Föstudagur 12.02.2010 - 11:18 - 14 ummæli

Íslenskum arkitektum ekki treyst

naive-or-stupid1

Stjórnvöld hafa ákveðið að efna til arkitektasamkeppni um Landspítala Háskólasjúkrahús við Hringbraut, alls um 66 þúsund fermetra og verja milli 30 og 40 milljörðum króna í framkvæmdina.  Þetta er hluti af svonefndum stöðugleikasáttmála.

Auglýst hefur verið forval vegna arkitektasamkeppninnar þar sem leitað er 5 hönnunarteyma sem samanstanda af arkitektum, verkfræðingum og öðrum sérfræðingum.

Til þess að meta reynslu teymanna í hönnun sjúkrahússbygginga er gerð krafa um að umsækjandi hafi teiknað minnst 100 rúma sjúkrahús til að fá stig í forvalinu og til að fá fullt hús stiga þarf teymið að hafa hannað minnst þrjá 500 sjúkrarúma spítala á síðustu 10 árum.

Það er ekki hægt að skilja þessa kröfu öðruvísi en svo að verkefnastjórnin vill helst skipta við stofur sem hafa teiknað þrjá 500 sjúkrarúma spítala eða meira undanfarin 10 ár

Það finnast engar slíkar stofur hér á landi.

Það er ekkert íslenskt ráðgjafafyritæki eða arkitektastofa sem kemst á blað í þessu mati þar sem enginn íslendingur hefur teiknað sjúkrahús með meira en 100 sjúkrarúmum hvað þá þrjú með 500 rúmum.

Þessa kröfu í forvalsgögnum er ekki hægt að skilja öðruvísi en svo að verkefnastjórnin óski eftir að leitað verði út fyrir landsteinana með arkitektaþjónustu.

Í forvalinu er gerð krafa um að ábyrgðaraðilinn ( oftast arkitektinn) hafi minnst 30 háskólamenntaða starfsmenn á sínum vegum.  Það er skemmst frá því að segja að slíkan mannafla hefur engin íslensk arkitektastofa yfir að ráða enda engin þörf fyrir slíka stofu á okkar litla landi.

Samkeppnin kallar heldur ekki á þennan mannafla.

Þá er ætlast til að í teyminu séu að minnsta kosti 70 háskólamenntaðir sérfræðingar til viðbótar.  Það skal tekið fram að engin sjáanleg þörf er fyrir þennan hóp vegna vinnu við tillögugerð í samkeppni sem þessari og má því sleppa honum alfarið.

Þessu til viðbótar er í forvalinu höfundarréttur arkitekta nánast hrifsaður af þeim á ófyrirleitinn hátt og margt fleira má tína til, en látið kyrrt liggja að svo stöddu.

Ég fullyrði að það eru að minnsta kosti 20 íslenskar arkitektastofur á landinu sem eru fullfærar um að skila tillögu í samkeppni sem þessari svo sómi sé að, án þess að þurfa á nokkrum stuðingi að halda utan stofanna eða erlendis frá.

En kröfur í forvalsgögnum eru þannig smíðaðar að engin þessara minnst 20 hæfu íslensku arkitektastofa fær tækifæri til að leggja inn tillögu í samkeppnina óstudd.

Að mati útbjóðanda geta þær ekki tekið að sér verkið og staðið við skyldur sínar sem höfundur og ábyrgðaraðili verksins að óbreyttu.

Má túlka þetta svo að íslenska ríkið treysti ekki íslenskum arkitektum?

Þetta er umhugsunarefni sérstaklega vegna þess að íslensk arkitektastétt hefur aldrei verið öflugri í sögunni en einmitt nú.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (14)

  • Haukur Már

    Hvernig er það, eru arkitektar alveg sáttir við staðsetninguna á þessari risavöxnu byggingu? Er ekki alveg út úr kú að troða þessu ferlíki á þennan stað?

  • Gestur Ólafsson

    Ég er alinn upp við það að þeim sem fara með almannafé beri að leita til hæfustu sérfræðinga á hverju sviði. Þessi „hönnunarsamkeppni um skipulag lóðar Landspítala og Háskóla Íslands við Hringbraut og frumhönnun nýbyggingar Landspítala“ er talsvert flókið skipulagsverkefni en þar er engin krafa gerð um menntun í skipulagsfræðum eða starfsreynslu á því sviði. Því virðist full ástæða til að benda bæði verkkaupa og þeim Íslendingum sem munu borga fyrir þessi mannvirki á að hér á landi eru starfandi nokkrir tugir skipulagsfræðinga menntaðir í mörgum fremstu háskólum austan hafs og vestan og félag þeirra, Skipulagsfræðingafélag Íslands. Hugsanlega gæti okkur verið akkur í því sem þjóð að nýta þekkingu og reynslu þessara manna í jafn flóknum verkefnum. Dæmin um hið gagnstæða hræða.

  • Það kom fram á félagsfundi Arkitektafélags Íslands fyrir nokkru að verkefnastjórnin leitaði ráða hjá Félagi Sjálfstætt Starfandi Arkitekta (FSSA) vegna málsins. Það var ekki bara léleg stjórnsýsla, heldur líka röng. Eins og komið hefur fram er AÍ með þrautreynt skipulag á þessum málum og nefndarkerfi sem tryggir rétta málsmeðferð. Samkeppnismál koma FSSA ekkert við. Það vekur furðu að FSSA hafi ljáð máls á þvi að koma að þessu leiðinda máli fyrir hönd arkitektastéttarinnar og veita verkefnastjórn ráðgjöf. Þetta er ekki á þeirra verksviði og þeir vita það. Aðkoma FSSA hefur sett málið í uppnám öllum til ama.

    Á félagsfundinum 21. janúar voru menn á einu máli um að hér væri nánast ekkert í lagi eða ásættanlegt. FSSA fengu harða gagnrýni fyrir að hafa umboðslaust veitt umsögn um forvalið.

    Nú eiga arkitekta enga kosti og falbjóða sig til verksins. Ekki það að ég skilji ekki þá sem það gera, því það er hörmungarástand í arkitektastétt. Hvað gerir maður ekki til þess að geta gefið börnum sínum að borða?

    Og í lokin vil ég segja að allt er rétt og satt sem kemur fram í blogginu og Fréttablaðinu. En ég er ósáttur með að Hilmar sé að draga úr því að forvalsnefdin sé að hygla erlendum arkitektastofum. Forvalsnefndin er að því og verkfræðingarnir FRV eru að nýðast á arkitektunum með því að láta þá fleyta sér að alsnægtarborðinu.

  • Magnús Orri

    Eitt stóra málið í svona samkeppni er að læra af öðrum fyrirfram og kynna sér vel hvað hefur verið gert áður og nýta sér reynslu starfsfólks spítalana um það hvað sé gott og hvað sé slæmt (betur mætti fara) o.s.fv.

    Spítalar eru miklar tæknibyggingar en það kemur ekki fyrr en á síðari stigum málsins þó vissulega sé best að hafa tæknilega þáttin í huga alveg frá byrjun (það er reyndar verkfræðilegi þátturinn).

    Svona samkeppni er heildaryfirbragð og grunnskipulag en ekki smáatriðahönnun og tæknilausnir þannig að það er ekki nokkur ástæða til að útiloka Íslenska arkitakta. En það er ljóst að svona verkefni þarfnst mjög mikilar undirbúningsvinnu og margra vettvangsferða á eldri spítala ásamt því að tala þarf við starfsfólk þeirra (og Landsspítala líka).

  • Björn H. Jóhannesson

    Íslenskir arkitektar eru með prófgráður frá bestu menntastofnunum heims austan hafs og vestan. Þrátt fyrir þetta eru sett niður ráð og nefndir til að að standa að arkitektasamkeppni um stærsta einstaka byggingarverkefni Íslands hingað til , nýbyggingar Landspítala Hákólasjúkrahús, án þess að Arkitektafélag Íslands fái einu sinni gögn um fyrirkomulag arkitektasamkeppninnar til umsagnar.

    Finnst mönnum Skúlagötuturnarnir, Háskólinn í Reykjavík við Nauthólsvík, væntanlegt tónlistarhús við hafnarsinnsiglinguna í Reykjavk, sem allt er teiknað af erlendum arkitektum fanga anda Reykjavíkur eftirminnilegra umfram aðrar byggingar?

    Sjúkrahús eru ekki flóknari byggingar en t.a.m. skólar. Ótal opnar samkeppnir um byggingar og skipulag hafa verið haldnar hérlendis með aðkomu Arkitektafélags Íslands með heillavænlegum árangri. Engin haldbær rök eru fyrir að svo yrði ekki einnig í samkeppni um nýbyggingar Landspítala Háskólasjúkrahús og annað en aðkoma Arkitektafélags Íslands að fyrirkomulagi samkeppninnar er ekki sæmandi.

  • Hilmar Þór

    Af gefnu tilefni þá er rétt að taka fram að Arkitektafélag Íslands hefur ekki farið fram á að mál samkeppninnar sé íslenska. Þó svo að það sé auðvitað sjálfsagður hlutur að tala íslensku á Íslandi.

    Það sem arkitektar vilja er að ekki sé á neinn hátt komið í veg fyrir að íslenskar arkitektastofur, með áhugasamt og frjótt starfsfólk taki þátt í samkeppninni, óstuddar.

    En það er gert.

    Arkitektafélagi óttast heldur ekki samkeppni frá erlendum aðilum. Þvert á móti líkar arkitektum hörð samkeppni. Arkitektafélagið hefur einfaldlega óskað eftir því að kröfur í forvalinu séu þannig smíðaðar að stofur þeirra komist að verkinu og geti í framhaldinu att kapp við erlenda kollega sína.

    Sennilega er engin íslensk stétt sem er jafn viljug að leggja nánast takmarkalausa vinnu í samkeppnir af ýmsu tagi og arkitektar.

    Í Fréttablaðinu í morgun er grein undir fyrirsögninni “Telur erlendum arkitektastofum hyglað í forvali Landspítala” og er vitnað í bloggið hér að ofan. Þeir sem lesa bloggið sjá að þar er verið ekki að segja að erlendum stofum sé hyglað heldur að hæfar íslenskar stofur komast ekki að, án stuðnings erlendra aðila.

    Rætt er við Ingólf Þórisson, forvalsnefndarmann, í blaðinu sem segir réttilega að það sé ekki reynt að útiloka íslenskar stofur í samkeppninni. Þó það nú væri. Ef misskilja má blogg mitt á þann veg þá biðst ég afsökunar á því. Í blogginu segir að íslenskum stofum, eins og þær eru í dag, sé settur stóllinn fyrir dyrnar án þess að það sé ásættanlega rökstutt.

    Í forvalinu er að finna nokkur atriði sem mun fá erlenda aðila til að staldra við. Ég nefni þar t.d. ákvæði um tímagjald sem er mun lægra en gerist í nágrannalöndunum fyrir utan kröfu um að málið verði íslenska. Svo er auðvitað krafist að þeir sem taka þátt í samkeppninni hafi þá menntun og réttindi sem íslensk lög gera ráð fyrir.

    Forvalið eins og það er núna gerir það að verkum, svo ég endurtaki, að engin íslensk stofa komast í gegnum síuna sem ofin hefur verið af forvalsnefndinni án þess að beygja sig undir aðila sem ekkert hafa með samkeppnisvinnuna að gera.

    Hér er sennilega um að ræða meira en 20 stofur sem ég tel vel hæfar.

    Sjónarmiðum Arkitekta hefur verið tekið kurteislega og af velvild á æðst stöðum, en það er eins og atburðarrásin hafi tekið völdin í málinu og ekki er hægt að snúa til baka að mati þeirra sem hafa með málið að gera.

    Því er nú miður.

    Það er rétt að upplýsa að Arkitektafélagið fékk forvalsgögnin aldrei til umsagnar þó svo að innan félagsins sé sérstök nefnd sem á að fjalla um svona mál.

    Að lokum spyr ég háskólamanninn, Úlfar Bragason hvaðan hann hafi það að það sé verk eða vilji Arkitektafélagsins að útiloka útlendinga í samstarfi við útbjóðenda, Arkitektafélagið kom ekkert að gerð útboðsgagnanna eins og áður er getið.

    Svona til umhugsunar. Ég hitti ekki einn einasta arkitekt á förnum vegi sem ekki er stórundrandi á framgangi forvalsnefdarinnar. Því undrar það mig einns og V.F. lætur að liggja að ofan hvað fáir kollegar mínir tjá sig hér.

    Sennilega er það einhver ótti, þrælsótti!

    Svo skil ég ekki að forvalsnefdin skuli ekki taka þátt í umræðunni og leiðrétta það sem missagt kann að vera hér í þessari umræðu.

    Er þessi þöggun hluti af hinu Nýja Íslandi?

  • stefán benediktsson

    Hlutfallslega hefur engin stétt orðið fyrir jafn miklu atvinnuleysi og arkitektar. Það eru engin rök sem mæla með því að útiloka þá frá jafn stóru verkefni og LSH. Það er eins með þennan spítala og alla aðra að forsögnin skilur milli árangurs og mistaka. Það eru ekki allir íslenskir arkitektar vondir og vondur íslenskur arkitekt ekkert verri en vondur útlendur. Snilldin í þessari byggingu mun felast í aðlögun að aðstæðum og þar ættu okkar arkitektar að hafa betri forsendur en aðrir.

  • Úlfar Bragason

    Enn er íslenskan notuð til að útiloka útlendinga og hygla Íslendingum! Krafa um að tala og skrifa íslensku í forvalinu! Þar sem fáir erlendir arkitektar (nema þeir sem starfa hér) geta orðið við þessu þurfa þeir annaðhvort að leggja í aukakostnað við þýðingar eða vinna með Íslendingum! Svona vinnur Arkitektafélagið í samstarfi við útboðsaðila. Ekki í fyrsta skipti!

  • Jóhannes Þórðarson

    Það er nauðsynlegt með hliðsjón af því sem fram kemur í þessu ótrúlega máli að góður arkitektúr snýst um form, hlutföll og rými þar sem öllu er ætlað að framkalla minnisstæðar upplifanir og tengsl. M.ö.o. arkitektúr er ætlað að tengja saman verðmætamati í formi, efni, rými og hughrifum. Þetta eru allt saman grunnatriði sem reyna á sköpun, frumleika og skýra hugsun þeirra sem leggja fram hugmyndir sínar. Það er einmitt á þessum forsendum sem arkitektar hafa öldum saman staðið vörð um höfundarrétt og því óskiljanlegt með öllu að þeir séu reyðubúnir til þess að henda honum fyrir borð á þeim tímum sem við erum að upplifa einmitt núna.

    Í þessu samhengi er rétt að minna á menningarstefnu íslenskra stjórnvalda í mannvirkjagerð sem enn er í fullu gildi. Þar segir m.a. „Hönnunarsamkeppni hvetur til fjölbreytni, nýsköpunar og frumlegra lausna. Hönnunarsamkeppni hvetur til fjölbreytni, nýsköpunar og frumlegra lausna. Þær umræður sem eiga sér stað við dómnefndarstörf draga fram aðalatriði og skerpa áherslur verkefnis. Verkkaupi fær þannig betri innsýn í ólíka þætti verkefnis og þær lausnir sem mögulegar eru. Mikilvægt er að fyrirkomulag og forsagnir bindi ekki hendur þátttakenda í samkeppni meira en nauðsyn krefur og gott þykir enda eiga þær að hvetja til svigrúms gagnvart skapandi hönnunarlausnum.

    Forskriftir hönnunarsamkeppna þurfa að vera sveigjanlegar til að gefa þátttakendum tækifæri til að beita hugvitssemi og koma með nýjar lausnir. ……. Kappkosta skal að bjóða upp á samkeppnir sem hvetja til aðkomu yngri hönnuða og leiða þar með til nýliðunar í greininni.“

    Nú getum við spurt okkur hvort fyrirkomulag þess forvals sem hér er rætt um skerpi vitund um góða byggingarlist? Og hvar er svigrúmið? Og hvar er metnaður stjórnvalda til sköpunar og frumleika við umrætt verkefni? Snýst þetta kannski allt saman um verkfræði? Og hvenær hefur höfundarréttur arkitekta þvælst fyrir verkkaupum?

    Arkitektastofur virðast engan áhuga hafa á þeim grunngildum sem höfundarréttur fjallar um.

    Jóhannes Þórðarson

  • EiríkurJ

    Er ekki alveg ljóst samkvæmt þessum skilmálum sem Hilmar nefnir að það er búið að henda út allri undirbúningsvinnunni frá samkeppninni 2005.
    Ef eitthvað væri fyrirliggjandi eftir alla þá vinnu væri skipulag og frumhönnun komin það langt að svona kröfur um sérhæfingu og stærð hönnunarfyrirtækjanna ættu ekki við.
    Eru einhverjar líkur á að betur takist til að þessu sinni en 2005?
    Hvað er búið að eyða miklu í undirbúningskostnaðinn?

  • Þetta er ótrúleg lesning. Maður trúir því ekki að stjórnvöld vinni svona.

    Auðvitað má ekki gera kröfur í útboði sem eru meiri en þörf er fyrir. Og fullkomlega óeðlilegt að gera kröfur sem ekki er hægt að fullnægja með innlendum mannauði.

    Sæerstaklega í þessu árferði.

    Arkitektar eiga bara að taka því rólega og óska eftir fundi með stjórnvöldum og fá þessu breytt. Það sjá allir að hér er á ferðinni einhver misskilningur eða í versta falli slæm stjórnsýsla.

    Ef stjórnvöld taka ekki erindinu fagnandi þá er bara að segja eins og Winston gamli Churshill : “We shall fight on the beaches, we shall fight on the landing grounds, we shall fight in the fields and in the streets, we shall fight in the hills, and we shall never surrender”

    Og svo bara berjast.

    Hér þarf að staldar við, fresta málinu meðan þessi atriði sem um er fjallað í færslunni eru færð til betri vegar.

    Ég er gáttuð á hvað fá komment eru við færsluna.

    Skifta arkitektar ekki hundruðum á landinu?

  • Þetta er allt hið sorglegasta mál. Maður spyr sig hvort þetta sjúkrahús megi ekki bíða í nokkur ár og nota kannski eitthvað af peningunum til að koma hreyfingu á byggingamarkaðinn sem er gjörsamlega frosinn.

  • Uni Gíslason

    «Íslenskum arkitektum ekki treyst»

    Enda ekki traustsins verðir? Maður spyr sig.

  • Þetta forval er óaðgengilegt fyrir margra hluta sakir ekki síst framsali höfundarréttar. Mér finnst einhliða ákvöðun útbjóðanda varðandi afsal höfundarréttar arkitekta undarleg og ég er ósáttur við hana. Þessi skilmáli markar tímamót og mun hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar til framtíðar vegna þess fordæmis sem það gefur. Í skilmálum forvalsins vantar jafnframt mikið upp á að jafnræðis sé gætt. Ég geri mér grein fyrir því að, að það er mikill þrýstingur að fara í þessar framkvæmdi en það verður engin framkvæmd án aðkomu íslenskra arkitekta

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn