Sunnudagur 09.11.2014 - 01:49 - 6 ummæli

Kynningarfundir og sýning í Ráðhúsi Reykjavíkur

fundur_i_tjarnasal_1

Í undirbúningi er kynningarfundur og sýning um uppbyggingu íbúðahúsnæðis í Reykjavík á næstu misserum.

Þetta verður með svipuðu sniði og kynningarfundur og sýning um ýmsar framkvæmdir í borginni, sem efnt var til í Ráðhúsinu fyrir ári síðan.  Sú uppákoma var í byrjun kosningavetrar, sem hægt var að túlka sem upphaf kosningabaráttunnar.

Nú liggur sú staða ekki fyrir. Nú er ekki hægt að líta á þetta sem kosningauppákomu helur markvisst upplýsinga flóð til borgaranna í önnum dagsins og miðri vinnunni.

Sýningin verður í Ráðhúsinu 12. – 19. nóvember og kynningarfundur fyrir almenning verður haldinn fimmtudaginn 13. nóvember milli klukkan 17.00 og 19.00.

Ætlunin er að miðla því helsta sem er á döfinni varðandi uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Reykjavík á næstu misserum á vegum einkaaðila og borgarinnar sjálfrar ef ég skil rétt.

Áhersla í kynningum verður lögð á samþykkt verkefni og framkvæmdir sem eru nýhafnar. Einnig mun borgin draga fram upplýsingar um verkefni á undirbúningsstigi hjá borginni og einkaaðilum.

Samhliða kynningu hvers verkefnis mun áhersla lögð á að ná fram heildarsýn á uppbyggingu íbúðahúsnæðis í borginni allri á næstu árum.

Kynningarfundir og sýning verða í Ráðhúsi Reykjavíkur. Fagfólki, fjárfestum og fyrirtækjum verður boðið sérstaklega. Auk þess verður opin kynning fyrir almenning sem verður fimmtudaginn 13. nóvember kl.: 17.00 – 19.00.

Um að gera að mæta og kynna sér það sem er í vændum í höfuðborginni, mynda sér skoðun og vera virkur í umræðunni.

Ég fór á samskonar fund og sýningu í fyrra og þótti mjög upplýsandi. Þá var það Páll Hjaltason arkitekt og formaður skipulagsráðs sem leiddi fundinn ef ég men rétt.

Nú verður það Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sem fer yfir málin.

Það verður spennandi að sjá og heyra hvað hefur breyst, hvernig hefur gengið á því ári sem liðið er og hvað er nýtt á nálinni.

Hjálagðar eru nokkrar myndir sem teknar voru við sama tækifæri fyrir einu ári. Ef þetta verður með svipuðum hætti í ár verður hér á ferðinni veisluhlaðborð með margvíslega rétti sem varða arkitektúr, skipulag og staðarprýði.

10367601_10152743605010042_7034039540277412210_n

10177518_10152743605695042_6742244807259103451_n

10730864_10152743605140042_2198203519400783310_n

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • „Veisluhlaðborð með margvíslega rétti sem varða arkitektúr, skipulag og staðarprýði“. Gott ef satt er og mikil verður þá breytingin frá því sem tíðkast hefur síðustu áratugina. Arkítektar hafa naumast komið við sögu á því tímaskeiði enda húsagerð með þeim hætti, að hver sem er getur rissað upp kassana sem hafa farið eins og logi yfir akur í öllum sínum ljótleika. Heilu hverfin á Reykjavíkursvæðinu eru mörkuð þessum óskapnaði sem helst má líkja við úrelt blokkarhverfi austan járntjaldsins sáluga.
    Skipulagsmálin eru svo önnur saga og eru ekki í betri farvegi. Krafan er þéttleiki og enn meiri þéttleiki og svo þétt er byggt, að fólk getur ekki gengið um íbúðir sínar nema kappklætt að öðrum kosti hafa dregið fyrir alla glugga með þykkum gluggatjöldum.
    Það væri svo fróðlegt að finna þann skipulagsfræðing eða arkitekt sem getur með góðri samvisku og af heilindum bent á sambýlishús á svæðinu, byggt á síðustu tveimur áratugum, sem kalla má staðarprýði.
    Vonandi boðar kynningarfundurinn í Ráðhúsinu nýja og betri tíma í húsagerðarlistinni og þar gegna borgaryfirvöld lykilstöðu. Á þeim bæ á að setja fram kröfur og ákveðnar leikreglur en ekki eins og verið hefur að jánka öllum kröfum byggingarverktaka nánast skilyrðislaust.
    Og það veit á gott, að borgarstjórinn hefur breytt um stíl í meðferð mála. Nú vefur hann ekki lengur hlutina inní málskrúð. Hann tekur af skarið.

    • Eysteinn Jóhannsson

      Það er bara þannig að engin framför hefur átt sér stað í gerð fjölbýlishúsa síðan blokkirnar við Hjarðarhaga voru byggðar og í sklipuilagi hefur ríkt tómur ruglingur. En við verðum að vona það besta. kannski er þessi kynning liður í því að færa umræðuna úr bakherbergjum flokkapólitíkurinnar og klíkum hönnuðanna út á götuna til fólksins.

      Það væri vel.

      En nú ríkir í borginni betri Dagur en sá sem sat í stólnum fyrr á árum!

  • Virðingarvert framtak og upphaf samtals um skipulagsmál.

  • Þór Saari

    Það þarf einnig að endurtaka sýninguna með innsendu tillögunum um uppbyggingu á flugvallarsvæðinu frá 2008 en það voru sendar inn 136 tillögur frá öllum heimshornum. Margar avleg frábærar. Sjá betur hér:
    http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1193064/

    • Hilmar Þór

      Sammála þessu.
      Spurning hvort mögulega væri hægt að nota tækifærið og sýna tillögurnar nú í vikunni?

  • Gísli Guðmundsson

    Gott að sjá að stjórnmálamenn huxi til kjósenda líka að afstöðnum kosningum og engar í sigtinu!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn