Kollegi minn sendi mér myndir af verslunarkjörnum, kringlum, á Englandi og í Frakklandi. Hann þekkir vel til málanna og upplýsir að englendingar leyfa ekki verslunarmiðstöðvar í úthverfum eins og áður var algengt víða (Kringlan og Smáralind hér á landi). Englendingar byggja nún aðeins slíkar byggingar í miðkjörnum borga og nota þar með tækifæri til þess að styrkja miðborgirnar, stoðkerfin og vistvænar samgöngur (almenningssamgöngur, gangandi og hjólandi).
Hjálagt eru tvær myndir sem ég fékk sendar af verslunarmiðstöð í miðborg Bristol (Cabot Circus opnað 2008), fyrir og eftir endurnýjun.
Hjálmar Sveinsson, sem hefur verið virkur þattakandi í umræðunni um skipulagsmál, hefur nefnt þá hugmynd að byggja verslunarmiðstöð á pósthúsreitnum milli Hafnarstrætis/Austurstrætis og Pósthússtrætis/Lækjartorgs. Það er góð hugmynd sem mun vera kröftug vítamínssprauta í Kvosina og færa aftur líf á Lækjartorg. Á þessu svæði má koma fyrir milli 10 og 12 þúsund fermetra verslanasvæði sé allt undir.
Í Danmörku og Noregi eru til reglur hvað varðar stærð verslunarmiðstöðva. Til skamms tíma var, og er kannski enn, stærð matvöruverslanna takmörkuð. Það var gert til þess að dreifing þeirra verði meiri. Það kann að vera hagur kaupmannsins að byggja eina 3000 fermetra verslun meðan að það eykur þjónustustigið og minnkar bifreiðaumferð að opna sex 500 fermetra verslanir í tengsum við íbúðahverfin í stað einnar risavaxinnar.
Af hverju ekki að sætta sig við það að Reykjavíkursvæðið er bílaborg og vinna út frá því. Það eru sennilega um 50 ár síðan síðast var möguleiki að breyta út af þessari línu.
Kringlan í mýrinni voru mistök. Áratugum saman hefur Laugavegurinn og miðbærinn átt í vök að verjast vegna Kringlunnar. Öllum til ama. Það voru nægar lóðir meðfram Skúlagötu og Sæbraut til þess að skapa öflugt bakland með menningu, verslun og bílastæðum. Og Sæbrautin er mjög afkastamikil. Kringlan hefði eins vel getað risið þar. Enda á slík starfssemi heima í miðborg eins og Bretarnir eru búnir að átta sig á og allir hafa lengi vitað. Hinsvegar hefði Kringlumýrin verið góður staður fyrir sjúkrahús, vel tengt og miðsvæðis.
Skipulagsyfirvöld gátu ekki valdið verkefninu og misstu tök og heildaryfirsýn. Skemmdu borgina með smáskammtalækningum. Í raun gaf borgarskipulagið bara verkjastillandi meðöl án þess að lækna sjúkdóminn. Það er ekki hægt að kenna stjórnmálamönnum um þetta vegna þess að það breyttist ekkert með nýjum meirihlutum. Og er ekkert að breytast. Það var bara bútasumur og verkjastillandi sem réð ferðinni ásamt skammtímasjónarmiðum.
Það má kannski halda því fram að við séum orðin of sein til þess að bjarga þessu. En höfum í huga að það er aldrei neitt of seint. Öllu er við bjargandi.
Það er rétt hjá Samúel að ef moll kemur í miðbæinn þá þarf að loka búðum í Faxafeni og við Ármúla og úti á Granda og ef maður á að vera róttækur þá ætti að loka Kringlunni líka. En það eru víst ekki peningar til í það góðverk. Það er allavega alls ekki markaður fyrir allar þessar verslanir á svæðinu. Við erum sammála um það.
Það er tæpast markaður fyrir moll í miðbænum. Væri ekki nær að gera moll Reykvíkinga – Kringluna – miðborgarlegra, nú þegar það er hvort eð er við aðalpúlsæðar borgarinnar?
Í hafnarborginni Flensborg í Þýskalandi er verslunarkjarni við höfnina. Ekki beint fagur sá, en dregur vissulega til sín fólk og virðist í flestu styrkja borgarlífið. Gæti ekki verslunarkjarni af hæfilegri stærð með fæðutorgi „food court“ á útsýnisstað orðið til að styrkja umhverfi Reykjavíkurhafnar? Eða myndi svona tiltæki ganga frá rekstri veitingahúsa og smáverslana í grenndinni?
Í Glasgow eru allir helstu verslunakjarnarnir staðsettir í gömlu miðborginni og bílastæði ekki sjáanleg að utan. Gömlu húsin eru mörg hver notið i tengslum við kjarnana. Þetta er hluti af „Urban Renaissance“ borgarinnar sem þykir hafa tekist nokkuð vel.
Ein elsta Kringla þessarar gerðar er í New-Castle, Eldon Square síðan 1977. Sívaxandi verslunarmiðstöð, nú nýlega orðin sú stærsta í Bretlandi. Ég var þar 1988 og þá þegar var manni gildi þessa fyrirkomulag ljóst, en forsendan er gott skipulag á flutningi fólks og farangurs.
Í Sturegallerian mitt í Stokkhólmi er ekki eitt einasta bílastæði (amk ofanjarðar) og utanfrá bendir ekkert til þess að þarna er 13.000 fermetra verslunarmiðstöð með sundlaug á efstu hæðinni.