Miðvikudagur 18.10.2017 - 19:41 - 9 ummæli

Landspítalinn – Glæsilegar nýbyggingar

Hönnunarteymið sem varð hlutskarpast þegar hönnun meðferðarkjarna Landspítalans var boðið út er samsett af einhverjum færustu arkitektum landsins. Þetta eru arkitektastofurnar Basalt og Hornsteinar.  Nýlega birtust á netinu og í fyrlgiblaði Morgunblaðsins fyrstu tölvumyndir af mannvirkinu. Það er ekki hægt að segja annað en að þetta lítur mjög vel út. Hönnuðum hefur tekist að skapa létta og fallega byggingu með formi og efnisvali sem virðist draga úr mikilli hæð og umfangi hússins. Þetta kemur glöggt fram á hjálögðum myndum.  Arkitektarnir hafa að sögn lagt mikla áherslu á flæði fólks innan meðferðakjarnans sé þannig að auðvelt sé að rata um þessa miklu byggingu sem verður eflaust mjög starfræn. Önnur mikil áskorun er að skapa sveigjanlega byggingu sem samt á að standast meiri kröfur en aðrar byggingar þegar kemur að jarðskjálfta.  Mikil áhersla er lögð á dagsbirtu innan byggingarinnar sem hlýtur að vera vandasamt í eins djúpu húsi og hér um ræðir. Þetta lítur allt mjög vel út og lofar góðu.

+++++

Fallegar og vel hugsaðar byggingar skipta miklu máli hér eins og alls staðar annars staðar. En það er sama hversu vel þetta er allt saman hannað, staðsetningin verður ekki góð þess vegna. Staðsetningunn verður ekki bjargað með fallegum húsum. En það hjálpar. Og það er engin ástæða til þess að halda að sjúkrahús á nýjum og betri stað verði eitthvað síðri, hvað ásýndina varðar, en  hér er gefið fyrirheit um. Síður en svo.

 

++++

Það er öllum ljóst sem kynnt hafa sér málið að allt stefnir í að spítalinn verði byggður á röngum stað sem mun valda óþarfa samfélagslegu tjóni.  Ég veit ekki hvort fólk hefur áttað sig á því að þegar byrjað verður á meðferðarkjarnanum sem fallegu myndirnar tvær að ofan eru af,  þarf að leggja niður milli 120-150 bifreiðastæði sem nú eru þar sem byggingin á að rísa. Þetta er afar óheppilegt vegna þess að ljóst er að það þarf að útvega bifreiðastæði fyrir nokkur hundruð iðnaðarmenn sem munu starfa við bygginguna auk vinnuskúra og þ.h. Þetta er viðbót við núverandi bílastæðaþörf sem er af skornum skammti.

Að neðan er tafla úr gögnum deiliskipulagsins sem sýnir að gert er ráð fyrir rúmlega 53 þúsund fermetra bifreiðastæðahúsum á lóð spítalans. Þetta er gríðarlega stórara byggingar sem helst þyrfti að byggja áður en hafist er handa við meðferðarkjarnann. Biílastæðahúsin eru líklega ekki mikið minni en Smáralindin í Kópavogi og munu hýsa um 2000 bílastæði neðanjarðar og ofan. Líklega hefði verið skynsamt að byrja á að leysa bílastæðavandann áður en hinar eiginlegu byggingaframkvæmdir hefjast við meðferðarkjarnan.

++++

Þegar horft er á myndina að ofan sér maður strax að þessi mikla uppbygging á þessum stað fellur illa að því byggðamynstri sem þarna er. Í raun er vandséð að deiliskipulagið sé í samræmi við Menningarstefnu hins opinbera í mannvirkjagerð frá 2007 og AR2010-2030.

Í menningarstefnu hins opinbera í mannvirkjagerð segir meðal annars að áhersla skuli lögð „á heildarmynd og mælikvarða þegar byggt er í og við eldri byggð.“ Í stefnunni er talað um að „hvetja skuli til heildarhugsunar forms og rýmis, hlutfalla, efnis og litanotkunar í samspili við umhverfið.“ Í stefnunni segir um góða hönnun að hún sé „nátengd stað og notkun og feti varlega um tímabundnar sveiflur tískunnar hverju sinni.“Í raun er hér verið að hvetja til staðbundinnar byggingarlistar, „regionalisma“.

Í aðalskipulagi Reykjavíkur AR2010–2030 er tekið á staðarandanum þótt það orð sé ekki notað. Í skipulaginu er talað um „borgarverndarstefnu“ og að „í miðborg Reykjavíkur séu fólgin mikil menningarverðmæti sem byggja skal á til framtíðar“ og áhersla skuli lögð á „hið staðbundna.“ Þetta séu grundvallaratriði til þess að tryggja „hagsæld borgarinnar til framtíðar og sérstöðu hennar meðal borga.“ Í aðalskipulaginu er beinlínis sagt að nýjar byggingar í eldri hverfum skuli lagaðar að „einkennum byggðarinnar þannig að þær verði til bóta fyrir umhverfið“ og sagt að hér sé átt við „einkenni grunnbyggðarmynsturs, hæð og hlutföll og eftir atvikum stíl.“ Lögð er sérstök áhersla á að virða einkenni Reykjavíkur innan Hringbrautar með lágreista byggð og að „ekki sé heimilt að reisa hærri byggingar en 5 hæðir.“ Vandséð er hvernið myndin að ofan stenst þessar kröfur.

 

Á myndinni að ofan sést að fyrirhugaður meðferðarkjarni er  yfir þeim mörkum sem sett er í AR2010-2030 hvað húsahæð snertir. En þar segir að hús innan gömlu Hringbrautar skulu ekki vera hærri en 5 hæðir sem venjulega er um 15 metrar. Rétt að benda á að salarhæð í meðferðarkjarnanum er verulega mikið hærri en í hefðbundnum húsum sökum starfseminnar og tæknibúnaðar. Meðferðarkjarninn er samkvæmt deiliskipualagi 25,4 metra hár sem samsvarar venjulegu 8 hæða húsi þó hann sé teiknaður sem 6 hæðir.

++++++

Að neðan kemur svo mynd af Keldnasvæðinu þar sem fyrirhuguð Borgarlína mun liggja um vonandi innan fárra ára. Þetta land er í eigu ríkisins og það er ljóst að spítalinn mun fara vel þarna, styrkja Borgarlínuna og draga verulega úr umferð einkabíla.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

  • Þetta er allt á sömu bókina lært. Og nú brjóta þeir nýja aðalskipulagið og menningarstefnuna.!

  • Í gær 19. október var góður og upplýsandi fundur í Norræna húsinu þar sem fjallað var um staðsetningu nýs þjóðarsjúkrahúss. Augljós niðurstaða fundarins var, að staðsetningin við Hringbraut væri í flestum atriðum afar óheppileg og því nauðsyn að finna spítalanum betri stað. Í inngangserindum komu fram sannfærandi rök fyrir því, að ekki yrðu tafir á verkefninu þótt fundinn yrði betri staður og jafnframt, að sú lausn væri margfalt kostnaðarminni Auðvitað þarf nefnd sérfræðinga til þess að vega og meta hvaða staðir koma helst til greina en Vífilsstaðir og Keldur hafa verið nefndir til sögunnar. Eftir inngangsræður sátu aðilar frá framboðum til alþingiskosninga fyrir svörum og voru fulltrúar Miðflokks, Pírata, Flokks fólksins og Framsóknar eindregið meðmæltir því að þjóðarsjúkrahús verði byggt á betri stað en nú er ráðgert og færðu góð rök fyrir þeirri afstöðu en fulltrúar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks vildu ekki rugga bátnum.
    Við yfirferð á fréttasíðum nú í morgun er fundarins hvergi getið og ástæðulaust að vera með getgátur um hvað því veldur. Aðalatriðið er, að þeir stjórnmálaflokkar sem eru hlynntir betri spítala á betri stað komi málinu virkilega í brennidepil umræðunnar.

  • Torfi Stefán Jónsson

    Takk fyrir góðan pistil…ein spurning með yfirlitsmyndina sem sýnir stærðina og miðbæinn. Hvaðan er hún?

    • Hilmar Þór

      Myndina fékk ég frá kynningarefni vegna spítalans í kjölfar samkeppninnar.

      En hún finnst ekki lengur á netinu.

      Ekki veit ég hvernig stendur á því en það er örugglega gert með ásetningi því myndin er hryllingsmynd.

    • Merkilegt að skoða umferðina á yfirlitsmyndinni, afar létt og mest öll út úr bænum. Sólin er nokkuð hátt á lofti þannig að þetta er kannski tekið 2 leytið í eftirmiðdaginn svona rétt þegar það er kemur hlé eftir hádegið og fyrir eftirmiðdags umferðina og það trúlega fyrir allmörgum árum.

      Öll rök um spítalinn geti hvergi annars staðar verið vegna neyðarflutninga eru fljót að hverfa í umferðarteppu kvölds og morgna.

  • Guðrún Gunnarsdóttir

    Mikið verður þetta fallegt.

  • Sigrún Gunnarsdóttir

    Flott hús en á röngum stað.

  • Þórarinn Guðmundsson

    „Að neðan kemur svo mynd af Keldnasvæðinu þar sem fyrirhuguð Borgarlína mun liggja um vonandi innan fárra ára. Þetta land er í eigu ríkisins og það er ljóst að spítalinn mun fara vel þarna, styrkja Borgarlínuna og draga verulega úr umferð einkabíla.“

    Ég heyrði borgarstjórann tala um að meginhugmynd um þéttingu byggðar sé sprottinn frá hugmyndinni að færa íbúðirnar nær vinnustöðunum og minnka þannig ferðalög og bifreiðaumferð milli vinnu og heimilis. Þess vegna væri verið að þétta svona mikið vestantil i borginni.

    Er ekki eins hægt að flytja stóra vinnustaði austar og ná þannig sama markmiði?

  • Hvaða rugl er þetta?
    Á nú að fara að plata fólk með undirfögrum tölvumyndum?
    Það er svo mikið að þessi að það gengur ekki lengur.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn