Fimmtudagur 18.04.2013 - 08:15 - 3 ummæli

Landslagsarkitektar

IMG_2079-2-e1319539035480-700x275

Íslenskir landslagsarkitektar eru sér á báti í hönnunargeiranum. Þeir  hafa að mér virðist náð meiri og traustari fótfestu á starfsvetvangi sínum en t.a.m. arkitektar eða innanhússarkitektar. Þeim hefur tekist að breikka starfssvið sitt umfram það sem gerst hefur t.a.m. hjá arkitektum sem hafa misst allnokkra spæni úr ask sínum undanfarna áratugi.

Ég hef unnið með landslagsarkitektum á Bretlandseyjum og í Danmörku og tel mig finna fyrir nokkrum yfirburðum þeirra íslensku hvað breidd starfsins varðar.

Fyrir áratugum voru þetta garðarkitektar sem gáfu ráðleggingar varðandi garðhönnun, hellulögn, plöntuval o.þ.h. Þeir innéttuðu einnig göturými og torg eins og kollegar þeirra erlendis.

Um og uppúr 1970 þróuðust garðhönnuðir hér á landi út í að sinna landmótun í meira mæli en áður. Þeir tóku sig til við að sinna svæðaskipulagi, aðalskipulagi og deiliskipulagi.  Mér sýnist þeir sinna skipulagsmálum  í mun meira mæli en erlendu kollegar þeirra í þeim löndum sem ég áður nefndi.  Til viðbótar hafa þeir einnig sinnt meiriháttar mannvirkjahönnun á borð við snjóflóðavarnir,sem voru leystar á aðdáunarverðan hátt. Þeir hafa komið að mótun vega- og brúarstæða og þar fram eftir götum. Í Danmörku starfa t.a.m. landslagsarkitektar aðallega sem ráðgjafar í skipulagsmálum meðan arkitektar leiða vinnuna.

Ef leyfilegt er að alhæfa pínulítið þá sýnist mér dönsku landslagsarkitektarnir á margan hátt vera flinkari en þeir íslensku þegar kemur að garðhönnun og innréttingu göturýma. En þegar kemur að stærri skipulagsverkefnum sýnist mér þeir íslensku mun umsvifameiri og er bara gott eitt um það að segja.

Það sem er einstakt við vinnu garðarkitekta er einkum það að þeir þurfa að hugsa í mörgum tímum í einu. Efniviður þeirra, tré og gróður, er síbreytilegur. Í fyrsta lagi þarf garðurinn og það umhverfi sem er í vinnslu að vera aðlaðandi daginn sem það er mótað og tekið í notkun. Umhverfið þarf líka að vera yndislegt eftir 10 ár og líka eftir 30 ár. Og ekki bara það  heldur vega árstíðirnar þungt þegar garðhönnun er á dagskrá bæði fagurfræðiulega og starfrænt.

Arkitektar og innanhússarkitektar falla oft í þá gryfju að stöðvast í þeim tíma sem byggingin eða innréttingin er hönnuð og byggð. Þeim hættir til að vilja fylgja tískunni og festast í henni. Byggingarnar eru nánast dagsettar og verða jafnvel hallærislegar þegar frá líður eins og fatatískan.

Af gefnu tilefni fór ég að velta fyrir mér sterkri stöðu íslenskra landslagsarkitekta í mótun umhverfis og aðkomu þeirra að skipulagsmálum hér á landi og hver sé ástæðan.

Það læðist að mér sá grunur að ástæðuna sé hægt að rekja til eins manns. Það er Reynir Vilhjálmsson landslagsarkitekt sem útskrifaðist frá Konunglegu Dönsku Akademíunni í Kaupmannahöfn árið 1961.  Hann kom til Íslands að loknu námi og störfum í Kaupmannahöfn fárið 1963 og setti á stofn sína teiknistofu. Þetta var fyrir réttum 50 árum. Haldið var upp á tímamótin með veglegri móttöku á Kjarvalsstöðum um síðustu helgi þar sem Reyni var  verðskuldað fagnað sérstaklega. (Þess ber að geta að Reynir hannaði einmitt Klambratún og umbreytti í borgargarð af bestu gerð)

Reynir hóf störf í miklu og nánu samstarfi við arkitektana á Teiknistofunni Höfða ( Höfði var rekin af arkitektunum Stefán Jónssyni, Guðrúnu Jónsdóttur og Knúti Jeppesen.) Teiknistofan Höfði  fékkst að mestu við skipulagsmál í litlum og stórum skala. Ég hygg að samstarf Reynis við það góða fólk hafi opnað honum, og landslagsarkitektum öllum, dyr frá garðarkitektúr til skipulagsmála sem hann  nýtti sér með frábærum árangri. Framlag hans og frumkvæði á þessum árum ásamt faglegu og lipru samstarf við arkitekta hefur að mér sýnist  greitt og breikkað götu landslagsarkitektastéttarinnar   í heild sinni.

Eftirfarandi slóð varpar að hluta ljósi á einn kiman á víðfemum starfsvetvangi landslagsarkitekta

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/06/11/graenar-og-blaar-gonguleidir/

Myndirnar sem fylgja færslunni eru af heimasíðum  landslagsarkitektanna; Landark, Landslag, Landmótun og Landform. Efst er mynd af aðkomu í Þingvallakirkju.

Landslagsarkitektar eru húmoristar og skamstafa samtök sín F.Í.L.A. Hægt er að nálgast heimasíðu þeirra  á þessari slóð:

http://fila.is/

6

Skansinn í Vestmannaeyjum

hvg-adalsk

Aðalskipulag í Hveragerði

V-Hun-700x222

Svæðisskipulag í Hrútafirði

 

50b

Skólalóð á Selfossi

 

46

Göturými í Reykjavík-Aðalstræti.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Hermann Georg Gunnlaugsson

    Flott umfjöllun hjá þér Hilmari og takk fyrir hlý orð í okkar garð. Það er jú rétt að aðkoma Reynis að skipulagsmálum frá árinu 1963 hafi rutt götuna fyrir landslagsarkiteta í skipulagsmálum. Aðalskipulag Reykjavíkur 1963-82 var ákveðinn vendipunktur.

    Það er líka einstakt lundarfar og fagleg ástríða hjá Reyni sem hefur verið honum happadrjúg um ævina. Einar Sæm minntist á Skóla Reynis og það eru margir fagmenn sem hafa notið handleiðslu hans. Þegar ég var hjá Reyni og Þránni kynntist ég því hvernig Reynir sekkur sér inn í verkefnin. Þá var hann m.a. að skoða legu Sundabrautar, fór í vettvangsferðir upp á Geldinganes og Álfsnes, tók ljósmyndir, kom síðan niður á stofu og byrjaði að varpa sínum tillögum að legunni upp á handteiknaðar skissur í þrívídd. Ótrúlega flott vinna, vel útfærð og sannfærandi með handbragði Reynis. Þetta hefur hann gert í fleiri verkum og þetta hefur líka skilað sér til starfamanna á stofunni.

    Það er annað tímamótaverk sem hefur borið hróður landslagsarkitekta áfram, en það er Svæðisskipulag miðhálendisins sem unnið var af Landmótun í Kópavogi og hófst sú vinna árið 1994. Þó er eitt lykilatriði sem verður að taka fram, en það er ólikur bakgrunnur Einars, Gísla og Yngva úr öðrum fögum hefur átt sinn þátt í því hvernig þeir nálguðust vinnuna og nýtt sér reynsluna úr fyrri störfum sem þjóðgarðsverðir, í störfum í náttúruverndarráði, skipulagsmálum hjá Reykjavíkurborg og víðar.

    Þeir sem á eftir hafa komið hafa notið góðs af þessum frábæru landslagsarkitektum sem hafa rutt brautina. En lykillinn er þó gott samstarf við aðrar fagstéttir og þannig komast góð og fagleg verk áfram.

  • Þakk fyrir skemmtilega úttekt hjá þér Hilmar sem ég get tekið undir. Við sem höfum unnið með RV í gengum tíðina við köllum það að hafa gengið í Reynisskólann og við erum allmörg í stéttinni sem höfum átt samleið með honum í lengri eða skemmri tíma.
    Pistillinn hjá þér fellur vel að vorinu.
    Apríl mánuður er af alþjóðasamtökum landslagarkitekta IFLA útnefndur mánuður landslagsarkitektúrs. RV hélt upp á 50 ára starfsafmæili sitt og um leið Landslags. Á föstudaginn er aðalfundur FÍLA. Eftir mánaðrmót fer dálitill hópur landslagsarkitekta til Flórens til að vera viðstaddur afhendingu Carlo Skrapa verðlaunanna fyrir Skrúð í Dýrafirði.
    Það er er gaman apríl þegar sólin skín og vorið er að bresta á sumardagurinn fyrsti í næstu viku.

  • Þórður

    „Ef leyfilegt er að alhæfa pínulítið þá sýnist mér dönsku landslagsarkitektarnir á margan hátt vera flinkari en þeir íslensku þegar kemur að garðhönnun og innréttingu göturýma“.

    Ég þekki til í DK og á Íslandi (hef unnið við garðyrkju á báðum stöðunum) og tel tilvitnunina að ofan ekki alveg rétta. Það rétta er að garðhönnun og sérstaklega göturými eru vandaðri í DK en hér á landi. Það er vegna þess að þar er lengri hefð fyrir slíku en hér á landi og méra fé sett í málið. Ég gæti best trúað að íslensku garðhönnuðurnir séu ekki síðri en dönsku svona faglega þegar kemur að þessu eins og sést á myndinni í Austurstræti og á Skannsinum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn