefáns það sem hefur yfirhöndina.
Skipulag Úlfarsárdals var upphaflega miklu þéttara en sýnt er á mynd 1 og skólahverfin fleiri. Myndin sýnir endurskoðað skipulag frá 2007 þar sem mjög hafði verið dregið úr þéttingu og skólahverfin orðin 3. Skipulagið gerir nú ráð fyrir einu grunnskólahverfi.
Úthverfi þýða fjölgun einkabíla. Allir bílar úr þessu hverfi enda úti á Vesturlandsvegi, flestir í Ártúnsbrekkunni, mjög margir fara yfir Lönguhlíðarljósin en röðin þynnist eftir að komið er yfir Melatorgið. Allir leita þeir stæðis. Eins og er „á“ hver bíll í Rvík 5 stæði utan heimilis flest ókeypis. Þetta er allt mjög kostnaðarsamt fyrir samfélagið.
Vöxtur úthverfa þýðir þrýsting á fjölgun bílastæða, sem enginn er reiðubúinn að borga fyrir og því lendir sá kostnaður að stærstum hluta á útsvarsgreiðendum. Útsvarsgreiðendur í Rvík borga líka stæði undir aragrúa bíla úr öðrum sveitarfélögum. Bíla fólks sem vinnur í Rvík. Miðborg Rvíkur er langstærsti vinnustaður landsins og það er ekkert hægt að breyta því. Það er jafn þýðingarlaust að reyna að senda stórfyritæki og stofnanir í Grafarvoginn eða Hafnarfjörð og að reyna að senda þær norður eða austur.
Þétting byggðar þýðir styttri vegalengdir milli heimilis og atvinnu, minni þörf fyrir akstur, fækkun umferðaslysa og minni kostnað fyrir einstaklinga og samfélag. Þetta snýst um bætta nýtingu innviða, hagsýni.
Ef eigendur húsnæðis vilja nota hluta af sinni lóð til að bjóða uppá bílastæði hlítur það að að vera algerlega þeirra mál. Einnig hvort þeir vilji rukka fyrir það eða ekki….algerlega þeirra mál.
Verslunareigandi sem býður uppá ókeypis bílastæði gerir það vegna þess að hann væntir meiri viðskipta þessvegna. Hann rukkar fyrir stæðin í gegnum vöruverðið. Rekstraraðili þjónustustofnunar býður starfsmönnum sínum uppá ókeypis bílastæði vegna þess að það laðar starfsfólk að stofnuninni. Hann sparar sér launakostnað á móti.
Í dag er það meira að segja þannig að þeir sem EKKI nýta sér bílastæði fá aukagreiðslu…allt að 8000 kr. á mánuði…skattfrjálst (niðurgreitt af skattgreiðendum!) sem er miklu meira en kostar að leigja bílastæði hjá bílastæðasjóði!! Og því má draga þá ályktun að það sé hreinlega ódýrara fyrir vinnuveitendur að bjóða uppá bílastæði en að borga fólki fyrir að nýta þau ekki.
Því er það alger misskilningur að bílastæði séu „ókeypis“ eða til „óþurftar“. Þetta eru gæði sem hafa verð og er greitt fyrir af fólki sem tekur eigin ákvarðanir í þeim efnum.
Hefur einhver, einhverntímann heyrt auglýsinguna…“Stórútsala í Versluninni!!…allt á að seljast!!…örfá bílastæði!!“ ?…ég held ekki.
Nú er staðan þannig að allsstaðar utan 101 eru bílastæði rekin á ábyrgð eigenda þeirra en í 101 eru bílastæði niðurgreidd af skattgreiðendum í gegnum Bílastæðasjóð. Þetta er vegna þess að bílastæðin eru í eigu borgarinnar en ekki húseigenda eða þjónustuaðila á svæðinu einsog alls staðar annarsstaðar.
Þarna er m.a.s. heil stétt manna sem er bundin við eitt póstnúmer…bílastæðaverðir !?!…Verðir!! Hafið þið heyrt annað eins?!?…stæðin í 101 þurfa verði!!! Væntanlega vegna þess að eftirspurnin er meira en framboðið og fólki er gjarnt að stela stæðunum!!….þrátt fyrir að borgarstjórnin öll eins og hún leggur sig hjólar um allar trissur!!
Stefán myndi gera vel að vera ekki að blanda saman „vandamáli“ sem er bundið við 101 við eigin rörsjón í skipulagsmálum um leið og hann aflaði sér smá grundvallarþekkingar í hagrænni ákvarðanatöku.
Þetta er allt hárrétt hjá Stefáni Benediktssyni. Hann veit hvað hann er að tala um.
Þessi sjónarmið eru algerlega rétt og skynsamleg. Enda vilja allir sem um þessi mál hugsa þétta borgina og minnka umferð einkabíla. En það hjálpar bara ekki þessu fólki sem var hvatt til þess að leggja allt sitt fé, allan sinn tíma og nánast allt sitt líf í draumsýn um gott og líflegt hverfi í Úlfarsárdal sem nú er búið að slökkva á.
Ólafur Jónsson hér að ofan bendir á að í AR 2010-2030 er gert ráð fyrir rúmlega 9000 manna aukningu á skipulagstímabilinu í Grafarvogi og Grafarholti.
Ég velti fyrir mér hvort ekki væri skynsamlegra að bíða með að byggja þar og fullnægja þeirri þörf í Úlfatrsárdal. Það mun hjálpa án þess að auka umferð eins meira en AR gerir ráð fyrir.
Ef maður má fara á flug þá væri hugsanlegt að byggja strax öflugan menntaskóla í Úlfarsárdal, koma fyrir öflugri mannfrekri stofnun á svæðinu (Landspítala?) og fl. Þess háttar. Koma upp almenningflutningum sem tengdist samgönguásnum alla leið niður að vesturhöfn. Rafmagnsstræto sem feri á 7 mínútna fresti. Þá væri stoðkerfið komið og ég hef ekki áhyggjur af framtíðinni.
Svona aðgerðir munu laða að fók. Efti áratugi væri hverfið fullt af heilbrigðisstarfsfólki. Fyritæki sem þjónusta stofnanirnar munu blómstra og bæjarhlutinn yrði sjálbær. Líkt og Akureyri.
Aðalatriðið era ð hafa framtíðarsýn og hafa infrastrúktúrinn í lagi. Allavega þarf eitthvað að gera sem bætir stöðuna í “hverfi brostinna vona”. Er það ekki?
Hilmar Þór…þetta sem þú segir er einsog músík í mínum eyrum.
Mætti ég benda á Keldnaholt sem staðsetningu fyrir spítalann. Landið er nú þegar í eigu ríkisins og liggur vel við umferðaræðum.
En…það sem kannski ræður augljósum pirring mínum er að sjónarmið eins og þú lýsir eiga einfaldlega ekki upp á pallborðið hjá núverandi borgaryfirvöldum og það aftur leiðir til þess að kostir þessara hugmynda eru ekki teknir inní hugmyndavinnuna og eru því aldrei ræddar eða teknir inní módelin.
Þannig eru sjónarmið um þéttingu byggðar góð og gild. En það sjá það allir að þétting sem leiðir til styttri ferðaleiða fyrir sem flesta eru hagkvæmust. Sú þétting á sér ekki stað í „miðbænum“ heldur á svæði sem er með Skeifuna sem miðpunkt. Sá kostur hefur hinsvegar aldrei verið reiknaður enda þjónar það ekki rörsjóninni.
Hvort Stefán Ben viti um hvað hann er að tala veit ég ekkert um pistillinn hans endurvarpar einfaldlega möntru sem ekki stenst hagfræðilega skoðun. Fjárfestingar í umferðarmannvirkjum eru einhverjar þær hagkvæmustu sem þjóðfélagið hefur lagt í og t.d. lenda mislæg gatnamót Kringlumýrar- og Miklubrautar efst á alla lista Vegagerðarinnar yfir þjóðhagslega hagkvæmar vegaframkvæmdir.
Takk fyrir athygli utan við 101 G.Ben.
Hér að neðan er dæmigert svar úr borgarkerfinu, og vek ég sérstaka athygli á gæðastjórnunarkerfinu, sem ekki er unnið samkvæmt hjá Reykjavíkurborg. Verktakar flúðu land fyrir 4 – 5 árum, árangurslaust hefur reynst að fá Reykjavíkurborg til að fjarlægja bygginaefni og skúra víða í hverfinu, Trúlega er það gæðakerfið sem hamlar för.Vart þarf að taka það fram að ekkert hefur verið gert á liðnu sumri 2013.
Sæll Guðbrandur.
Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa þann 28 maí sl.var tekið fyrir erindi Kristins Steins Traustasonar, formanns íbúasamtaka Úlfarsárdals, dags. 15. apríl sl. varðandi ástand byggingarlóða í hverfinu. Niðurstaða fundarins var að farið yrði í framkvæmdir á svæðinu í samræmi við Handbók stjórnunarkerfis (gæðahandbók) embættis byggingarfulltrúa, vinnulýsingu 005.
Á næstu dögum og vikum munu starfsmenn byggingarfulltrúa fara skipulega um hverfið, taka myndir og skrá niður þau atriði sem betur mega fara. Haft verður samband við eigendur og þeim gert, að teknu tilliti til stjórnsýslulaga, að koma mannvirkjum og byggingarlóðum í viðunandi horf.
Vonumst við til að geta átt gott samstarf við íbúa hverfisins við þetta verkefni.
Bestu kveðjur,
Bjarni þór Jónsson,
embætti byggingarfulltrúa
bjarni.th.jonsson@reykjavik.is
Sími: 411 3057
Borgarstjórn er borgarstjórn allra borgarbúa. Ef borgarstjórn tekur ranga ákvörðun og fellur við kosningar þá er sá meirihluti sem tekur við ekki laus við forsöguna. Hann verður að efna loforð sem hin fyrri gaf þegar mál eins og Úlfarsárdalur er annarsvegar og kominn á fullt framkvæmdastig. Nýr meirihluti getur ekki af siðferðislegum ástæðum látið þá sem blekktir voru sigla sinn sjó.
Það voru mistök að hefja uppbyggingu þarna en það er enn verra að skilja fólkið eftir með óuppfylltar væntingar. Það eru vörusvik.
Leiðrétt, 3 lína – beinar línur mega gjarnan ekki sjást.
EFsta myndin sýnir enn eitt merkið um lélegt skipulag. Þarna er skemmtilegt flatlendi sem býr yfir ýmsum möguleikum sem eru vannýttir. Hefði ekki verið skemmtilegra að byggja þarna borgarhverfi með beinum götum, í stað þessara týpisku íslensku úthvera, þar sem beinar línur mega gjarnan sjást. Þarna hefði verið tækifæri á að gera miðborgargötu með þéttri byggð sem hefði getað endað í torgi og með talsvert meiri þéttleika en þarna sést. Úthverfabyggðin hefði svo getað verið upp í hlíðinni.
Takk fyrir þessa góðu grein. Við íbúar Úlfarsárdals hverfis höfum ítrekað bent á ágalla nýs aðalskipulags. Í meintu samráðsferli komum við með fullt af athugasemdum sem hafa algjörlega verið virtar að vettugi og hvergi ratað inn í nýtt skipulag.
Íbúar og lóðarhafar í Úlfarsárdal hafa haft lögmætar væntingar um skipulag hverfisins. En þetta er ekki eins og önnur hverfi borgarinnar þar sem fólk fékk úthlutað lóðum, því í þessu hverfi hefur fólk þurft að greiða hára upphæðir fyrir byggingarétt. Fólk keypti lóðirnar útfrá ákveðnu skipulagi og fyrirhugaðri þjónustu í hverfinu. Þegar fólk kaupir ákveðinn hlut vill það fá ákveðinn hlut. Ekki vill maður borga fyrir bíl en fá bara reiðhjól.
Við íbúar óttumst einnig að sú þjónusta sem þegar er til staðar í nærliggjandi hverfum muni fara vegna breytinga á aðalskipulagi. Þar sem rekstur þjónustu í nágreninu muni ekki þrífast vegna þess að íbúar verða mun færri en til stóð. Þá þurfum við sennilega að ferðast með hjólum, strætó eða á einkabílum niður í miðbæ til að hitta kaupmanninn á horninu.
Það er greinilegt að engir sérfræðingar í skipulagsmálu þora að mótmæla þessu nýja aðalskipulagi. Sennilega vegna hættu á að verða settir út af listanum yfir þá sem eru „memm“ og eiga á hættu að fá ekki verkefni hjá opinberum aðilum.
Kristinn Steinn Traustason
Formaður Íbúasamtaka Úlfarsárdals
Ég bý í Grafarholti og hef fylgst vel með málefnin Úlfarsárdals frá upphafi.
Framkoma borgarinnar hefur verið fyrir neðan allar hellur. Ég er þeirrar skoðunar að það hafi verið farið sérstaklega illa með fólk sem þarna keypti lóðir, t.d. með ákvæðum um viðbótargreiðslur/sektir ef lóðirnar voru seldar innan ákveðins tíma sem aldrei var fallið frá. Á sama tíma er öllum framkvæmdum og þjónustu seinkað…t.d. skóla, íþróttaaðstöðu, frágangi gatna og stíga, lýsingar, almenningssamgöngur osfrv.
Í dag er t.d. rúmur kílómeter fyrir stóran hluta hverfisins á næstu strætóstoppistöð. Þetta er um 15 mínútna labb við bestu aðstæður!!
Í úlfarsárdal var ekki óalgengt að einbýlishúsalóðin færi á yfir 25 milljónir á sínum tíma. Í dag er verið að selja einbýlishúsalóðir í Glimmerskarði í Hfj. á 11 milljónir en í nýlegu útboði í Úlfarsárdal seldist nánast engin einbýlishúsalóð.
Á margan hátt hefði þetta hverfi (og getur enn) orðið til fyrirmyndar. Þarna var t.d. talað um Þingholtin í úthverfi vegna þess hve þétt það átti að vera. Bilið á milli einbýlishúsa fór alveg niður í 3 metra!! Þetta er síðasta suðurhlíðin í Rvk fyrir utan Keldur sem er í eigu ríkisins. Þarna er auðvitað miklu betra byggingarland en mýrar eða hafnarbakkar í 101 og eina leiðin fyrir Rvk til að bjóða uppá lóðir á skaplegu verði til að mæta þeirri neyð sem nú er til staðar. Þetta átti að verða stórt hverfi og bakhjarl Grafarholts hvað varðar þjónustu í nærumhverfi.
Það sem núna er verið að tala um eru hverfi sem eru aðskilin með dal og á og hvort um sig svo lítil að þau geta ekki einu sinni haldið uppi sjoppu!!
Núverandi borgarfulltrúar ættu að skammast sín fyrir hvernig þeir hafa staðið að málum þarna og eina skýringin sem hægt er að finna á því er rörsjón þessara einstaklinga á sitt eigið nærumhverfi!!
Þetta er áhugaverð tafla sem gaman er að rýna í. Einu tek ég eftir og það er gríðarleg aukning íbúða í Grafarvogi (5400 íbúa aukning) annarsvegar og svo 280.000 fermetra atvinnuhúsnæði í miðbæ. Sennilega er hér aðallega um að ræða Landspitalann. En 5400 manna byggð í Grafarvogi til viðbótar og 3700 aukning í Grafarholti er alls 9100 manns í viðbót við það sem nú er. Þetta er tvöföld Vatnsmýrin. Hvar á þetta fólk að vinna?