Þann 16. maí síðastliðinn var opnað nýtt hótel í Kaupmannahöfn, Bella Sky Comwell Hotel. Arkitektarnir eru með þeim þekktustu í Danmörku, íslandsvinirnir 3XN.
Nálgunin og niðurstaðan líkist nýlegum byggingum í Abu Dhabi, Barahin og á slíkum stöðum þar sem skortir staðaranda og mikið framboð er af fjármunum.
Húsið er fagmannlega hannað, allt er vandað og smekklegt eins og sjá má. En það vantar tengingu og rætur til staðarinns. Regionalisminn er víðs fjarri. Það má samt sýna þessu einhverja þolinmæði vegna þess að húsið er byggt á nýju svæði á Amager sem heitir Örestaden og stendur utan við eldri hluta borgarinnar. Þetta er svipuð lausn og Parísarbúar kusu þegar þeir vísuðu svona byggingum út fyrir gömlu miðborgina til La Défense sem er utan Boulevard Périhperique.
Það er umhugsunarvert þegar danskar teiknistofur eru farnar að færa nútímaarkitektúr arabalandanna til Kaupmannahafnar sem hefur sterkari staðaranda en víðast hvar.
Maður veltir líka fyrir sér hvort arkitektar nútímans eigi í vandræðum með að lesa staðinn og bregðast við umhverfinu og menningunni. Ég man eftir að dæmum þar sem arkitektum tókst að laða fram menningu arabaheimsins í nýjum byggingum í arabalöndunum (Utzon og Henning Larsen) en það önnur saga og áratugir síðan.
Hjálagt eru nokkrar myndir ásamt myndbandi frá opnun hússins.
já þetta er mjög frábært verk og ótrúlega flott sko.
GAMAN AÐ SKOÐA!
Mér finnst þessi bygging athyglisverð og falleg fyrir margra hluta sakir. Ég hef ekki kynnt mér hana í þaula en ég kannast við ýmislegt hvað varðar arkitektastofuna og þann metnað og hugsun sem þar liggur að baki.
3XN er ein framsæknasta arkitektastofa Dana í augnablikinu. Ég er nokkuð sannfærður um að margflötungarnir séu þróaðir af GXN, sem er „tilraunastofa“ innan 3XN, og er stýrt af Kasper Kristiansen. Kasper þessi hefur verið útnefndur einn af meiri uppfinningamönnum Dana og þótt víða væri leitað. Enda pilturinn hlaðinn verðlaunum og er orðinn eftirsóttur fyrirlesari út um hele verden.
Markmið svona arkitektúrs er margþættur og eitt af þeim gæti flokkast undir vistvænan arkitektúr, bæði með efnisnotkun og þeirri staðreynd að ysta byrði byggingarinnar eru gerðar af forsniðnum einingum sem eru framleiddar í verksmiðju, sem snar minnkar byggingartíma og kostnað. Ennfremur eru hönnunar og framleiðslutæknin (Cad-Cam tækni) sérlega athyglisverðar; margflötungarnir og einingarnar eru tengdar innbyrðis með færibreytum sem gerir hönnuðunum kleyft að skoða fjöldan allan af útfærslum á hraða reiknigetu tölvunnar. Ennfremur er víxlverkun á milli heildarformsins og margflötunganna, sem gerir það að verkum að hönnuðurnir geta breytt grunnforsendum, en alltaf verið að líta á end result. Þetta er í raun byltingarkennt.
Það er lítið varið í byggingu ef hún fellur í ljúfan löð.
Svo að lokum: það fer fátt meira í taugakerfið á mér en að tengja byggingarlist við eitthvað 2007- blaður. Á minni stuttu ævi man ég ekki eftir einni einustu opinberru byggingu sem tekur eitthvað til sín, sem hefur ekki verið plammeruð fyrir kostnað.
Ennfremur: ornament hefur fylgt arkitektúr frá örófi alda. Það hefur þjónað margvíslegum tilgangi og ég er sannfærður um að þið finnið helling af svoleiðis byggingum í Köben.
Ég skora á ykkur að lesa bókin „The Function of Ornament“ eftir Farshid Moussavi (FOA).
Mér datt í hug „haltur leiðir blindan“ þegar ég sá „prófílmyndina“, þessa nr. 2 í syrpunni. Finnst líka alltaf eitthvað ótraust við það þegar hús mjókka svona niður.
Aldeilis frábær arkitektúr og verkfræði, að sjá myndir af þessu húsi er ekkert á við að upplifa það í návígi, einnig má bend á að
í Örestad eru einnig nokkur skemmtileg fjölbýlis hús eftir Bjarka Ingels, og fleiri sem áhugavert væri að fjalla um, td. Bjerget, sem er margverðlaunað og VM husið.
kveðja
Ágúst
ps frábært blogg hjá þér annars.
Já þarna er á ferðinni athyglissýki í anda 2007 og markhópurinn er örugglega ekki þeir sem heimsækja Kaupmannahöfni til þess að „opleve noget Köbenhavnsk“
feginn að íslendingar náðu ekki á þetta stig 2007 – allavega ekki indbydende bygning. Hver er markhópurinn?
Forljótt og uppáþrengjandi.
Mér þykir þetta nú frekar ljótt og óspennandi verð ég nú að segja. Ekkert nema bílastæði í kring enda úti í auðninni. Þá vel ég nú frekar gista í lítilli holu rétt við Rådhuspladset…
Rosa flott hús og reglulega gaman að þessu en mér finnst að hótel eigi ekki að vera svona frábrugðin og áberandi. Er þetta ekki arkitektúr fyrir opinber menningarhús á eins og Hörpuna eða Hof en ekki hótel sem ekki varða aðra en þá sem þurfa að finna sér náttstað?
Þetta er svo flott að manni langar að gista þarna einhverntíma og það er sennilega tilgangurinn með áherslunni á góða hönnun hótela.