Fimmtudagur 03.03.2011 - 17:00 - 1 ummæli

Íslenskir arkitektar í 2. sæti-Alþjóðleg samkeppni

Fyrir nokkru var haldin samkeppni um nýja kirkju í bænum Hatlehol í nágrenni Ålesund í Noregi.  Alls bárust 123 tillögur sem allar voru teknar til dóms.

Fyrstu verðlaun hlaut dönsk arkitektastofa, Cornelius+Vöge.

Það sem vakti athygli mína var þáttaka tveggja íslenskra arkitekta í þessari stóru samkeppni. Það voru arkitektastofan arkitektur.is annarsvegar og Magnús G. Björnsson arkitekt hinsvegar. Það kann að vera að aðrir íslenskir arkitektar, sem mér er ekki kunnugt um, hafi líka tekið þátt.

Arkitektur.is hefur verið virk hér á landi meðan Magnús, sem lærði í Noregi, hefur starfað í Ástralíu um áratugi. Eitt helsta verk Magnúsar hérlendis er fjölbrautarskólinn á Sauðárkróki sem hann og Jóhannes Kjarval teiknuðu í samstarfi.

Árangur arkitektur.is var stórgóður og deildu þau öðru sætinu með norska arkitektinum Terje Grönmo. Og fengu þeir hvor um sig 100.000.- norskar krónur í verðlaun.

Þetta er glæsileg framistaða hjá arkitektur.is og sýnir enn einu sinni færni íslenskra arkitekta sem geta mælt sig með þeim bestu hvar sem er. 

Einn fagdómaranna í samkeppninni í Hatlehol, Arne Sæther arkitekt,  er kunningi minn og einn helsti sérfræðingur í kirkjubyggingum á norðurlöndunum. Arne hefur skrifað frábærar bækur um efnið. Fyrir svona 10 árum kom hann hingað til lands og hélt stórfróðlegt erindi um kirkjubyggingar, sögu þeirra og táknmál.

Það er óhætt að óska arkitektur.is til hamingju með árangurinn.

Efst er tölvumynd af kirkjuskipi í tillögu arkitektur.is.

Það er eftirtektarvert að ekkert hefur verið fjallað um þetta afrek arkitektur.is í fjölmiðlum.  Mig grunar að ef um væri að ræða tónlistarmenn sem væru í öðru sæti í alþjóðlegri keppni hefði pressan tekið betur við sér svo ég tali nú ekki um íþróttir. Ef íslenskir íþróttamenn hljóta annað sæti á alþjóðlegu móti er þeim boðið til Bessastaða. Jafnvel fegurðarsamkeppnir og slíkt vekja meiri athygli en toppárangur íslenskra arkitekta á alþjóðavettvangi. Þetta er líka að hlutatil pr. mál arkitektanna sjálfra. Ég verð þess stundum var að miðlungsverk og verk undir meðalgæðum eru að þvælast á vefmiðlum og í tímaritum. Þau virðast ekki vera þarna af eigin verðleikum heldur vegna þess að þeim er kerfisbundið hampað. Svo eru til framúrskarandi verk sem ekki fá þá umfjöllun sem þau eiga skilið.

Ég hef oft haldið því fram að afstöðumyndin skipti meira máli en margur gerir sér grein fyrir. Ég hef skoðað nokkkrar afstöðumyndir frá samkeppninni og sé að tillaga arkitektur.is er fallega og vel leyst. Þarna er einskonar skógarparkering þar sem flæði akandi og gangandi er liðlegt og hnökralaust. Aðkoma er skýr og blasir við  þegar inn á lóðina er komið.

Fyrstuverðlaunatillaga dönsku arkitektana Cornelius+Vöge

Kirkjuskip tillögu Magnúsar G. Björnssonar. Hér má nálgast frekari upplýsingar um Magnús:

http://www.worldarchitecture.org/world-architects/?worldarchitects=architectdetail&country=Australia&no=1722&title=Magnus%20G.%C2%A0Bjornsson

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • stefán benediktsson

    Meðan heimsbyggðin sveltur byggir kirkjan fegurstu hallir heims ……..þannig hefur það alltaf verið

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn