Þriðjudagur 17.03.2015 - 10:08 - 17 ummæli

Keflavíkurflugvöllur – 2040

Nýlega voru kynnt úrslit í samkeppni um þróun Keflavíkurflugvallar næstu 25 árin.

Allt til ársins 2040.

Það verður að teljast stórviðburður þegar stjórnvöld ráðast í samkeppni um jafn umsvifamikið verkefni sem þróun Keflavíkurflugvallar með stækkun Flugstöðvar Leifs Eirikssnar og öllu sem tilheyrir starfsseminni á vellinum er.

Það sem einkum vakti athygli var að það vissi nánast enginn ráðgjafi hér á landi um samkeppnina. Hvorki að hún væri í gangi né að hún stæði fyrir dyrum.

Isavía ohf og Ríkiskaup stóðu að undirbúningnum, gerðu forsög og stóðu fyrir kynningunni. Þetta var lokuð samkeppni sem haldin var að undangengnu forvali.

10 ráðgjafafyritæki sóttu um þáttöku.

Samkeppnin var einungis auglýst á vef Ríkiskaupa og á útboðsvef Evrópu, TED (Tenders Electronic Daily).

Forvalið var ekki auglýst í íslenskum fjölmiðlum eða kynnt á nokkurn hátt og var ekki haldið í samvinnu við Arkitektafélagið.

Þetta fór fram hjá flestum hér á landi en náðu eyrum aðeins 10 erlendra teyma sem sóttu um þáttöku. Aðeins 6 skiluðu lausnum

En niðurstaða er fengin án þáttöku íslendinga þó svo að áhugi fyrir verkefninu sé mikill.

Sýning á tillögum sem bárust hefur verið sett upp á skrifstofum Isavia á þriðju hæð í Flugstöð Leifs Eiríkssonar (Maður spyr sig hver á leið þangað til þess að skoða niðurstöðu í samkeppni) og verður hún opin almenningi kl. 9 – 16 alla virka daga til 20. mars næstkomandi. Einnig er hægt að kynna sér samkeppnina á betterairport.kefairport.is/masterplan .

+++++

Eftir að hafa kynnt mér niðurstöðuna get ég ekki annað séð en að þekkingin sem þurfti til þess að skila tillögu í svona samkeppni sé til hér á landi og ef eitthvað þyrfti að auki  þá hefðu íslenskir ráðgjafar átt auðvelt með að sækja það sem á vantaði til erlendra starfsbræðra sinna. Það er því óskiljanlegt að samkeppnin hafi ekki verið auglýst rækilega meðal áhugasamra hér á landi.

+++++

Ég hef skoðað vinningstillöguna og geri tvær athugasemdir.

Annað varðar samkeppni um suðurbyggingu flugstöðvar Leifs Eiríkssonar árið 2000 þar sem áhugi frá íslenskum keppendum var fyrir því að búa til þverálmu með „boarding launches“ með svipuðum hætti og nú er lagt til, 15 árum síðar í vinningstillögunni. Þeir sem sömdu forsögnina þá vildu það ekki.  Höfundar forsagnarinnar árið 2000 töldu sig vita betur. (Einhver rök varðandi neðanjarðar olíukerfi var fyrirstaðan ef ég man rétt) Nú er þessari þrautreyndu hugmynd tekið fagnandi. 15 árum of seint.

Hitt sem vekur athygli er að í vinninstillögunni er lagt til að aðalaðstaða vegna vöruflutninga og flugeldhúss verði við enda sv/na brautar (07-25). (Sem hefur reyndar verið lögð niður í bili) Þetta er í raun tillaga sem minnir á svokallaða neyðarbraut á Reykjavíkurflugvelli  (o6-24) þar sem fjáraflafyritæki ætlar að byggja íbúðahúsnæði.

Flugfólk telur norðaustur/suðvesturbrautir á báðum stöðunum skipti miklu máli. Ekki megi gera neitt sem útilokar þær og alls ekki loka brautunum á báðum stöðunum. En samkvæmt áætlunum í Reykjavík og Keflavík á nú að leggja þær báðar nður.

+++++++

En að lokum, svo ég endurtaki smávegis. Þessi vinna sem hér er kynnt og niðurstaða samkeppninnar er á þvílíku frumstigi að engin ástæða var til þess að leita eingöngu til útlanda eftir ráðgöfum. Hinsvegar hefði sennilega verið skynsamlegt að leita til útlanda varðandi forsögnina.

Þetta hefði alveg getað verið opin samkeppni á EES svæðinu.  Og með ensku, þýsku eða frönsku sem aukatungu. Það eru margir hér innanlands sem hefðu haf fullt tré við þessa eflaust ágætu erlendu ráðgjafa og töfrað fram jafngóða eða betri lausn.

Þessi nálgun Ríkiskaupa og Isavia ohf þar sem skautað er framhjá íslenskri ráðgjafastarfssemi  einkennist af landlægri og einbeittri „nesjamennsku“ að því er virðist.

+++++

Hér að neðan kemur yfirlitsuppdráttur og tölvumynd þar sem frakt og Catering er við bláenda flugbrautar o7-25 (Tvær appelsínugular byggingar) og boarding launches eru staðsettar á stað sem var hafnað fyrir bara 15 árum.

Og hér er slóðin að vinningstillögunni.

http://www.isavia.is/files/keflavik-airport-masterplan.pdf

masterplan_kort_c

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (17)

  • Nú er „borgarhönnuður“ orðinn flugvallarhönnuður. Gott og vel.
    KEF hefur ekkert við þriðju flugbrautina að gera fyrr en eftir áratugi. Marga.
    Masterplanið er afleitt hvað varðar að auka afkastagetu brautanna sem fyrir eru. Eitt „high speed“ turnoff er öll viðbótin fyrir núverandi braut 02-20, og ekkert fyrir braut 11-29 sem þarf sárlega á slíku að halda, einu í hvora átt. Það er ekkert fyrir lendingu á braut 20. Og skandall að ætla að loka 07-25 endanlega. Ný braut ef byggja ætti slíka ætti að vera 16-34 til að takast á við SA vinda.
    4 „high speed turnoff“ kosta brot af því sem ný braut kostar og ef ISAVIA stigi nú niður af sínum háa hesti og fengi erlenda aðila til að þjálfa flugumferðarstjóra til að ráða við meiri umferð og lækka hjartsláttinn og losa þá við andarteppuna þegar fleiri en 2 vélar eru á innleið.
    KEF getur ráðið við jafnmikla umferð og London Gatwick með 2 brautum. Allt sem þarf er skipulag og þjálfun. Kenna svo ISAVIA möntruna: „Minum runway occupancy time“ og endurtaka svo eftir þörfum.

  • Pálmi Freyr Randversson

    Sæll Hilmar

    Mig langar til að benda á tölvupóstfang sem áhugasamir geta nýtt sér til að koma sínum skoðunum og athugasemdum um verkefnið á framfæri.

    http://betterairport.kefairport.is/masterplan/
    masterplan@isavia.is

    Langar líka að taka fram að samkeppnin var hvorki auglýst í íslenskum né erlendum fjölmiðlum. Vefur Ríkiskaupa og TED voru notaðir til að koma forvalinu á framfæri. Þetta var sú leið sem var valin í þessu tilfelli og er hún örugglega gagnrýniverð eins og annað.
    Ég geri fastlega ráð fyrir því að tilkynningin hafi náð eyrum fleiri en 10 aðila en þeir 10 sem sendu inn umsóknir töldu sig uppfylla hæfi Isavia og Ríkiskaupa til þátttöku. 6 þeirra stóðust kröfurnar og eru þeirra tillögur allar aðgengilegar á heimasíðunni sem þú bendir á hér að ofan. Þess má geta að Isavia á allar innsendar tillögur og getur nýtt sér hugmyndir úr þeim við endanlega mótun masterplansins.

    Leitað var til innlendra og erlendra ráðgjafa við mótun samkeppnislýsingar og töflu sem stuðst var við í einkunnagjöf valnefndar. Sú leið gafst mjög vel og væri gaman að fara yfir samkeppnis- og valferlið með þeim sem hafa áhuga á því við tækifæri.

    Ýmsir innlendir ráðgjafar vissu af forvalinu. Hér er hægt að skrá sig á póstlista Ríkiskaupa: http://www.rikiskaup.is/postlisti-skraning og fá þannig tilkynningar um útboð sem eru í gangi. Það sama er hægt að gera á TED. VJI-Verkfræðistofa Jóhanns Indriðasonar og Mannvit voru á meðal þátttakenda (undirverktaka) í samkeppninni. Ég veit til þess að leitað var eftir samstarfi við fleiri íslenska aðila sem sáu sér ekki fært að taka þátt. Íslendingur stýrir verkefninu fyrir hönd Nordic – Hallgrímur Þór Sigurðsson.

    Hvað varðar hönnunina sjálfa þá erum við einmitt að fara ofan í kjölinn á þeim athugasemdum sem okkur hafa borist frá hagsmunaaðilum auk okkar eigin og fullnaðarhanna masterplanið í góðu samráði við sem flesta. Fragt og flugeldhús við flugbrautarenda 07/25 er einmitt eitthvað sem við erum að velta upp núna og skoða meðal annars aðra möguleika. Í lok maí verða drög tilbúin og gefst þá svigrúm til umfjöllunar og ábendinga fram á haust þegar endanlegt masterplan verður tilbúið, í lok september.

    Við erum í miðju samráðsferli og ætlum að reyna að vinna masterpanið í samvinnu við alla sem að málinu koma til þess að það geti verið leiðarljós ekki bara flugvallarins heldur allra haghafa. Við viljum endilega fá sjónarmið þeirra sem hafa eitthvað til málanna að leggja og erum tilbúin til að taka á móti áhugasömum og fara yfir tillögu Nordic hvenær sem er.
    Annars er masterplan@isavia.is góð leið til að koma sínum skoðunum á framfæri ef fólk kýs það heldur.

    Vona að þetta svari einhverjum spurningum þínum.

    Bestu kveðjur,
    Pálmi

  • Hefur Arkitektafélag íslands tjáð sig um þetta? Hefur þessi framkoma Ríkiskaupa áhrif á samvinnu þess við Arkitektafélagið?

    Eru Ríkiskaup ekki með þessu búin að dumpa Arkitektafélaginu í eitt skipti fyrir öll?

    Spyr sá sem ekki veit!

  • Það er eins og Isavia átti sig ekki á tilgangi sínum sem er að vinna að viðgangi, vexti og öryggi íslenskra flugmála með hagsmuni allrar þjóðarinnar i heild sinni að leiðarljósi. Svo er opinbera hlutafélagið að grafa undan íslenskum sprotafyritækjum (Epal, Kaffitár) og skemma tvo helstu flugvelli landsins, í Reykjavík og nú Keflavík….grímu- og blygðunarlaust.

    Ojbarasta!

  • Það á ekki úr að aka í skipulagsmálum Íslendinga. Þetta flugvallarskipulag er bara enn eitt dæmið. Til hvers er Ríkiskaup að láta íslenska skipulagsráð gjafa bjóða í skipulagsþjónustu ef svo er ekkert til þeirra leitað? Hvernig datt Alþingi.í hug að „Rammaáætlun“ leiddi til farsællar niðurstöðu eins og að henni var staðið? Hvernig gat ráðamönnum Reykjavíkur dottið í hug að plonka Höfðatúnsturninum fyrir innsiglingavitann í Reykjavíkurhöfn og láta okkur skattgreiðendur svo borga nýjan vita? Hvers vegna setur Reykjavíkurborg svo sérkennilegar „forvalsreglur“ að flestir sérfræðingar í skipulagsfræðum eru útilokaðir frá skipulagsverkefnum? – Er nema von að við séum þar sem við erum?

  • Lilja Karlsdóttir

    Vil benda á líkt og Guðmundur hér að ofan að það var íslendingur í vinningshópnum en einnig á það að í tveimur af hinum hópunum voru verkfræðistofurnar Mannvit og VJI þáttakendur.

  • Aðeins of flippað fyrir minn smekk að bæta við heilu fjalli eða fjallgarði. Finnst það rýra trúverðugleika tillögunnar – þó það líti vel út á renderingunni.

    • Hér sem ég sit og horfi á þetta fjall út um skrifstofugluggann finnst mér það einna skársti hluti tillögunnar. Það er allavega raunhæft. Fátt á renderingunni er jafn raunhæft og þetta fjall.

  • Það er rétt að benda á að það er einmitt íslendingur sem er höfundur vinningstillögunnar, Hallgrímur Þór Sigurðsson arkitekt, einn af eigendum Nordic — Office of Ar­chi­tec­ture í Noregi.

  • Gðmundur Gunnarsson

    Þetta hefur verið sérlega áberandi hjá ÍSAVÍA.

    Nýlega boluðu þeir íslensku kaffi fyritæki út úr Leifsstöð. Sama á við hönnunarverslunina EPAL. Í staðinn fyrir Kaffi Tár sem er frammúrskarandi íslenskt kaffifyriæki var miðlungsfyritækinu alþjóðlega Segafrido útvegað pláss.

    Erlendum stoppoverfarþegum sem telja á aðra miljón á ári er boðið upp á kaffi sem þeir geta fengið allstaðar annarstaðar á öllum flugstöðvum í heiminum.

    Þeir eiga ekki að sjá víðáttuna til norðurs. Þeir eiga aðsjá skrifstofuþorp sem ekkert hefur þarna að gera. Svona skrifstofuþorp stríðir gegn BREAM.

    Íslenskur kaffiilmur er ekki í boði, flatneskjan er alger og sérstaðan engin.

    Skilur Isavia ekk stað og stund. Þetta er ísland og þetta er alveg sérstakur staður.

  • Þórdís

    2007 aftur.

    Útlendingarnir og dómararnir hafa ekki áttað sig á hvernig gróðurfari er háttað á Miðnesheiði.

    Voru dómararnir líka innfluttir? Hverjir voru þeir?

    • Hilmar Þór

      Í dómnefnd voru samkvæmt heimildum Isavia:

      Elín Árnadóttir (aðstoðarforstjóri Isavia) formaður,
      Þröstur V. Söring (framkvæmdastjóri Keflavíkurflugvallar KEF),
      Guðmundur Daði Rúnarsson (aðstoðarframkvæmdastjóri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar FLE),
      Ásdís Hlökk Theórdórsdóttir (forstjóri skipulagsstofnunar) og
      Kjell-Arne Sakshaug (forstöðumaður þróunar- og skipulagsmála á Oslóarflugvelli).

  • Jón Guðmundsson

    Það er einhver lenska að halda að erlendir ráðgjafar séu betri en við hér heima. Embættismenn hika ekki við að setja fram forvalskröfur sem enginn getur uppfyllt hér heima. Þetta er ekki boðlegt. Þekkingin kemur aldrei til landsins ef svona er unnið. Íslenskt skipulagsfólk hefur stórt temgslanet út í lönd og getur vel sótt þekkingu þangað ef á þarf að halda eins og bent er á í pistlinum.

  • Isavia sökks!

  • Hafsteinn

    Er þetta ekki af sama meiði og þegar Kaffi Tár og Epal var bolað út úr flugstöðinni fyrir Segafrido og ég man ekki hvað?

    • Sagan segir að þar á meðal sé Starbucks, sem Þórólfur á Króknum standi á bak við (eiginkona næstráðanda hans er víst skráð fyrir herlegheitunum).

  • Fengu þeir sem tóku þátt í þessu bíltil umráða eins og aðrir hjá Isavia?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn