Fimmtudagur 27.01.2011 - 09:09 - 5 ummæli

Íslenzk Húsagerðarlist – Alfred Jensen Raavad


Í lítilli bók/hefti   „Íslenzk Húsagerðarlist – Islandsk Architektur“  eftir Alfred Jensen Raavad sem var gefin út  árið 1918 er höfundur að velta fyrir sér framtíð byggingalistar á íslandi.  Bókin er skrifuð bæði á íslensku og dönsku myndskreytt  með nokkrum teikningum.  Hann er greinilega meðvitaður um staðinn og menningararfinn.  Tillöguuppdrættirnir og textinn bera vott um mikla staðarvitund Alfreds.  Þetta er sérstaklega athyglisvert þegar skoðuð er gömul mynd af húsi sem hann bar mikla ábyrgð á þegar hann vann hjá Burnham & Root  í Chigaco.  Húsið, Great Northern Hotel var byggt á árunum 1890-1892 en rifið árið 1940.   Sjá mynd að ofan.

Alfred Jensen fjallar í bókinni um menningu og menntun arkitekta,  staðarvitund og íslenskan arkitektúr sem mætti finna sér rætur í „foríðarfræi“

Hér nokkrar setningar úr  ofangreindri bók með rithætti sem tíðkaðist þegar textinn var skrifaður fyrir tæpum 100 árum.:

“Framfarir í fjárhag Íslands hafa í för með sjer mörg ætlunarverk í öllu því, er að búnaði og byggingum lýtur;  en sjálfsagt skilyrði fyrir því , að þeim verði komið í lag á þann hátt að sæmilegt má heita, er að landið eignist byggingameistara með fullnaðarnámi í list sinni,  gáfaða innborna menn, sem þekkja sögu og framfarir landsins.  Að minsta kosti ættu að vera 3 eða 4 þesskonar menn í Reykjavík, svo að nokkur samkeppni gæti átt sér stað um þau verkefni, er til verða á hverjum tíma”.

Þarna er hann að tala um að fá innfædda til starfa.  Menn sem skilja landið og staðarandann.  Hann vill að þeir séu það margir að samkeppni myndist í byggingarlistinni.  Hann leggur áherslu á islenskan arkitektúr á  Íslandi.

Síðar talar hann um að hinn “ágæti listamannsskóli í Khöfn” sé opinn íslendingum  svo heldur hann áfram og skrifar;

“Menn halda ef til vill, að ekki sje til á Íslandi fortíðarfræ, er þjóðleg byggingarlist geti gróið upp af,  en svo er það þó.  Bæði í grunnmynd og hinu ytra sniði torfkirkjunnar og hins gamla ísl. bæjar eru fyrirmyndir, gotnesks uppruna og eðlis, sem bezt má nota við ætlunarverk og  byggingar í framtíðinni”.

Ekki er hægt að skilja Alfred öðruvísi þarna en að hann hafi komið auga á einkenni sem vert væri að skoða af lærðum „gáfuðum, innbornum mönnum“

Og svo síðar:

“Meðan ég dvaldi á Íslandi gerði jeg nokkurar teikningar til bráðabirgða, og gerði þar með tilraun til að sýna minn skilning á þessu þjóðarmáli, og jeg vildi óska þess , að yngri listamenn reyndu að nota þær eftir eigin áliti og samkvæmt því sem  fegurðartilfinning og reynslan mundi krefja”.

Þarna er hann m.a. að tala til Guðjóns Samúelssonar hygg ég og hann lætur ekki stöðvast hér við orðin tóm heldur gerir allnokkrar teikningar í samræmi við hugmyndir sínar.  Nokkrar teikningar Alfreds úr bókinni má sjá að neðan.  Þeir sem þekkja til verka Guðjóns Samúelssonar velkjast ekki í vafa um að hann hefur að minnsta kosti lesið þennan texta og skoðað uppdrætti Alfreds.  Líklegt er líka að þeir hafi mælt sér mót nokkru sinnum og rætt þessi mál.

 Svo segir hann:

“ Eins og eðlilegt er, finna menn þörf á að hafa bjartari og rúmbetri hús, til hvers þau eru ætluð. Og það halda menn að fáist með því að líkja eftir erlendum fyrirmyndum þó alveg vanti hina nauðsynlegu fræðslu til þess að geta smíðað þau af list og þekkingu.  Þeir hafa gilda ástæðu, þar sem allt það vantar sem þarf, og þar sem teikningar frá útlöndum, sem notaðar hafa verið, hafa verið ljelegar“.

Þarna neglir hann fasta þá skoðun sína að við eigum að láta okkar byggingalist spretta úr umhverfinu.  Hann biður í raun um „regionalisma“ eins og við köllum það í dag (hugtakið „regionalismi“ var ekki til fyrir 100 árum).  Sennilega er hann regionalisti numer tvö, næstur á eftir Vitruvíusi (lifði frá árinu um 80  til um 15 fyrir kristburð ). Þegar horft er á Great Northern Hotel sem er einkennandi bygging fyrir Chicago um 1900 og  teikningar og huleiðingar sem hér fylgja þá efast maður ekki um heilindi Alfreds Jensen Raadvad hvað þetta varðar.

Nú eru liðin ein öld frá þessum vangaveltum Alfreðs. Maður veltir þessu fyrir sér og spyr hvort við höfum komist nær svarinu á þessum hundrað árum?.  Höfum við komið auga á okkar „fortíðarfræ“?

Þetta er orðið langt og því geymi ég afgangin um þennan merkismann til næstu færslu.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Hilmargunn

    Ég stundaði nám í arkitektúr 2003-2006. Við tókum fleiri en einn áfanga þar sem unnið var með hugtökin menningararfur og lopapeysu rómantík. Í fáum tilvikum kom arkitektúr út úr þeim pælingum. Miklu meira eitthvað allt annað; vörur, lýsing og annað í þeim dúr. Ég man ekki að hafa heyrt þessa manns getið og lýsi yfir algerri fáfræði hvað hann varðar.

    Það er svo miklu náttúrulegra einhvern veginn að blása menningararfi í vöruhönnun heldur en arkitektúr. Umræðan verður svo miklu auðveldari því vara getur staðið ein og sér, svo mobile einhvern veginn.

    Arkitektúr er ómóttækilegur fyrir „nýjum“ aðferðum og hugmyndum. Hann er svo hlaðinn viðurkenndum alda gömlum (og góðum) gildum. Hann er sprottin af frumhvötum og einnig af skýrum markmiðum, hvort heldur að um sé að ræða pólitík, hernað, trúarbrögð (sem venjulega er hlaðið híerarkíu) eða annað í þeim dúr.

    Ég gleðst þegar ég get horft á byggingu og getið mér til um hvaðan hún er sprottin. Þetta er mun erfiðara í dag og hefur verið undanfarna áratugi. Intelligens í byggingu er þegar hún nær því að vera „within.“ Arkitektúr er ávallt innan um, umlukin einhverju samhengi. En hún umlykur einnig hið innra samhengi. Það er tengingin milli þessara þátta, sem báðir eru umluktir einhverju ytra, sem helgar meðalið. Það er ábyrgð höfundarins að benda okkur á þessa staðreynd, hvert svo sem inntak / innblástur hans er, í stóru eða smáu samhengi. Þegar höfundi tekst þetta ætlunarverk sitt, brosi ég út í annað.

    Ísland er í samhengi, norrænu og evrópsku og um tíma amerísku. Ísland er eyland og hefur ávallt sóst í að verða hluti af einhverju samhengi þrátt fyrir gríðarlegan sjálfstæðisvilja. Sama er að segja um arkitektúrinn okkar. Hann leitast við að bera sig saman við stóra samhengið, óhjákvæmilega. Hver einasti „gáfaði innborni“ Íslendingur er sigldur. Hann hefur orðið heillaður af erlendum fyrirmyndum og í mörgum tilfellum menntast þar. Hann siglir til heimahagana og boðar fagnaðarerindið í uppdráttum bygginga sinna.

    Gests augun eru gleggri en innborin. Arkitektúr þarfnast meira en sjónræna upplifun og ásýndir til að standa ekki innantómur. Það er fólkið og tilgangurinn sem helgar byggingar, ekki byggingin sjálf. Við þörfnumst tilgangs, mótiveisjon og FRAMSÝNI í íslenskan arkitektúr. Ekki kjánalegar og óttaslegnar eftirapanir af þrískiptum torfbæjum vegna þess að við þorum ekki að vera við sjálf, eins og við erum NÚNA.

    Arkitektar verða að sýna samfélagslega ábyrgð í sköpunarverkum sínum, fanga tíðarandann sem spratt upp úr sögunni um framtíðareyjuna.

  • Úlfar Bragason

    Og svo var „íslenski“ arkitektúrinn eftir allt saman danskur!

  • stefán benediktsson

    Í Skaftafelli stendur bygging, sem menn ætla vera frá upphafi byggðar þar. Einföld bygging, síðast notuð sem hlaða, mjög dæmigert þrískipa hús (basilka), sem finna má um alla Evrópu hvort sem menn byggja úr timbri eða steini. Hörður gerði þessari byggingu góð skil í ritum sínum.

  • Jón Gunnar

    Hefur Listaháskólinn, HÍ, Arkitektafélagið eða Torfusamtökin tekið á fortíðarfræinu?

    Þetta er aldagömul spurning sem þarf að fjalla um í fræðasamfélaginu þó ekki finnist endilega svar. Umræðan á að vera stöðug og lifandi.
    Hvar er arkitektúrdeild LHÍ eða listasafn Reykjavíkur, byggingarlistardeild?

    Hvar hefur Alfred Jensen verið í þeirra rannsóknum og vinnu allri?

  • Í bókinni Leiðsögn um íslenska byggingarlist segir „Talið er að upphaflega hafi bróðir Thors, arkitektinn Alfred Raavad, átt hugmyndina um burstabæjarstíll Korpúlfsstaða en fyrstu teikningar af stórbýlinu eru hins vega eftir Guðmund H. Þorláksson húsameistara.“ Þarna hefur þjóðleg byggingarlist gróið upp af fortíðarfræi.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn