Fimmtudagur 13.01.2011 - 16:38 - 10 ummæli

Íbúðarhús í sveitinni

Íbúðarhúsið situr á basaltklöpp milli trjáa og því er gefið form sem tekur fullt tillit til lóðarinnar og aðstæðna þar. Húsið er í Washington fylki í Bandaríkjunum  þar sem í umhverfinu ríkir: vatn, hávaxin tré, basaltklappir, fjalllendi, lágvaxinn undirgróður og dýralíf.

Húsið fellur vel að landinu og ekki bara það, heldur er efnisval og litir í rökréttu samhengi við staðinn og umhverfið. Grunnmyndin er einföld og afstöðumyndin tekur að sama skapi á öllum grundvallargæðum og -göllum umhverfisins. Styrkir kosti staðarins og dregur úr göllum hans. Niðurstaðan er fallegt starfrænt hús með mikilli staðarvitund.

Á grunnmyndinni sést að húsinu er skipt í tvennt. Annarsvegar aðalhús og hinsvegar úthús, annex, fyrir gesti eða fullorðna fjölskyldumeðlimi.  Milli húsanna er yfirbyggð verönd með útivistaraðstöðu og grilli.

Húsið fékk verðlaunin Merit Award 2010 Honor Awards for Washington Architecture. Arkitektarnir eru Helitrope Architects í Seattle, Wasington USA. Myndirnar  eru fengnar af heimasíðu arkitektanna. Slóðin þangað er:

http://www.heliotropearchitects.com/

Þetta er góður staðbundinn arkitektúr sem er laus við kæki tíðarandans.

Grunnmynd.: Húsinu sem skipt er í tvennt, fangar landslagið og virðir það. Til hægri er aðalhúsið og til vinstri gestahúsið. Húsin tvö eru tengd saman með göngupalli og þaki eða „pergola“. Undir húsinu lengst til hægri eru rými fyrir bifreiðageymslu og annað slíkt.

Afstöðumynd.:  Höfuðáttirnar, útsýnið, landslagið í nálægð og fjarlægð setur mark sitt á hönnunina.  Hvort sem litið er til hússins eða frá því.

Inngangurinn gefur fyrirheit um það sem koma skal.

Séð úr eldhúsi fram í stofu og að anddyri.

Veröndin sem tengir húshlutana saman

Grill og útivistaraðstaða milli húshlutana tveggja.

Vinnuherbergi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Takk fyrir skemmtilega umfjöllun. Velti þó fyrir mér hversu gaman er að sitja þarna mitt í náttúrunni þegar fuglarnir fljúga væntanlega beint á glerið!

  • Svona á að fjalla um arkitektúr. hipurslaust á mannamáli og aðeins um góðar byggingar og helst meira um íslensk hús og skipulag

  • Stefán Guðmundsson

    Þessi færsla og sérstaklega athugasemdirnar kenna manni betur að skilja hús.
    Ég segi bara takk fyrir mig.

  • Hilmargunn

    Verulega fínt !

  • örnólfur hall

    Það er ekki hægt annað en að dást að þessum arkitektúr. Lýsingin: mildur, hógvær og flæðandi í landslaginu, kemur upp í hugann. Mér finnst andi FLW svífa líka þarna yfir.

  • Jóhannes Gunnarsson

    Ég er sammála því að inngangurinn og aðkoman er spennandi. Það hlýtur að vera upplifun að koma í gegnum skóginn að þessu spennandi húsi með tiltölulega lokaðri hlið með greinilegum inngangi sem býður mann velkominn. Svo er gengið inn í húsið og maður er staddur í fallegu heimilislegu opnu rými um leið og það opnast manni útsýni til síbreytilegs og gríðarlega mikils landslags til fjalls, skógar og fjöru.

  • stefán benediktsson

    Rögnvaldur Johnsen kollegi okkar lærði í Kaliforníu og saknaði trjánna þar sem voru svo fljót að vaxa og hylja mistökin sem menn gerðu. Þetta er flott hús en gróðurnn gerir það ekki verra. Rammi verksins skiptir máli. Ég er hrifnastur af innganginum og svo er húsið hógvært í umhverfi sínu, faðmandi hálfgróna klöppina. Tvö hús hafa hrifið mig í sumar. Sumarbústaður Páls kollega okkar við Hvítá hjá Kiðjabergi og bústaður ungrar listakonu og manns hennar handan árinnar þar sem heitir Kollhúfa minnir mig.

  • Hallgrímur

    Ætli það sé ekki rétt hjá Önnu R. að það hafi verið kastað hendinni við undirbúning bygginga í sveitum landsins undir forræði og leiðsögn Teiknistofu Landbúnaðarins á árum áður. Sennilega hefði sú ráðgjöf ekki komist í gegnum umhverfismat nú á dögum. Það voru samt aðrir tímar og þjóðin ekki eins meðvituð um fegurð landsins og auðæfi náttúrunnar fyrir augað og engin var andmælarétturinn. Í framhjáhlaupi minni ég á þetta hús. Það er ekki saman að líkja því sem borið er á borð vestanhafs:
    http://blog.eyjan.is/arkitektur/2010/10/18/holl-sumarlandsins/#comments

  • Borgararkitektúr, úthverfaarkitektúr og sveitaarkitektúr. Sveitaarkitektúr má skipta í þrennt: sveitabýli, þar sem e-k búskapur er stundaður, vegleg einbýlishús sem reist eru út í náttúrunni, fjarri byggð, og sumarbústaði.

    Manni finnst oft sem munurinn á þessu sé æði loðinn á Íslandi.

    Ég var t.d. í sveit á ónefndum bæ í Dalasýslu þar sem bæjarhúsið var tiltölulega nýtt, sosum ágætt hús og rúmgott, en ég myndi skilgreina það sem úthverfaarkitektúr. Þetta var einhver stöðluð teikning frá Teiknistofu landbúnaðarins (eða hvað það batterí annars hét).

    Þarna er e.t.v. komið ritgerðar- eða rannsóknarverkefni fyrir nema í arkitektúr, að skoða afurðir téðrar teiknistofu og hvað þær segja um hugmyndir í gegnum tíðina. Hún hafði ekki svo lítil áhrif á ásýnd sveitanna.

  • Hlýlegt og huggulegt. Mann langar til að stökkva inn í myndirnar og koma við hlutina, steinana, klappirnar, trjástofnana og húsið. Þetta fær mann til að brosa. Þetta er sígilt hús en ekki hypernýtískulegt. Andskotinn hafi það líka.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn