Miðvikudagur 28.05.2014 - 12:59 - 36 ummæli

Keflavíkurflugvöllur, ekki valkostur?

 

Ólafur Þórðarsson arkitekt sem býr og starfar  í New York hefur tjáð sig á vef sínum um staðsetningu flugvalla. Í tengslum við það útbjó hann fyrir allöngu kort sem sýnir staðsetningu flugvalla miðað við miðborgir. Hann kemst að því að fjarlægðin úr miðbæjarklasa höfuðborgarinnar til Leifsstöðvar er einfaldlega með því mesta sem gerist í heiminum.

Á vefsíðu sinni segir Ólafur Þórðarsson eftirfarandi varðandi teikninguna að ofan sem sýnir fjarlægð frá miðborg að völdum flugvöllum í Evrópu:

„Í dag setti ég saman, mönnum til gagns og fróðleiks, þetta kort sem sýnir fjarlægðir á flugvelli nokkurra helstu borga austurstrandar Norður Ameríku. Þetta er sem sagt úrtak frá Flórída til Kanada. Tek fram að það er ekki á einhverjar afstæðar miðjur í úthverfum, heldur fjarlægð frá flugvelli á sjálfa borgarkjarnana.

Lengst reynist á flugvöll Moskvu, eða um 42 km. Völlurinn fyrir Osló og Stokkhólm, Mílanó og svo Keflavík eru þarna á bilinu 37-39km. Miðgildið úrtaksins sennilega nærri 10 eða 11 km. Ekki ósvipað  myndinni af austurströnd (Bandaríkjanna sjá að neðan) frá Miami til Kanada. Í þessu úrtaki reynast vegalengdirnar í loftlínu vera:

  • Moskva: 42, 29, 28  (Lest)
  • Mílanó: 39, 7, 7  (Lest)
  • Keflavík: 38
  • Osló: 37  (Lest)
  • Stokkhólmur: 37, 7.3  (Lest)
  • Árósar: 30
  • Munchen: 28 (Lest)
  • Heathrow: 22 (Lest)
  • París deGaulle: 22 (Lest)
  • Aþena: 18 (Lest)
  • Gautaborg: 17
  • Berlín: 17, 8, 4 (Lest)
  • Helsinki: 15.5 (Lest)
  • Róm: 13, 7
  • Istanbúl: 13
  • Madríd: 12
  • Amsterdam: 11
  • Glasgow: 11
  • Brussel: 10
  • Frankfurt: 10
  • Prag: 10
  • Hamborg: 9, 8
  • Zurich: 9
  • Dublin: 8
  • Feneyjar: 8
  • Varsjá: 7
  • Mallorka: 7
  • Kaupmannahöfn: 6.4 (Lest)
  • Bern: 5
  • Vilnius: 5
  • Riga: 4
  • Lissabon: 4
  • Napoli: 3

Margar borgir hafa fleiri en einn flugvöll. Ekki eru teknir sérstaklega fyrir smærri flugvellir sem þjóna smærri vélum, eða fjölmargar smærri borgir með 100,000-500,000 íbúa.

Annað ber að athuga sem er að oft eru lestarsamgöngur góðar og tengjast flugvöllum beint og þá aðgengi gott í þær bæði innan borga og innan viðkomandi lands. Lestir af flugvöllum fara ekki einungis á einn endastað, heldur tengjast almenningssamgöngukerfi þá öðrum lestum í borginni. Kaupmannahöfn er einstaklega góð í þessu sambandi, þar sem bæði er skammt á Kastrup (6.5km loftlína) og lestarferðin þægileg. Áhugavert væri að skoða hvaða áhrif góðar lestarsamgöngur hafa haft á staðsetningu flugvalla almennt séð, eða gerð nýrra valla lengra í burtu. Evrópa stendur Bandaríkjunum framar á sviði almenningssamgangna með lestum, nema á takmörkuðum svæðum. Það er mikill munur á að geta ferðast á flugvöll með lest og ekki hafa allir aðgang að einkabíl. Reykjavík er líkari Bandaríkjunum að þessu leyti, áhersla skipulagsins hefur beinst fyrst og fremst að þörfum ökumanna einkabifreiða.

Miðað við hitt úrtakið vekur athygli að í þessu eru ekki flugvellir alveg eins nálægt miðpunkti borgarinnar. og Boston, Washington og Reykjavíkurflugvöllur. Þó eru ansi margir sem eru í svipaðri fjarlægð og Álftanes, eða þetta 3-7km“.

Á vefsíðu sinni þar sem myndin að neðan sem sýnir fjarlægðir flugvalla frá nokkrum miðborgum á vesturströnd norður Ameríku  segir Ólafur:

„Setti svo þessar upplýsingar inn á kort sem við Íslendingar þekkjum vel og eigum þá vonandi betra með að átta okkur á þessum fjarlægðum. Hér er miðjan viðmiðunin í Reykjavík; Lækjartorg -og svo fjarlægð hinna erlendu flugvalla út frá því, svona eins og ef Lækjartorg væri miðja hinna borganna. Við þessa skoðun sést betur að nokkrir vellir (Boston og Washington DC) eru svona rétt örlítið lengra frá borgarkjörnum og Reykjavíkurflugvöllur er frá Lækjartorgi. Þarna munar einhverjum hundruðum metra og á þessum völlum er lent stórum þotum. Hagkvæmni er í samgöngukerfum þessara borga og sjaldheyrt að menn ræði að fjarlægja mikilvæg samgöngumannvirki til að byggja á þeim hús. Ég verð lítið var við slíka umræðu.

Mestu vegalengd í þessu úrtaki er á aðal flugvöll New York borgar: JFK, sem er í eitthvað um 18-19km loftlínu frá fjármálahverfi Manhattan þar sem ég hef búið síðan á öldinni sem leið. Aksturinn frá Keflavík að Lækjartorgi, til samanburðar, er svona nokkurn veginn 50km (um 38km loftlína). Það má taka fram að það hefur ekki talist vera hagkvæmt að setja sérstaka járnbrautarlest frá JFK yfir á Manhattan þrátt fyrir að flugvöllurinn afgreiði stóra farþegaþotu á mínútu fresti og að langt yfir 100 ára reynsla sé í lagningu járnbrauta í borginni.

Munurinn á þessum leiðum öllum er að umferðin á þeim er mun þyngri en á höfuðborgarsvæðinu. Ekið er í gegnum þétt borgarhverfi milljónaborga og engin þessara leiða er um 30 km langa auðn nema Keflavíkurvegur. Keflavíkurvöllur, eins og menn vita, var byggður af Bandaríkjamönnum sem herflugvöllur í seinni heimsstyrjöld og augljóslega ekki staðsettur með hagkvæmnisviðmið til að þjóna Reykjavík.

Við New York borg eru flugvellir sem eru álíka langt í burtu og Keflavíkurvöllur er frá Reykjavík, en þeir teljast vera of langt í burtu til að vera til gagns. Einn þeirra er í um 70 km fjarlægð (MacArthur Airport) og stjórnaði ég þar hönnun á $65 milljóna flugstöðvarverkefni fyrir rúmum áratug. Sá völlur telst vera töluvert langt utan við radíus New York borgar hvað flugvöll varðar.

Með von um skynsamlegar ákvarðanir í þessu máli“

 

Þessi athugun Ólafs Þórðarsonar arkitekts gefur tilefni til umræðu. Ég sakna nokkuð þáttöku arkitekta í fjölmiðlum um þetta mikilvæga mál.  Það er aðeins einn sem hefur tjáð sig um Reykjavíkurflugvöll og staðsetningu hans svo tekið sé eftir og það er Örn Sigurðsson arkitekt. Honum ber að þakka fyrir það framlag.

Af hverju leiða arkitektar og skipulagsfræðingar þetta hjá sér? Það getur ekki verið að þeir hafi ekki á því skoðun vegna þess að málið hefur verið á dagskrá áratugum saman.

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (36)

  • Þórhallur Halldórsson

    Hér er kort af Reykjavík
    https://www.google.com/maps/@64.1225542,-21.8428269,9z
    og hér er kort af London
    https://www.google.com/maps/@51.470022,-0.454296,10z

    Sami skali á báðum kortum. Þá sést vel hvað það er kjánalegt að bera þetta saman. Það er líklega sama hvað flugvöll menn skoða í London þeir eru alltaf nánast í miðborginni.
    Annaðhvort á að gera Reykjavíkurflugvöll að alþjóðavelli og loka í Kef eða öfugt. Annað er bara della og sóun á peningum.

  • Sigmundur

    Flugvallarumræðan er, eftir þessar kosningar, komin á upphafsreit.

  • Magnús Skúlason

    Mér finnst helvíti hart að í inngangi skrifar þú Hilmar að enginn arkitekt hafi ritað neitt um Reykjavíkurfluvöll nema Örn Sigurðarson. Árið 2005 skrifaði ég fyrstur arkitekta grein í Moggan um mikilvægi flugvallarins sem samgöngumiðstöðvar alls landsins einkum þar sem við búum ekki við járbrautarsamgöngur.

    Ennfremur var ég með hugmyndir um að lengja A-V brautina og gera hana að aðalbraut en skoða styttingu á N-S braut og gera þannig ráð fyrir hóflegri uppbyggingu í Vatnsmýrinni.

    Þessi úttekt Ólafs Þórðarsonar er annars afar áhugaverð og sýnir ágætlega hve galið það er að færa flugvöllinn. Það má hins vegar skoða hugmyndir að breytingum og þá er það mikilvægt að ekki sé ráðist í framkvæmdir sem koma í veg fyrir það. Það er hins vegar í vændum því miður.

    • Hilmar Þór

      Nú þegar þú minnir mig á þáttöku þína í flugvallarumræðunnin Magnús, þá verður hún ljóslifandi fyrir mér. Mér fannst einkar áhugaverð tenging þín milli flugsamgangna á Íslandi og lestarsamgangna erlendis.

      Sjónarmið þín og málflutningur hafa haft meiri áhrif en nokkurn grunar þó svo að mér hafi láðst að nefna þau í inngangi mínum.

      Ég biðst afsökunar á fljótræðinu.

  • Sæmundur Gunnarsson

    Mér finnst mjög merkilegt hvernig umræðan um Reykjavíkurflugvöll hefur tekið stefnuna í að bera saman við alþjóðaflugvelli. Keflavíkurflugvöllur er alþjóðaflugvöllur á meðan Reykjavíkurflugvöllur sinnir innanlandsflugi og helstu rök fyrir að hann þurfi að vera þarna er öryggi landsbyggðarinnar vegna nálægðar við sjúkrahús. Hvernig má það vera að menn missa alltaf sjónar á þeirri umræðu?

    • Gísli Tryggvason

      Það eru nú m.a. þeir sem vilja flugvöllinn áfram á þessum stað sem bera saman við alþjóðaflugvelli. En sinnir flugvöllurinn eingöngu innanlandsflugi og sjúkraflugi? Nei, hann sinnir víðtæku einkaflugi, millilandaflugi og kennsluflugi. Allt þetta flug gæti verið í Keflavík. En heldurðu virkilega að þótt sjúkraflugvél myndi lenda í Keflavík, þá væri öryggi landsbyggðarinnar ógnað? Ath. það tekur um 30 mín að keyra til Keflavíkur. Einnig fara margir með sjúkrabíl sem tekur lengri tíma en sjúkraflug.

  • Sævar Örn Arason

    Það má ekki heldur gleyma þeim þætti sem snýr að hlutverki Reykjavíkurflugvallar sem varaflugvelli. Verði hann látinn fara þá þurfa vélar að bera mun meira eldsneyti af því að næsti varaflugvöllur er lengra í burtu með tilheyrandi hækkun á farmiðaverði og aðflutningsgjöldum.

    • Gísli Tryggvason

      Standast þessi rök um að flugvöllurinn í Vatnsmýri sé ávallt eini varaflugvöllur Keflavíkur, og að flugvélar hafi ekki eldsneyti t.d. til að fljúga til Egilsstaða eða Glasgow? Það væri gaman að fá úr þessu skorið. Því ef Keflavík lokast, gæti eins verið að Reykjavík gerði það líka.

  • Dennis Davíð

    Hilmar kallar eftir þátttöku arkitekta í umfjöllun um flugvallarmálið. Ég verð að viðurkenna að það mál er ekki sérlega ofarlega í huga mínum þessa dagana. Mörg önnur skipulagsmál tel ég vera brýnni.
    Samkvæmt nýjustu fréttum er staðan þannig að Reykjavíkurflugvöllur verður áfram í Vatnsmýrinni til ársins 2022. Nýlega skipuðum starfshóp er ætlað að leita að nýjum stað fyrir flugvöllinn. Það er því ágætur tími til stefnu. Í dag er Reykjavíkurflugvöllur nánast í miðborginni og því allar líkur á að hann muni hverfa þaðan þó að nokkur eftirsjá verði af honum – mér hefur alla tíð fundist spennandi að hafa flugvöllinn og einnig höfnina innan seilingar og að fylgjast með þeirri starfsemi sem þar fer fram. Hins vegar tel ég að Keflavíkurflugvöllur henti ekki sérlega vel fyrir innanlandsflugið. Til þess er hann einfaldlega of langt í burtu eins og bent hefur verið á.
    Því er niðurstaða mín sú að núverandi flugvellir henti hvorugur fyrir innanlandsflugið. Vonandi tekst starfshópnum að finna nýjan og viðunandi stað fyrir innanlandsflugið í hæfilegri fjarlægð frá Borginni.

  • Oddný, ég hef ekki hugmynd…þess vegna vil ég samanburðinn og umræðu þar sem fleiri en einn þáttur er í spili. Á kortinu er t.d. Oslo Gardemoen svipað langt í burtu og ferðin með hraðlest tekur 20 mín. Svo eru eflaust aðrar aðstæður þar sem flugvöllur er nær en Keflavík en taka samt lengri tíma en Keflavíkurferðin.

  • Ólafur Gíslason

    Vegalengd eða loftlína segir ekki alla söguna þegar kemur að samgöngum við flugvöll í þéttbýli. Ég þekki vel til Rómar, þar eru 2 flugvellir, Fiumicino og Ciampino. Þeir eru hér sagðir í 7 og 13 km fjarlægð í loftlínu. Hélt að það væri lengra. Innan flugstöðvarbyggingarinnar í Fiumicino er járnbrautarstöð – ferðir á 30 mín fresti og taka um 35 mínútur og kosta 14 evrur (2440 IKR). Rútuferðir eru líka tíðar, kosta eitthvað minna en taka að meðaltali 55 mínútur, eða álíka langan tíma og frá Keflavík til Umferðarmiðstöðvarinnar. Sjá: http://www.adr.it/pax-fco-autobus

  • Oddný Halldórsdóttir

    Eeeeen… þó kílómetrarnir séu margir á milli borgarkjarna og KEF, og fleiri en víða annars staðar, er þá þar með sagt að annars staðar séu menn fljótari í för?

  • Gréta Björnsson

    Mig vantar like takka á kommentið þitt Jói.

    „Mér finnst kortið í greininni einmitt mjög skemmtileg samantekt en væri t.d. til í að sjá þetta sama kort með öðrum þáttum, t.d. sömu borgir en í stað vegalengdar væri tekinn ferðatími. Það er einmitt í samanburði mismunandi þátta að maður byrjar kannski að fá örlitla mynd af séraðstæðunum í hverri borg…og fyrst þá áttar maður sig kannski á því hvaða séraðstæðu við erum í. Þá getum við líka talað og rökrætt um þetta, í stað þess að skjóta niður einþáttar staðhæfingar.“

    Rök, sem byggð eru á vinnubrögðum eins og þú lýsir hér að ofan, vantar algjörlega með tilliti til flugvallarmálsins í nýju aðalskipulagi Reykjavíkurborgar. Sem er frekar skrítið, í ljósi þess hvað margt annað í skipulaginu er unnið út frá samanburði um mismunandi aðstæður og möguleika sem þær gefa af sér.

  • Mér finnst langt í árina tekið að tala um íbúa fyrir utan þéttbýliskjarna sem þurfa að ferðast langa leið á flugvöll nærliggjandi þéttbýliskjarna. Einn af kostum við það að búa í þéttbýlinu er að maður er nálægt flugvelli og þeir sem velja að búa í þéttbýli hafa eflaust tekið þann kost með í reikninginn. Þau spaugilega í þessu öllu er að íbúar út á Reykjanesskaga, utan þéttbýliskjarnans, eru komin út á völl á 5 mín.

    Ég er nokkuð sammála þér Erling því bæði í umræðunni um þéttingu byggðar og flugvallarumræðunni eru menn *mjög* duglegir að taka einn þátt fyrir, setja hann í sviga og svo fer spuninn í gang. Mér finnst kortið í greininni einmitt mjög skemmtileg samantekt en væri t.d. til í að sjá þetta sama kort með öðrum þáttum, t.d. sömu borgir en í stað vegalengdar væri tekinn ferðatími. Það er einmitt í samanburði mismunandi þátta að maður byrjar kannski að fá örlitla mynd af séraðstæðunum í hverri borg…og fyrst þá áttar maður sig kannski á því hvaða séraðstæðu við erum í. Þá getum við líka talað og rökrætt um þetta, í stað þess að skjóta niður einþáttar staðhæfingar.

  • Matthías

    @Sigurgeir: Í hvaða þýskum borgum þarf að sitja í lest í marga klukkutíma út á flugvöll? Þú segir þær margar, nefndu svona tíu …

  • Þessi rök halda ekki vatni. Höfundur bendir réttilega á að hann skoðar ekki fjölmargar borgir af svipaðri stærð og Reykjavík heldur velur hann bara dæmi sem hentar honum. Í Þýskalandi þarf sem dæmi oft að taka lest í nokkra klukkutíma til að komast út á flugvöll. Í USA búa svo um helmingur íbúanna í meir en 30km fjarlægð frá flugvelli. Þannig að þetta er svona víða.

    • Gísli Tryggvason

      Rétt, og þarmeð tekur hann ekki tillit til umferðar. Að bera Reykjavíkursvæðið (eða Ísland) saman við milljónaborgir er útí hött. Umferðarþunginn er einfaldlega allur annar. Furðulegt að arkitekt skuli ekki átta sig á því.
      En þetta er eitt dæmið um að reyna að finna réttlætingu fyrir þessum flugvelli í Vatnsmýri, frekar en að benda á hið augljósa. Rökin fyrir Vatnsmýrarflugvelli eru fyrst og fremst byggðar á tilfinningu þess sem það vill. En það er líka hverjum sem er heimilt.

    • Erling Þorgrímsson

      Þetta kemur nú vel fram í greininni ,,Munurinn á þessum leiðum öllum er að umferðin á þeim er mun þyngri en á höfuðborgarsvæðinu. Ekið er í gegnum þétt borgarhverfi milljónaborga og engin þessara leiða er um 30 km langa auðn nema Keflavíkurvegur.´´

      Ég get nú ekki að því gert en mér finnst menn skjóta sig í fótinn í hinu orðinu með þéttingu byggðar. Því þá er í lagi að bera sig saman við þekktar stórborgir (umræðan í fjölmiðlum). Það vill svo skemmtilega til að þessir turnar sem hafa risið á Reykjavíkursvæðinu búa til mörg hundruð metra langa skugga yfir byggðina þar sem sólin er mun lægra á lofti. Þessir turnar soga niður kaldan vind og dæla honum ofan í hverfin í staðinn fyrir að leyfa honum að svífa yfir byggðinni. Hver eru gæðin í því?

      Eflaust er eins stærsta ástæðan fyrir því að Vatnsmýrin er ekki nýtt á sínum tíma er einfaldlega sú að það þótti of dýrt að ræsa mýrina fram. Auðvitað má þétta byggð en eins og gengið er fram af hörku í t.d. Hafnarsvæðið þá erum við að steindrepa það sem er einmitt gaman að sjá t.d. slippinn í Reykjavík. Það er einfaldlega nálægðin sem grípur þar sem svæðið er nánast ekkert afgirt, ekki ósvipað og íslensk náttúra og þetta finnst túristanum spennandi annað en tómar íbúðir yfir daginn! En þetta er nú kannski langt út fyrir topic í þessari grein. Ég verð nú samt að viðurkenna það að það er gaman að sjá þetta svona á korti til að fá hlutina í samhengi. Persónulega truflar það mig ekkert að það sé 40 mín akstur á KEF.

    • Hlöðver Stefán Þorgeirsson

      Erling, mig langaði að koma því að í ljósi þess sem þú skrifar um þéttingu byggðar og turnbyggingar að þær eru alls ekki eina leiðin til að þétta byggð. Þetta hefur Hilmar m.a. fjallað um hér á síðunni fyrir allnokkru síðan.

      Reyndar tel ég turnbyggingar henta mjög illa til þéttingar byggðar í vesturhluta Reykjavíkur. Meðal annars af þeim ástæðum sem þú nefnir, en einnig vegna þess að það er fullkomlega á skjön við þá byggð sem fyrir er í eldri hlutum borgarinnar.

      Sjá t.d. http://blog.pressan.is/arkitektur/2011/11/19/hahysi-eda-laga-thett-byggd/

  • Það er einmitt nákvæmlega það sem ég er að setja fram í kommentinu mínu, þannig við erum alveg sammála. Þetta var kannski ruglingslega sett fram af mér :S

    Í stuttu máli þá segi ég að þegar samgöngumiðill finnst sem kemst á milli RVK og KEF á 15 mín, sem væri fjárhagslega raunsær (því vissulega finnst þessi samgöngumáti í dag fyrir morðfjár), þá er hægt að loka Reykjavíkurflugvelli og hafa allt flug út frá Keflavíkurflugvelli.

  • Það er mikilvægt að taka saman staðreyndir eins og þessar, en það er jafn mikilvægt að líta á aðstæðurnar sem eru til staðar á hverjum stað fyrir sig. Og til þess að ofureinfalda spurninguna sem setja á fram; „Vil ég hafa flugvöll mitt í miðborginni eða er ég til í að leggja það á mig að taka samgöngur út á Keflavíkurflugvöll?“ Inn í þessari spurningu eru alls konar faktorar sem ég ætla ekki að fara út í, en einn faktor finnst mér mjög spennandi og það er umræðan um fjarlægð og tíma; því að 40 km eru X mín í dag, en eftir 50 ár eru 40 km kannski X/4 mín?

    Hér er tillagan mín; Þegar hraði almennra samgangna (td. lestar-) hafa þróast á þann veg að það tekur ekki meira en 15 mín að komast frá miðbæ Reykjavíkur til Keflavíkur og kostnaður þess að leggja þessar samgöngur er ekki hærri en, segum 15% af þeim tekjum sem ríkisstjórnin fær fyrir sölu á landi Vatsmýrarinnar, þá er Keflavíkurflugvöllur fýsilegur kostur“

    Ég segi 15 mínútur til Keflavíkur, en það er bara mín tala. Hægt er að gera almenna könnun á landsvísu hvað fólki finnst lágmarkið eigi að vera. Og stjórnmálamenn geta komist að sameiginlegri niðurstöðu á því hversu há prósentutalan af söluverði Vatnsmýrinnar á að vera til þess að verkefnið teljist hagkvæmt.

    Nú segir einhver; „Hvað með sjúkraflugið?“ Það er hægt að hafa inn í þessari tillögu skilyrði um að loftfar með ákveðinn lágmarksflughraða finnist, t.d. þyrla, sem eru einmitt líka í stöðugri þróun hvað varðar hraða og lendingarhæfileika. Og að sjálfsögðu væri krafa um kostnað þarna líka og væri jafnvel hægt að binda hann við sölu Vatnsmýrinnar með ákveðinni prósentutölu.

    Þangað til að þessi skilyrði uppfyllast getum við haft opna hönnunarsamkeppni um Vatnsmýrina á ca. 10 ára fresti, stutt rannsóknarverkefni um svæðið í Háskólunum (þ.m.t. Listaháskólanum) og haldið áfram að láta okkur dreyma og diskútera hvernig svæðið gæti orðið hið fullkomna viðbót við miðbæjarkjarnann okkar. Þegar skilyrðin uppfyllast loksins, segum 50 ár, þá erum við gjörsamlega búin að stút-era svæðið út í eitt og getum komið með gott skipulag í heimsklassa með (væntanlega) lengsta og ýtarlegasta rannsóknarfasa sem fyrirfinnst.

    • Gísli Tryggvason

      Jóhann, þetta er allt réttmætar vangaveltur. En athuga líka að það er ekki aðeins vegalengd í km sem skiptir máli, heldur líka og meira, eiginlegur ferðatími. Í dag er nánast fullkomið vegasamband milli höfuðborgarsvæðis og Reykjanesbæjar. Svo gott, að margir búa á Suðurnesjum en sækja vinnu til Reykjavíkur. Ekki er það fólk að setja fyrir sig ferðatímann, þótt daglega sé farið.
      Ég fór um daginn til Keflavíkurflugvallar til að sækja fólk. Og eins og talað hefur verið um, m.a. frá athugasemdum manna hér, þá ímyndaði ég mér að þurfa 1 klst. til að mæta á völlinn. En ferðatíminn var aðeins 30 mín og lengsti tímann var það að komast útfyrir höfuðborgarsvæðið.
      Keflavíkurflugvöllur er alls ekki „langt frá Reykjavík“ ef tekið er tillit til þeirrar litlu umferðar sem er á Keflavíkurvegi og greiðu samgöngum.

  • Af hverju er búið að eyða ummælum?

  • Gísli Tryggvason

    Eiginlega segir kortið okkur það að höfuðborgarsvæðið er alltof dreift. Og það ma. vegna flugvallarins í Vatnsmýri. Fólk verður að átta sig á því að dreifð byggð kostar mikið, fyrir utan þá sóun sem verður á landi. Besta byggingar- og útivistarsvæðið er Vatnsmýrin og svæðið í kringum.
    En síðan má reyndar ræða það líka að fólki finnst ekkert mál að fara til KEF til að eiga 2 klst flug til Glasgow, en sumir vilja síðan hafa 3 tíma flug til Nuuk í Grænlandi endilega í Reykjavík. Enginn skynsemi né rök í þessu.

  • Steinarr Kr.

    Áhugaverðar staðreyndir.

  • Garðar Garðarsson

    Höfundur greinar segir að það muni einhverjum hundruðum metra á fjarlægð milli miðjukjarna að flugvellinum í Boston miðað sambærilega fjarlægð í Reykjavík, en ég fæ nokkur þúsund metra eða um 2 kílómetra sem er þrisvar sinnum lengra á milli miðjukjanna og flugvallar í Boston en í Reykjavík.

    Einnig skal vakin athygli á því að flugvöllurinn í Boston er byggður á landfyllingu og sund er á milli miðborgar og flugvallar.

  • Þegar maður lendir á Reagan-flugvelli í Washington DC horfir maður nánast inn í skrifstofurnar í Pentagon.

    • Garðar Garðarsson

      Þú hefur ansi góða sjón jón.

      Pentagon er í um einn og hálfan kílómeter frá flugvellinum í Washington DC.

    • Í aðfluginu var flogið rétt framhjá Pentagon. Þú getur skoðað það á korti.

    • Garðar Garðarsson

      Það er svona svipað og fljúga framhjá Pentagon og að fljúga yfir höfnina í Reykjavík. Svo er miðborgin í Washington DC í um þrjá kílómetra frá flugvellinum sem er þrefalt lengra heldur en er í Reykjavík og stór árfarvegur á milli.

    • Ekki það sama. Vélin var í svo lítilli hæð. Maður horfði nánast inn í skrifstofurnar.

  • Garðar Garðarsson

    Eftirtektarvert.

    Engin borg nema Reykjavík hefur flugvöll í miðbænum/miðborginni.

    • Hlöðver Stefán Þorgeirsson

      Hann nefnir reyndar að í Boston og Washington DC eru flugvellirnir nálægt miðborgunum.

    • Garðar Garðarsson

      Norður-suðurbraut Reykjavíkurflugvallar er aðeins um 1300 metrar frá Lækjartorgi og 1100 metrar frá Ráðhúsinu, og það er aðeins 200 til 300 metrar í íbúðabyggð frá aðalbrautum flugvallarins og um 50 metrar í neyðarbraut.

    • „Fyrr má nú aldeilis fyrrvera“

      Í Berlín var ákveðið að leggja Tempelhof flugvöll niður og nota landið sem útivistarsvæði. (engar byggingar) Þjóðverjar eru bæði skynsamir og eiga pening.

      Við eru blankir og náum ekki utanum viðfangsefnin þegar skipulag er annarsvegar!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn