Föstudagur 23.09.2011 - 12:02 - 19 ummæli

Íbúafundur um Nýjan Landspítala

.

Siðastliðinn þriðjudag boðuðu íbúasamtök í Miðborg og Hlíðum, Holtum og Norðurmýri til opins íbúafundar um Nýjan Landspítala. Guðlaugur Gauti Jónsson arkitekt, sem sat fundinn, hefur sent síðunni eftirfarandi pistil til birtingar þar sem hann fjallar um fundinn.

Guðlaugur Gauti skrifar: 

Yfir 100 manns mættu á kynningarfund um væntanlega uppbyggingu á Landspítalalóð sem Íbúasamtök í Miðborg og Hlíðum, Holtum og Norðurmýri héldu í Ráðhúsinu 20. sept. s.l. Frummælendur voru formaður verkefnisstjórnar fyrir Nýjan Landspítala, fulltrúi og hönnunarstjóri arkitektateymisins sem hannar spítalann og formaður skipulagsráð Reykjavíkur. Þeir ásamt fleirum  sátu svo í panel og svöruðu fyrirspurnum að kynningu lokinni.

Þar kom m.a. fram að kynningin sem nú stendur yfir á drögum að deiliskipulagi fyrir lóðina er forkynning og óformleg að því leyti að hún er ekki hin formlega kynning sem skylt er að framkvæma að lögum. Einnig sagði formaður skipulagsráðs frá því að hann reiknar með að deiliskipulag verði samþykkt næsta vor að lokinni formlegri kynningu og tilheyrandi umfjöllun í ráðum og nefndum.

 Það sem vakti athygli mína umfram annað var það hvernig Gunnar Svavarsson, formaður framkvæmdanefndar um Nýjan Landspítala-Háskólasjúkrahús (NLSH), skilur verkefni sitt og nefndarinnar. Vegna athugasemda úr sal kom t.d. ítrekað fram hjá honum að hann telur það ekki vera hlutverk sitt eða nefndarinnar að svara málefnalegum athugasemdum og ábendingum varðandi framkvæmdina. Þetta á m.a. við um vel rökstudda gagnrýni Katrínar Ólafsdóttur prófessors frá því í janúar s.l. sem ekki hefur verið svarað. Þar segir hún t.d. að skýrslur sem unnar hafa verið vegna verkefnisins veki fleiri spurningar en þær svari.

Einnig kom margoft fram í máli hans að verkefnið felist í skipulagi innviða hins nýja spítala og að koma fyrir starfseminni í húsunum sem þarna muni rísa. „Við erum að horfa til framtíðar og byggjum á notendastýrðri hönnun þar sem meginverkefnið eru innviðir spítalans, það sem á að fara fram inni í húsunum….” sagði hann. Ég held að hann hafi ekki minnst einu orði á umferð eða umhverfi.  Þá kom fram sú gagnrýni úr sal að fræðilegt  staðarvalsmat hafi ekki átt sér stað, sem Gunnar lét ósvarað.

Flestir sem gagnrýna staðsetningu NLSH við Hringbraut gera það vegna umhverfisins og umferðarinnar. Þeir lenda því í báðum flokkunum sem Gunnar telur ekki vera  á sínu sviði að sinna; þeir tilheyra flokknum sem tjáir sig um verkefnið og Gunnar telur ekki þurfa að svara og í hópnum sem hefur áhuga og áhyggjur af verkþáttum sem Gunnar telur vera utan síns verksviðs.

Það er alltaf miður þegar menn sem eru á launum hjá borgurunum telja sig ekki þurfa að sinna upplýsingagjöf til þessara sömu borgara. Þannig vinnubrögð eru það sem kallað hefur verið „rosalega 2007.” Reyndar er þetta verkefni allt og deiliskipulagsdrögin sem liggja fyrir „rosalega 2007.” Síðasti áratugur skilaði okkur alvarlegum mistökum hvað varðar skipulag og umhverfi. Um það ber t.d. uppbygging við  Borgartún í Reykjavík vitni.

Uppbygging á landspítalalóðinni samkvæmt deiliskipulagsdrögunum verður miklu verri en það m.a. vegna nándar við sum fegurstu og eftirsóknarverðustu hverfi borgarinnar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (19)

  • Hrekkjalómur

    Guðrún Bryndís,
    Það er gott að hagræði náist skv Momentum (það er reyndar engin skýrsla á bak við linkinn sem þú sendir). Katrín hefur þá rangt fyrir sér.

    Það er einfaldlega rangt að það séu bara lóðir sem hafi ráðið staðarvali. Það voru ýmis atriði sem réðu staðsetningunni, þmt öryggi sjúklinga. Allar úttektir umferðarfræðinga sýna að Hringbrautin er besti staðurinn.

    Hrekkjalómur

  • Guðrún Bryndís

    Hrekkjalómur, hér eru upplýsingar norskra ráðgjafa sem gera skýrslu fyrir LSH, þar sem sýnt er fram á að hagræði náist:

    http://www.momentumark.no/

    Svo annað – þegar Hringbraut varð valin, voru bornar saman 4 lóðir, þ.e. Fossvogur, Vífilstaðir, Hringbraut I og Hringbraut II.

    Það var s.s. ekki valin staðsetning með tilliti til öryggis sjúklinga vegna ferðatíma heldur lóðir og þar er mikill munur á.

  • Hrekkjalómur

    Katrín Ólafsdóttir ætti að vanda sig betur ef hún ætlar að gagnrýna spítalabygginguna af einhverju viti og halda sig þá við það sem hún þekkir til, fjármálin í dæminu. Þar sé ég ekki að hún hafi sterk rök, nema það að lífeyrissjóðirnir græði ekki nóg. eru það sterk rök? Hún hefur heldur ekki sýnt fram á að sparnaðurinn verði ekki sá sem stefnt verður að.

    Það að forsendur stærðar hafi breyst eru ekki rök gegn byggingunni.

    Allt tal um að nota peningana í rekstur í stað steinsteypu er tóm steypa. Þessir peningar munu aldrei fást í rekstur. Hér er um að ræða fjárfestingarverkefni sem lífeyrissjóðirnir sjá um – þeir munu ekki setja pening í rekstur spítalans. Það ætti að vera Katrínu vel ljóst.

    Önnur rök hennar falla um sjálf sig. Staðsetning í Fossvogi er útilokuð núna vegna bygginga í nágrenninu auk þess sem umferðarmannvirki þar henta ekki (nema menn ætli að auka umferðina á Bústaðavegi og Háaleitisbraut, götur í miðjum íbúðarhverfum).

    Það að hún festist í umferð á Hringbrautinni snýst bara um að hún kann ekki að skipuleggja tíma sinn. Það vita allir sem vilja vita að umferð um Hringbrautina er þung kríngum kl 16 og 17, einkum við Lönguhlíð (engar teppur við spítalann). Betra að gefa sér tíma.

    En kannski hefur hún rétt fyrir sér. Hún starfar jú við HR sem fór út í húsnæðisævintýri sem mun lenda á skattborgurunum, ef það hefur ekki þegar gert það.

    Hrekkjalómur

  • Hrafnkell

    @ Guðl. Gauti Jónsson

    Þó svo að Massie skipulagið hafi ekki lagalegt gildi er ég ekki sammála því að hún sé að safna ryki í einhverri skúffunni. Þú nefnir að Valssvæðið sé ekki í samræmi við Massie skipulagið – rétt er það að það fylgir því ekki í öllum atriðum en þó er verið að vinnan inna þess ramma sem tillagan leggur. Þar er einmitt skilið eftir svæði fyrir Snorrabraut framtíðar sem þverar Hlíðarendann, sjá: http://www.reykjavik.is/Portaldata/1/Resources/skipbygg/skipulagsm_l/mal_kynningu/deiliskipulag_2010/Hl__arendi,_valur_greinarger_.pdf

    Mér sýnist Vatnsmýrarskipulagið hafa stöðu rammaskipulags þar sem megin línur eru lagðir og svo útfærðar nánar þegar kemur að deiliskipulagi hvers reitar.

    Það er rétt að ekki er búið að taka endanlega ákvörðun um að flugvöllurinn fari. Það er þó enn stefnan ef horft er til ASK Reykjavíkur að hann hopi í áföngum og fróðlegt verður að sjá hvort sú stefna breytist í þeirri endurskoðun sem nú stendur yfir á aðalskipulaginu.

    Í mínum huga blasir það við að eigi yfirhöfuð að byggja meira í Vatnsmýrinni þá mun þurfa að stuðla að breytingum í ferðavenjum. Breytir þar engu hvort nýr Landspítali mun rísa þarna eða einhversstaðar allt annars staðar. Þéttari byggð í miðborginni þýðir aðrar lausnir í umferðarmálum. Uppbygging Landspítalans mun að mínu mati hraða á þeirri þróun.

  • Guðl. Gauti Jónsson

    Þessi tengill á viðtal við Katrínu Ólafsdíottur átti að fylgja innlegginu mínu hér að ofan nr. 12.
    http://www.ru.is/media/hr/skjol/mbl20110205-20.pdf

  • Jón Oddsson

    Þetta er alveg rétt. Það er opinber skráð stefna til sem er brotin i deiliskipulagsdrögunum sem liggja fyrir

  • Hilmar Þór

    Mig langar að bæta við reynslu Guðlaugs Gauta frá téðum borgarafundi.

    Magnús Skúlason las á fundinum up púr menningarstefnu ríkisins um mannvirkjagerð, texta sem sagði eitthvað á það leið að þegar byggt eða skipulagt er í grennd við eldri byggð skulu menn taka tillit til þess sem fyrir er og gæta þess að hagsmunir þeirra sem þar búa séu ekki fyrir borð bornir.

    Ég spurði í framhaldi af þessu höfunda og verkefnastjórn nýja Landspítalans hvort þeim þætti fyrirliggjandi tillögur uppfylla þessi tilmæli í menningarstefnunni. Þeir svöruðu auðvitað “Já” og hinn mæti sómamaður Helgi Már bætti við að þetta væri í góðri harmoníu við byggðina sunnan Hringbrautar. Þetta var auðvitað frjálsleg túlkun. Byggðin sunnan Hringbrautar er ekki komin og kemur kannski ekki næstu áratugina.

    Mér finnst þetta deiliskipulag ekki vera í takti við menningarstefnuna að einu atriði undanskildu. Það er gatnakerfið. Gatnakerfið tengist gatnakerfinu sem fyrir er ágætlega. Hæð, stærð og form húsanna er ekki í harmoníu við umhverfið. Heldur ekki efnisval og reitun. Þetta er eins og sagt var á fundinum eins og að blanda saman venjulegum LEGO kubbum og DUBLO LEGO. Eða að svo maður fari í tónlistarlega samlíkingu eins og að blanda saman pönki og gregorískri trúartónlist.

    Þá kem ég að efninu. Hvernig er hægt að nota menningarstefnuna til þess að fá arkitektana og verkkaupa þeirra til þess að gíra þetta smávegis niður þannig að sambúð spítalans og byggðarinnar á Skólavörðuholtinu sé i sátt? Bara einhverri sátt?

    Hér finnst mér reyna á menningarstefnu ríkisins svo um munar. Er hún einhvers virði. Er hægt að nota hana í máli eins og þessu?

    Til hvers er hún?

    Ég er að hugsa um að kíkja nánar á skjalið, “Menningarstefnu um mannvisrkjagerð” og sjá hvort Magnúr Skúlason sé að benda okkur á eitthvað sem skiptir máli.

  • Guðl. Gauti Jónsson

    Væntanleg byggð í vatnsmýrinni
    @Hrafnkell, Magnús Karl og Stebbi

    Það er oft sagt drögin sem liggja fyrir að byggingum og deiliskipulagi á lóð NSLH falli vel að því byggingarmynstri sem er ráðandi í vinningstillögu í hugmyndasamkeppni um skipulag Vatnsmýrinni (Massie tillögunni). Í því sambandi er rétt að benda á að tillagan hefur enn sem komið er ekkert gildi að lögum. Auk þess leyfi ég mér að efast um að tillagan verði útfærð eins og hún er og kemur þar margt til:

    1. Úti um allt land eru til skápar og skúffur sem fullar eru af samkeppnistillögum sem ekki hafa verið notaðar. Reynslan segir að því lengra sem líður frá lokum samkeppni þeim minni líkur eru á að hún verði notuð.

    2. Engin vissa er fyrir því að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni. Í atkvæðagreiðslu um það hvort hann ætti að fara eða ekki skiptust kjósendur í tvær jafnstórar fylkingar og hann er enn staðreynd gildandi aðalskipulagi til 2024. Ég hef á tilfinningunni að framtíð flugvallarins sé ekki útrætt mál og ef hluti af honum ætti að fara 2016 þá væru menn að ræða væntanlegar lausnir núna.

    3. Þar sem borgin hefur gert deiliskipulag á því svæði sem skipulagssamkeppnin tók til er það ekki í samræmi við Massie tillöguna. Má þar t.d. nefna Valssvæðið og stúdentagarða við Sæmundargötu.

    4. Umferðarkerfi Massie tillögunnar er allt öðruvísi en umferðakerfið samkvæmt gildandi aðalskipulagi og engin umræða hefur farið fram um að það ætti að breyta því hvað þetta varðar. T.d. er Hringbrautin lögð í stokk í Massie tillögunni og framlenging Snorrabrautar og ný gata sem liggur í fyrrverandi flugbrautarstæði eru aðalumferðaræðar í henni.

    Auk þess sýna deiliskipulagsdrögin talsvert aðra mynd en þá sem mér sýnist Massie tillagan draga upp því byggingarnar samkvæmt deiliskipulaginu eru talsvert hærri og þar eru ekki verslanir og þjónusta á neðstu hæðum eins og í Massie skipulaginu. Mér finnst reyndar að húsahæðir í Massie skipulaginu séu of miklar á köflum.

    Staðsetning NSLH var ein af forsendunum í samkeppninni um skipulag í Vatnsmýrinni. Massie tillagan var því aðlöguð væntanlegri uppbyggingu eins og menn sáu hana fyrir sér þá. Annarsstaðar, eins og t.d í gömlu byggðinni í Skerjafirði og við Sæmundargötu, er tillagan aðlöguð fíngerðri byggð með nýrri byggð í svipuðum mælikvarða.

    @hákon hrafn
    Ég er sammála þér í öllum megin atriðum Hákon Hrafn. Þeir sem eru í forsvari fyrir framkvæmdinni hafa bæði fært rök fyrir því að erfitt og dýrt sé að nýta gömlu byggingarnar á lóðinni og að best sé rífa sem mest af þeim til að geta byggt hagkvæmari spítala og svo hinu að hagkvæmt sé að byggja einmitt á þessari lóð til að geta nýtt gömlu húsin.

    Þegar haft er í huga að sumar byggingar voru aðlagaðar fyrstu byggingunni á lóðinni hvað varðar t.d. salarhæðir og byggingarmát og að eftir það komu byggingar sem voru lagaðar að þeim byggingum sem aðlagaðar voru elstu byggingunni o.s.frv. er hægt er að ímynda sér alla afslættina sem gera þarf á hagkvæmni í rekstri þegar frá líður.

    Ég hef hvergi séð erindið sem Katrín Ólafadóttir flutti á fundi SVÞ í janúar 2011 en hér er tengill á viðtal við Katrínu sem tekið var skömmu eftir fundinn og í athugasemd Guðrúnar Bryndísar hér fyrir ofan eru glærurnar sem hún sýndi með erindinu.

  • Hákon Hrafn

    Ég er ekki sannfærður um þetta. Fyrst er auðvitað rugl að láta Gunnar Svavarsson vera formann framkvæmdanefndar. Á undan honum var sjálfstæðiskona og framsóknarmaður þar á undan. Höfum við ekkert lært? Fagleg sjónarmið munu aldrei ráða þegar útrunnir stjórnmálamenn eru settir í svona djobb og þeir munu aldrei hlusta á slík sjónarmið því það fellur ekki að þeirra hagsmunum (sem eru að fá góð laun fyrir að láta þetta ganga eins og um var samið þegar þeir fengu djobbið).

    Stjórnvöld hafa ekki svarað því hvernig þau ætla að reka nýjan spítala. Það mun vonandi eitthvað sparast í rekstrinum en skv nýjustu fréttum vill heilbrigðisstarfsfólk ekki starfa hérlendis vegna lélegra kjara. Þetta er eins og að vilja nýjan bíl en eiga hvorki fyrir honum né fyrir bensíni á hann. Það átti jú að nota símapeningana til að byggja en þeir eru ekki til. Hvaða peninga á þá að nota í verkið? Einnig hefur komið fram að kostnaðaráætlun er sennilega of lág þannig að verkið fer örugglega fram úr áætlun og verður ekki fullklárað.

    Björn Zoega var í sjónvarpinu í gær og hann talaði um að nú væri rétti tíminn til að byggja því annars þyrfti að ráðast í dýrt viðhald á byggingum og að þær hentuðu illa sem spítali en samt er mikilvægt að byggja við Hringbrautina til að nýta gömlu byggingarnar. Auk þess hefur hann sagt að hann vilji byggja hærra en gert er ráð fyrir. Sjúkraflutningamenn segja að staðsetningin sé slæm. Það hefur komið fram að fyrsta sérfræðingaskýrslan um staðsetninguna mælti ekki með þessari staðsetningu en mönnum líkaði greinilega ekki það álit og þá var beðið í nokkur ár og nýtt og „hentugra“ álit fengið. Síðan er því haldið fram í umræðunni að þetta sé langbesti staðurinn og að það komi fram í öllum álitum. Hefur það verið reiknað út hvað fæst fyrir staðsetninguna sem hótel og íbúðabyggð?

    Maður vonar samt að það sé verið að vinna rétt að þessu því það verður svolítið seint að hætta við þegar búið verður að byggja. Ég hef ekki hitt einn mann sem er t.d. ánægður með staðsetningu HR í Öskjuhlíðinni (fyrir utan einhverja starfsmenn þar sem eru auðvitað ánægðir að hafa fengið vinnustað á verðmætustu lóð landsins). Þessi staður var samt valinn en enginn vill kannast við að hafa valið hann.

  • Alltaf sól framan á konfektkassanum
    og þeirra sem úr honum éta.

  • Flugi fylgir flug-völlur
    Bílum fylgja bílastæði
    Fagurgalinn er samur við sig
    þó sumrum fylgi alltaf vetur.

  • Tek undir með Hrafnkatli og Magnúsi Karli. Það verður að horfa á málið í víðara samhengi bæði hvað varðar umferð og aðra mögulega byggð á svæðinu. Auk þess er byggð á Landspítalalóð, næst núverandi byggð á Holtinu, þegar risin í stærri skala. En skalinn stækkar vissulega ennfrekar með því sem er ókomið. Ein spurning leitar þó á hugann í sambandi við ásýndina og þá er ég sammála Magnúsi Karli að skoða verður byggðina í samhengi við það sem fyrirhugað er í Vatnsmýri. Hvað ef flugvöllurinn verður þarna áfram um ókomna tíð? Þá höfum við bara það sem kemur fram á myndinni auk einhverrar byggðar sem á eftir að rísa á Valssvæðinu.

  • Magnús Karl Magnússon

    Sæll aftur Hilmar Þór:
    Ég missti af kynningunni og tjái mig því ekkert um hana eða hlutverk Gunnars Svavarssonar. Ég vil þó taka fram að mér finnst mjög slæmt ef almenningi og sérfræðingum er ekki svaraða málefnalega af opinberum fulltrúum í þessu máli. En varðandi áhyggjur Guðlaugs Gauta þá vil ég taka undir með Hrafnkatli hér að ofan að uppbyggingin á Landspítalalóðinni falli mjög vel að þeirri framtíðarsýn sem Vatnsmýrarskipulagið boðar og þar af leiðandi af langtímamarkmiðum aðalskipulags Reykjavíkur. Það er mikið tala um að taki þurfi frekar mið af íbúabyggðinni í Þingholtinu/Skólavörðuholtinu. Mér finnst það dálítið þröngt sjónarhorn. Vatnsmýararskipulagið er framtíðarskipulag og hvernig getum við byggt til framtíðar ef ekki má horfa til þeirrar sömu framtíðar. Einnig er vert að muna að öll þessi nýbyggingaráform liggja austan sjónlínu íbúabyggðarinnar. Byggingarnar verða að mest austan barnaspítalans og sunnan gömlu aðalbyggingar LSH. Þegar keyrt frá Bústaðavegi eða Miklubraut munu allar þessar byggingar vera neðan núverandi byggingarstæðis LSH.
    Í gær voru gerðir samningar um stóráuknar áherslu ríkis og borgar í almenningssamgöngum. Er þetta ekki frábært tækifæri fyrir breytta hugsun í samgöngumálum? Er þetta ekki lausnin á samgöngumálum nýja LSH?
    Varðandi umkvartanir Katrínar Ólafsdóttur við HR þá væri gaman að fá að sjá þær? Ég man eftir að hafa heyrt um þær í útvarpi en í fljótu bragði fundust mér þær ekki mjög afgerandi í þessari umræðu en það væri gaman að sjá þær aftur.
    Kveðja,
    MKM
    PS: Mér leiðast stórkarlalegar upphrópanir í þessu máli og ég varð satt að segja dolfallinn þegar þessum byggingum var líkt við Kárahnjúkavirkjunina. Þar voru um að ræða byggingaráform sem leiddu til þess að stórar óspilltar náttúrperlur fóru undir lón og einhverri fegurstu fossaröð í íslenskri náttúru var fórnað. Mér finnast slíkar samlíkingar vera gjörsamlega langt yfir markið og draga úr trúverðugleika þeirra sem slíkt viðhafa.

  • Flösku-degi fylgir flösku-háls.

  • Their sem bua erlendis vita ad i Reykjavik er enginn umferdarvandi. Umferdin i borginni gengur hratt og vel fyrir sig, thratt fyrir ad Hafnfirdingar verdi stoku sinnum stopp a motum Miklubrautar.

    Athugasemdir Katrinar Olafsdottur voru ekkert serstaklega vel rokstuddar. Thaer folust adallega i upphropun i fjolmidlum.

    Skrekkur

  • Hrafnkell

    Ég er búinn að vera pínu hugsi yfir þeirri miklu gagnrýni sem hefur verið á staðsetninguna og þá að ekki sé hægt að vera auka á starfsemi í vesturhluta borgarinnar.

    Gefum okkur nú að þessi gagnrýni sé rétt þýðir það þá ekki að uppbygging í Vatnsmýrinni sé tómt fíaskó??? Man ekki betur en að þar sé gert ráð fyrir heilmiklum miðjuás fyrirtækja, stofnana og annarrar starfsstöðva. Sá miðjuás mun einmitt tengjast Landspítalanum.

    Að mínu viti fellur uppbygging á Landspítalalóðinni mjög vel að þeirri framtíðarsýn sem Vatnsmýrarskipulagið boðar og þar af leiðandi af langtímamarkmiðum aðalskipulags Reykjavíkur.

    Ef við ætlum að láta núvernadi umferðarvanda stjórna öllum ákvörðunum um framtíðaruppbyggingu þá munum við halda áfram að teygja borgina út og suður. Umferðarmálin eru kominn í öngstræti og sem betur fer hyllir nú undir að stjórnvöld (ríki og sveitarfélög) geri einhverja alvöru í að snúa þeirri þróun við.

    Ég ætla mér að leyfa mér að vera svo bjartsýnn að umferðavandinn verði leystur í framtíðinni – enda fallegur föstudagr :o)

  • Jón Jón Jónsson

    Tek heilshugar undir góðar spurningar fávísrar konu.

    Tek einnig undir orð Gauta um að þetta er allt saman
    „rosalega 2007“ og það endaði í delerium tremens út í mýri.

    Hefur stjórnsýslan ekkert lært og keyrir enn áfram
    sauðdrukkin undir stýri? Gjörsamlega úti að aka, ein með sjálfri sér? Það verður að stoppa stút undir stúri.

  • Fávís kona

    Ég spyr eins og fávís kona; Hvað koma innviðir spítalans deiliskipulaginu við?
    Er ekki verið að fjalla um umferðamál og aðlögun að þeirri byggð sem fyrir er?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn