Föstudagur 24.06.2011 - 12:04 - 29 ummæli

Lækjargata, „Glæsilegt andsvar“

 

Ómar Ragnarsson skrifaði í gær góðan pistil um byggingar í miðborg Reykjavíkur þar sem “glæsilegt andsvar við steinsteypubáknatrúnni” á horni Lækjargötu og Austurstrætis er til umfjöllunar og segir m.a.:

“Fyrir 40 árum var stefnan varðandi byggingar í miðborg Reykjavíkur skýr:  Ryðja skyldi burtu „fúaspýtukofum“ á borð við Bernhöftstorfuna og reisa í staðinn glæsilegar steinsteypuhallir, nýtt Stjórnarráðshús í stað Bernhöftstorfunnar og verslunar- og skrifstofuhallir eða íbúðablokkir, hvar sem því yrði við komið. 

Við vesturenda Austurstrætis reis tákn steinsteypuáráttunnar, Morgunblaðshúsið, og elsta kvikmyndahús Norðurlanda, Fjalakötturinn, var rifinn”. 

……..

Og Ómar heldur áfram:

“Raunar finnst mér það ekki fjarstæð framtíðarsýn að þegar Morgunblaðshúsið sé orðið nógu gamalt og lúið verði það jafnað við jörðu og húsin, sem þar stóðu áður endurreist, verði þetta fyrsta hjarta Reykjavíkur loksins farið að líkjast því sem það hefði alltaf átt að vera. 

Svona steinsteypubákn hafa víða erlendis verið brotin niður og eldri húsagerðir reistar í staðinn, ekki aðeins vegna sögulegra sjónarmiða, heldur hefur reynslan sýnt að það borgar sig peningalega að búa til aðlaðandi og manneskjulegt umhverfi. 

Húsin, sem voru endurreist á horni Austurstrætis og Lækjargötu eru glæsilegt andsvar við steinsteypubáknatrúnni, sem enn má sjá í fullum blóma í formi niðurníddra húsa, sem menn hafa keypt að því er virðist til þess að láta þau eyðileggjast svo að hægt verði að reisa í staðinn steinsteypubákn. 

Ekki var svo lítill slagurinn sem stóð um húsin tvö vestast við Laugaveginn og kyrjaður söngurinn um „ónýtar fúaspýtur“ og „öfgafulla varðveislustefnu“.

Sem betur fer tókst Ólafi F. Magnússyni og fleiri góðu fólki að bjarga þessum húsum og ekki má gleyma stórgóðu framlagi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar þegar hann kynnti samsvarandi málefni frá stórum og smáum borgum í Evrópu og sýndi fram á tvöfalt gildi varðveislustefnunnar, hið menningarsögulega gildi og hið efnahagslega og þjóðfélagslega gildi”. 

Af þessu tilefni er ástæða til að hugleiða spurningu Hildigunnar Sverrisdóttur arkitekts í fyrirlestri sínum á dögunum. En hún spurði, hvað mundi vera gert ef t.d. Njála hyrfi úr öllum bókahillum landsmanna? Yrði ráðinn ritfær maður, til dæmis Andri Snær Magnason, til þess að skrifa bókina aftur og byggja hana á samtölum við þá sem höfðu lesið hana og ýmsum rannsóknum?

Hildigunnur vildi sjálf ekki svara þessu en það vil ég gera.

Mitt svar er: Já.

Ég þakka Ómari Ragnarsyni fyrir góða grein sem ég tók bessaleyfi og birti kafla úr. Slóðin að pistli Ómars er þessi:

http://omarragnarsson.blog.is/blog/omarragnarsson/entry/1175538/

Húsin á horni Lækjargötu og Austurstræti er endurreist samkvæmt teikningum frá arkitektastofunum Argos, Gullinsnið og Studío Granda og ber verkið höfundum sínum gott vitni.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (29)

  • Prufa

  • Hilmar Gunnars

    ‘I like preservation more when it is completely spontaneous and accidental.’ – Rem Koolhaas

  • Eysteinn J.

    Arkitektar þurfa að vera sammála um þá takta og þá tóna sem miðborg Reykjavíkur á að gefa frá sér. Það kann ekki góðri lukku að stýra þegar þeir sem eru í arkitektakórnum hér á landi syngja sitt hvort lagið í sitt hvorri tóntegundinni og í ruglingslegum takt. Allt í nafni listarinnar og persónulegrar „skoðanna“ sinna á byggingarlistinni og anda staðarins.

    Er ekki upplagt að arkitektar fari að ræða saman um þessi mál í fullri alvöru?.

    Annars eru þetta flott ummæli hér að ofan.

  • Árni Ólafsson

    Umhugsunarefni:
    Afdrif módernismans (hvað sem um hann má segja annars) ættu að vera viðfangsefni húsverndar. Templarahöllin við Eiríksgötu er nefnd – hún var mjög gott dæmi um móderníska byggingu. Lídó/Tónabær er horfinn. Bæði húsin góðir og vel gerðir fulltrúar ákveðinnar hugmyndafræði og byggingarstíls. Þau hafa verið afmáð – þ.e. pakkað inn í einstaklega óspennandi umbúðir þar sem engin virðing er borin fyrir „upphaflegri gerð” þeirra.

  • Eitt sinn þegar ég var á ferð í Ármúlanum spurði ég 14 ára son minn hvað honum findist um svona nýtísku hús (Ármúla 1-3). „Nýtísku hús? þettta eru gömul hús“ svaraði hann.
    Húsin sem eru í útrýmingarhættu í dag eru hús sjötta og sjöunda áratugarinns. Við sjáum þau hverfa eitt af öðru, Templarahöllin hvarf inní gráman, Hótel Esja varð að einhverju öðru, menn vilja Almennar tryggingar feigar o.s.f.
    Það er eins og hverri kynslóð liggji lífið á að losa sig við það sem er næst þeim í tíma. Torfbæir, báujárnshús, braggar og nú „modernismi“ sjötta og sjöunda áratugarinns. Ósk mín er að húsverndarmenn, sem ég tel mig einn af, víkki aðeins sjóndeildarhringinn. En varðandi horn Austurstrætis og Lækjargötu tel ég að betra hefði verið að eyða fé í að viðhalda því sem við höfum en í að byggja gamalt nýtt.

  • Hér eru að verki að hluta sömu arekitektar og teiknuðu hornið Túngata/Aðalstræti. Svipuð lausn en samt öðruvísi.

    Athyglisvert og ágætt.

    Það eru allavega til arkitektar sem ganga gegn straumnum í stétt þeirra.

  • Svona mistök eins og morgunblaðshúsið eiga sér enn stað. Sjáið t.d. svarta kumbaldann í Tryggvagötu, á bak við Naustið. Hvað voru arkitektinn sem teiknaði þetta og skipulagsfulltrúinn sem samþykkti þetta að drekka eiginlega?

  • Sveinbjörn Sigurðsson

    Það er mikið að gerast í húsverndunarmálum og þróunin gengur í rétta átt. Varðandi steinsteypuna sem Magdalena og Andri Snær nefna þá er ég sammála þeim. Oll þessi hús, Mogginn og Almennar eiga að fá grið. Það hefðu líka Kveldúlfsskálarnir, Völundur og SS húsin við Skúlagötu átt að fá. það er mikil eftirsjá í þeim. Hugsið ykkur LHÍ staðsettann í þessum gömlu iðnaðarhúsum.

  • Ég held að það sé eitthvað rétt í því sem sagt er að ofan að í þessum efnum er gjá milli magra arkitekta og þjóðarinnar.

    Ég hef ferðast mikið á einkabíl um Evrópu og allstaðar sem maður sér skilti með áletruninni; Gamla stan, Vieille Ville, Old Town, Centro Storico, Oude Stad eða þvíumlíkt þá ekur maður beint þangað. Og viti menn að þar er krögt af fólki og þar vilja allir vera og þar er gott að vera.

    Þeir arkitektar sem ekki þora að velja tíma og byggja upp eins og gert er á umræddu horni í Reykjavík vilja láta “Gamla Stan” hverfa!!! Það er bara alls ekki hægt að túlka t.d. orð Halldórs og fl. öðruvísi því að þeir vilja ekki byggja eins og áður í hvert sinn sem hús brennur, úreldist eða slummast. Með þessum hugsunargangi hefðu miðborgir allra landa breyst 95% á svona 100 ára fresti. Eina sem eftir stæði væru kirkjur og þvíumlíkar byggingar (hugsanlega)

    Ég bæti við að þó Halldór hafi skrifað þetta komment þá þarf þetta ekki að vera þetta sé hans skoðun. Hann segist hafa efasemdir um þessa uppbyggingu en skírir rökin fyrir skoðuninni ágætlega út. Kannski er þetta diplomasía hjá honum og í raun sé hann mjög á móti uppbyggingu af þessum toga.

  • Gerðarmóri

    Að mörgu er að hyggja, en ég held að rétt væri að endurskrifa Njálu

  • Hilmar Gunnars

    Ég fagna athugasemdum Halldórs Eiríkssonar og finnst eins og Andri Snær slái naglann á höfuðið með setningunni

    „Það vantar sérvisku eigandans, persónuleikann.“

    Það er einmitt málið; markmiðið var að endurreisa einhverja kofa í „upprunalegri“ mynd. Það var allt of sumt. Einhver borgarstjóri mætti á svæðið og lýsti yfir endurreisn húsa í sinni upprunalegri mynd, allt í nafni poppulisma, eða hvað ?

    Vert er líka að huga að hverskonar starfsemi fer fram í húsunum. Ef til vill hefði annarskonar starfsemi verið vænlegri til árangurs. Starfsemi sem væri meira opin almenningi. Opna inn á torgin eins og Andri Snær bendir réttilega á. Ennfremur faldist þarna sóknarfæri til að virkja Lækjartorgið með þessari framkvæmd.

    Ég fagna endurkomu timburhúsa og vona að þau verði fleiri.

  • „Mörður hét maður og var kallaður gígja, eða fiðla, nema það hafi verið Diddi fiðla. Anyway. En hann var mjög mjög klár. Víkur nú sögunni til…“
    Sigurður Guðmundsson gaf steinunum við Sæbraut merkingu með því að pússa þá, veita þeim athygli og klappa þeim. Þorsteinn Gylfason sagði að menning væri að gera hlutina vel. Að sjóða ýsu vel væri menning. Þegar hús eru talin hvað ljótust er freistandi að elska húsið og pússa það. Húsið milli Hótel Borgar og Reykjavíkurapóteks fer í taugarnar á mörgum, en það er fín brú og fyllir upp í torg sem samanstendur af byggingum frá öllum áratugum 20. aldar, auk loka 19. aldar. Asparfell er alltaf tilkomumikið að sjá – og alltaf eins og menn séu að stjúka því. Eftir að gert var við skrifstofuskrímsli við Lágmúla, sá maður að sá komplex gæti verið fallegur sem heild – ef menn stjúka húsunum og elska fyrir það sem þau eru – Nordica hefði mátt fá slíka meðferð í staðinn fyrir grámann. Við Hafnarstræti er búið að gera upp tvö gömul hús en það er eins og enginn vilji elska þau og þessi samrændi litur forn stingur í stúf við litagleðina sem maður almennt tengir við gömlu húsin í miðbænum. Það vantar sérvisku eigandans, persónuleikann. Hvar er gulur og rauður? Af hverju fölgrænn? Best fer á að fólk sinni sögu og gildi húsa sinna – það er aldrei hægt að miðstýra merkingunni algjörlega, negla niður tíma sem er valinn sem hinn eilífi tími hússins en án reglugerða og ramma virðast eyðingaröflin fara á stjá. Eins og sjá má þegar þrjótar taka söguna í gíslingu og heimta lausnargjald. Kannski var þetta nauðsynlegur neyðarhemill. En á báðum reitum hafa opnast rými utandyra sem ekki voru til áður – bæði eru læst með rimlum, út af fylleríí og pisseríi? Af hverju er þá verið að opna torg eða lóðir, ef enginn má vera þar?

  • Stefán Guðmundsson

    Eftir að hafa lesið texta Ómars og allar athugasemdirnar er ég eiginlega hálf ruglaður.

    Finn til vanmáttar og hef enga skoðun.

    Það er alveg rétt að það ber vott um kjarkleysi að endurbyggja húsin á þessum stað (Þorgeir (seinni) og það er fífldirfska en ekki kjarkur að byggha þarna nútímaarkitektúr. En ég held líka að það sé rétt að steinsteypuhúsin séu merkileg (Magdalena) Rökstuðningur fyrir því að endurbyggja ekki gömul hús (Halldór) er líka vel hugsaður.

    En ég spyr hvort til sé sá arkitekt sem hefur það mikið álit á sjálfum sér að hann treysti sér til að teikna nútíma arkitektúr á þessum stað sem væri jafn mikil sátt um meðal almennings og þau endurbyggðu hús sem nú hafa risið á þessum stað?

    Ég held að sá arkitekt sem svarar spurningunni játandi ofmeti sjálfan sig.

  • Hér fara fram menningarlegar umræður. Ég bendi sérstaklega á samtal Halldórs og Einars.
    Ég vil bara segja að það er ákveðið kjarkleysi að byggja gömlu húsin upp aftur en það hefði verið fifldirfska að koma með einhvern nútimaarkitektúr a þennan stað. Það er nóg pláss annarsstaðar fyrir svoleiði

  • Einar Gunnarsson

    Ég þakka Halldóri Eiríkssyni fyrir svarið og hugleiðinguna. Ég geri ráð fyrir að hann sé arkitekt vegna þess að svarað er af þekkingu og yfirvegun.

    Ég sé alveg að þarna standa menn frammi fyrir vali, vali á tíma og þeir giska á að eitthvað sé réttara á einum tíma í sögu hússins en öðrum.

    Þú segir og mælir vel:

    “Sögustíllinn felst í því að þar er valinn eitt augnablik á þeim ferli sem teljist „rétta“ húsið, því þetta er ekki upprunalega mynd hússins”.

    Eftir stendur spurningin;

    Hvað á þá að gera?

    Hernig bók viljum við í staðin fyrir Njálu?. Viljum við vísindaskáldsögu?

    Hvernig á að byggja á svona stað þar sem allt brann til kaldra kola?

    Viljum við nútímabyggingu sem er, kannski smart næstu 10-15 árin en missir sjartman og þykir ljót efti 40 ár eins og græna húsið við lækjargötu, Iðuhúsið, Moggann og Almennar Tryggingar við Austurvöll og slík hús.

    Eða viljum við reyna að skapa umhverfi sem líkist því sem var og allir eru sáttir við. Allir nema sumir arkitektar sem geta rökstutt ágætlega, eins og þú, af hverju ekki eigi að gera svona.

    Maður veit hvað maður hefur en ekki hveð maður fær.

    Þakka þér svarið við spurningu minni. Það var alls ekki og langt vegna þess að það var upplýsandi og yfirvegað en þér tóks ekki að sannfæra mig og ég held að í þessum efnum sé gjá milli arkitekta og þjóðar.

    Svarið var tilefni skemmtilegra umræðna hér í gærkvöldi.

  • …Austurstrætið.
    Það sem veldur mér áhyggjum þar er Sögustíllinn (Historism) á þeirri endurgerð. Um er að ræða þrjú hús frá ólíkum tíma. Tvö brunnu, eitt til grunna og annað illa. Það þriðja var rifið allmörgum árum áður. Austurstræti 22 er dæmi um dásemd timburhúsanna: hús sem óx í, að því er virðist endalausum smáskrefum. Sögustíllinn felst í því að þar er valinn eitt augnablik á þeim ferli sem teljist „rétta“ húsið, því þetta er ekki upprunalega mynd hússins. Húsið er svo smíðað með kostum og kynjum á upprunalegan hátt. Við hliðin á er valin önnur nálgun; inn í húsmassann er bætt við hæð sem aldrei var þar (má þenja út byggingamagnið svo lengi sem það er ekki gert með steypu?). Bætt við og skreytt, klæðning brotin upp til að gefa til kynna lagskipta byggingasögu sem ekki var. Fyrsta hæðin er steypt upp á nútimamáta og klædd. Hæð er einnig bætt inn í „endurgert“ Nýja Bíó, þar sem eftir stendur einungs framhlið, en innra skipulag er sniðið að nýjum aðstæðum. 3 mismunandi nálganir, þar sem sagan er notuð sem leir fyrir nútíma arkitekta að hnoða úr sögu sem aldrei var, en hentar núna. Það sem er þarna gert er í góðum tilgangi og margt er þarna vel leyst og hæft fólk á ferð. En ég er einfaldlega ekki sammála þeim forsendum sem upp var lagt með. En þær forsendur eru ekki verndun sögunnar heldur er sagan notuð sem „minni“ í gerð nýrra bygginga þar sem vísað er a víxl milli stíla og alda (ára reyndar, þar sem okkar byggingasaga er svo stutt) til að skapa æskilega stemningu á þann sama hátt og sögustíll 19.aldar gerði. Ég skildi orð Hildigunnar um Njálu á þann veg að þau ættu uppruna sinn í þessum sömu áhyggjum.
    Ég vona að þetta (of)langa svar skýri áhyggjur einhverra arkitekta, allavegana mín, um þessa endurbyggingu

  • Einar Gunnarsson óskar eftir rökstuðningi arkitekta um andstöðu hér í fyrstu ummælum, hér kemur smá tilraun:
    Nú vill svo til að ég hef tekið þátt í að endurgera „í upprunalegri mynd“ húsið á Laugavegi 46, svo ég er nú ekki sérstakur andstæðingur endurgerðar, en ég hef efasemdir um þær framkvæmdir sem við höfum séð, bæði á Laugarvegi 4-6 og á horni Austurstrætis.
    Ef við byrjum á Laugarveginum þá er þar búið að rífa aldarlanga sögu viðbygginga og aðlögunar hússins við vaxandi og síbreytilega þróun Laugarvegar og eftir stendur „sótthreinsað“ og „rétt“ húsið eins og það kann að hafa verið upprunalega. En ég upplifi það út úr takti við núverandi umhverfi sitt og bendi t.d. á Laugarveg 5, beint á móti til samanburðar sem sannarlega er gamalt hús, þar sem enn má finna minjar hesthúss bakatil. En við það hús hefur verið byggt og það augnstungið og ýmislegt fleira, en það hús er fulltrúi lifandi borgarmyndar sem hefur fengið að þroskast með umhverfi sínu. Fyrir mér er það hluti af aðlaðandi borgarmynd, en þau endurbyggðu hafa misst af borgarumhverfinu og standa aðeins eins og tvær úr tungunum mættar í bæinn… en það með mestu virðingu fyrir því fallega handverki og alúð sem í endurgerðina hefur verið lagt. Austurstrætið kemur í næsta kafla…

  • Sigurður Árni Þórðarson

    Mig langar til að minna á handverksmennina, snillingana, sem komu við sögu uppbyggingar í miðbænum. Til að nefna aðeins einn bendi ég á þjóðhagann og völundinn Gunnar Bjarnason, sem stýrði verki í húsinu sem snýr að Austurstrætinu. Þar er svo sannarlega fallegt handverk og bera völundum vitni. Það er ekki nóg að hanna heldur verður að vinna vel á öllum póstum. Takk Hilmar fyrir að lyfta upp þessum mikilvægu bótum í miðborginni. Áfall getur orðið til góðs ef menn eru tilbúnir til að vinna vel með.

  • Snorri Sturluson

    Og nú er verið að endurreisa Dresden í þeirri mynd sem hún var áður en hún var jöfnuð við jörðu með loftárásum.

    Feginn er ég.

  • Snorri Sturluson

    Nú skil ég.

  • Guðmundur

    Ég er nú ekki á því að dæmi Hildigunnar sé svo kjánalegt (þótt samanburðurinn sé vissulega langsóttur). Þetta sem Þorgeir nefnir í sambandi við tilurð Njálu og leikrita Shakespeare á alveg eins við um byggingar fyrri tíma, þ.e. þær voru upphaflega reistar í einhverjum tilgangi og með tíð og tíma var bætt við þær eða sumir hlutar endurbyggðir, o.s.frv. Þessi hugmynd um arkitektinn sem listamann og byggingu sem listaverk sem beri ekki að hrófla við þegar hún er fullbyggð, er nýtilkomin, og í ljósi þess er ekkert undarlegt þótt við séum enn að láta þessa hugmynd ríma við bæði borgarsamfélag okkar, enda þróast samfélag fólks á allt annan hátt.

  • Dæmi Hildigunnar er kjánalegt og samanburðurinn er ekki upplýsandi.

    Í fyrsta lagi er Njála sennilega að einhverju leyti orðin til nákvæmlega eins og hún lýsir endurgerðinni. Leikrit Shakespeares sömuleiðis. Eru þau einskis virði fyrir vikið, úr því engin eiginhandrit hans hafa varðveist?

    Í öðru lagi er það sem er sjokkerandi við Njáludæmið það hvað það er ólíklegt að endurgerð komist nálægt frumgerðinni. Sem er alls ekki sambærilegt við endurgerð húsa sem styðst við fullt af ljósmyndum, jafnvel málsettar teikningar.

    Ef öll eintök af Gunnarshólma glötuðust, væri þá eitthvað aðþví að hringja í einhvern sem er búinn að læra kvæðið og skrifa það upp eftir honum?

    Síðan verða bara arkitektar að sætta sig við sérstöðu listar sinnar – notagildið trompar iðulega höfundarréttinn – eða á að gera það. Við þurfum ekki að búa og vinna í Njálu, en við þurfum að búa í blokkunum í Hjaltabakka og vinna í Morgunblaðshúsinu – sum 🙂

    Og, eins og þú segir – auðvitað yrði reynt að endurgera Njálu.

  • Hilmar Þór

    Kannski er þetta óskýrt, allavega skilur Snorri Sturluson þetta ekki.

    Hildigunnur velti fyrir sér hvað gerðist ef öll eintök Njálu hyrfu úr bokahillum landsmanna og ekkert eintak eftir. Hinsvegar lægi fyrir allskonar greinagerðir og fræðirit um bókina.

    Spurning Hildugunnar var hvort við mundum vilja að einhver rithöfundur yrði fenginn til þess að skrifa Njálu upp á nýtt á grunvelli rannsókna og samtala við þá sem lesið hafa bókina?

    Ég svara því játandi.

    Ég er til dæmis ekki á móti tilgátuhúsum sem byggð hafa verið um víða veröld og eru byggð á rannsóknum.
    Ég vel tilgátuhús frekar en engin hús.

    Ég vel tilgátu Njálu frekar en enga Njálu.

  • Héðinn H.

    Snorri Sturluson, prófaðu að lesa textann áður en þú tjáir þig um hann.

  • Snorri Sturluson

    Já.

    Óskiljanlegt andsvar.

  • Snorri Sturluson

    ,,Hildigunnur spurði hvað myndi verða gert ef …

    Hildigunnur vildi sjálf ekki svara þessu en það vil ég gera.

    Mitt svar er já.“

    Já við hverju?

    Það er engin leið að skilja hverju er verið að játa.

    Spurning: Hvað myndi verða gert ef Njála hyrfi úr öllum bókahillum?

    Svar: Já.

  • Steinarr Kr.

    Ekki er ég nú viss um að Andri Snær, eða annar íslenskur rithöfundur gæti endurskrifað Njálu og látið hana innihalda allar launsagnirnar.

    Sama á við um Lækjargötuna, falleg hús, en langt frá því eins og þau sem voru þarna. Hafa verður í huga að þetta eru ekki gömul hús, heldur 2010 og 2011 módel.

    Ef menn eru að pæla í Aðalstræti, af hverju er þá einblínt á Morgunblaðshúsið, Hvað með ljóta „monster“ húsið hinum megin við götuna? Það hús var á sínum tíma kallað Miðbæjarmarkaðurinn. Ef eitthvað er mishepnað, þá er það þetta hús.

  • Magdalena Sig

    Já og nei við þessu.
    Hefur Morgunblaðshúsið ekki sama rétt á sér og gömlu timburhúsin? Er það ekki jafnmikilvægur vitnisburður um fagurfræði, stemningu og sögu síns tíma? Hversu gömul þurfa hús að vera til að þau séu talin vermæt í sögulegu tilliti? 50 ára? 80? 100?
    Yrði ekki hneykslast á því síðar meir ef steinsteypuarkitektúr 20.aldarinnar yrði jafnaður við jörðu? Hyrfi þá ekki stór kafli í sögu borgarinnar? Er rétt að nota hugmyndafræði Viollet le duc um afturhvarf til fortíðar? hverfa þá ekki mikilvæg spor sögunnar sem líka eiga rétt á sér?
    Hvort viljum við að miðbær Reykjavíkur sé vitnisburður um Reykjavík árið 1900 -eða Reykjavík frá upphafi til dagsins í dag?
    Mér þykir nú seinni kosturinn fýsilegri.

  • Einar Gunnarsson

    Það er mikill fengur af þessum húsum og ég er sammála Ómari um að grenjavæða Moggahúsið og rífa það síðan.

    Ég spyr hvort einhver arkitekt mundi vilja skýra út fyrir okkur leikmönnum hvaða rök séu fyrir því að byggja ekki upp gömul hús á svona stöðum og hjálpað eitthvað til þess að brúa bilið milli okkar “almennings” og ykkar sérfræðinganna. Ég veit að mjög margir arkitektar eru á móti svona uppbyggingu.

    Komið með rökin handa okkur hinum.

    Mér finnst t.d. að spurning Hildigunnar bera merki þess að hún sé á móti þessu og stillir upp ögrandi spurningu sem um leið opinberar hennar skoðun(!).

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn