Ég var einusinni staddur i Gund Hall þar sem The GSD (Harvard Graduate School of Design) í Harvard er til húsa.
Þar er masterað og doktorerað í arkitektúr, borgarskipulagi, landslagsarkitektúr og hönnun.
Ég var viðstaddur umræður um borgarprófil (skyline) Bostonborgar.
Þetta var fyrir svona 15 árum og ég verð að segja að mér fannst umræðan ekki sérlega merkileg. Aðspurður lét þá skoðun mína í ljós að megin vandamál borga almennt væri ekki hvernig þær mættu himninum heldur frekar samgöngur, sjálfbærni og lífið á götunum og milli húsanna.
Nú mörgum árum seinna hef ég áttað mig á að borgarprófíllinn skiptir verulegu máli. Og umræðurnar um Boston skyline á GDS áttu fullan rétt á sér.
Þetta rifjaðist upp þegar ég las að stjórnvöld í Istanbúl hafa ákveðið að láta rífa nýleg háhýsi þar í borg vegna þess að þau skemma borgarprófílinn og gera áhrif Hagia Sophia og fleiri bygginga sem móta borgarlandslagið minni.
Skipulagsyfirvöld í París áttuðu sig á þessu um miðjan sjöunda áratuginn þegar þeir tóku að undirbúa viðskiptahverfið La Defence þar sem háhysi voru leyfð. Háhýsið á Montparnass var þá risið og byrjað var á uppbyggingu 20-25 hæða íbúðahúsa við Quai de Grenell við Signu skammt frá Effelturninum.
Parísarbúar ákváðu í byrjun áttunda áratugarins að ekki skyldi byggja fleiri háhýsi innan Periferíunnar og nú er talað í alvöru um að rífa Montparnasse turninn.
Þessi vakning sem mér sýnist vera að eiga sér stað víða um lönd þótt hægt fari á vonandi eftir að skila sér hingað.
Ég spái háhýsinu sem nú er að rísa neðst við Frakkastíg ekki langlífi. Og reyndar tel ég líklegt að það verði búið að rífa öll svörtu háhýsin í Skuggahverfinu löngu áður en þau hús sem eru í umræðunni að Laugarvegi tvö og fjögur verða látin víkja.
Já, það er margs að gæta í borgarskipulaginu.
Skoðið pistil arkitektúrbloggarans Oliver Wainwright um efnið :
Að neðan koma nokkrar myndir frá Istanbúl og svo ein af Montparnasse turninum sem talað er um að rífa og svo neðst háýsi við Frakkastíg sem vonandi fær sem fyrst sömu örlög og húsin í Istanbul og í París.
Sjá einnig:
http://blog.dv.is/arkitektur/2014/03/03/mikilvaeg-sjonlina-skert-i-reykjavik/
Borgarprífíll Istanbul er ógnað með nýbyggingum
Þessi hús eiga að víkja fyrir borgarlandslaginu.
Rætt er um að rífa þennan turn sem byggður var innan Periferíunnar í París.
Nýbygging við Frakkastíg skerðir mikilvæga sjónlínu til sjávar og fjalla.
Kannski þróunin snérist ef SDG væri sendur til GDS og hætti að vera fulltrúi New Urbanism á Íslandi?
Eitt er að vera „meðvitaður“ og allt annað að gera eitthvað í málinu. Þar skilur á milli feigs og ófeigs.
Ég held að það sé mikilvægt að vera meðvitaður, allavega er það byrjunin.
Hinsvegar veit ég sem praktiserandi arkitekt að það er ekki altaf auðvelt að gera eitthvað í málunum þegar maður stendur frammifyrir ofurefli.
En maður reynir.
Ég held t.a.m. að skipulagsyfirvöld sem eiga að gæta hagsmuna heildarinnar hafi ekki ráðið við verkefnastjórn Landspítalans og ráðgjafahópurinn (Spital) ekki heldur.
Sama eða svipað hefur sennilega átt sér stað við Höfðatorg, Bílanaust og fl.
Ákvarðanaferlið og verkefnið sjálft viðist hafa tekið völdin. Allavega trúi ég því ekki að skipulagsyfirvöld eða ráðgjafarnir séu þessum deiliskipulögum sammála og séu ánægð með þau.
Þau eru svo léleg og stangast svo mikið á við umhverfið og borgarprófílinn að ekki er við unað.
Við skulum ekki gefa okkur að allt þetta fólk sé ekki að vanda sig. Við skulum gagnrýna þau og veita þeim þétt aðhald.
En auðvitað fúska einhverjir…. og vinna gegn betri vitund…..þannig er það alltaf.
Það á að banna lóðarhöfum að deiliskipuleggja lóð sína.
Borgin og hennar ráðgjafar eiga að gera það.
Þegar svoleiðis er unnið koma upp hagsmunaárekstrar eins og dæmin sanna.
Að deiliskipulagshöfundar séu að vinna fyrir borgina og gæta þar hagsmuna fjöldans séu jafnframt að hanna fyrir lóðarhafa á að banna og ekki leyfa nokkrar undantekningar á því banni.
Það er skömm af því að ráðgjafar vinni svona og þjóni tveim herrum.
Það bara gengur ekki.
Í ágætum þætti Sigurjóns M. Egilssonar í dag var endurflutt viðtal við Jónas Haralz heitinn um ástæður hrunsins þar sem hann lagði m.a. áherslu á almenna siðferðislega hnignun. Þetta á ekki bara við á fjármálasviðinu. Þeir sem gefa sig í að skipuleggja og þiggja laun frá okkur hinum ættu að hlusta á þetta viðtal. Þá rynni kannske upp fyrir þeim það ljós að hvorki sé sniðugt eða trúverðugt að þeir sem skipuleggja og eiga að gæta hagsmuna almennings, sitji öllum megin við borðið. Þá sæjum við kannske líka að þeir sérfræðingar sem skipulögðu Höfðatúnsturninn fyrir aðal innsiglingavitann í Reykjavík ættu auðvitað, eins og aðrir sérfræðngar, að axla ábyrgð. Þá gætum við líka kannske farið að vona að einhvern tíma verði farið að vinna að og tala um skipulag hér á landi eins alvöruþjóðirnar gera en ekki bulla bara eitthvað um þokukenndar framtíðarsýnir sem hvorki er hægt að höndla eða framkvæma.
Það er rétt hjá þér Gestur að það er margs að gæta í skipulagsferlinu.
En ég held að menn séu nokkuð meðvitaðir um helstu hætturnar. Þeir eru flestir að gera sitt besta, en þeir geta bara ekki betur og sennilega er lítið við því að segja.
Þú tekur dæmi af Höfðatúnsreit. Ég get nefnt til viðbótar Bílanaustsreit þar sem skipulagshöfundarnir teiknuðu öll húsin. Þar er nytingarhlutfallið mun meira en annarstaðar í grenndinni og svo Landspítalareit þar sem skipulagshöfundarnir unni fyrst og fremst fyrir húsbyggjendur og þáðu laun sín frá þeim. Ekki frá borginni en óbeint frá skattgreiðendum.
Það sem er sammerkt með þessum reitum að þar hefur farið fram það sem Hjálmar Sveinsson kallaði í stórmerkri grein sinni í MM tímariti „Verktakaskipulag“
Þegar verktakaskipulag er uppi á borðum þjóna skipulagshöfundar landeigendum sem í þessum dæmum eru ýmist opinberir aðilar eða einkaaðilar (verktakar). Þeir þjóna alls ekki heildinni og hagsmunum umhverfisins nema sem víkjandi aðilum í ferlinu.
Niðurstaðan er auðvitað hörmuleg í öllum þessum dæmum og í engu samræmi við umhverfið. Enda „verktakaskipulög“.
En eins og ég sagði áðan þá eru menn mjög meðvitaðir um vandann eins og sjá má á grein Hjálmars sem er ein sú besta sem skrifuð hefur verið um borgarskipulag undanfarna áratugi. Hjálmar sem er afskaplega fær skipulagsrýnir, fann reyndar upp orðið „Verktakaskipulag“ og notar það í fyrsta sinn í umræddri grein.
Greinina má lesa hér í heild sinni:
http://hjalmar.is/2009/01/15/skipulag-audnarinnar/
http://hjalmar.is/2009/01/15/skipulag-audnarinnar/
Manni virðist sem vandi byggingamála megi að mestu rekja til skipulagsákvarðanna.
Allt það versta má rekja til skipulagsákvarðanna. Þetta þarna í Istanbúl, París og á Frakkastígnum. Húsin eru ekki sérstaklega slæm en það er skipulagið.
Ég get farið að gráta yfir þeim skipulagsákvörðunum sem sífellt er verið að taka.
Ég er almennt ánægður með umræðuna hérna.
Hún er oftast upplýsandi, málefnaleg og fordómalaus.
Ég þakka þáttakendum fyrir það.
Mér finnst margt af því sem gert hefur verið í Reykjavík misjafnt. Sumt er bara ágætt og annað þokkalegt. Þetta á bæði við um ný hús og gömul en mér finnst stundum sveitalegur hugsunarháttur í gangi. Svona eins og það megi ekki byggja upp að Norræna húsinu af því að Alvar Alto valdi að kallast á við fjöllin í fjarska, sem er náttúrulega bara spuni. Að borgarlandslagið verði að vera einsleitt og laust við tilbrigði og útúrdúra af því að það hefur alltaf verið það hingað til osfr. Hvernig hljómar tónlist án tilbrigða?
Mér mislíkar flatneskjulegar borgir. Þær eru álíka spennandi og flatneskjulegir karakterar sem bregðast eins við öllum aðstæðum, sama hvað. Arkitektúr á að bregðast við aðstæðum á ólíkan hátt, frá austrinu að norðrinu, tengja og aftengja. Það gerir hann spennandi og fúnksjonal. Sjónlínur og ása má trufla og oft á tíðum er það meira að segja æskilegt. Ég verð ekkert móðgaður þó að ég missi af útsýni til Esjunnar í eitt augnablik.
Takk fyrir pistilinn.
En hvað á að gera við allt fólkið?
Fólk sækist eftir að búa í borgum og sérstaklega í miðkjörnum borga. Þar eru tækifærin, samfélag, þjónusta og menningaviðburðir. Árið 2007 fór íbúahlutfall borga yfir 50% í heiminum, og er núna í um 80% í þróuðum löndum. Þrýstingurinn á uppbyggingu borga er mikill, og þörfin á góðum lausnum er enn meiri. Þessi þróun hefur á síðustu áratugum komið andspænis allskonar NIMBYisma. Gott dæmi um þetta eru Lundúnir. Verndun bygginga og heilu hverfana er svo mikil að allt uppí 70% af sumum bæjarhverfunum eru vernduð. Sama er um borgarprófílinn. Þetta þýðir auðvitað að uppbygging getur ekk haft í við þenslu. Ástandið í dag er að fólk er að leygja skápa sem þarf að skríða í fyrir í kringum 1000 pund á mánuði fyrir lægrilaunaða, á meðan hærri launaðir í Chealsea og Kensington eru að rýma um fyrir sér með því að grafa kjallara sem gætu rúmað heilu hallirnar.
Spurningin er því enn sú: hvað á að gera við allt fólkið? Ef það má ekki rífa gamalt og byggja nýtt, ef það má ekki byggja upp, það má ekki byggja á ílla nýttum opnum svæðum líkt of Reykjavíkurflugvelli, að byggja út skapar of dýr úthverfi. Er lausnin þá að byggja niður? Er kjallaraarkitektúr Chelsea lausnin?
Það er alltof mikið af eineygðum NIMBYisma í heiminum. Ef menn vilja banna einhverja þróun í borgarsamfélaginu, þá þurfa þeir að koma með lausn við málinu fyrst.
Þar sem ég bý í Tyrklandi, þá langaði mér að benda á að þessar byggingar sem nefndar eru hafa ekki verið dæmdar vegna þess að þær eru fyrir í útsýninu. Þær voru byggðar án þess að vera með byggingarleifi og þurfa því að hverfa.
„En hvað á að gera við allt fólkið?“ spyrð þú.
Spurningin er relevant og þá er bara að finna svar við henni. Þetta er spurning sem kemur upp á öllum sviðum mannlífsins. Okkur vantar herbergi fyrir eitt barn í viðbót eða fleiri bókahillur eða fleiri flöskur í vínskápinn o.s.frv.
Vandamálin eru mörg og lausnirnar eru margvíslegar og engin eins.
Maður byggir ekki eitt herbergi til viðbótar við blokkaríbúðina vegna þess að það er komið nýtt barn o.s.frv.
Maður leitar annarra lausna.
Varðandi spurninguna þegar borgarsamfélag er annarsvegar þá hefur margt verið reynt og praktíserað. Ég nefni New Towns í Bretlandi og víðar. Svo er það Comute systemið og önnur samgöngukerfi.
Aðalatriðið er að skemma ekki borgirnar vegna þess að maður kann ekki aðra lausn en þá sem hér er til umfjöllunar.
Tilvitnun í texta enska bloggarans:
„The OnaltiDokuz Residence, which comprises three graceless shafts of 27, 32 and 37 storeys in the western district of Zeytinburnu, claimed to “redefine what it means to be a citizen”, offering its wealthy residents “a new perspective with breathtaking panoramic views”. Its million-pound penthouses were to provide a “unique living philosophy”, a vantage point from which “the city surrounds you in all its magnificence”. But the city itself wasn’t so keen. The development sparked widespread outrage, lumbering into view like an uninvited guest, photobombing cherished vistas of the 400-year-old Blue Mosque, Topkapi Palace and Hagia Sophia.“
Millarnir kaupa sér útsýni á kostnað gæðanna á staðnum.
Setjum af stað söfnun og sækjum um styrki til þess að rífa Frakkastígsblokkina sem fyrst!
Og meira:
“negatively affected the world heritage site that the Turkish government was obliged to protect”. Og þeir rífa háhýsisdraslið.
Þótt Reykjavík sé ekki heimsminjaskrá er ástða til þess að huga betur að því litla sem við eigum af menningararfi.
Landspítalanum t.d. sem nefdur er hér að ofan er ógnað af skammsýnum arkitektum og verkkaupum (ríkinu)
Grjótaþorpinu var reddað fyrir horn en Skuggahverfið og Lindargatan er ónýtt. Skemmdarstarfssemi er í framkvæmd við Grettisgötu og njálsgötu,
Pössum uppá það sem við eigum. Förum varlega.
Sjónarrönd Reykjavíkur eins og hún sést ofan af Kjalarnesi hefur breyst úr hvítu perlubandi með nokkrum frávikum (punkthúsunum við Austurbrún, turni Sjómannaskólans, Perlunni, Hallgrímskirkju og Landakoti) yfir í kolsvarta samkeppni um athyglina.
Það er áberandi frá þessu sjónarhorni hvað góðærisbyggðin er svört og stórgerð – Harpa, Skúlagatan og ekki síst Höfðatorgsturninn.
Hvort þetta hafi verið gott áður eða slæmt – og hvort þetta er betra eða verra nú læt ég liggja milli hluta – en breytingin er afgerandi.
En það er enn skelfilegra að sjá meðferð Tyrkja á menningararfi Evrópu í Istanbúl.
Sæll Hilmar. Mér finnst að hér ætti að byrja á að rífa Náttúrufræðihúsið sem var klesst ofaní fallegasta hús á Íslandi og þó víðar væri leitað sem byggt var á 20 öldinni. Norræna húsið bar fagurlega við himininn enda hannað með sérstöku tilliti til þess.
Jú Guðmundur það er búið að skerða forsendurnar fyrir útliti Norrænahússins. Blái liturinn, var mér sagt að væri til að kallast á við fjöllin í fjarska og auðvitað hafið og himininn. En nú er ekki hægt að sjá samhengið milli hússins og fjallana m.m. en himininn er þarna ennþá 🙂
Istanbuldæmið,sem dafnaði í góðri „samvinnu“ kapítals og pólitík ,er víða ræktað án tillits til heildarsvips borga:þessvegna mættu svörtu kassarnir við Skúlagötu fara fyrir jafn frábæra dómara og hæstiréttur Istanbul hefur.
Sá tími er kominn,að ábyrgðamenn í höfuðborg Íslands taki sig til og láti örfáar perlur byggingalistar borgarinnar í friði:t.d. Landspítala Guðjóns,sem brátt á að lítillækka svipað gert var við hús Aalto.
Tröllskessan bakvið Aalto á að hverfa og gamli spítalinn njóta sín áfram líkt og aðalbygging háskólanns gerir a.m.k.enn.
Aðalbygging HÍ stendur í skugganum af Hótel Sögu. Ekki fallegt.
Vissulega Steinarr Kr.
Eftir þessu hefur lengi verið tekið.
Kaupa þá stjórnvöld Monparnasse turninn og nýju háhýsin í Tyrklandi. Ég skil þetta ekki alveg. En þau eru greinilega kostnaðarsöm skipulagsmistökin.