Fimmtudagur 27.06.2013 - 13:06 - 18 ummæli

Kynning á aðalskipulagi Reykjavíkur

005_04_04_800

 

Ég var rétt í þessu að koma af kynningarfundi hjá skipulags- og byggingasviði Reykjavíkurborgar. Þar voru samankomnir 24-30 sjálfstætt starfandi rágjafar í skipulagsmálum auk starfsmanna skipulagssviðs. Á kynningunni var farið yfir aðalskipulagstillöguna í öllum meginatriðum.

Fjögur atriði standa  að mínu mati uppúr:  a) stöðvun útþennslu borgarinnar b) nýr samgönguás eftir borginni endilangri (hin línulega borg) c) hverfaskipulagið. Allt frábær markmið. Í fjórða lagi var það auðvitað hugmyndin um að leggja niður flugsamgöngur við höfuðborgarsvæðið (!).

Eftir kynninguna  jókst ánægja mín með skipulagið í megindráttum.

Ætli þetta sé ekki  besta aðalskipulag borgarinnar frá árinu 1927. Og ekki bara það heldur er nálgunin ekki ósvipuð.

Í skipulaginu frá 1927 voru útmörk borgarinnar mörkuð með hringbraut sem leggja átti umhverfis borgina.  Byggð var ekki fyrirhuguð utan þessarrar brautar og átti að stækka innan hennar. Þessi braut var  lögð og hét síðar Snorrabraut til austurs og Hringbraut til suðurs.  Í AR 2010-2030 er svipað uppi á teningnum. Það er að segja að lagt er til að borgin þenjist ekki út fyrir þau mörk sem mörkuð hafa verið  undanfarna áratugi. Útþennslustefnunni er lokið. Stefnt er að því að borgin stækki innan þeirra marka á sama hátt og hugmyndin að skipulaginu 1927 gerði ráð fyrir.

Skipulagsmál höfuðborgarinnar hafa verið í miklum vandræðagangi undanfarin svona 25 ár og einkennst af  „american quilt“ þar sem bútarnir eru saumaðir saman eftir þörfum líðandi stundar og án heildaryfirsýn. Menn virtust ekki alminlega vita hverslags teppi þeir væru að sauma.

En nú er lögð fram skýr stefna.

Hryggjarstykki nýja skipulagsins er hinn svokallaði þróunar- og samgönguás sem liggja á frá Örfyrisey alla leið að Keldum með öflugum almenningssamgöngum. Þarna eru lögð drög að línulegri miðborg. Þetta er mikið framfaraspor sem gefur fólki tækifæri á lífi án einkabíls. Þessi ás bindur borgina saman þannig að líkur geta orðið á að hún virki sem ein starfræn heild. Þessi hluti aðalskipulagsin er að mínu mati  sá mikilvægasti í allri þeirri hugmyndavinnu sem þar er að finna. Spurningin er hvort ekki sé nægjanlegt að láta ásinn ganga að ósum Elliðaáa þar sem fyrirhuguð er mikil byggð sem gæti verið annar miðborgarpóll sem kallast á og tengist gömlu miðborginni með þéttum vistvænum samgöngum. Og svo auðvitað hvernig móta má aðgerðaráætlun til þess að koma þessari stórgóðu hugmynd á flug.

Nú ríður á að einbeita sér að því að byggja undirstöður undir þessa áætlun. Allar ákvarðanir sem teknar verða í skipulagmálum borgarinnar, stórar og smáar, þurfa að taka mið af þessum samgönguás. Þarna á að koma fyrir stórum vinnustöðum og þéttri íbúðabyggð. Ekkert má gera sem ekki beinlínis styrkir hugmyndina. Svo ég skjóti því hér inn þá sýnist mér hugmyndirnar um að nota umferðamiðstöðina við Hringbraut sem aðalstöð almenningssamgangna borgarinnar stangist á við fyrirhugaðan samgönguás með sínum öflugu almenningsflutningum.  Aðalmiðstöð  almenningssamgangna á að vera tengd þessum samgönguás t.d. við enda hans við ósa Elliðaáa. Borgin á að selja umferðamiðstöðina við Hringbraut sem fyrst, hæstbjóðanda.

Auk stöðvunar útþennslu borgarinnar og samgönguássins er hugmyndin um hverfaskipulagið meginþáttur aðalskipulagsins.  Borginni hefur verið skipt í 10 svæði sem á að endurskipulaggja með tilliti til meginmarkmiða aðalskipulagsins.  Þetta gefur tækifæri til að skapa starfrænar og sjálfbærar heildir í hverfunum og skapa hverfisvitund meðal íbúanna. Ef þetta tekst vel mun bifreiðaumferð minnka verulega til hagsbóta fyrir alla.  Gangandi og hjólandi ferðamáti ásamt almenningssamgöngum mun aukast verulega eins og aðalskipulagið stefnir að.

Undanfarin ár hafa verið gerð deiliskipulög fyrir marga reiti í eldri hverfum borgarinnar. Að mínu mati var fagmennskan þar ekki til fyrirmyndar. Deiliskipulagðir voru einstakir reitir án þess að spyrja hvað reiturinn geti gert fyrir borgina eða hvað borgin gæti gert fyrir reitinn. Ég nefni reitina milli Hverfisgötu og Laugarvegs sem voru deiliskipulagðir án þess að vita hverskonar götur Hverfisgata og Laugavegur ættu að verða. Hlutverk gatnanna ætti að vera forsenda fyrir deiliskipulaginu. Safngötur, vistgötur göngugötur eða eins og nú er verið að tala um að gera Hverfisgötu að hluta af aðalsamgönguáss borgarinnar hafa áhrif á deiliskipulagsvinnuna og ætti að vera forsenda hennar. Þessi bútasaumshugsunarháttur er vonandi að baki ef ég skil grundvöll aðalskipulagsins 2010-2030 rétt.

Eitt er það í aðalskipulaginu er mér fyrirmunað að skilja og það er sú ákvörðun að leggja Reykjavíkurflugvöll niður. Reyndar var notað orðalagið „að flytja flugvöllinn“ en allir vita að maður flytur ekki nema hafa völ á öðru húsnæði.

Tillagan um að leggja Reykjavíkurflugvöll niður stenst bara ekki í mínum huga. Hugmyndin er  að mínu mati vanþroskuð og þarf að ræða í mun stærra samhengi en gert hefur verið. Það þarf að skoða hana með allt höfuðborgarsvæðið í huga og landsbyggðina. Öðruvísi er ekki hægt að komast að skynsamlegri niðurstöðu. Svo þarf auðvitað að ríkja almenn sátt um flugvallarmálið eins og aðalskipulagið allt.

Það var vel að þessum kynningarfundi staðið hjá skipulags- og byggingasviði. Starfsmenn sviðsins voru vel að sér og áhugasamir, komu hvergi að tómum kofanum og voru meðvitaðir um þau vafaatriði og álitamál sem spurt var um.

Nú hafa aðalskipulagsdrögin verið send til umsagnar hjá Skipulagfstofnun og í framhaldinu verður auglýst eftir athugasemdum.

Vonandi á þetta eftir að ganga vel þannig að  framhaldið verði ekki „buisniss as usual“ !!

 

Efst er mynd af skipulaginu frá 1927

 

Sjá einnig um AR 2010-2030:

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/06/02/nytt-adalskipulag-reykjavikur-ar-2010-2030/

og

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/06/05/nyr-throunar-og-samgonguas-i-adalskipulaginu/

og

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/06/07/vatnsmyrin-og-adalskipulagid/

 

Vegna athugasemdar Halldórs Eiríkssonar arkitekts birti ég hér að neðan aftur umrædda mynd sem sýnir þróunar- og samgönguás aðalskipulagsinsÞróunarás

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (18)

  • Hér eru á ferðinni stórfelldir flutningar á almenningsrýmum til einkaaðila í miðri borginni. Það er ekki gott.

    Hér hefði betur verið farið í stórfellda vinnu með íbúum um hvernig hægt er að endurskilgreina hverfin, bygginarnar þar og uppbyggingu rýmisins á milli þeirra í opnu ferli sem öllum (líka þeim sem ekki höfðu tök á að vera á fundunum) væru ljósir.

  • Dennis Davíð

    Línulegi miðbærinn er einmitt þetta „skrímsli“, eða lífræna fyrirbrigði eins og ég kýs að kalla það, sem þrjóskast við að vaxa eftir þörfum íbúanna þrátt fyrir að skipulagsyfirvöld hafa margreynt ýmislegt til að temja það t.d. með nýjum miðbæ í Kringlunni, með því að loka Suðurlandsbrautinni við Elliðaárvog og fleiri aðgerðum. Nú hefur Aðalskiðulagið tekið þá stefnu að styrka það og næra til að það fái að vaxa og dafna, ef ég skil þetta rétt.

  • Birkir Ingibjartsson

    „Borgin er eins og skrímsli, sem enginn getur tamið“

    Þetta eru held ég minnistæðustu orð sem ég man úr námi mínu við Listaháskólann. Þessu fleygu orð átti Steinþór Kári Kárason, arkitekt og prófessor við skólann í blaðaviðtali við þá félaga á Kurt og pí á sama tíma og þeir voru að kenna okkur áfangann „að byggja borg.“ Þetta var haustið 2010 held ég, svona til að setja þetta í samhengi við þessa umræðu.

    Í fyrsta lagi þótti okkur nemendunum þetta alveg brjálæðislega fyndin fullyrðing en um leið á einhvern hátt svo rétt. Það er alveg sama hvað maður reynir að temja borgina til að vaxa á einhvern ákveðinn hátt þá mun það aldrei takast eins og til var ætlast. Borgin vex alltaf þegar til lengri tíma er litið eftir eigin þörfum, þ.e.a.s. eftir þörfum íbúanna.

    Mér datt þetta í hug í kjölfar athugasemdarinnar frá Halldóri og myndinni sem fylgdi í kjölfarið. Það er alveg augljóst að það vantar fleiri þvertengingar í þessi drög. Afhverju er til dæmis Reykjanesbrautin/Sæbrautin ekki þarna inni? Þar er tengingin við restina af Höfuðborgarsvæðinu. Fyrir utan það að Mjóddin er skilgreind sem uppbyggingarsvæði en Smiðjuhverfið er eins og það sé ekki til. Er ekki rakið að tengja þetta betur saman? Svo getum við auðvitað farið enn lengra yfir í Smáralindina og þar í kring. Þar er allavega nóg af bílastæðum sem hægt væri að breyta í byggingarlóðir fyrir íbúðir og meira blandaða byggð. En þarna er ég auðvitað komin útfyrir öll bæjarmörk…!

    Ok, missti aðeins þráðinn, en punkturinn átti að vera sá að raunveruleg þungamiðja Reykjavíkur (Höfuðborgarsvæðisins) er við Ártúnsbrekkuna og verður þar þar sem búið er að stoppa útþennsluna. Sama hversu mikið okkur langar að temja borgina annað. Þar verður hin raunverulegi miðbær þegar fram líða stundir og þess vegna vantar Reykjanesbrautina þvert á „línuborgina“.

    • Sveinbjörn

      Gaman að sjá að nemandi (fyrrv.?) hafi einhvern áhuga á viðfangsefnum í skipulagsmálum. Ég hélt þeir þar í kotinu væri sjálsmiðaðir og einangraðir í sínum skýjaborgum.

  • Sæll Hilmar,
    Takk fyrir að hvetja til þessarar umræðu um aðalskipulagið. „Hverri kynslóð þykir sinn fugl fagur“ er kannski útúrsnúningur sem á við hér. Hvert aðalskipulag er hluti af stærri umræðu um borg og því er eðlilegt að á hverjum tíma þyki borgaráhugamönnum nýtt skipulag betra en þau sem á undan komu og verið er að bregðast við. Þessvegna, þó að ég sé í mörgu sammála þér, er ég ekki tilbúinn að fara að gefa „besta skipulagið“ stimpilinn og bera þannig saman þvert á tíðaranda og tíma (var Elvis betri en Led Zeppelin eða Zeppelin umfram Nirvana?).
    En þetta er útúrdúr, ég er sammála þér með þéttingu byggðar en ósammála varðandi „Þróunar- og samgönguás“. Þetta er góð hugmynd til að hafa í og með, en sem hryggjarstykki í þróun borgar mun hún seint ná markmiðum sínum.
    Ástæða þess að vanda þarf til skipulag hverfa og borga er að þau standa svo skuggalega lengi. Síðan 1927 hefur borgin byggst, með góðu eða illu sem hverfisklasar tengdir stofnbrautum. Þróunar- og samgönguásinn getur orðið að góðri samgönguleið fyrir vistvænni umferð fyrir hluta borgarbúa en eins og þú bendir sjálfur á með Umferðamiðstöðina, þá er strúktúr borgarinnar ekki línulegur og togstreita eins og sú sem þú nefnir mun ítrekað koma upp því hinn eldri strúktúr fyrri skipulaga kallar á aðrar lausnir líka. Hvað þýðir þetta til dæmis fyrir þjónustu í Grafarvogi eða Mjódd. Mun miðstöð strætó fara úr Mjóddinni niður að Elliðaárósum? Þörf og vilji borgarinnar til að þjónusta öll sín hverfi mun toga uppbyggingu frá þessum ás og þangað sem hún vill fara. Sem dæmi má strax sjá það í skýringamyndum tillögunnar sjálfrar: Sett er þverlína á hryggjarstykkið til að undirstrika framtíðarsýn skipulagshöfunda um Vatnsmýrina, (mynd 24 á bls.42 í þeim drögum sem ég er að skoða) en menn eru ekki tilbúnir til að þvertengja stærstu hverfi borgarinnar í austurhluta með sama hætti.
    En það er kannski þetta vandamál sem þú ert að horfa til þegar þú leggur til að þróunarásinn endi við Ártúnsbrekkuna? Þaðan í frá er borginn sannarlega uppbrotnari, enda komin af nesinu.
    Ég held hinsvegar að hverfaskipulögin séu það áhugaverða í þessum Aðalskipulagsdrögum og ekki síst hvernig mönnum mun takast að tengja hverfin svo saman og strúktúrinn á milli þeirra. Þar liggur framtíðar samgönguás borgarinnar. Hitt er gott í og með.

    • Hilmar Þór

      Þakka þér Halldór, og ykkur hinum fyrir þáttöku í umræðunni.

      Ég vona bara að þegar kemur að auglýsingu skipulagsins að umræðan verði öflug og fagleg. Og ekki síður það að borgin verði virk og taki tillit til umrænanna. Því annars er kynningaferlið gagnslaus sýndarmennska. Skiptar skoðanir á t.a.m. samgönguásnum er mikilvæg vegna þess að í því samtali sem þá fer fram milli þeirra sem trúa á hugmyndinna og ykkar hinna mun hjálpa til við þróun hugmyndarinnar eða slá hana af.

      Hitt með stimpilinn „besta aðalskipulagið“ er auðvitað staðhæfing sem sett er fram til þess að kalla á viðbrögð. Enda er þetta sett fram í spurningaformi með orðalaginu „Ætli þetta sé…….“

    • Hilmar Þór

      Ég setti umrædda mynd sem Halldór nefnir (nr.: 24 á síðu 42) inn í færsluna, enda á hún fullt erindi í umræðuna.

  • Dagur B. Eggertsson

    Gott að halda upplýstri umræðu áfram hér. Skemmtilegt að fá fregnir af þessum fundi, Hilmar. Nokkrir punktar:

    1. Steinarr nefnir grænu svæðin. Þétting byggðar í aðalskipulaginu er ekki á kostnað grænna svæða, heldur fyrst og fremst raskaðra svæða sem eru endurnýtt. Um þetta er sérstaklega fjallað og er einn helsti styrkleiki tillögunnar, því þetta hefur tekist þvert og kemur til móts við áhyggjur margra, því kannanir sýna að 57% Reykvíkinga tengja þéttingu byggðar við færri græn svæði.

    2. Magnús talar um hverfin í austurhluta borgarinnar. Ég held að hverfunum, þmt Breiðholti, Árbæ, Grafarvogi og Úlfarsárdal hafi aldrei verið veitt jafnmikil athygli og þeim sinnt af jafnmikilli kostgæfni í aðalskipulagsvinnu og í þessari tillögu. Sérstakt hefti fjallar um hvert hverfi fyrir sig, þau hafa verið greind og gögnum safnað um alla lykilþætti. 10 teymi arkitekta, skipulags og verkfærðinga hafa nú verið ráðin til að taka þessa vinnu við hverfaskipulag áfram í samráði við borgarbúa. Og þetta eru líka tímamót. Í mörgum tilvikum hefur ekki farið fram heildstæð skipulagsvinna í þessum hverfum frá því þau voru fyrst skipulögð, fyrr en nú.

    Kv. Dagur

  • Sveinbjörn

    Ef eitthvað á að gerast í dægurmálaumræðunni þá þurfa menn að vera gagnorðir og stuttorðir. Reynslusögur og myndlíkingar eru mikilvægar. En mikilvægast er að málshefjandinn fái ekki ákúrur fyrir að segja sína skoðun með sínum hætti.

    Aðalatriðið er það að nýtt aðalskipulag boðar nýjar áherslur þar sem útþennslan er stöðvuð, almenningssamgöngur bættar og flugvöllurinn fluttur.

    Það er málið og því skal fagnað.

  • Dennis Davíð

    Ég held að ein af ástæðum „bútasaums“ deiliskipulags í eldri hverfum hafi komið til vegna þess að einstakir lóðarhafar hafa óskað eftir auknu byggingarmagni á lóð sinni og skipulagsyfirvöld orðið að bregðast hratt við. Menn hafa nú áttað sig á því að þessi aðferð getur stuðlað að takmarkaðri gæðum byggðar og komið í veg fyrir heildræna hugsun í skipulagsgerð með fullri virðingu fyrir þeim sem unnu þetta skipulag. Húshliðar sitthvoru megin götu gátu t.d. verið óháðar hvor annari í skipulagi. Hér er Hilmar og skipulagsyfirvöld ekki að vega að þeim sem unnu að þessum verkefnum en ég er t.d. einn þeirra. Heldur er verið að benda á hvað betur mætti fara. Við verðum að hafa þroska til að ræða á málefnalegan hátt án þess að vera á þessum persónulegu nótum annars miður okkur ekki áfram.

  • Steinarr Kr.

    Vælubílinn á Magnús.

    Er voða hræddur um að þessi þéttingarárátta eigi bara eftir að fækka grænum svæðum, því það virðist aldrei mega bæta við á önnur svæði.

  • Jæja Magnús Birgisson, eigum við að hringja á vælubílinn eða hvað?
    Samkvæmt því sem að þú hefur fram að færa í umræðum á þessari síðu virðist allt vera nálægt því að vera ómögulegt í Reykjavík. Þú ert ekki dæmdur til þess að búa í Reykjavík ef þú býrð þá þar. Búseta er frjáls hér á landi eftir því er ég best veit.

    Bestu kveðjur.

  • Magnús Birgisson

    Sérstaklega skemmtilegt við þennan vettvang að hérna er miskunnarlaust drullað yfir kollega sem starfa við skipulagsmál og arkitektúr og hafa á undan farið.

    Sem betur fer er ég ekki einn af þeim…

    En…meirihluti Reykvíkinga mun í engu njóta „linulegu“ borgarinnar þar sem línan nær ekki til þeirra og nýtt aðalskipulag er því aðeins fyrir hluta Reykvíkinga einsog margoft hefur verið bent á. Íbúar í úthverfum einsog Breiðholti, Árbæ, Norðlingaholti, Grafarvogi, Grafarholti og Úlfarsárdal eru meirihluti kjósenda í Reykjavík og annað og meira en bara tilvonandi strætisvagnafarþegar.

    Nýtt aðalskipulag er alveg sérstaklega metnaðarlaust þegar kemur að úthverfunum og í engu er reynt að skilgreina þarfir þessara hverfa til langframa eða hvernig má mæta þeim.

    Það er ekki hægt að lesa litla frétt frá í gær um Baðhús Lindu öðruvísi en svo að þar er fyrirtækjaeigandi að kjósa með fótunum og flytur sig nær miðju höfuðborgarsvæðisins….í Kópavog.

    Skildum við fara að sjá meira af þessu? Fólkið hefur gert þetta…því skyldu fyrirtækin ekki fara í kjölfarið ?

    • Hilmar Þór

      Magnús Birgisson.

      Ég verð að segja að ég kann ekki við svona orðalag. Hér er ekki verið að “drulla” yfir neinn og það hefur aldrei verið gert.

      Skýr greinarmunur er gerður á verkinu og manninum eða mönnunum sem vinna verkið. Enda er það svo í skipulagsmálum að það er nánast aldrei svo að einn valdi niðurstöðunni. Skipulagsmál er teymisvinna umfram allt og getur aldrei orðið neitt annað. Hinsvegar er það þannig að fólk hefur skoðun á niðustöðunni og það er sjálfsagt að það hafi hana. Ég hef mína skoðun og t.a.m. þú þína og þær geta verið fullkomlega eðlilegar þó þær fari ekki saman.

      Ég hef margoft látið í ljós skoðanir mínar á ýmsum málum sem varða þennan málaflokk. Stundum hef ég hælt niðurstöðunni og stundum hallmælt henni, oftast með einhverjum rökstuðningi. Ég hef altaf skilið verkefnið frá manninum eða því fólki sem vann verkin. Haldið mig við boltann og látið manninn í friði og aldrei “drullað” yfir neinn. Ég frábið svona orðalag hér í athugasemdarkerfinu.

    • Magnús Birgisson

      Hilmar…

      Ef þetta…“Skipulagsmál höfuðborgarinnar hafa verið í miklum vandræðagangi undanfarin svona 25 ár og einkennst af “american quilt” þar sem bútarnir eru saumaðir saman eftir þörfum líðandi stundar og án heildaryfirsýn. Menn virtust ekki alminlega vita hverslags teppi þeir væru að sauma.“…er ekki að „drulla“ (afsakaðu frönskuna) yfir kollega þá veit ég ekki hvað það er….

      Ég held að menn hafi einmitt vitað nákvæmlega hvað þeir voru að gera og óþarfi að væna menn um vandræðagang eða skort á heildaryfirsýn vegna þess eins að menn hafa aðra sýn á hlutina.

      Davíð…Reykjavík er frábær…ekki breyta neinu !! Spurning hvort að þeir sem sjá ekkert nema vandamál í Reykjavík ættu ekki að flytja frekar…t.d. til Þrándheims eða Bergen ?

    • Hilmar Þór

      Þetta er auðvitað bara orðhengilsháttur. Þarna er ég á myndrænan hátt (heimilisiðnaður sem kallaður hefur verið bútasaumur) að skýra út við hverju nýja aðalskipulagið er að bregðast.

      AR2010-2030 gerir tilraun til þess að binda borgina alla saman í eina heild.

      Í AR2030 fellst auðvitað gagnrýni á það sem gert var í aðalskipulagsmálunum undanfarna áratugi hvað þetta varðar. Ef gagnrýnin flokkast undir einhvern ótugtarskap eins og þitt orðalag lýsir þá er það misskilningur og alls ekki tilgangurinn. Hvorki ég né höfundar AR2010-2030 erum að væna menn um eitt eða neitt. Eða að halda því fram að þeir hafi ekki vitað hvað þeir voru að gera. Þeir nálguðust bara skipulagið í bútum af ástæðum sem við þekkjum. Þeir virtust vera að fullnægja eftirspurn eftir lóðum. Sem er auðvitað sjálfsagður hlutur.

      En gamla skipulagið er sundurlaust þannig að víðast í hverfunum er ógerningur að búa án þess að eiga einkabifreið. Almenningsflutningar bera sig ekki og geta ekki mætt eðlilegum kröfum nútíma borgarskipulags hvað þetta varðar. Nú er verið að reyna að lagfæra þetta.

      Hinsvegar er ég sammála þér um að Breiðholtin eru nokkuð afsíðis hvað AR2030 varðar. En ég held að ástæðulaust sé að hafa áhyggjur af því. Það verður væntanlega tekið á Breiðholtunum og öðrum hverfum nánar í hverfaskipulagsvinnunni sem hafin er.

  • Dennis Davíð

    Tek undir með Hilmari. Aðalskipulagið virðist að mörgu leiti vera metnaðarfullt og nútímalegt skipulag. Það sem vakti sérstaka athygli mina á fundinum var eftirfarandi:

    a) Skipulagið er unnið þverpólitískt frá árinu 2006. Ekki pólitískur ágreiningur um það. Skilst að þetta sé í fyrsta sinn sem unnið er svona í Reykjavik. Þannig er von til þess að það fari ekki í endurskoðun strax eftri næstu kosnigar.
    b) Skipulagið leggur áherslu á þéttingu byggðar í eldri hverfum – engin ný úthverfi á næstunni.
    c) Engin háhýsi (yfir 5 hæðir) leyfð frá Snorrabraut að Ánanaustum og Hringbraut að Skúlagötu.
    d) Hverfisvernd í gamla miðbænum, sem er löngu tímbær.
    e) Hinn umdeildi flugvöllur skal víkja í áföngum.
    f) Linulegi miðbjæjarásinn frá Örfirsey að Keldum verður efldur en hann er í raun hinn eðlilegi miðbær Reykjavíkur sem hefur þróast þar sem hann vill vera hvað sem skipulagsyfirvöldum hefur fundist í gegnum tíðina.
    f) Hafnarsvæðið styrkt.

    Vonandi tekst að framfylgja þessu aðalskipulagi og fyrirbyggja að ekki verði látið undan þrýstingi sérhagsmuna á kosntað hina almennu. Hefði viljað sjá Hverfisverndina hafa áhrif á þau svæði í miðborginni sem verið er að skipuleggja núna t.d. við Laugaveginn, í Kvosinni og við Höfnina en þar eru áform sem mér sýnist að séu á skjön við markmið Hverfisverndarinnar. Eins finnst mér skipta máli að hlustað sé vel á íbúana og að þeir fái raunveruleg tækifæri til að hafa áhrif á hvernig borgin þeirra þróast því eins og sagt er í Aðalskiðpulaginu þá er „Borgin fyrir fólkið“

  • Um tillögu um að leggja niður flugvöll á höfuðborgarsvæðinu stendur þetta:

    „Það þarf að skoða hana með allt höfuðborgarsvæðið í huga og landsbyggðina. Öðruvísi er ekki hægt að komast að skynsamlegri niðurstöðu. Svo þarf auðvitað að ríkja almenn sátt um flugvallarmálið eins og aðalskipulagið allt“.

    Þetta skilja allir nema rétt rúmlega helmingur borgarfulltrúa!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn