Miðvikudagur 04.11.2009 - 12:49 - 8 ummæli

Kársnes-Vatnsmýrin-Miðborgin

Hugmynd að rammaskipulagi á Kársnesi frá árinu 2008.

 

Skilningur er að aukast á því að það er hagkvæmt og nauðsynlegt að byggja og búa þétt og sem næst þungamiðju höfuðborgarsvæðisins. Stytta þarf fjarlægðir, stytta ferðatíma og styrkja almenningssamgöngur. Við þetta sparast óhemju fjármunir, mengun minnkar, orka sparast og frítími lengist.

 

Þetta hefur verið mikið rætt undanfarin ár og lausna leitað og hefur þá einkum verið horft til byggingamöguleika á flugvallarsvæðinu.

 

Það eru ýmsir aðrir möguleikar sem bent hefur verið á eins og að lagfæra allan austurhluta borgarinnar, endurnýta einskismannsland, endurhæfa þegar byggð athafna- og iðnaðarsvæði og breyta borginni í samfelldan lifandi borgarvef með ofengreind markmið að leiðarljósi.

 

Þá er hægt endurskoða staðsetningu þjónustu, atvinnusvæða, skóla og verslunnar með tilliti til samgangna þannig að umferð einkabíla minnki.

 

Aðstaða gangandi, hjólandi og almenningssamgangna má bæta og gera að betri kost en einkabíllinn er nú, bæði hvað varðar kostnað og þægindi.

 

Þetta er stefnan í flestum Evrópskum borgum. Einkabíllinn er álitinn óheppilegur kostur í þéttbýli og borgirnar eru að skipuleggja sig í samræmi við það.

 

Ein lausn á þessum vanda hefur verið kynnt af bæjarskipulagi Kópavogs. Á Kársnesinu hefur verið sett fram hugmynd um svæði með þéttri borgarbyggð. Þar kemur fram hugmynd um að tengja Kársnesið yfir Fossvog þannig að leiðin til miðborgar Reykjavíkur styttist um 60% og verður vænni til almenningssamgangna.

 

Þetta er gert með því að gera tengingu yfir Fossvoginn. Með þessu kemst Háskólinn í Reykjavík í ásættanlegt samband við umhverfið og hugsanlega verður Hlíðarfótur sunnan við eða undir Öskjuhlíð óþarfur. Þessi lausn gefur líka möguleika á tengingu áfram suður á Álftanes og þaðan áfram til Hafnarfjarðar.

 

Það má færa fyrir því gild rök að þessi tenging sé betri en framlenging Suðurgötu yfir á Álftanes sem hefur verið í umræðunni undanfarið og vegur þar þungt skipulagsmistökin sem urðu við staðsetningu HR undir Öskjuhlíð.

 

Þétt byggð á Kársnesi og tenging yfir Fossvog og áfram suður á Álftanes væri mikið framlag til þess að ná þeim markmiðum sem í upphafi var getið.

Flugvöllurinn á núverandi stað og HR í betri tengslum við höfuðborgarsvæðið.

Miðborgin, flugvöllurinn og stjórnsýslan tengjast betur til suðurs.

Ný tenging til suðurs hentar almenningsflutningum.

Þétta mætt byggðina á uppfyllingunni á Kársnesi enn frekar en hér er sýnt með íbúðum og studentagörðum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Samson Bjarnar Harðarson

    Eitt áhugaverðasta verkefni á krepputímum sem nú að skipuleggja og byggja lestarsamgöngur til Keflavíkur.

  • Er ekki búið að tilnefna Skerjafjörð, Bessastaðanes og Gálgahraun sem verðmætustu náttúruperlur alheimsins í umræðunni? Ég sé ekki fyrir mér að það verði hægt að fara með brú til suðurs frá Kársnesi.

  • Hörður Halldórs..

    Krossfiskur eða Kongulóarvefur.Einfaldar táknmyndir um borgarskipulag .Moskva er Kongulóarvefur.kommarnir gömlu kunnu að skipuleggja .Reykjavík og nágrenni er nær Krossfisksómynd.Hringbrautir(orbit) eru einkenni Kongulóarskipulags.Þessi tillaga er dýr en það þarf að hringtengja miðbæinn ef hann á að virka sem miðstöð.Kónguló,Kónguló vísaðu mér á ….

  • Þessi tenging sem þú sýnir Hilmar er ekki rétt. Það er ekki hægt að tenga Álftanes á þennan hátt.

    Bara aksturinn út á enda á Bessastaðanesi er jafn langur og aksturin frá Álftanesi til Reykjavíkur .
    Tengingin verður að vera við Garðabæ um Gálgahraun eða þar nálægt.

    Hitt er svo annað ég er sammála Árna.
    Þessi flugvöllur verður ekki fluttur á næstu áratugum við höfum bara ekki peninga til þess. Það þarf að þétta þau úthverfi sem þegar eru til staðar og bæta gæði þeirra.

    Reykjavík er ekki bara miðbærinn. Flestir sem búa í Reykjavík búa ekki þar.

    Þess vegna er þessi endalausa umræða um miðbæ Reykjavíkur kanski komin á villigötur og orðin sjálfhverf eða innhverf allavega ekki úthverfavæn.

  • Ef horft er á kortið í færslunni sem sýnir Reykjavík, Kópavog, Garðabæ, Álftanes og Hafnarfjörð og gefur sér að tengingin milli Vatnsmýrar/Kársness/Álftaness og Hafnafjarðar væri til staðar.

    Þá sýnist manni flugvöllurinn ákaflega vel staðsettur.

    Er þetta ekki bara spurning um sameiningu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu??

    Er það ekki flöskuhálsinn í deilunni?

  • Árni Ólafsson

    Eigum við ekki að vera með fæturna á jörðinni í flugvallarmálinu?
    Magnús Skúlason arkitekt hefur svo skemmtilega bent á að Reykjavíkurflugvöllur er okkar „aðaljárnbrautarstöð”. Járnbautarstöð í miðborg er tengipunktur allra byggða landsins við stjórnsýsluna og þjónustumiðjuna. Við höfum ekki lestakerfi sem sinnir þessu hlutverki eins og í grannlöndum okkar og flugið hentar okkur vel.

    Setjið flugallarmálið í samhengi við hlutverk Reykjavíkur sem höfuðborgar og skoðið lausnir sem eru raunhæfar með hliðsjón af því, þ.e.a.s. ef Reykjavík á að halda stöðu sinni í samfélaginu.

  • Stefán Benediktsson

    Ég sé að þig langar mikið að halda í flugvöllinn og það er þá þín skoðun en mín er að hann eigi að fara. Ég tel honum best fyrirkomið í Keflavík og meiri möguleikar að innanlandsflug þjóni þar ferðaþjónustunni þegar erl. ferðam. verða orðnir ein milljón. Við erum allavega sammála umnauðsyn þéttingar byggðar og að draga úr vægi einkabílsins. Borgir í Evrópu og jafnvel USA eru flestar eldri en Reykjavík og byggðar fyrir daga bílsins. Þessvegna neiddust menn til þess að leysa fólksflutninga með almenningsfarartækjum og engum dettur í hug að krefjast þess að húsbyggjendur skaffi bílastæði í miðborgum. Það eru engin bílastæði við Empire State. Ef þeir geta það þar þá getum við það hér.

  • Ef mikið á að þétta byggðina á Kársnesi, þá verður nauðsynlegt að nýta hugmyndir eins og hér er lýst. Kársnesbrautin ber einfaldlega ekki alla þessa viðbótarumferð. En umfram allt að hafa þarna lifandi fólk og fyrirtæki, Kársnesið er of góður staður til að vera nær eingöngu fyrir verkstæði og smiðjur, eins og nú er.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn