Sunnudagur 18.03.2018 - 18:09 - 13 ummæli

Landspítalinn – Er lausnin fundin?

Það voru frábærar fréttir að berast af byggingaráformum Þjóðarsjúkrahússins við Hringbraut frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins sem nú stendur yfir.

En þar stendur að lokið verði við þá uppbyggingu sem komin er á framkvæmdastig við Hringbraut en að það verði tafarlaust farið í staðarvalsgreiningu fyrir framtíðaruppbyggingu sjúkrahússþjónustu til lengri tíma með öryggi og sterkum samgönguleiðum að leiðarljósi.

Pólitískt er hér opnað á ný tækifæri öllum til heilla. Tækifæri sem lengi hafa verið í umræðunni en ekki tekist að ná fylgi við.

Þetta leiðir hugann að grein sem Páll Torfi Önundarson yfirlæknir og prófessor skrifaði í Morgunblaðið 29. mars 2001 og gerði  að tillögu sinni að strax yrði hafist handa við byggingu “bráðaþjónustuhúss (meðferðarkjarna) án legudeilda, sem byggðar yrðu síðar” á efri hluta lóðar gamla Landspítalans.  Tillagan hlaut ekki undirtektir stjórnenda, sem notuðu næstu misserin til þess að vinna miklu stærri nýbyggingu fylgis og til þess að skoða framtíðarstaðsetningu sjúkrahússins á öllu Reykjavíkursvæðinu.  Árið 2002 ákváðu stjórnvöld, að framtíðaruppbygging sameinaðs Landspítala yrði á  lóðinni við Hringbraut.  Sú ákvörðun byggði m.a. á þeirri staðreynd, að á Hringbrautarlóð væri þá þegar miklu meira nýtanlegt byggingamagn (um 60.000 fermetrar, 67%) heldur en á lóðinni í Fossvogi (um 30.000 fermetrar, 33%).  Einnig var tekið tillit til staðsetningar kennsluspítalans í nálægð við Háskólann og flugvöllinn, nýr barnaspítali hafði verið reistur við Barónsstíg og uppbyggingarsjónarmið í miðborg Reykjavíkur vógu nokkuð. Á þessum tíma var aðalskipulag Reykjavíkur AR2001-2024 í gildi með mjög öflugum samgöngutækifærum sem flest ef ekki öll eru ekki lengur í kortunum.

Nokkrum árum síðar vakti Páll aftur athygli á hugmynd sinni og hafði hann þá unnið hana lengra í samvinnu við Magnús Skúlason arkitekt. Hann skrifaði aftur grein um málið þann 12.febrúar 2013 í Morgunblaðið og fer þar dýpra inn í málið.

Tillaga þeirra, Páls og Magnúsar, var að byggja u.þ.b. 60-70.000 m2 stækkun spítalans á efri torfunni fyrir ofan gömlu Hringbrautina, mest þar sem Hjúkrunarskólinn stendur nú. Byggð yrðu um fjögurra hæða hús auk kjallara með praktískum tengingum milli húsa. Sú stækkun er á við tvo Borgarspítala.  Stækkunina má gera í áföngum. Miðja starfseminnar yrði bráðaþjónustuhús (meðferðarkjarni). Hugmynd þessi hlaut jákvæð viðbrögð hjá íbúasamtökum miðborgarinnar ólíkt SPITAL skipulaginu. Í Skipulagsráði Reykjavíkurborgar, sem upphaflega tók hugmyndinni vel, var  síðar rutt af borðinu af höfundum SPITAL tillögunnar, sem beðnir voru um álit á henni þrátt fyrir augljósa hagsmunaárekstra. Hún hefur ekki verið skoðuð nánar svo kunnugt sé, allavega ekki af óvilhöllum aðilum. Henni var líklega fórnað á altari þöggunarinnar.

Sú hugmynd sem líklega verður endurskoðuð var að halda áfram að hanna risabyggingar eins og engar breytingar hafi orðið í samfélaginu síðan 2002. Ekki neinir túristar, ekkert nýtt aðalskipulag, flugvöllurinn á sínum stað og mislæg gatnamót nánast allstaðar og ein fjögur bílagöng innan borgarmarkanna. Byggingarnar áttu mestmegnis að vera á neðri torfunni neðan við gömlu Hringbraut, samkvæmt svokölluðu SPITAL deiliskipulagi (samtals um 220.000  m2 nýrra fermetra í nokkrum áföngum í viðbót við það sem fyrir er á lóðinni sem er um 66.000 fermetrar). Ýmsir telja SPITAL hugmyndina vera miklu stærri heldur en starfsemin þarfnist næstu árin. Á móti var sagt að verið sé að hanna til miklu lengri tíma, nánast til allrar framtíðar. Spítalaklomplex uppá 300.000 m2 getur líklega þjónað meira en 600.000 manns. Kærir framtíðin sig um slíka hugmyndafræði?

allt að 300.000 m2 spítalasvæði eins og deiliskipulag SPITAL gerir ráð fyrir er allt of stórt fyrir landið, fyrir vegakerfið, fyrir Þingholtin og fyrir efnahaginn. Þetta fyrirkomulag Páls og Magnúsar virðist vera mun starfrænna og skilvirkara en þær hugmyndir sem nú er unnið eftir.  Fyrir utan hvað það fellur mun betur að gamla Landspítala Guðjóns Samúelssonar og umhverfinu öllu.

Nú er bara að endurskoða þetta Hringbrautarverkefni, trappa það niður kannski í takti við hugmyndir Páls og Magnúsar og fara tafarlaust í það verkefni að finna nýjan stað til langrar framtíðar fyri næsta sjúkrahús. Það virðist vera kominn pólitískur meirihluti fyrir því að leysa þetta mikla mál með farsælum hætti.

+++++

Efst í færslunni kemur skýringarmynd þeirra Páls Torfa yfirlæknis og prófessors og Magnúsar Skúlasonsr arkitekts.

Tillagan sýnir fullburða háskólasjúklrahús af hæfilegri stærð. 135.000 m2 sjúkrahús sem byggt yrði norðan gömlu Hringbrautar er hæfilegt fyrir 300-400 manna þjóð. Þessi framkvæmd gæti verið komin í fullan rekstur eftir örfá ár.

Litir eru notaðir til að skýra áfangana sem nánar eru greindir hér :

ÁfangI 1 (svartur): Bygging bráðaþjónustuhúss (meðferðarkjarni), legudeilda, rannsóknastofuhúss. Gamli Hjúkrunarskólinn/Eirberg verði rifin og bráðaþjónustuhús byggt þar. Í bráðaþjónustuhúsi (meðferðarkjarni) verði a.m.k. bráðamóttaka, myndgreining, skurðstofur og gjörgæslur. Byggð verði stækkanleg álma til suðurs með einni legudeildarálmu í fyrstu (8 nýjum legudeildum). Í stækkuðu rannsóknastofuhúsi (K byggingu, teikning er til) verði auk núverandi miðlægrar kjarnarannsóknastofu (klíniskrar lífefnafræði og blóðmeinafræði), sýklafræði, veirufræði, ónæmisfræði, blóðbanki og líffærameinafræði. Tengibygging verði við CD álmu milli bráðaþjónustuhúss og kvennadeildar.

Áfangi 2 (rauður): LEGUDEILDIR:  Stækkun suðurálmu með tveim nýjum legudeildarálmum.

Áfangi 3 (grænn): til SEINNI TÍMA. Seinna mætti byggja í norður frá kvennadeild og í norður frá bráðaþjónustuhúsi og sunnan geðdeildarbyggingar.

Á landinu sunnan gömlu Hringbraurar bætti bygga milli 500 og 1000 íbúðir í háum gæðaflokki fyrir fólk. En eins og allir vita er mikil og aðkallandi þörf fyrir íbúðahúsnæði í vesturhluta borgarinnar.

+++

Ef menn hefðu viljað skoða hugmynd Páls betur fyrir 17 árum væri líklega nú frábært háskólasjúkrahús þarna við Hringbraut sem fullnægði öllum þörfum starfsmanna og sjúklinga, 2300 manna íbúðabyggð á syðri hluta svæðisins og undirbúningur hafinn fyrir næsta sjúkrahús á góðum stað sem smellpassaði inn í aðalskipulag Reykjavíkur og Svæðaskiðulag höfuðborgarsvæðisins. En menn hafa sólundað dýrmætum tíma í hugmyndir sem ekki eru bara rangar heldur er engin sannfæring fyrir.

+++

En best væri auðvitað að hafna allri uppbyggingu við Hringbraut og byrja að nýju á nýjum stað og hugsa til framtíðar. En þessi lausn sem hér er minnt á gæti verið málamiðlun sem sætt gæti náðst um í samfélaginu og auðvitað í pólitíkinni.

+++

Breytt 18.03.2018   Kl.:  23:35

Nú sér maður að fólk er farið að toga ályktunina fra landsfundinum til þannig að annar skilningur er lagður í hana en lesa má af henni. Hér er hún orðrétt í heild sinni eins og hún var samþykkt.:

Mér er fyrirmunað að skilja þetta öðruvísi en fram kemur í pistli mínum. Ef skilningur þeirra sem samþykktu þennan texta að ofan er sá að klára það sem er verið að hanna og stoppa svo þá er skelfileg mistök hér á ferð. Meðferðarkjarninn er miðaður við uppbygginguna eins og deiliskipulagið boðar með um 300.000 m2 byggingum sem tengjast spítalastarfseminni. Það þarf að skýra það út fyrir borgurunum, skattgreiðendum og öllum hvernig þetta er þá hugsað í smáatriðum. Svo þarf landsfundur Sjálfstæðisflokksins að hafa aðgang að fólki sem getur skrifað texta sem allir skilja.

Ég vona að þeir sem túlka þennan texta á annan veg en hann hljóðar hljóti að vera að vaða reyk.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (13)

  • Ásmundur

    Eftir mikla áherslu á að spíitalinn sé á einum stað er undarlegt að boða nú byggingu annars spítala til viðbótar við spítalann við Hringbraut.

    Ég held því að hér sé átt við einkarekinn spítala enda einkarekstur mikið kappsmál Sjálfstæðisflokksins þrátt fyrir afleita reynslu af því rekstrarformi á heilbrigðissviðinu.

    Þetta er aðeins stefna flokksins sem kemur vonandi aldrei til framkvæmda frekar en einkavæðing Landsvirkjunar sem Sjálfstæðisflokkurinn ályktaði um á landsfundi fyrir mörgum árum.

    Mikill meirihluti Íslendinga ert á móti frekari einkavæðingu heilbrigðiskerfisins.

  • Hlöðver Stefán Þorgeirsson

    Hilmar, þú hefur lýst áhyggjum þínum af ásýnd nýbygging og samspili þeirra við byggðina í sunnanverðu Skólavörðuholtinu og í Þingholtunum.

    Mér sýnist þessi tillaga alls ekki vera til bóta af því leiti, þó hvorug sé verulega góð að mínu mati.

    Reyndar sýnist mér að þörfin sem virðist vera á réttum hornum í þessum spítalabyggingum rústi, og hafi þegar rústað, þessum hluta Hringbrautarskipulagsins sem byggir á lágreistri byggð og mjúkum línum sem lagi sig að hæðarlínum landslagsins. Almenningsgarðurinn sem teiknaður var utan um Landspítalann er orðinn að kraðaki hornréttra bygginga sem eru að mínu mati sár á þessum hluta borgarinnar.

    Eru þessi réttu horn komin til af viðleitni til auka hagkvæmni bygginganna, eða af oftrú á gæðum amerísks rúðuskipulags sem er að mínu mati allsráðandi í vinningstillögu Vatnsmýrarsamkeppninnar, eða af öðrum ástæðum? Hvað heldur þú? Ertu sammála mér að hún komi niður á ásýnd spítalalóðarinnar í þessu umhverfi?

    Guðmundur Hannesson lýsir þeirri kenningu í sínu liti um skipulag bæja að beinar og hornréttar línur í byggðaskipulagi eigi eingöngu vel við í ákveðnum undantekningatilvikum. Ég heillast af þeirri hugmynd og finnst að hún mætti fá meira vægi í byggðamótun og í umræðum um skipulagsmál.

    • Hilmar Þór

      Hlöðver Stefán Þorgeirsson.

      Eg lít á þessa teikningu sem skematíska nálgun á lausn ofan við gömlu Hringbraut. Biðleik sem alllir eru nú að óska eftir.

      Þessa hugmynd má svo aðlaga að því sem fyrir r sem ætti að vera skilyrði og er skilyrði ef mark skal taka á hinni opinberu menningarstefnu í byggingalist.

      Allavega fengi gamla Landspítalabyggingin notið sín og sama má segja um barnaspítalann sem er hin ágætasta bygging.

  • Ég sem hélt að sjálfstæðismenn væru hér að höggva á hnútinn. Vonandi er Bjarni Benediktsson að misskilja ályktunina. Er það ekki augljóst? Hann á ekki að hlusta svona mikið á Þorkel Sigurlaugsson. Hann er alltaf með sömu tugguna. Dæmigerður “þverhaus” eins og Sighvatur Björgvinsson skilgreinir slíka.

  • Þessi ályktun Landsfundar er viljandi höfð eins loðin og þvælukennd og framast er unnt. Eigi að síður skildi ég hana þannig að til standi að halda áfram með fyrirhugaðar framkvæmdir við Hringbraut. Eins og heilbrigðisráðherra er búinn að boða og stjórnarsáttmálinn kveður á um.

    Gera menn ráð fyrir að þessi meira og minna óskiljanlega ályktun frá Landsfundi Sjálfstæðisflokksins núlli út stjórnarsáttmálann?

    Ég myndi ætla að það sé hrein bilun að fara að byggja yfir jáeindaskannann við Hringbraut en jafnframt róa að því öllum árum að aðalbygging spítalans, meðferðarkjarninn, rísi á einhverjum allt öðrum stað í borgarlandinu.

    Tæpast er það ætlunin að setja þessa jáeindaskannabyggingu á ís.

    • Baldur Gunnarsson

      Það kemur nýr jáeindaskanni í nýtt sjúkrahús á nýjum stað.

  • stefán benediktsson

    „á næstu áratugum“ eru lykilorðin í þessari ályktun.

  • Hættu þessu bulli Hilmar. Lausnin er löngu fundinn. Hún er við Hringbraut. Spái því að Bjarni og Kata muni taka fyrstu skóflustunguna saman í vor.

    http://www.visir.is/g/2018180318947/segir-alyktunina-snuast-um-annad-og-serhaefdara-sjukrahus

    „Bjarni segir því að ályktunin raski ekki fyrirhugaðri byggingu þjóðarsjúkrahússins svokallaða við Hringbraut, heldur sé frekar verið að horfa til fjarlægari framtíðar.“

    • Jón Guðmundsson

      Stebbi!
      Þessi vísislinkur og það sem stendur þar er ekki í samræmi við orðanna hljóðan í ályktuninni.
      En það má eflaust toga þetta eitthvað til.

    • Hilmar Þór

      Það er auðvitað áfall að lesa þetta á visir.is stebb og lesa skilning Bjarna á þessum texta.

      En textinn í ályktuninni er mjög skýr að flestra mati.

      „…… Lokið verði þeirri uppbyggingu á Landspítalalóð sem komin er á framkvæmdastig og tengist núverandi starfssemi. Farið verði tafarlaust í staðarvalsgreiningu fyrir framtíðaruppbyggingu sjúkrahússþjónustu með öryggi og sterkari umferðatengingu að leiðarljósi. Þannig verður horft til nyrra og breyttra þarfa, fleiri valkosta fyrir starfsmenn og sjúklinga og hugsanlega annars konar sérfræðinga á næstu áratugum“

      Þú getur lesið textann í heild sinni sem erfitt er eð skilja eins og Bjarni túlkar hann að ofan. Það er enn verið að hanna meðferðarkjarnann og hann er því ekki kominn á framkvæmdastig.

      Eins og fram kemur í færslunni gengur hugmynd Magnúsar og Páls út á einmitt það að klára heildstætt háskólasjúkrahús sem dugir okkur næstu áratugina. Til þess nægja 140 þúsund fermetrar sem hægt er að byggja norðan gömlu Hringbrautar. Við þurfum aldrei á þeim 160 þúsund fermetrum sem eftir eru fyrir háskólasjúkrahúsið á þessum stað eins og núverandi hugmyndir ganga út á.

  • Jón Guðmundsson

    Þetta er skýrt hjá sjálfstæðismönnum og það er engin ástæða til þess að efast eitthvað um heilindin að baki þessu séu ekki í lagi. Þór Saari getur haft efasemdir en það er ástæðulaust. Málið var komið út í horn og allt stefndi í óefni. Nú er fundin málamiðlun sem allir hljóta að styðja þó þetta sé ekki eins og best er á kosið fyrir neinn og lausnin verður líklega svipuð þeirri sem hér er lýst.

  • Þór Saari

    Ályktun Sjálfstæðisflokksins er náttúrulega bara ábyrgðarlaust raus manna sem hatast við almannaþjónustuhlutverk heilbrigðiskerfisins og vilja einka(vina)væða það. En þeir eiga sér víst næga viðhlæjendur.

    • Hilmar Þór

      Ég var ekki sammála þér Þór Saari þegar ég las þessa athugasemd þína í gær. En eftir viðbrögð Bjarna og einkum Þorkells Sigurlaugssonar í gærkvöldi fóru að renna á mig tvær grímur. 🙁

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn