Sunnudagur 23.02.2020 - 23:15 - Rita ummæli

Kynningarferli í skipulagi – Elliðaárdalur m.m.

 

 

 

Hinn heimsfrægi borgarskipulagsfrömuður og arkitekt Jan Gehl, var eitt sinn spurður hvernig best væri að nota arkitekta til þess að breyta umhverfinu til hins betra?

Gehl svaraði að það væri meginverkefni arkitektsins að upplýsa íbúana um vandamálin og lausnirnar. Það sjá ekki allir vandamálin sem við er að stríða og enn færri tækifærin. Ef þessu er miðlað til íbúanna vex alltaf áhugi þeirra fyrir arkitektúr og skipulagi.

Gehl  telur samráðsferlið mikilvægan hvata til þess að glæða áhuga notendanna á umhverfinu og fá kröfuharðari og upplýstari neytendur. Hinn reyndi arkitekt leggur áherslu á kynningu, umræðu og þátttöku sem flestra í ferlinu.

Gehl telur að ef ekki er tekið tillit til íbúanna og þeir fá ekki örvun til þátttöku í ferlinu, missa þeir áhugann og niðurstaðan verður ekki eins farsæl.

Ef umræðunni er beint að borgurunum, þá fara hlutirnir af stað, segir Gehl. Svo þurfa þeir borgarar sem blanda sér í umræðuna að fá eitthvað til baka. Fá á tilfinninguna að á þá sé hlustað, að sjónarmið þeirra skipti máli.

Þetta vita allir arkitektar og líklega stjórnmálamenn líka. Gallinn er bara sá að þetta er tafsamt ferli. Samráð tekur langan tíma en er nánast alltaf til mikilla bóta. Í raun er skipulagsvinna tómt vesen, svoldið eins og að reka stórt mötuneyti. Það er aldrei hægt að gera öllum til hæfis.

Við verðum líka að muna að það tekur langan tíma að byggja borg og það á að taka langan tíma. Það er mikilvægt að borgir byggist upp hægt og í samhljómi við það sem fyrir er og í mikilli sátt við þá sem í borginni búa. „Róm var ekki byggð á einum degi“. Best er ef borgir byggjast upp hægt og með virðingu fyrir staðarandanum.

Ég hef þrisvar gert formlega athugasemd við auglýst deiliskipulag í kynningarferli hjá Reykjavíkurborg. Athugasemdirnar vörðuðu ekki einkahagsmuni mína heldur almannahagsmuni. Í fyrsta sinn fann ég að staðsetningu Landspítalans við Hringbraut. Í annað sinn taldi ég að gera ætti auknar útlitskröfur í deiliskipulagi við Hafnartorg þar sem staðarandi Kvosarinnar væri áhrifavaldur og að gert væri ráð fyrir Borgarlínunni sem þar á að koma. Og í þriðja sinn taldi ég óráð að byggja framan við Gamla Garð á Háskólasvæðinu eins og áformað var. Allt með faglegum og jákvæðum rökum.

 

Það er skemmst frá því að segja að athugasemdirnar voru nánast lagðar til hliðar. Mér hefur t.d. enn ekki borist svar við þeirri síðustu, vegna viðbyggingar við Gamla Garð, þó liðin séu tvö og hálft ár frá þvi að umsagnarfresturinn rann út. Og nú eru þeir byrjaðir að byggja þarna án þess að hafa lokið lögbundnu athuasemdaferli með því að svara athugasemdunum. Það skal samt tekið fram að ekki er verið að byggja það hús sem kynnt var á sínum tíma. Heldur annað, sem er miklu betra.

 

Reynslan af þessu segir að það fylgir enginn hugur að baki þeirri lögformlegu kynningu sem skipulagsyfirvaldinu er skylt að sinna. Lærdómurinn er sá að það er nánast tilgangslaust að leggja á sig vinnu við gerð athugasemda eins og dæmin sanna. Það má segja að það sé verið að gera grín að fólki með þessu framferði þegar athugasemdum er ekki einusinni svarað.

 

Undanfarið hefur mikil umræða verið um Laugaveg sem göngugata. Það er ljóst að Laugavegur mun verða göngugata þegar fram líða stundir og við eigum að stefna að því. Á það hefur verið bent að gera götuna, til að byrja með, að „PPS“ götu (pedestrian priority street) þar sem gangandi hafa forgang. Þetta væri millileikur sem án vafa mun leiða á eðlilegan, varfærnislegann og mjúkan hátt að þeirri æskilegu niðurstöðu sem stefnt er að. Í mínum huga mun verða víðtæk sátt um slika nálgun. En í þessum áformum eins og víða í skipulaginu virðist borgin ekki vilja samtal og samráð þar sem stefnt er að sáttum, en velur frekar, eins og oft, að fara fram með offorsi og ófriði að tilsettu markmiði ef marka má umfjöllun í fjölmiðlum.

 

Nú í vetur hefur verið mikil umræða um hvort byggja eigi nokkur þúsund fermetra gróðurhvelfingu á jaðri Elliðaársdalsins. Hollvinasamtök Elliðaárdalsins og fleiri hafa gert athugasemdir og eru að safna undirskriftum í mótmælaskyni. Ég þekki ekki þetta mál og ætla ekki að taka afstöðu til þess. Ég tek hins vegar eftir því að þeir sem hafa með þetta að gera í stjórnsýslunni grípa til varna og segja að þetta sé allt í samræmi við skipulag og að þetta sé vel unnið af hinu færasta fólki. Svo tala þeir þetta niður. Jafnvel borgarstjórinn í Silfri Egils á sunnudaginn var talaði um að þetta væri ekki merkilegt svæði og að þarna væru gamlar grúsgrafir og tippur vegna framvæmda við Miklubraut á sínum tíma. Svo deila menn um hvort Elliðaárdalurinn sé sköpunarverk almættisins eða hvort hann sé mannanna verk.

 

Svipuð voru rök skipulagsyfirvalda þegar Víkurgarður var í umræðunni þar sem að sögn er unnið í andstöðu við lög um verndun og friðhelgi kirkjugarða. Vörnin var einkum sú að þetta væri allt faglega unnið. Manni kemur í hug kennisetningin „Það er mikilvægt að gera hlutina rétt, en það er enn mikilvægara að gera réttu hlutina“ sem virðist snúið við í setninguna „það er mikilvægara að gera hlutina rétt en að gera réttu hlutina“

 

Hugmyndin er hvorki betri né verri þó faglega sé unnið og verkið unnið rétt samkvæmt öllum settum reglum og venjum eða með vísan til þess hvernig Elliðaárdalurinn hafi verið í fyrrndinni. Aðalmálið er að þeir borgarar sem sett hafa sig inn í málið og tjáð sig, vilja þetta ekki.

Annað nýlegt dæmi er barátta íbúa og íbúasamtaka um að fara varlega varðandi svæðið umhverfis Sjómannaskólann. Þar hafa samtökin Vinir Saltfiskmóans og Vinir Vatnshólsins sagt borgina beinlínis fara með blekkingar í kynningu á deiliskipulaginu þar.

Einhvernvegin hefur borginni ekki tekist að höndla þessi mál þannig að sátt náist og traust myndist.

Skipulagsyfirvöld þurfa að brjóta odd af oflæti sínu, vera auðmjúk og fara að ráðum Jan Gehl. Þau eiga að virkja borgarana til samstarfs og taka öllum athugasemdum fagnandi, þakka fyrir þær, gera málamiðlanir og taka tillit til athugasemda þegar það á við. Forðast átök og átta sig á því að lýðræðið á ekki einungis að vera virkt á kjördegi, heldur alltaf þegar tækifæri gefst.

Það er skipulaginu ekki til framdráttar að skella skollaeyrum við framlagi áhugasamra borgara, sem vilja vel.

+++

Efst er loftmynd af því svæði sem nú er deilt um og varðar deiliskipulag á Þróunarreit, Þ73, sem heitir svo samkvæmt aðalskipulagi. Fylgjendur nefna það diliskipulag við Stekkjabakka en andstæðingarnir deiliskipulag í Elliðaárdal. Þessi skilgreining lýsir nokkuð umræðunni sem er í raun sú að einhver hópur vill byggja þarna og annar ekki. Það er eins og deiluaðilar tali um þrjú svæði.

Sá sem þetta skrifar gerði athugasemd við deiliskipulag vegna Landspítala Háskólasjíkrahús við Hringbraut, sem einnig hét Nýr Landspítali og síðar Hringbrautarverkefnið. Athugasemdin gekk út á umferðamál og fl. Þá var einnig í athugasemdinni talið að deiliskipulagið bryti Menningarstefnu hins opinbera í mannvirkjagerð um aðlögun að þeirri byggð sem fyrir var. Ekkert tillit var tekipð til athugasemdanna og má segja að Menningarstefnan sem var alveg ný á þeim tíma hafi dáið drottni sínum enda aldrei, svo vitað sé, látið reyna á hana.

Í annað sinn sem höfundur gerði athugasemd við deiliskipulag var vegna Hafnartorgs og Austurhafnar. Hann taldi að gera ætti auknar útlitskröfur í deiliskipulagi við Hafnartorg þar sem staðarandi Kvosarinnar væri áhrifavaldur og að gert væri ráð fyrir Borgarlínunni sem þar á að koma. Hvorugt var gert, sem sætti furðu. Sérstaklega vegna Borgarlínuna sem var markeruð í aðalskipulagi en deiliskipulag ber að vera í samræmi við aðalskipulag samkvæmt lögum.

 

Og í þriðja sinn taldi höfundur óráð að byggja framan við Gamla Garð á Háskólasvæðinu eins og áformað var. Það er skemmst frá því að segja að athugasemdirnar voru lagðar til hliðar.  Ekki hefur enn borist svar þó liðin séu tvö og hálft ár frá þvi að umsagnarfresturinn rann út þann 17. ágúst 2017. Og nú eru þeir byrjaðir að byggja þarna án þess að hafa lokið lögbundnu athuasemdaferli með því að svara athugasemdunum. Það skal samt tekið fram að ekki er verið að byggja það hús sem kynnt var á sínum tíma. Heldur annað, sem er miklu betra.

 

Annað nýlegt dæmi er barátta íbúa og íbúasamtaka um að fara varlega varðandi svæðið umhverfis Sjómannaskólann. Þar hafa samtökin Vinir Saltfiskmóans og Vinir Vatnshólsins sagt borgina beinlínis fara með blekkingar í kynningu á deiliskipulaginu þar.

 

Undanfarið hefur mikil umræða verið um Laugaveg sem göngugata. Það er ljóst að Laugavegur mun verða göngugata þegar fram líða stundir og við eigum að stefna að því. Á það hefur verið bent að gera götuna, til að byrja með, að „PPS“ götu (pedestrian priority street) þar sem gangandi hafa forgang. Þetta væri millileikur sem án vafa mun leiða á eðlilegan, varfærnislegann og mjúkan hátt að þeirri æskilegu niðurstöðu sem stefnt er að. Í mínum huga mun verða víðtæk sátt um slika nálgun. En í þessum áformum eins og víða í skipulaginu virðist borgin ekki vilja samtal og samráð þar sem stefnt er að sáttum, en velur frekar, eins og oft, að fara fram með offorsi og ófriði að tilsettu markmiði ef marka má umfjöllun í fjölmiðlum.

+++++

Pistill þessi birtist fyrst  Kjarninn.is sunnudaginn 16 febrúar 2020

+++

https://kjarninn.is/skodun/2020-02-14-kynningarferli-i-skipulagi-ellidaardalur/

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn