Þriðjudagur 06.09.2011 - 12:06 - 19 ummæli

Landspítali – Öskubuskueinkenni

Á kynningarfundi um deiliskipulag Landspítalans sem haldinn var fyrir réttri viku tóku til máls þau Gunnar Svavarsson, formaður bygginganefndar, Björn Zöega forstjóri, Kristín Ingólfsdóttir háskólarektor og Helgi Már Halldórsson hönnunarstjóri.

Þeim mæltist öllum  vel  um skynsamlega hluti sem allir eru sammála um. Þ.e.a.s hagkvæmni stærðarinnar, mikilvægi þess að heilbrigðisvísindasvið HÍ sé allt á einum stað og samtvinnað Háskólanum o.s.frv.

Að loknu máli þeirra fór Helga Bragadóttir verkefnisstjóri deiliskipulags yfir skipulagsdrögin. Hún talaði mest um innra fyrirkomulag lóðarinnar, gróðurvernd og þ.h. en setti skipulagsdrögin ekki í samhengi við borgarskipulagið.

Þeir Borgarfulltrúar, Gisli Marteinn Baldursson og Hjálmar Sveinsson voru í stórskemmtilegu viðtali á RUV í morgun þar sem þeir fóru yfir málið og voru furðu sammála. Svo heyrði ég  velferðaráðherra í útvarpinu áðan sem sagði að hann væri ekki í vafa um hagræði framkvæmdarinnar.

Allir þessir aðilar sögðu að þetta væri skynsamleg framkvæmd og um það eru flestir sammála. Hinsvegar eru margir áhyggjufullir vegna staðsetningarinnar. Þeirra á meðal er ég.

Ég fór á fyrrnefnda kynningu í síðustu viku til þess að sjá hvort höfundum skipulagsins hefði tekist að aðlaga tillöguna betur byggðarmynstrinu frá því samkeppnistillagan var lögð fram fyrir rúmu ári? Hvort þeim hefði tekist að finna arkitektóniskan samhljóm með byggðinni í grenndinni? Hvort tekist hafi að milda inngripið?

Ég kom líka á kynninguna til þess að fá að vita hvort það skipti miklu máli  hvar spítalinn er staðsettur?  Er aðalatriðið ekki að hann sé allur á einum stað?  Sama má segja um hagsmuni Háskólans. Ég hefði viljað heyra hvort það skipti höfuðmáli hvort heilbrigðisvísindasvið sé einhverri fjarlægð frá aðalbyggingu HÍ svo fremi það sé í nánum tengslum við sjálft sjúkrahúsið?

Ég fékk ekki nein svör við þessum hugðarefnum mínum enda var þetta ekki rætt á kynningunni og engar fyrirspurnir leyfðar úr sal(!).

Hugsanlegt er að frummælendum hafi fundist staðsetningin afgreidd og ekki þurfi að ræða hana frekar og að það væri að bera í bakkafullan lækinn að byrja á því aftur. Það er auðvitað misskilningur og sjálfsagður hlutur að reifa málið þegar tilefni er til.

Það læðist að manni sá grunur  að ástæðan fyrir því að þetta var ekki nefnt sé sú að frummælendur séu ekki sáttir við niðurstöðuna eða treysti sér ekki til þess að verja staðarvalið opinberlega. Það skil ég vel. En auðvitað vísa þau þessum grun mínum á bug.

Niðurstaða staðarvalsins sýnist mér í anda Grímsævintýrisins um Öskubusku. Þar voru illa innrættar stjúpsystur að reyna að troða allt of stórum fótum sínum í pínulitla fallega skó Öskubusku í von um að verða gefnar prinsi einum. Það mistókst.

Erum við ekki í þeirri stöðu að minnka þurfi fótinn (spítalinn) svo hann passi í skóinn (lóðina). Eða finna annan skó annars staðar sem passar fætinum?

Mér sýnist að þrír aðilar komi að staðarvalinu. Það er sjálfur spítalinn, það er háskólinn og það er borgarsamfélagið. Ég horfi t.a.m. á þetta sem borgari sem vill búa í yndislegri harmóniskri borg þar sem fagurfræði og borgarstarfsemin haldast í hendur í mikilli harmóníu.

Því miður sýnist mér að þrælskipulagt háskóla- og spítalaumhverfið hafi notið aflsmunar gegn óskipulögðum borgurum sem flestir standa örvæntingafullir á hliðarlínunni.

Ég var hissa á að enginn fulltrúi borgarbúa var meðal frummælenda á kynningunni. T.a.m. fulltrúar íbúasamtaka einhverra hverfa borgarinnar.

.

.

.

.

Hér eru slóðir að nokkrum erindanna í kynningunni ásamt myndbandi:

Kynning Kristínar Ingólfsdóttur rektor HÍ:

http://www.nyrlandspitali.is/nyrlandspitali/upload/files/drog_deiliskipulag_august2011/haskoli_og_haskolasjukrahus__kristin_ingolfsdottir_.pdf

Helgi Már Halldórsson hönnunarstjóri SPITAL:

http://www.nyrlandspitali.is/nyrlandspitali/upload/files/drog_deiliskipulag_august2011/nlsh02-s08-000-31122011-heildarverkefni-txt.pdf

Helga Bragadóittir verkefnisstjóri deiliskipulags:

http://www.nyrlandspitali.is/nyrlandspitali/upload/files/drog_deiliskipulag_august2011/nlsh02-s08-000-30122011-deiliskipulagsdrog.pdf

Kynningarmyndband:

http://nyrlandspitali.is/nyrlandspitali/islenska/fjolmidlatorg/myndir_fyrir_fjolmidla/kynningarmyndband/

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (19)

  • Guðl. Gauti Jónsson

    Takk fyrir þína góðu grein Hilmar sem er bæði hógvær og skýr.

    Mér finnst skipulagstillagan í öllum meginatriðum sýna fram á að þetta byggingarmagn kemst ekki fyrir á þessum stað. Ég veit ekki hvort menn gera sér grein fyrir að samkvæmt tillögunni verða byggingarnar sem fyrir eru almennt þær minnstu á lóðinni.

    Nýbyggingarnar verða að mestu 5-6 hæða frá götu en húsið hans Guðjóns er t.d. 3½ hæð og byggingarnar fyrir aftan það jafnháar en rúma eini hæð meira vegna annars byggingarmáta. Læknagarður, sem er ekki lítið hús, verður einni hæð lægra en húsin í kring.

    Samkvæmt tillögunni verður meðferðarkjarninn 4-6 hæðir frá Neðrigötu, 6 hæðir frá Sóleyjartorgi og 5 hæðir frá Efrigötu. Á Efri- og Neðrigötu verður skuggi langmestan hluta ársins vegna húsahæðanna og húsalengdanna, en meðferðakjarninn verður um 1½ fótboltavöllur (150-160 m) að lengd. Dæmi um hús af þessari stærð er Borgartún 8-16 þar sem skrifstofur borgarstofnanna eru til húsa. Það hús er 6 hæðir með inndreginni 7. hæð og um 110 m á lengd, 40-50 m styttra en meðferðarkjarninn.

    Til dæmis um þau vandræði sem skapast vegna þessarar staðsetningar á LSH má kannske benda á að beint fyrir utan gluggana á legudeildunum og ofan á rannsóknahúsinu, sem væntanlega er fullt af hárnákvæmum tækjabúnaði, verður þyrlupallur. Það verður sýning í lagi þegar þyrlan skellir sér þar niður að næturlagi.

    Ég hlustaði á mál þeirra félaga Hjálmars og Gísla Marteins sem báðir koma til með að hafa um framtíð þessa máls að segja. Í máli þeirra fannst mér koma fram veigamikil rök fyrir því að þessi staðsetning passi ekki fyrir þetta byggingarmagn og þessa starfsemi:

    1. Þungamiðja búsetu liggur talsvert austar í borginni en þungamiðja atvinnutækifæra.
    2. Of háar og of langar byggingar.
    3. Byggingar falla illa að núverandi byggðamynstri.

    Í skipulagi er oftast hægt að koma fyrir því byggingarmagni sem menn vilja á tilteknu landsvæði ef byggingarmagnið er eina eða langveigamesta forsendan sem skipuleggendur gefa sér. Ef menn vilja hinsvegar halda heiðri við gamalgróin vinnubrögð við að skapa fólki og fyrirtækjum gott og heilsusamlegt umhverfi þá þarf að taka tillit til margra annarra þátta en byggingarmagns. Það hefur að mínu mati ekki verið gert nægjanlega mikið í þessari tillögu.

    Sumir tala um að þéttleiki byggðarinnar á lóðinni sé ekki meiri en víða gerist í borgum erlendis. Það kann að vera rétt en aðstæður erlendis eru ekki þær sömu og hérlendis. Hnattstaða er ráðandi um sól og skugga og oftast um veðurfar líka en hvorutveggja hefur afgerandi áhrif í skipulagi.

    Það er vert að geta þess að tölvumyndirnar sem fylgja kynningunni sýna ekki ýtrustu mörk deiliskipulagstillögunnar. Sumt er líka villandi. Ég nefni t.d. að stærð Gamla hússins virðist óeðlilega mikil þegar horft er frá Sóleyjartorgi. Aðkoma fyrir bráðamóttöku er frá neðri hluta Sóleyjartorgs og samkvæmt tillögunni fer allur neðri hlutinn undir bílastæði og þarna má líklega reikna með talsverðri umferð.

    Líkingin við Öskubusku sem Hilmar notar er glettilega góð og það má halda dálítið áfram með hana. Stjúpsysturnar limlestu sig til að komast í skóinn góða þannig að önnur sneið af sér stóru tánna en hin hælinn. Það voru svo dúfur sem bentu prinsinum og hans mönnum á að það væri blóð í skónum. Hvar eru dúfurnar núna?

  • Pétur Maack

    Takk fyrir gagnlegar vangaveltur og rökræður!

    Ég hef þó saknað þess úr umræðunni að heyra ekkert um það hve mikið nýji spítalinn mun breiða úr sér með löngum göngum og tilheyrandi löngum transport tíma innanhúss.

    Ég hef alltaf skilið hönnun Borgarspítalahússins þannig að með því að byggja á hæðina sé verið að stytta ferðatíma á milli deilda.

    Varðandi staðarvalið þá er furðulegt að setja nýjan spítala niður á þessum stað með tilheyrandi umferðarþunga og í trássi við byggðina í þingholtunum.

    Nýr spítali í Fossvogi með tengingum til austurs og vesturs (undir Öskjuhlíð) um Fossvogsbraut (sem hvort eð er þarf að leggja eftir því sem Vatnsmýrin byggist) virðist einhvern vegin rökréttari leið séð með mínum óþjálfuðu augum.

  • Hilmar Þór

    Þetta er búin að vera gagnleg og upplýsandi umræða. Ég þakka Hjálmari Sveinssyni, Magnúsi Karl Magnússyni, Guðrúnu Bryndísi og fleirum fyrir að upplýsa ýmsa þætti málsins, skýra hin ýmsu sjónarmið og hjálpa okkur hinum að mynda okkur skoðun á þessu mikilvæga máli.

    Svona viðbrögð eru þakkar verð og nauðsynleg til þess að fá fram málefnalega umræðu sem gerir fólki kleift að mynda sér upplýsta skoðun.

    Nokkrir lesenda síðunnar hafa nefnt þetta við mig og þakkað mér. En það ber ekki síður að þakka þeim sem leggja til málanna af frjálsum vilja, áhuga og velvild. Margir þeirra hafa margfalt meiri þekkingu viðfangsefninu en t.a.m. ég eða hinn almenni borgari.

    Ég sakna þess samt að kollegar mínir sem vinna að verkinu og þekkja það betur en flestir, skuli ekki veita forvitnum upplýsingar hér á þessum vettvangi. Ég veit að þeir lesa þetta og fylgjast með ummælum.

    Þau hafa þagað þunnu hljóði (með einni ágætri undantekningu).

    Skrítið.

    Af hverju ætli arkitektar tjái sig svona lítið á opinberum vettvangi og velji í þess stað að tuða á kaffistofunum?

    Einn þeirra sem hafa tjáð sig er Þorgeir Jónsson sem mér sýnist þekkja vel til uppbyggingar á Landspítalalóðinni undanfarna áratugi spáir um framtíðina í síðustu athugasemdinni.

    Umhugsunarverðar hugleiðingar hjá Þorgeiri

    Í framhaldinu af hugleiðingum Þorgeirs velti ég fyrir mér hvað mun gerast á árunum milli fyrsta og annars áfanga fyrirliggjandi deiliskipulags? Nú eru spítalahugmyndirnar sem tanngarðurinn var byggður samkvæmt orðnar úreltar. Verður fyrirliggjandi deiliskipulagshugmynd kannski líka úrelt áður en ráðist verður í síðari áfanga?.

    Svo í lokin vil ég vitna í V.F.:

    „Kynningarfundur án fyrirspurna er alls enginn kynningarfundur.

    Þetta er ólýðræðisleg sýndarkynning per exelance“

  • Þorgeir Jónsson

    Takk fyrir umfjöllunina Hilmar

    það gleymist alveg hvers vegna við neyðumst nú 2011 að byggja nýtt hátæknisjúkrahús. Það er vegna ófaglegrar íhlutunar stjórnmálamanna gegnum tíðina á málefnum spítalans. Á meðan byggingarlistin var nánast einkamál Húsameistara ríkisins og yfirmaður hans var sjálfur forsætisráðherra voru verkefni á Landspítalalóð á hans yfirráðasvæði. Þar var verkefnum ráðstafað eftir tillögu Nefndar um framkvæmdir á Landspítalalóð. Það var unnið af metnaði hjá Húsameistara og fyrirhugað, að fyrir aldamót (2000) væri spítalinn tilbúinn. En raunin varð önnur…öll verkefni sem forsætisráðherra heimilaði hönnun á voru stöðvuð eftir að framkvæmdir hófust. Geðdeildin, Tanngarður, K-byggingin, eldhúsið, fæðingadeildin, já nánast allar nútíma byggingar á lóðinn eru ekki fullbyggðar!
    K-byggingin er og átti að vera hátæknihluti spítalans með 4 fullkomum skurðstofum, dauðhreinsun, geislalækningum og röntgendeild, en aðeins 1/3 er byggður. Stjórnmálamenn og þá aðallega ráðherrar málaflokksins voru fljótir að skrúfa fyrir fjárveitingar svo klára mætti hannaðar byggingar á lóðinni. Þess vegna og aðeins þess vegna er spítalinn byggingartæknilega ónothæfur og aðeins hægt að bíða eftir nýjum spítala. En ég ætla að vera spámaður hér og nú og spá því að fyrirhugaður spítali verði ekki fullbyggður vegna íhlutunar ráðherra í komandi ríkisstjórnum. Þeir halda áfram uppteknum hætti í framtíðinni og rústa metnaðarfullum áformum í nafni sparnaðar og ríkisfjármála. Munið mín orð.

  • Kynningarfundur án fyrirspurna er alls enginn kynningarfundur.

    Þetta er ólýðræðisleg sýndarkynning per exelance

  • Ef ég má.

    Byggingakostnaður og viðhald mannvirkja er hverfandi kostnaður við rekstur spítala, Það mætti byggja nýjan spítala á nýjum stað með heilbrigðisskóla og öllu fyrir 50 MA.
    Þessir 50 MA kæmu til baka á fáum árum í hagkvæmni. Hvað kostar að hafa þetta kraðak?
    Það er td, nóg pláss í Vatnsmýrinni þar sem háskólinn í Reykjavík er nú. Sveitastjórnarmenn utan af landi geta notað tölvu og síma eða bara ekið í bæinn og þá er flugvöllurinn óþarfur. Bygging háskólans í Reykjavík er góð byrjun á heilbrigðisháskóla, þegar búið er að sameina hr. og HÍ. Þetta með miðsvæðið og flugvöll? Á nýja spítalanum lendir þyrla á þakinu með sjúklinginn. Á nýja spítalanum verður 98% allra aðgerða. Nýi spítalinn þarf ekki að vera ljótur hann verður með hallandi þökum á móti sólu og sjúklingunum mun batna mun fyrr vegna góðs útsýnis og góðrar birtu (5 MA. á ári bara í sólargróða). Sjúklingum verður strax þegar hægt er flogið af litlum flugvelli til sinnar heimabyggðar á hjúkrunarhús og klára sína legu og endurhæfingu þar.

    En!

    Í dag er ekki til plástur nálar dollur eða kítti til að þétta glugga á núverandi húsum. Það verður allavega að leysa þetta með nálarnar og plásturinn fyrst og svo þarf líka að fá starfsfólkið aftur heim.

  • En kannski finnst sumum að við lifum í allra besta heimi, þó þjóhnappar og útlimir séu afskornir.
    Voltaire kunni háðið, enda vel kunnugt um Versala-lífið.

  • Það er vel að Magnús svari hér málefnalega og því ítreka ér spurningu mína og vænti svars:

    Á sama tíma og á að fara út í galtóma steypu, þá er skorið blóðugt niður í málaflokki heilbrigðismála hér á landi og þjónusta skert við sjúklinga. Finnst Magnúsi það -sem prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands- í lagi?

    Spurning mín er tilkomin vegna efnahagsaðstæðna í þessu þjóðfélagi okkar, þar sem spurningin hlýtur að snúast um forgangsröðun.

  • Magnús Karl Magnússon

    Guðrún Bryndís
    Númer eitt: ég var að svara góðum spurningum Hilmars, og snéri önnur spurningin að samstarfi LSH og HÍ.
    Númer tvö: Þó svo að ég hafi ekki rætt það í svari mínu hér að ofan þá eru það hagsmunir allra landsmanna að vel takist til um að samþætta vísindi, menntun og heilbrigðisþjónustu. Bestu sjúkrahús (fyrir sjúklinga) bæði vestan hafs og austan eru sjúkrahús sem samtvinna þessa þrjá þætti. Með öðrum orðum, háskólasjúkrahús þjóna hagsmunum sjúklinga betur en önnur sjúkrahús þegar á heildina er litið(hvað varðar flókna sérfræðiþjónustu).

  • Guðrún Bryndís

    Hjálmar
    Ég bendi á að við staðarval voru lóðir bornar saman – ekki hvar þær voru staðsettar í borginni, því ætti frekar að tala um lóðaval en staðarval.
    Þegar lóðir voru bornar saman var niðurstaða Ementor ráðgjafa í stuttu máli sú að allar lóðirnar væru nóg og stórar til að byggja spítala á þeim, fjarlægð milli HÍ og allra lóða væri það mikil að þær væru úr göngufæri og að sú lóð sem væri með fæsta fermetra af byggingum væri heppilegust.

    Grænatúnsreiturinn (fyrir neðan gömlu Hringbraut) kom best út – enginn bygging, Vífilstaðalóðin á eftir með fáum byggingum, síðan Fossvogur og núverandi lóð Landspítalans kom verst út einmitt vegna fjölda bygginga á lóðinni.

    Til þess að Barnaspítalinn og Kvennadeild fái þjónustu þarf að tengja byggingarnar við nýjan bráðakjarna og til þess að koma mat og ýmsum öðrum nauðsynjum í bráðakjarna, þarf að tengja þessar byggingar saman með göngum og brúm. Það er s.s. ekki verið að sameina starfsemi í eina byggingu heldur verður starfsemin áfram í mörgum byggingum en lóðir þeirra liggja saman.

    Að velja spítala stað í þyndgarpunkt umferðar er sá staður sem flestum spítulum er forðað frá, ástæðan er einfaldlega sú að þar er mest hætta á umferðarteppum sem hefur áhrif á ferðatíma að sjúkrahúsi, en ferðatími að sjúkrahúsi getur verið spurning um líf og dauða.

    Við staðarval (ath. ekki lóðarval) er leitast við að staðsetja það nærri þyngdarpunkti búsetu þjónustusvæðisins (þar sem fólk býr) og að leiðin að sjúkrahúsinu sé greið með tilliti til vegatenginga.

    Af orðum MKM mætti skilja að það standi til að byggja háskólasjúkrahús fyrir heilbrigðisvísindi. Hvað varð um Landspítala – spítala allra landsmanna?

  • En Magnús Karl er þó heiðarlegur hvað varðar að viðurkenna sín eigin hagsmunatengsl, sbr. þessi orð hans:

    „Það er rétt að það komi strax fram að ég er prófessor við Læknadeildina og rétt að lesa mín komment með það í huga.“

    Á sama tíma og á að fara út í galtóma steypu, þá er skorið blóðugt niður í málaflokki heilbrigðismála hér á landi og þjónusta skert við sjúklinga. Finnst Magnúsi það -sem prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands- í lagi?:

    http://www.dv.is/gula_pressan/2011/9/2/etum-hataeknisjukrahus/

    Er ekki kominn tími til hreinskiptinnar umræðu um öll þessi lúxusvandamál sumra?

  • Magnús Karl Magnússon

    Jón:
    Biðst afsökunar ef þetta er útúrsnúningur – en hún átti að vera sett fram í léttum tón rétt eins og myndlíking Hilmars. Rökin komu síðan í löngu máli á eftir; vona að þú lesir þann texta frekar en myndlíkingar.
    Með áframhaldandi von um málefnalega umræðu!

  • Magnús Karl Magnússon hvetur til málefnalegrar umræðu, en snýr svo út úr myndlíkingu Hilmars.

    Útúrsnúningur Magnúsar Karls: „… mér finnst þó dálítið skrítið að líkja hagsmunum sjúklinga við vondu stjúpsysturina!“

    Hilmar er einungis að draga stærð og staðarval í efa Magnús, sbr.:

    „Erum við ekki í þeirri stöðu að minnka þurfi fótinn (spítalinn) svo hann passi í skóinn (lóðina). Eða finna annan skó annars staðar sem passar fætinum?“

    Er útúrsnúningur þinn málefnalegur Magnús?

  • Magnús Karl Magnússon

    Sæll Hilmar

    Þakka góðan pistil, samlíkingin er ágæt en mér finnst þó dálítið skrítið að líkja hagsmunum sjúklinga við vondu stjúpsysturina! En látum það liggja milli hluta. Það er rétt að það komi strax fram að ég er prófessor við Læknadeildina og rétt að lesa mín komment með það í huga.
    Þú spyrð góðra og mikilvægra spurninga:
    1. „Er aðalatriðið ekki að hann sé allur á einum stað?“
    2. „Sama má segja um hagsmuni Háskólans. Ég hefði viljað heyra hvort það skipti höfuðmáli hvort heilbrigðisvísindasvið sé einhverri fjarlægð frá aðalbyggingu HÍ svo fremi það sé í nánum tengslum við sjálft sjúkrahúsið?“

    Varðandi spurningu nr. 1. Allt á einum stað eða ekki? Það skiptir miklu máli að öll bráða- og leguþjónusta (bráðamóttökur og legudeildir) sé öll á einum stað. Þannig næst mikill sparnaður, ekki þarf tvær röntgen- eða rannsóknardeildir eins og nú þarf. Sama gildir um samvinnu ólíkra sviða/deilda. Flestir mikið veikir sjúklingar þurfa a þjónustu margra deilda og slík þjónusta verður þeim mun betri sem samvinna þessara deilda er nánari. Þannig verður þjónustan hagkvæmari og hún verður einnig betri fyrir sjúklingana. Með öðrum orðum, ódýrari og betri heilbrigðisþjónusta.

    Varðandi spurningu 2; hagsmunir háskólans og nálægð heilbrigðisvísinda við önnur svið skólans. Það eru fjölmörg og sterk rök sem þarna liggja að baki líka. Þar er fyrst til að telja samvinna heilbrigðisvísinda við aðrar deildir. Þau er nú þegar mjög mikil á sviði vísinda- og rannsókna og þau munu mjög aukast á næstu árum. Sem dæmi þá eru mjög vaxandi samvinna verkfræði og lífvísinda á fjölmörgum sviðum rannsókna. Þar má nefna vefjaverkfræði, þróun nýrra tækja og síðan nýjar fræðigreinar, s.s. kerfislíffræði sem nú þegar er ein af sterkari rannsóknardeildum HÍ og er rekin í nánu samstarfi Verk og náttúruvísindasviðs og Heilbrigðisvísindasviðs. Í öðru lagi eru flestir sammála umþað að í uppbyggingu háskóla framtíðarinnar þá sé þverfræðileg nálgun mjög mikilvæg. Slík nálgun er nauðsynleg til að leysa ýmis af stóru vandamálunum framtíðararinnar, s.s. loftslagsbreytingar, félagsleg vandamál hraðra þjóðfélagsbreytinga o.s.frv. Í þriðja lagi, þá er HÍ þrátt fyrri allt mjög lítill háskóli. Hann mun þurfa að nærast á mikilli samvinnu deilda, m.a. með samnýtingu tækja. Þannig eru ýmsar deildir í HÍ í dag nú þegar í mikilli samvinnu við læknadeild s.s lífræðiskorin. Í fjórða lagi þá má benda á að Vatnsmýrin er hugsuð sem þekkingarþorp Reykjavíkur. Heilbrigðisvísindi eru án efa eitt sterkasta fræðasvið HÍ. Að flytja þá starfsemi úr Vatnsmýrinni væri í algerri andstöðu við skipulagsmarkmið um þekkingarþorp og þekkingruppbyggingu. Eitt af sterkustu rannsóknafyrirtækjum heims, Íslensk Erfðagreining er lykilaðili í þessu þekkingarþorpi. Nálægð við heilbrigðisvísindi HÍ og LSH eru augljóslega mikilvæg bæði fyrir tækinu og þessum stofnunum.

    Ég skil áhyggjur af umferðarvandamálum en ég tel að þarna eigi allir aðilar leggjast á eitt um að breyta ferðavenjum okkar. Í athugasemd hér fyrir ofan segir Guðrún Bryndís:
    „Hvort er verið að byggja utanum starfsemina eða aðlaga fólk að byggingunni?“
    Ég held að við eigum að nota skipulagsákvarðanir til að aðlaga fólk að borgarsamfélagi („aðlaga fólk að byggingunni“!!) . Ég segi það kinnroðalaust og vona að borgaryfirvöld og áhugafólk um skipulagsmál séu sammála mér. Hingað til hafa skipulagshugmyndir haft veruleg áhrif á hegðun Reykvíkinga. Það er mjög gott samhengi milli fjölda bifreiða og stefnu borgaryfirvalda að dreifa byggðinni. Þessu þarf að snúa við. Ef að við erum aldrei tilbúin að taka þann slag að snúa við þeirri þróun þá mun ekkert breytast.

    Það er stundum talað um ógurlegt byggingarmagn á þessum fermetrum sem þarna standa til boða. Mér sýnist þó að byggingarmagnið sé mun nær því sem við viljum sjá í borgarumhverfi. Það verður að líta á byggingarmagnið í samhengi við skipulagsáætlanir framtíðarinnar ekki nálægrar fortíðar (þar sem mantran var dreifð byggð). Samkv. tillögum borgarinnar um Vatnsmýrina (Massey tillagan) er reiknað með 3-5 hæða þéttri byggð rétt eins og sjúkrahúsbyggingarnar eru. Mér sýnast þessar byggingar falla vel inn þær hugmyndir.

    Með von um málefnalega umræðu.
    Kveðja, MKM

  • Steinarr Kr.

    Borgin og ríkið ætla greinilega að fara út í lífsstílsstýringu á starfsmönnum sjúkrahússins.

    Ég geri ráð fyrir því að áfram verði unnið á vöktum á þessu sjúkrahúsi. Vaktavinna og strætó hafa aldrei farið vel saman og er ég ekki að sjá fram á breytingar á því.

    Verður ekki farið að tala um Fossvogsbraut aftur eftir 6 ár til að anna umferðinni þarna?

  • Hjálmar Sveinsson

    Hilmar
    Takk fyrir fína og svolítið háðslega grein (ég er reyndar Sveinsson)

    Þorkell.
    Það kom fram í umræðum okkar Gísla í morgun að á síðustu árum hafa þrír ráðherrar látið yfirfara staðarval og þörfina fyrir að sameina rekstur Landspítalans á einn stað. Þeir höfðu efasemdir. Útkoman varð alltaf sú sama. Það er skynsamlegt að sameina reksturinn á einn stað, hann er núna í 100 húsum á 17 stöðum. Það er mjög dýrt og vont fyrir sjúklinga og starfsfólk

    Það hefur verið deiliskipulag fyrir nýjum spitala á þessum stað síðan 1976. Hann hefur verið Hringbrautina á aðalskipulagi síðan 1984. Borgaryfirvöld hafa í 30 ár talið það hagkvæmt og skynsamlegt að byggja þarna upp endurnýjað spítalasvæði.

    Það kom líka fram í samræðum okkar Gísla að það eru nokkrar efnislegar ástæður fyrir staðarvalinu. Þrjár lóðir voru skoðaðar sem þóttu álitlegastar. Vífilstaðir, Fossvogur og Hringbraut. Landspítalalóðin kemur best út.

    1) Á Landspítalalóðinni við Hringbraut eru nú þegar nokkrar veglegar byggingar sem notaðar verða áfram: Gamla byggingin og viðbyggingin við hana, Barnaspítalinn, Kvennadeild, Geðdeild og Eirberg (að hluta). Í því er mikið hagræði.

    2) Landspiltalinn er mjög nálægt miðju borgarinnar sé reiknað út frá þyngdarpunkti umferðarinnar yfir daginn. Hann liggur vel við mikilvægum samgönguæðum. Miklubraut/Bústaðavegi/Hringbraut/Snorrabraut.

    3) Nálægð við Háskólasvæðið skiptir miklu máli til að efla Landspítalann sem háskólasjúkrahús. Á annað hundrað starfsmenn Spítalann starfa líka við kennslu og rannsóknir í HÍ

    Það kom einnig fram í samræðum okkar að 25% starfsmanna Spítalans í dag eru í göngufæri (innan við14 mínútur) við Spítalann við Hringbraut. 50% starfsmanna búa þannig að það tekur þá innan við 14 mínútur að hjóla í vinnuna, ef þeir vilja.

    Þar að auki kom fram að þegar Vatnsmýrin byggist upp, smátt og smátt á næstu 30 árum, verður þar góður kostur fyrir fjölmörga starfsmenn Háskólans að búa og ganga eða hjóla í vinnuna, hvort sem það er við Spítalann eða við Háskólann.

    Ég tel að okkur hafi í morgun tekist að koma furðu mörgum efnisatriðum fram varðandi staðarvalið. Ekki er þar með sagt að við sem sitjum í skipulagsráði séum að öllu leyti sátt við útfærslu svæðisins og byggingarmagn. En næsta leik eiga borgarbúar og hagsmunaaðilar. Með forkynningu hófst fyrsta lota í löngu samræðuferli borgarbúa, borgaryfirvalda, Háksólans og stjórnar spítalans.

  • Guðrún Bryndís

    Ég fór líka á þessa kynningu um háskólasjúkrahúsið sem á að byggja fyrir okkur.

    Staðsetningin var ekki rædd, en þeim mun meiri áhersla var lögð á samgöngustefnu borgar og LSH. Samgöngustefnan felst í því að breyta ferðavenjum starfsmanna og því verður t.d. aðeins gert ráð fyrir bílastæðum fyrir sjúklinga og aðstandendur, eins og kemur fram á vef um NLSH:

    ‘samgöngustefna og einkabílanotkun miðist fyrst og fremst við þarfir sjúklinga og gesta’ http://www.nyrlandspitali.is/islenska/skipulag_og_umhverfi/

    Um helgina var auglýst eftir sérfræðingi í samgöngum fyrir LSH sem hefur m.a. það hlutverk að hrinda samgöngustefnu spítalans í framkvæmd. Til þess hefur hann væntanlega 6 ár, en það er áætlaður byggingatími.

    Það virðist því þurfa að breyta ferðavenjum starfsmanna LSH svo þeir komist í vinnuna. Hvort er verið að byggja utanum starfsemina eða aðlaga fólk að byggingunni?

  • Takk fyrir góðan og hárbeittan pistil. Háðið er flugbeitt.

  • Þorkell

    Góð yfirferð og beitt samlíking.

    Eru þá illa innrættar systurnar, Háskólinn og Landspítalinn og Öskubuska almennur borgari sem á að nota skóinn?

    Það er sjálfsagt að ræða staðsetninguna endalaust. Erum við ekki enn að ræða staðsetningu orðinna framkvæmda eins og flugvallarins.

    Ég óska eftir yfirferð á forsendum staðarvalsins. Það nægir ekki bara að vitna í þrjár skýrslur sem allar eru keyptar af Landspítalanum og Háskólanum án þess að fara inn á efnisatriði eins og Gisli og Hjálmar gerðu í morgunn

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn