Laugardagur 11.05.2013 - 09:49 - 8 ummæli

Kommúnistinn Henning Larsen?

 

 

 SCAN1412_001

 

Mig langar að segja skondna sögu af Henning Larsen.

Þegar ég gekk á akademíunni voru deildirnar (bekkirnir(?)) tengdir prófessorunum sem voru allt hetjur í byggingalistinni. Þetta voru allt framsæknir einstaklingar í arkitektastétt sem áttu mikið erindi við samfélagið og auðvitað nemendurna. 

Þetta voru oftast hugsjónamenn sem ekki lágu á skoðunum sínum og létu í sér heyra þegar tilefni og ástæða gafst til. Þeir voru meðvitaðir um ábyrgð sína í umræðunni og samfélaginu. Nemendurnir voru heldur ekki passívir í umræðunni og mótmæltu öllu þegar það átti við.

Það var mikil virðing borin fyrir Det Kongelige Danske Akademi For De Skönne Kunster á þessum árum. Meðlimur konungsfjölskyldunnar var viðstaddur setningu skólans á haustin sem fór fram í Oddfellow Palæet við Bredgade. Spiluð var „klassisk“ nútímatónlist við setninguna.

Akademían heyrði undir menningarmálaráðuneytið (kulturministeriet) meðan aðrar æðri menntastofnanir landsins tilheyrðu menntamálaráðuneytinu (undervisningsministeriet). Þessi tengsl við menningarmálaráðuneytið gaf skólanum visst frelsi sem aðrar menntastofnanir höfðu ekki.

Til dæmis var látið átölulaust að í kynnigu um kennsluhætti deildar prófessors Henning Larsen var sagt að mikilvægt væri að nemendur lærðu fyrst að vera nánast marxistar áður en þeir snéru sér að því að verða arkitektar. “först röd, så specialist” Eða stílfært í samræmi við kennsluáætlunina “fyrst gerum við þig að komma og svo gerum við þig að arkitekt”

Þetta vakti nokkra athygli á sínum tíma og var eitthvað rætt í Folketinget.

Ég hitti Henning í örfá skipti þó svo að ég hafi oft hlustað á hann tala um byggingalist.

Einu sinni átti ég leið um sundið milli Peter Skramsgade (Heibergsgade)  og innigarðs Charlottenborg við Kongens Nytorv þar sem gipsafsteypan af Valþjófstaðahurðinni var við skúlptúrgarðinn.

Ég var þar með skólafélaga mínum og vinkonu, Kirsten Kjær arkitekt, en þau Hennig voru málkunnug.

Kirsten ávarpar Henning og segir eftir stutt spjall:

“Hvernig getur þú verið kommúnisti? Maður sem ert með lúxus íbúð í miðborginni og býrð í einbýlishúsi við Strandvejen” (eitt snobbaðasta íbúðasvæði Danmerkur) og svo bætir hún við; “ og svo ekur þú um á Jagúar model E…. Hvernig getur þú verið kommonisti þegar þú hagar þér svona?”

Henning staldraði aðeins við þegar hann heyrði spurningu nemans en svaraði svo:

“Mér finnst allir ættu að hafa það eins og ég”, og skellihló.

Síðan þetta gerðist hefur margt breyst og Henning marga fjöruna sopið. Stofa hans hefur breyst út hefðbundinni teiknistofu í fyritæki sem lítur á heiminn allan sem sitt markaðssvæði.  Teiknistofan sem rekin er í hans nafni hlýtur í næsta mánuði virðulegustu verðlaun sem veitt er í veröldinni fyrir byggingalist. Mies van der Rohe verðlaunin sem  veitt eru fyrir HÖRPU.

Efst er afrit af inngangi að skólastefnu deildar prófessors Henning Larsen þar sem stendur efst „först röð, så specialist“ og að neðan ljósmynd sem tekin var um það bil sem hönnunar- og hugmyndavinna vegna byggingar HÖRPU var að hefjast. Þar má þekkja fyrir miðju Henning Larsen og Tryggva Tryggvason einn arkitekt Hörpunnar en hann vann á teiknistofu Henning Larsen á námsárum sínum og í byrjun starfsferilsins.  Og svo neðst eru dæmi um verkefni deildarprófessors Henning Larsen veturinn1971-1972. þar sem Marxisminn er í aðalhlutverki.

Sjá einnig:

http://blog.dv.is/arkitektur/2009/11/30/thrautir-hennings-larsen/

 

 

 

Austurhofn _ Group

 

SCAN1411_001

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Guðni Pálsson

    Gaman að þessum sögum Hilmar. Við vorum þarna á akademíunni á sama tíma. Það var mikil vinstrihreyfing í gangi. Margir snéru sér meir að pólitík en námi og því margir sem döguðu uppi.
    Elevforsamlingen, sem var einskonar æðsta ráð nemenda, átti meðal annars í miklum umræðum um það hvort kennarar hefðu í raun rétt á að dæma verk nemenda.
    Á þessum tímum gátum við tekið lokapróf á ýmsum forsemdum, Eitt frægasta lokaprófið var tekið á deild Bryans, bakpoki sem var formaður eins og banani. Ef ég man rétt þá tók þetta um 6-8 tíma.
    Hann náði lokaprófi, sem var í raun út í hött, maðurinn hafði akkurat ekki gert neitt.
    Man að við vorum oft í vandræðum gagnvart lánasjóði af því að voru ekki gefnar neinar einkunnir.
    Jæja, þetta með Henning Larsen. Ég heyrði þessa sögu svona.
    Eins ég sagðiði byrjun var vinstrihreyfung mjög ráðandi og nemendur í stjórn allra deilda. Nemendur deildar Hennings Larsens áttu að hafa krafist að deildin yrði mjög til vinstri eða kommúnísk. Henning á að hafa svarað. „I kan være som röde som i vil, bare at jeg for til at beholde min Jaguar“.

  • Örnólfur Hall

    Skondin saga. — Það er gömul saga og ný að vaskir lærisveinar Stalíns heitins (Líka ‚Lenna‘ og ‚Trotta‘ sálugu) gerðust margir hverjir nýbornar peningahetjur (kapítalistar) og fengu svo að stýra opinberum ‘apparötum’ ríkisfjármagns og ríkisæfintýra en með sorglegum og ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir skuldugan almenning.

    Eftir lestur sögunnar skondnu langaði mig að lesa aftur pistil TT á http://blog.pressan.is/arkitektur/2012/05/14/harpa-eins-ars/ —sem er holl lesning.

  • Jón Ólafsson

    „vor herre bevares“
    En samt virðingarvert að sjá að fólkið þorði. Ekki örlar á þöggun.
    BTW …. Þessi síða ber af í öllu pólitíska argaþrasinu í bloggheimum fyrir málefnalega umræðu og hressleika..
    Takk fyrir hressinguna

  • Dennis Davíð

    Þessi skemmtilega saga frá Danmörku minnir mig á aðra sem ég heyrði hér á Íslandi. Sænskur blaðamaður á að hafa spurt Halldór Kiljan Laxnes, um það leiti sem hann fékk Nóbelsverðlaunin, hvernig það færi saman að vera sósíalisti og búa í glæsilegu einbýlishúsi að Gljúfrasteini, eiga íbúð í bænum og keyra um á hvítum Jagúar. Sagan segir að Halldór hafi svarað eins og Henning Larsen. Ég tek undir með þeim báðum og finnst að allir ættu að hafa það eins og þeir. En það er kannski ekki alveg raunhæft eða hvað?

    • Hilmar Þór

      Þetta eru ótrúlega líkar sögur af listamönnunum tveim, Laxnes og Larsen sem leiðir hugan að öllum „buff & rauðvínssósíalistunum“ sem leika tveim sjöldum og flokka sig með öreigunum. Þeir eru fleiri en margan grunar.

    • Hilmar Gunnarsson

      Þetta er OF fyndið komment hjá Hilmari Þór, hahahaha !

  • stefán benediktsson

    Þetta var svosem ekki mikið öðruvísi í þýskalandi upp úr 60, nema að menn sögðu ekki kommúnismi en dialektisk og sagnfræðileg efnishyggja var oft nefnd og sveif svo sannarlega yfir vötnunum smbr. þá bjargföstu trú að hægt sé að móta samfélag með skipulagi, sem er ekkert annað en hrein marxisk söguskoðun en jafn útbreidd beggja vegna pólitískra vatnaskila í dag.

  • Batnandi mönnum er best að lifa. Smá spurning. Er gamli sósíalistinn ekki kominn á ellilaun. Eitthvað heyrði maður af því að hann hafi verið hættur þegar hönnun Hörpu byrjaði!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn