Miðvikudagur 16.05.2018 - 14:12 - 8 ummæli

Kynning á deiliskipulagi – Fálæti og seinagangur.

 

Ég hef þrisvar sinnum gert athugasemd við auglýst deiliskipulag í kynningarferli hjá Reykjavíkurborg. Athugasemdirnar vörðuðu ekki einkahagsmuni mína heldur almannahagsmuni, staðaranda og ásýnd þeirrar Reykjavíkur sem við viljum mörg standa vörð um.

Í fyrsta sinn var það vegna deiliskipulags Landspítala Háskólasjúkrahúss við Hringbraut þar sem ég taldi að deiliskipulagið stæðist ekki stefnu hins opinbera í mannvirkjagerð frá árinu 2009. Þá gerði ég athugasemdir við vegna staðsetningarinnar og umferðamál. Svörin komu seint og voru að mínu mati ófullnægjandi. Það má geta þess að það komu að mér er sagt 817 athugasemdir við deiliskipulagið og ég hef ekki heyrt að neinu hafi verið þokað í framhaldinu.

Í annað sinn sem ég gerði athugasemd við deiliskipulag var þegar deiliskipulag við Austurhöfn var auglýst. Það sem nú er kallað Hafnartorg og er milli Tryggvagötu og Hörpu. Þar taldi ég vanta skilgreiningu í skilmála um húsagerð og staðaranda Kvosarinnar. Ég vísaði í ágæta greiningu Guðna Pálssonar og Dagnýjar Helgadóttur arkitekta um staðarandann í deiliskipulagi Kvosarinnar frá 1986 sem enn er í gildi. Ég benti einnig á að hvergi í deiliskipulagi Austurhafnar væri gert ráð fyrir samgönguás (nú Borgarlína) sem þarna á að fara um samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur AR2010-2030 en samgönguás aðalskipulagsins var sérstakt áhugamál mitt. Svar skipulagsvaldisns kom, en ekki var tekið á þessum atriðum sem varðaði Borgarlínuna og ásýnd húsanna. Nú eru þessi hús risin eða eru að rísa og sitt sýnist hverjum.

Í þriðja sinn gerði ég athugasemd við deiliskipulag á lóðinni Hringbraur 29 þar sem átti að byggja heilmikinn stúdentagarð sem skyggði á eina fallegust götumynd borgarinnar þar sem Gamli Garður og Þjóðminjasafnið kallast á með sérlega sjaldgæfum og fallegum þokka. Nú í dag, 16. maí 2018, réttum níu mánuðum eftir að umsagnarfresturinn rann út hefur mér enn ekki borist svar við athugasemdinni eða þakklæti fyrir áhugann og umhyggjuma vegna þróun borgarinnar.

Ég var ekki einn um að senda athugasemd vegna þessa deiliskipulags. Það gerðu líka einir sjö fyrrverandi formenn Arkitektafélags Íslands, einn fyrrverandi þingmaður og ráðherra, einn prófessor við Háskóla Íslands og einn starfsmaður HÍ til viðbótar auk mín. Minjastofnun hafði líka gert athugasemd við þetta.

Ekki veit ég hvort þessum aðilum hefur borist svar við athugasemdunum en ég hef ekkert heyrt. Það er óhætt að fullyrða að skipulagsyfirvöld sýna þessu áhugasama fólki sem er að huga að almannahagsmunum og leggja í það mikla vinnu, mikið fálæti.

Ég fyrir minn hlut lagði mikla vinnu í mínar athugasemdir í öllum þessum tilvikum. Þurfti að lesa greinagerðir og draga út úr þeim atriði sem mér fanst skipta máli.

Reynsla mín af öllu þessu segir mér að það fylgir engin hugur að baki þeirra lögformlegu kynninga sem skipulagsyfirvaldinu er skylt að sinna. Lærdómurinn er sá að það er tilgangslaust að leggja þessa vinnu á sig. Mér finnst eiginlega að skipulagsvaldið sé að gera grín að samfélagslega ábyrgum borgurum með þessu verklagi.

+++

Efst er mynd af nýlegri auglýsingu um deiliskipulag sem birtist í blöðum fyrir helgi. Í mínum huga er þetta verklag sýndarsamráð eins og dæmin sanna, sem að ofan er getið. Ég hefði viljað gera fleiri athugasemdir eins og vegna bygginga framan við útvarpshúsið við Bústaðaveg en hafði ekki orku í það einkum vegna þess að manni er varla svarað og alls ekki þakkað fyrir að veita skipulagsmálum athygli og umhyggju.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Sigrún Gunnarsdóttir

    Er þetta ekki í samræmi við kannanir. Þjónusta borgarinnar er með því versta meðal sveitafélaga. Liggur þar á botninum.

  • Helga Gunnars

    Þetta er alger dónaskapur af skipulagi borgarinnar að virða fólk ekki viðlits eins og í þessum málum. 9 mánaða bið er það sama og að svara alls ekki. Punktur!

    • Hilmar Þór

      Sammála þér þarna Helga. Ef maður fær ekki svar innan 9 mánaða í þessum hraða rafræna heimi þá skilgreini ég það sem svo að manni sé bara alls ekki svarað. Þetta hefði þurft að koma fram í pistlinum.

  • Fyrst fagmönnum á borð við Hilmar er ekki einu sinni svarað eða þakkað fyrir framlag sitt, ólaunaða vinnu og auðsýndan áhuga hvers megum við hin þá vænta?

    Þetta er ekkert annað en ósvífin sýndarmennska og leikrit sem borgaryfirvöld með Dag og Hjálmar Sveinsson í boddi fylkingar setja á svið.

    Hrokinn og ósvífnin þekkir engin takmörk.

  • Það er einkennilegt að svona smávægileg samskipti þurfi að ganga svona hægt og seint. Þetta ætti að vera auðvelt að kippa í liðinn ef vilji er fyrir hendi.

  • Hilmar Þór

    Það er rétt að taka fram að ég óskaði sérstaklega eftir að fá staðfest að umsögn mín um Gamla Garð væri móttekin.

    Ég fékk um hæl svar þar sem stóð stuttlega

    „móttekið“.

    Ekkert annað, Ekkert takk og engar málalengingar.

    Þrem vikum seinna spurðist ég fyrir um málið og fékk það svar að málið yrði ekki tekið fyrir fyrr en 20. september 2017 eða 5 vikum eftir skilafrest athugasemda.

    Í endaðan janúar eðarúmum 5 mánuðum eftir skilafrest spurðist ég enn fyrir og fékk eftirfarandi svar

    „Góðan daginn Hilmar.
    Nú þekkjum við ekki ástæðu þess að ekki sé búið að afgreiða erindið en þú munt fá bréf með svörum skipulagsfulltrúa og upplýsingar um afgreiðslu málsins þegar þar að kemur“.

    Ekker takk fyrir áhugann eða afsökunarbeiðni á drættinum á svarinu .

    Ég upplifi þetta Góðann dagin Hilmar sem yfirlæti.

    En kannski er maður viðkvæmur

    Síðan þá eru liðnir fjórir mánuðir og 9 mánuðir fra umsagnarfresti og ég er löngu búinn að missa áhugann á þessum samskiptum.

  • Þetta er „samráðið“ og „gegnsæið“ – gott ef ekki líka „lýðræðisleg aðkoma íbúa“ að málum höfuðborgarinnar.

    Dagur B. og krakkarnir klikka ekki.

  • Pétur Sigurðsson.

    Ég var einmitt fyrir stuttu að velta fyrir mér þessu Gamla Garðs máli. Fjölmiðlar hafa ekki fylgt þessu eftir svo ég hafi tekið eftir. Af hverju er fólki ekki svarað? Annað hvort er buið að hætta við, eða málið er í biðstöðu eða í þriðja lagi að það á að halda áfram með málið. Er svo flókið að leyfa áhugasömum að fylgjast með og bara svara örstutt og þakka áhugann?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn