Mánudagur 16.11.2009 - 15:16 - 23 ummæli

Landspítalinn Háskólasjúkrahús – Viðbót.

Kort sem tengist umferðaspá 2012. Þarna sést hvar viðamestu krossgötu borgarinnar er að finna. 

Þessa dagana er mikil umræða um staðsetningu Landspítalans. Guðrún Bryndís Karlsdóttir fjallaði um staðsetningu LSH í Silfri Egils á sunnudaginn fyrir viku,  Gestur Ólafsson skipulagsfræðingur og Árni Gunnarsson skrifuðu grein um málið í Morgunblaðið s.l. fimmtudag; Sturla Snorrason hefur sett fram hugmyndir um staðsetningu spítalans á bloggsíðu sinni undanfarið; 37 ummæli komu í framhaldi af færslu minni um efnið s.l. miðvikudag.

Þau hafa nánast öll miklar áhyggjur af staðsetningu spítalans og færa góð rök fyrir sjónarmiðum sínum.

Auðvitað eru líka gild rök fyrir staðsetningu spítalans við Hringbraut. En við heyrum þau ekki. Maður veltir fyrir sér hver ástæðan sé.

Það heyrist ekki mikið frá þeim sem umboðið hafa og eiga að taka ákvörðun fyrir hönd okkar sem fengum þeim valdið. 

Björn Zoega forstjóri LSH lætur hafa eftir sér ummæli um val á staðsetningu í Morgunblaðinu í morgun þar sem hann í afar stuttu máli færir rök fyrir niðurstöðunni.

Það eru breyttir tímar í Reykjavíkurborg.  Borgin óskar eftir viðbrögðum við skipulagshugmyndum. Þessar vikurnar er hún með fundarröð í hverfum borgarinnar þar sem óskað er eftir afskiptum almennings af skipulaginu í upphafi vinnu við nýtt aðalskipulag.

Reykjavíkurborg er að opna umræðuna um skipulagsmál.

Af þessum ástæðum þurfa menn að vera virkir í umræðunni og það á ekki síður við um fulltrúa stofnana eins og LSH. Það fólk þarf að sannfæra borgarbúa um að verið sé að fara rétta leið. Tími fyrirbyggjandi aðgerða vegna skipulagsslysa er gengin í garð og ég þakka skipulagsráði fyrir sinn þátt í því.

Ég hef fengið á netfang mitt viðbrögð frá fólki sem þekkir vel til þessarra mála. Þakka ég öllum sem tjá sig um þetta mikilvæga mál. 

Ég birti hér hluta athugasemdar eins þeirra, Ingólfs Þórissonar framkvæmdastjóra eignasviðs Landspítalans.  Ég veit að Ingólfur er mjög vel að sér um þessi mál.

Í tölvupósti vitnar hann í færslu mína og segir svo:

„………. Þar nefnir þú að forsenda fyrir staðsetningu Landspítala sé flugvöllurinn.

Hér er einhver misskilningur á ferðinni.  Það breytir engu um staðarvalið, hvort flugvöllurinn fer eða verður. 

Staðarvalið byggir á þremur megin stoðum.

Í fyrsta lagi er meginþorri starfsemi Landspítala við Hringbrautina.  Það á að flytja starfsemi Borgarspítalans á lóðina við Hringbraut.  Það er ekki verið að byrja frá grunni við Hringbrautina heldur að þróa svæðið og ná því faglega og rekstrarlega hagræði sem sameining skilar.  Ef menn vilja byggja starfsemina frá grunni annars staðar þá er það miklu stærra og dýrara verkefni.  Það þarf að byggja allt nýtt, barnaspítala, kvennadeild, geðdeild, eldhús ofl. ofl.  Kostnaður 2-3 sinnum meiri.

Í öðru lagi er engin lóð á höfuðborgarsvæðinu betur tengd almenningssamgöngum.   Það eru 7 strætisvagnaleiðir sem koma við á lóðinni.  Mjög stór hluti íbúa Reykjavíkursvæðisins getur tekið strætó án þess að skipta um vagn beint inn á lóðina.  Þá býr helmingur starfsmanna Landspítala í göngu- og hjólafæri við lóðina (minna en 14 mínútur).

Í þriðja lagi er Landspítali háskólasjúkrahús.  Á lóðinni fer fram menntun heilbrigðisstétta, þ.e. heilbrigðisvísindasvið Háskólans.  Það svið er svo aftur í samstarfi við aðra hluta háskólans svo sem náttúruvísindi og raunvísindadeild.  Nálægð deilda Háskólans skiptir skólann miklu máli. 

Umræða um nauðsynlegar vegaframkvæmdir fyrir Landspítala svo sem Holtsgöng og að setja Nýju Hringbraut í stokk er óskiljanleg og á ekki við rök að styðjast“.

Ingólfur sendi mér viðamikla og vel unna úttekt á aðgengi að spítalanum við Hringbraut um almenningsvagnakerfið, gangandi og hjólandi. Því miður kann ég ekki að setja það hér í færsluna.

Af skrifum Ingólfs má lesa að uppbyggingin við Hringbraut kalli ekki á umsvifamiklar vegaframkvæmdir með göngum í gegnum holt og hæðir og að nálægðin við flugvöllin vegi nánast ekki neitt þegar sjúkrahúsinu er valinn staður. 

Þetta eru hvorutveggja nýjar upplýsingar fyrir mig enda hefur öðru verið haldið fram í umræðunni.

 Þetta opnar tækifæri til nýrrar nálgunnar og annarrar umræðu að mínu mati.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (23)

  • Það er kanski svolítið villandi að vera alltaf að birta mynd af vinningstillögu, sem ekki verður, samkvæmt mínum upplýsingum notuð sem fyrirmynd uppbyggingar á svæðinu.

    Eftir að hafa lesið öll þessi ummæli um staðsetningu LSH, þá sé ég engin rök sem mæla sterklega með henni á þessum stað, þvert á móti.

    Staðsetning í austurhluta Reykjavíkur væru í alla staði umferðalega miklu betri.

    Hún myndi líka örfa líf í þessum borgarhluta, sem svo oft hefur verið nefndur „svefnbær“, sökum skorts á staðsetningu atvinnuhúsnæðis.

    Að starfsfólk LSH búi allir í námunda við sinn vinnustað er engin rökfærsla. Ef þeim er það svo nauðsynlegt, þá flytja þeir bara.

    Hvar búa starfsmenn Kringlunar, Smáralindarinnar, Hagkaupa, Bónusar eða annarra stórra vinnustaða. Varla á efri hæðinni.

  • Guðrún Bryndís

    Sælir
    Ef tengillinn er óvirkur má fara inn á
    haskolasjukrahus.is
    Slá inn leitarorðið Momentum, þá kemur í leitarniðurstöður tilkynning um 19 milljarða sparnað – farið neðst á þá síðu og þar er tengill inn á skýrsluna.
    Gangi ykkur vel.
    Kveðja
    Guðrún Bryndís

  • Samúel T. Pétursson

    Takk fyrir gott innlegg Magnús

    Það er enginn held ég að véfengja að það sé ávinningur af ákveðinni nánd fyrirtækja í þekkingariðnaði og nánd við háskóla. En í hvaða skala eru menn að tala eiginlega? Hve mikla nánd þarf til að hægt sé að tala um samfellt þekkingarþorp? 5 mínútur í bíl? 10 mínútur í bíl? 30 í bíl? Nú er Silicon Valley líklega þekktasta „þekkingarþorpið“ af þeim öllum, en er engu að síður tiltölulega brotakennt fyrirbæri sem finnst í mörgum sveitarfélögum í sunnanverðri San Francisco þar sem búa mörg hundruð þúsund manns. Þar sem margir kílómetrar eru oft á milli sambærilegra fyrirtækja og leiðandi háskólar á borð við Berkeley langt í burtu. Þótt HÍ, HR, LSH og öll þekkingarfyrirtæki borgarinnar væru í sínum hverjum afkima hennar væru fjarlægðirnar lítt frábrugðnar þeim sem eru í Silicon Valley. Það mætti þess vegna kalla alla borgina eitt samfellt „þekkingarþorp“. Það hefur verið mikið skrifað um þekkingarþorp og hve miklar aflstöðvar þær séu og eigi að vera, en það hefur, að mér vitandi, aldrei verið sýnt fram á það vísindalega að það sé þekkingarfyrirtæki óumdeilanlega til framdráttar að vera í klasa með öðrum slíkum. Og hvort klasi í minni skala en sá sem höfuðborgarsvæðið er í dag sé nauðsynlegur. Síðan má ekki gleyma undantekningum frá þessari reglu og meira að segja ákveðin þróun frá þessu, með flutningi þekkingarfyrirtækja í smærri borgir með viðráðanlegri sköttum og gjöldum, víðs fjarri öllum þekkingarþorpum. Enda tæknin orðin slík að nándin skiptir ekki öllu. Þessar pælingar eru því ekki „í takti við það sem menn eru að gera erlendis“ eins og þú nefnir, heldur í takti við það sem menn voru að gera fyrir 20 árum síðan…

    Þetta veldur því að ég tel að menn séu að gefa þessum „þekkingarþorps“ hluta allt of háa einkunn í staðarvali LSH, ekki síst þegar þetta þekkingarþorp stefnir í að verða bastarður mikill, með flugvelli í miðjunni, og með óheyrilega óheppilegum áhrifum á samgöngur og umferðarflæði í borginni.

  • Áfram um þessa umræðu.
    Geri mér ekki grein fyrir í svona „bloggi“ hvað „athugasemdir“ fá að hanga lengi inni.
    Það er samt sem áður nausynlegt að þetta sé ekki „sjálfdautt“ eftir mánuð eða svo.
    Það þarf oft að vísa í ummæli, sem allt í einu eru ekki til eða horfinn.
    Við með „Teflonheila“ getum átt erfitt með þetta.
    Mannkynssagan hefur einhverja byrjun og áframhald.
    Þessi umræða þarf að hafa það líka.

  • Ég bið Guðrúnu Bryndísi líka um að athuga tengilinn.

    Og ég bið forsvarsmenn LSH að taka þátt í þessari stórmerkilegu umræðu.

  • Guðrún Bryndís.

    Getur verið að tengillinn sem fylgir í pistlinum þínum sé læstur? Þ.e. að almenningur hafi ekki aðgang að honum. Ég átta mig ekki frekar en þú á þessum kostnaðartölum hjá Ingólfi.

  • Guðrún Bryndís

    Hér koma vangaveltur mínar varðandi athugasemdir Ingólfs:
    1. Ég bendi á að það er ekki verið að tala um að byggja upp starfsemi heldur flytja hana í nýtt húsnæði. Starfsemin sem fer fram í Landspítalanum er góð, en húsnæðið er vandamál.
    Í úttekt Momentum arkitekta bls. 12 (krækjan í þessa skýrslu er neðar í færslu) er samantekt á stærðum sjúkrahúsa sem þjónar svipuðum mannfjölda og Landspítalinn. Þar kemur fram að það mætti reikna með að Nýr Landspítali gæti orðið um og yfir 90.000 fermetrar að stærð. Nothæfar byggingar skv. þessari skýrslu eru Geðdeildarbyggingin og Barnaspítalinn. Það er verið að tala um að byggja 67.000m2 bráðakjarna (þ.e. skurðstofur, gjörgæsla, rannsóknastofur, bráða- og slysa) með 180 legurýmum og flytja starfsemi Fossvogs þangað og sameina bráðakjarna í nýbygginguna, í næsta áfanga á að bæta við legurýmum og stoðþjónustu (væntanlega um 40.000 m2). Seinna á að byggja 7.000 m2 verslunarmiðstöð og heilbrigðisvísindadeild (úr fréttum sem tengjast viljayfirlýsingu). Ég skil ekki hverni kostnaðurinn sem tengist Landspítalanum getur orðið 2-3 sinnum meiri m.v. þessar forsendur.
    Í Barnaspítalanum er engin bráðakjarni, það þarf að ferðast með börn langa leið til að þau fái þjónustu þar (rannsóknir, aðgerðir, gjörgæsla). Þau fengju væntanlega betri þjónustu ef þau væru hluti af spítalanum. Barna- og Unglingageðdeild (BUGL) er hluti af barnasviði, starfsemin á Dalbraut gæti flutt á Hringbraut og Geðdeildin þarf ekki endilega að vera hluti af nýbyggingu. Húsnæði BUGLsins gæti nýst öldrunarþjónustunni á því svæði (það yrði þá til þorp fyrir aldraða á Dalbraut).
    Það kemur mér á óvart að Kvennadeildin eigi að standa áfram í óbreyttri mynd, það er gerð krafa um einbýli í nýjum spítala, en flestar stofurnar í Kvennadeildinni eru fjölbýli (allt að 6-býli).
    2. Strætisvagna kerfið aðlagar sig að þörfum notenda (ég hef reyndar ekki séð stoppistöðina ‚beint inn á lóðina‘ ég hef aftur á móti séð stöð við Nýju Hringbraut og við Snorrabraut). Á undanförnum árum hafa nágrannalöndin flutt starfsemi sjúkrahúsa úr miðborgum í nýjar spítalabyggingar og valið þeim nýja staðsetningu, það sem hefur vegið hve þyngst við staðarval eru samgöngur, þá er tekið mið af því hvaðan sjúklingar og aðstandendur búa (ekki hvar starfsfólkið býr), svona stór vinnustaður hefur þau áhrif á umhverfið að það styrkir þjónustu (verslanir, veitingastaðir) í hverfinu og húsnæði í nágrenninu verður eftirsóknarverðara.
    3. Staðsetning LSH við Hringbraut er í akstursfjarlægð frá annari starfsemi Háskólans og verður það áfram, ef sjúkrahús yrði byggt frá grunni má búast við því að heilbrigðisvísindadeild yrði hluti af nýbygginu. Það er ekki búið að byggja vísindaþorp eða Tæknigarð í Vatnsmýrinni, þannig að tengingin við þessa vísindastarfsemi er ekki tímabær. Það er alltaf matsatriði hvort vegur þyngra: að akstursleið starfsmanna náttúru- og raunvísinda eða sjúklinga.
    Það má gera ráð fyrir 40-60.000 ferðum að spítalanum á sólarhring, sú umferð á eftir að aukast. Í öllum spám vegagerðarinnar um umferðarþunga í framtíðinni er gert ráð fyrir göngum, til að anna allri þeirri umferð sem fer inn í miðbæ Reykjavíkur. Það minnkar væntanlega þörfina fyrir umferðarmannvirki í miðborginni ef LSH yrði staðsettur austan Elliðaáa.
    Ég bendi þeim sem áhuga hafa á vegagerdin.is – þar er hægt að finna upplýsingar um umferðarspár og hvernig uppbygging borgarinnar gæti orðið, það svarar spurningum eins og: Hvar verður atvinnuhúsnæði byggt upp í framtíðinni og hvar bætist við íbúasvæði.
    http://haskolasjukrahus.is/nyrlandspitali/upload/files/kynningarfundir/21.april_2009/landspitali_report_03_04_09_(2).pdf

  • Magnús K. Magnússon

    Samúel:
    Varðandi punkt nr. 3. um staðsetningu háskólasjúkrahússog annarar háskólastarfsemi. Það er rétt að það er vel þekkt að Læknadeildir(heilbrigðisvísindadeildir) er oft á tíðum staðsett annars staðar en aðrir hlutar kampusa skólans. Þú nefnir Johns Hopkins, Panum, – einnig mætti nefna Harvard-sjúkrahúsin o.s.frv. En ég held að langflestir séu sammála um að náin tengsl eigi að vera á háskólasjúkrahúss og meðfylgjandi háskólastarfsemi, læknadeild og þeirra grunnvísindadeildir. Þannig er það á Johns Hopkins (hef sjálfur m.a. starfað þar í stuttan tíma) og raunar langflestum háskólasjúkrahúsum sem við viljum bera okkur saman við. Við þurfum að spyrja okkur – er stærð heilbrigðisvísinda svo mikil að hún njóti ekki góðs af nálægð við aðrar deildir. Hér liggur munurinn. HÍ er lítill háskóli, og rannsóknarhlutinn er enn minni. Við læknadeild er ein af öflugustu rannsóknar/vísindaeiningum HÍ og að slíta þau tengsl við aðrar deildir HÍ er alveg örugglega viðsjárvert.
    Annað sem má nefna er að Háskólasjúkrahús bæði austan hafs og vestan er iðulega nátengd skipulagslega við uppbyggingu hátækniiðnaðar (líftækni etc). Reykjavík hefur viljað byggja hátækni/sprotafyrirtæki í Vatnsmýrinni og það er einnig mjög sterk rök fyrir því að halda sjúkrahúsinu og heilbrigðisvísindum á þessum stað. Benda má að skýrslur um uppbyggingu nýsköpunar og vísindastarsemi hér á landi hafa alltaf bent á mikilvægi þess að byggja upp nálægð milli akademíu og sprotafyrirtækja. Við höfum í dag Íslenska Erfðagreiningu, Læknadeild, Líffræðina (í Öskju) og væntanlega tæknigarða alla á svipuðum stað. Þetta helst svo sannarlega vel í hendur og er í takt við það sem menn eru að gera erlendis.
    Ég held raunar Samúel, að ástæða þess að Margir læknaskólar (m.a. þeir sem þú nefnir) hafa flust frá eldri campusum hafi fyrst og fremst með það að gera að þeir hafa vaxið gríðarlega og í þröng settum borgum Evrópu og USA hafa þeir orðið að flytja í burtu – þeir hafa ekki valið það. Sem sagt, við höfum þann lúxus að hafa geysilega mikið byggingarsvæði á okkar háskóla-svæði. Þetta gefur okkur mikil tækifæri. Við getum haldið áfram uppbyggingu háskólastarfsemi ÁN þESS að slíta hana í sundur og jafnframt stuðlað að uppbyggingu hátækni- og sprotafyritækja á þessu sama svæði. Er það ekki draumur hvers borgarskipuleggjanda? Ég bara spyr?
    Ég er sannfærður um að enginn Háskóli vilja slíta í sundur háskóladeildir. Þeir gera það allir af neyð, þ.e. þeir sprengja byggingarsvæði utan af sér. Við erum ekki í þeirri stöðu.

    Ég tel raunar að Listaháskólinn ætti helst að koma þarna líka – en ég ætla að leyfa þeim sem betur þekkja til mála í þeim geira að dæma það.

  • Samúel T. Pétursson

    Þessar þrjár meginstoðir, sem Ingólfur nefnir, eru góðar og gildar en það má eftir sem áður efast mjög um kosti Hringbrautarlóðarinnar eftir sem áður.

    1. Þótt nú sé gert ráð fyrir að nýta núverandi byggingarmagn við Hringbraut mátti lesa það út úr staðarvalsskýrslunni að núverandi húsakostur væri úr sér genginn, bæði fúnksjónelt og viðhaldslega. Þess vegna átti að slaufa þeim öllum og byggja nýtt frá grunni. Það eina sem nýttist áfram væri barnaspítalinn, ef ég man rétt. Þetta þýðir jafnframt að ef áfram á að nýta núverandi byggingar þarf að reikna með miklum kostnaði við að nútímavæða hann. Hve mikið tillit er tekið til þessa kostnaðar í matinu? Slíkur kostnaður er ævinlega mjög vanmetinn í öllum kostnaðaráætlunum og má benda á mýmörg dæmi þar um. Síðan er umhugsunarvert mikið hve mikill kostnaður er falinn í bílakjallara nýja spítalans, ef hann verður byggður þarna. Gera þarf ráð fyrir mörg þúsund bíla kjallara til að uppfylla staðla og fylgja þeirri íslensku hefð að bjóða upp á gjaldfrjálst hámarksmagn bílastæða til handa starfsmönnum og öðrum. Slíkan kjallara mætti spara með byggingum á rúmbetri lóðum annars staðar. Síðan er umhugsunarvert hvert verðmæti lóðarinnar er, en hún hlýtur að teljast með þeim eftirsóknarverðari fyrir blandaða byggð í anda Þingholtanna, og ódýrara að nútímavæða núverandi húsakost fyrir aðra notkun en sjúkrahús.

    2. Þetta með almenningssamgöngur lýsir vel hve menn hugsa þetta ofan í boxi. Ef spítalinn yrði byggður annars staðar fylgdu því auðvitað breytingar á kerfi almenningssamgangna þannig að hægara yrði um vik að að komast þangað með strætó, nú eða gangandi og hjólandi. Ef hann yrði byggður við Keldnaholt er ekki ólíklegt að fjölgað yrði beinum strætóleiðum þangað. Líka úr nágrannasveitarfélögum. Það er líka svo að þessi helmingur starfsmanna, sem Ingólfur nefnir að noti strætó, gangi eða hjóli, kemur líklega að langmestu leyti úr hópi ófaglærðra. Þeir búa ekki í fínum húsum í vesturbænum, heldur í blokkum í Breiðholtinu. Staðsetning austar í borginni gerði því líklega flestum þeim starfsmönnum, sem notar strætó, þeim hægar um vik að komast í og úr vinnu án bíls. Staðsetning spítalans austar í borginni myndi því að nær örugglega jafna álagið á samgöngukerfið sem svona spítala fylgir og auka lífsgæði ófaglærðra starfsmanna spítalans.

    3. Ekkert af þeim háskólasjúkrahúsum, sem fremst eru í heiminum meðal jafningja, eru sérstaklega landfræðilega nátengd þeim háskólum sem þær starfa með. Hvort sem það eru Johns Hopkins í Baltimore eða Kaupmannahafnarháskóli og Panum Institutet. Ekki virðist það koma að neinni sök og starfsemin í blóma þrátt fyrir það. Samkvæmt ferðavenjukönnunum í RVK er Hringbrautarlóðin hvort eð er of langt frá HÍ til að fólk nenni að labba á milli, og of stutt til að strætó sé praktískur. Það munu því flestir, stúdentar sem kennarar, aka þarna á milli.

  • Eitt af því fyrsta sem hægt væri til að koma aðgengi gangandi vegfaranda í betri skorður við spítalan er td. gangbraut yfir Eiríksgötu nálægt Þorfinnsgötu. Líka almennilegar gangbrautir yfir Gömlu Hringbraut svo hægt sé að komast úr og í strætó. Eins og staðan er í dag er engin skilgreind gangbraut yfir Gömlu Hringbrautina þrátt fyrir að það sé greinilega gert ráð fyrir nokkrum leiðum yfir götuna fyrir gangandi vegfarendur. Það að ekki sé merkt gangbraut gerir það að verkum að gangandi eru að skjóta sér á milli bíla því sjaldan er stoppað til að hleypa yfir.

  • Þetta er algjörlega útur kortinu, fólk hlýtur að sjá það að þessar byggingar eiga eftir að standa þarna eins og illa gerðir hlutir, í engu samhengi við umhverfið og „smágerða byggð þingholtanna“ Skipulagsslys aldarinnar í uppsiglingu.

    Einnig er ég alveg hjartanlega sammála því að íslenskir arkitektar fá ekki mikið að gera vegna þessa verks, einnig ættu þeir kannski ekkert að gera það þar sem svona sérhæfð bygging ætti að vera hönnuð af fólki sem gerir ekkert annað en að hanna slíkar byggingar.

  • Jafnvel þótt þessi bygging sé full dýr o g stórkarlaleg eins og þetta er sett upp þá get ég tekið undir sjónarmiðin með staðsetninguna á hringbrautinni. Með umferðarvandamálið verða náttúrulega að hugsa um hvaðan umferðin kemur, og að stórum hluta er það náttúrulega starfsmenn spítalans, sem margir hverjir búa þegar í dag í nágrenni spítalans í dag, og tengingin við Háskólana gæti að auki verið skemmtileg og hugsanlega styrkt framtíðarbyggð í vatnsmýrinni.
    Mér finnst reyndar synd eins og teikningarnar eru settar upp að gamla Landpítalahúsið fer algjörlega í skugga bak við nýbyggingarnar, mér finns það ætti að sýna gömlu aðalbyggingunni meiri virðingu og próna betur í kringum hana.

  • Þessi umræða byrjaði vegna umræðu um hvort flugvöllurinn ætti að vera eða fara og svo kom þetta með staðsetningu Háskólasjúkrahúsins.

    Þetta hús er að minstakosti 2 númerum of stórt miðað við staðsetningu.

    Allavega 4 númerum of stórt umferðalega séð.

    Fer aftur til baka í þá umræðu að skipulagsmál séu alltaf einhverskonar „bútasaumur“ og fjárhagslegar „reddingar“.

    Það kann svo sannarlega að vera að séum ekki fjárhagslega vel stödd á þessu blessaða landi í dag.
    Enn að setja 40. miljarða í þessa byggingu, með að mínu mati mjög svo vafasama staðsetningu. Og um leið að setja, held ég um 20 miljarða í allt of stórt tónlistarhús allt á sama svæðinu.

    Þá koma svo sannarlega upp spurningar.

    Væri ekki viturlegra að deila þessum peningum milli landshluta.
    Það vantar að koma hjólunum á stað á fleirri stöðum en Reykjavík.

    Verkefni eins og Háslólasjúkrahúsið myndi hvort sem er ekki skila íslenskum arkitektum eitt eða neitt nema sem leppar fyrir erlendar teiknistofur.

    Samkeppnislýsingin um Vatnsmýrina var á ensku.

    Sýnir þetta áhuga íslenskra pólitíkusa á íslenskri bygginarlist?

    Tek undir með Guðlaugi Gauta þetta er viðkvæmt og fallegt landsvæði sem hefur mikil verðmæti sem byggingarsvæði til framtíðar. Flest húsin á þessari lóð eru ömurleg, nema ef vera skildi það fyrsta og síðasta.

    Ekki nota þetta í „skipulagslegan pólistískan efnahagslegan bútasaum“.

    Það kemur betri tíð með blóm í haga.

    Ekki gera þetta fyrir komandi kynslóðir , þau eiga betra skilið.

  • Mogginn fékk Björn Zoega lækni til þess að svara gagnrýni Gests Ólafssonar skipulagsfræðings um skipulagsmál.

    Það verður gaman að heyra svör Gests skipulagsfræðings þegar Mogginn spyr hann um skoðanir Björns læknis á lyfjagjöf eða aðferðum við uppskurð.

    Það er í lagi að spyrja fólk um álit á öllum hlutum.

    En þegar sérfræðingur gagnrýnir þá þarf sérfræðing til andsvara. Annars er skekkja í umræðunni.

    LSH þarf að hafa einhvern annann og betri en lækni til þess að taka þátt í umræðu um alvarleg skipulagsmál..

    Það er móðgun við borgarbúa að leita til ófaglæðra þegar faglærðir eru að gagnrýna.

    Þetta veikir mjög málstað LSH

  • Gunnlaugur Gullfiskur

    þeir spara gamla spítalann með því að byggja við hann en endurbætur sem þyrfti að gera á umferðarmannvirkjum gleypa þann sparnað upp.Auk þess gæti gamli spítalinn nýst sem öldrunarstofnun eða eitthvað annað.Svæðið kringum Ellliðárvog væri sennilega best því þar skarast megin stofnæðar Reykjavíkursvæðisins og Sundabrautin kæmist hún á koppinn.

  • Auðvitað myndu núverandi byggingar og lóðir verða seldar ef byggt yrði annarsstaðar. Dýrar og eftirsóknarverðar lóðir fyrir margskonar starfsemi. Einkaaðilar munu ekki fúlsa við þeim. Ég kann ekki að verðmeta lóðirnar en þykist vita að þær verði eftirsóknarverðar og etv of dýrar fyrir spítalastarfsemi.

  • Lái mér hver sem vill en ég er mjög tortrygginn á þá tegund röksemdafærslu sem gjarnan hefur fylgt skipulagstillögum hin síðar ár. Oft er eins og mönnum þyki ofurfínt að vera á tilteknum stöðum með starfsemi sína. Listaháskólanum voru gerð mörg glæsitilboð um lóðir víða á höfuðborgarsvæðinu en forystumenn þar vildu hvergi vera nema við Laugaveginn þar sem ekki var pláss fyrir skólann. Sjálfum þótti mér þau áform sem voru kynnt eftir samkeppni um bygginguna alveg út í hött. Hér á þessu ágæta bloggi hans Hilmars hafa menn verið á tjá sig um HR sem sömuleiðis átti margra kosta völ um staðsetningu en valdi stað sem að mínu mati byggir á verulega hæpnum forsendum. Nú er okkur sagt að það verði 2-3 sinnum dýrara að byggja sjúkrahúsið annarsstaðar en í Vatnsmýrinni.

    Það er ekki alveg gott að átta sig á væntanlegu byggingarmagni svo örugt sé. Verkefni um nýjan Landsspítala hefur að vísu heimasíðu (http://nyrlandspitali.is/nyrlandspitali/islenska/fjolmidlatorg/greinasafn/?cat_id=43926&ew_0_a_id=225494) en þar hefur mönnum ekki tekist að lýsa aðalatriðum verksins á þokkalega einfaldan hátt. Ég þykist þó sjá að hámarks byggingarmagn á lóðum spítalans sé áætlað rúmir 170 þús ferm. Fyrir á lóðunum um eru 60 þús ferm á vegum spítalans, HÍ hyggst byggja um 30 þús ferm á lóðunum og 7 þús eru frátekin fyrir miðbæjar- og þjónustustarfsemi. Miðað við skipulagsskilmálana getur spítalinn því byggt um 70 þús ferm á lóðunum.

    Ef spítalinn þarf að byggja 130 þús fermetra byggi hann annarsstaðar en í Vatnsmýrinn er það væntanlega um tvisvar sinnum dýrara en að byggja 70 þús ferm í Vatnsmýrinni. Einnig þarf að taka tillit til þess að það verður dýrt að fella gamla húsnæðið að því nýja auk þess sem talsmenn spítalans hafa sagt að húsakosturinn sé í verulega slæmu ástandi. Þá er enn ótalið að hluti af röksemdafærslunni fyrir nýjum spítala er sparnaður sem verður við það að flytja í nýtt sérhannað húsnæði. Þessi sparnaður fer væntanlega að miklu leyti forgörðum við að koma starfseminni að hluta fyrir í eldra húsnæði. Sparnaður í rekstri er þó miklu meira virði en upphaflegur byggingarkostnaður enda skilst mér að 2-3 ára rekstur á spítala kosti svipað og upphaflegur byggingarkostnaður.

    Ég geng út frá að HÍ muni reisa sína 30 þús ferm þar sem spítalinn verður og að sú fjárfesting hafi því ekki bein áhrif á heiðarfjárfestinguna við nýja spítalann. Almenningssamgöngur er hægt að laga að staðsetningu vinnustaðar með yfir 5000 starfsmenn. Skárra væri það nú. Starfsmenn munu einnig gera það að nokkru leyti sem og aðrar stofnanir í heilbrigðisgeiranum sem þurfa að eiga samskipti við spítalann. Lóð á flatlendi getur líka skilað aukinni hagkvæmni við frankvæmdir og rekstur sem og opnari möguleikar fyrir umferðarmannvirki. Síðast en ekki síst er það mitt mat að nálægð þessa mikla mannvirkis við rótgróin og smágerð íbúðarhverfi sé afar óheppileg, – og er þá ekki tekið sterkt til orða.

  • Stefán Benediktsson

    Þakka þér enn eina ferðina félagi fyrir þessa mögnuðu síðu og góða umræðu. Ingólfur Þ. nefnir þau rök sem alla tíð hafa vegið þyngst í staðarvali. „Ef menn vilja byggja starfsemina frá grunni annars staðar þá er það miklu stærra og dýrara verkefni.“ Þarna eru í dag reknar öflugar einingar spítalans sem ekki þarf að hrófla við ef byggt er við Hringbraut og ég get staðfest orð Ingólfs að það þarf engar nýjar vega- eða gangnaframkvæmdir vegna nýbyggingarinnar.

  • Erna:
    Það er markmið metnaðarfullrar skipulagsstefnu að AUKA vægi almenningssamgangna og annarra vistvænna samgangna. Fosenda þess er annars vegar að hafa góðar tengingar við almenningasamgöngur og hins vegar að margir starfsmenn búi það nálægt að hægt sé að auka verulega hlutfall hjólandi og gangandi. Þegar farið verður í byggingingarframkvæmdir þá á jafnframt að gera kröfu um að ekki verði hlaðið undir einkabílinn og þá getum við stuðlað að breytingu í samgöngum.
    Þannig eru strætisvagnaleiðir og hjóla- og göngufæri ein meginforsenda þess að breytingar geti orðið. Við megum ekki hengja okkur í fortíðina. Við eigum því að spyrja hversu margir af starfsmönnum spítalans gætu breytt um hegðun – og skv tölum Ingólfs hér að ofan þá er þarna um verulegan fjölda að ræða.
    Einnig má benda á að fjöldi starfsmanna þarf að flakka á milli spítalanna og þurfa því í dag að koma á bíl en ef vinnustaðurinn væri sameinaður á einn stað skapaðist möguleiki á að koma með vistvænni hætti (t.d. strætó eða hjóli).

  • Erna Valdís

    Það setur alltaf að mér hroll þegar ég heyri nefnd göng undir Öskjuhlíðina. Hvað um það. Gaman væri að vita hve stór hluti starfsmanna Landspítalans notar strætó, hjólar eða gengur í vinnuna… það er ekki nóg að hafa margar strætisvagnaleiðir eða búa í hjóla- og göngufæri.

  • Það er stöðugt talað um að borgin byggist í austur og að miðpuntkturinn sé á fleygiferð þangað. Er það ekki -2007-stefnan- þ.e. endalaus útþennsla. Stærsta ónýtta byggingarsvðið er einmitt Vatnsmýrin. Að hafa öfluga og fjölmenna háskóla- og sjúkrahússstarfsemi á þessum „central“ stað hlýtur að styðja undir uppbyggingu á þessu svæði.
    Útskýringar Ingólfs eru skýrar, langflest rök hníga að núverandi staðsetningu. Það er kominn tími til að hætta þessum útúrsnúningum um staðsetninguna og hefjast handa við þessa mikilvægu byggingu.

  • Eins og fram kom í athugasemdum við fyrri færslu um landspítala þá er það óneytanlega hagkvæmt fyrir rekstur spítalans að vera allur á einum stað, allur í nýju húsnæði sérhönnuðu fyrir spítala á 21 öldinni.

    Þó að það sé hagkvæmt til skemmri tíma litið að hafa hann tengdann við núverandi byggingar er það skammsýni og eingöngu verið að tjalda til einnar nætur.

    Ef við íslendingar höfum áhuga á að byggja upp nýtt sjúkrahús með öllu sem því tilheyrir þá skulum við gera það meira miðsvæðis. Hvernig lítur RVK út eftir segjum 50 ár. Borgin byggist í austur, það er ljóst. Hugsum svoldið fram í tímann einu sinni.

  • Varðandi kortið sem þú ert með. Þarna virðist vera gert ráð fyrir göngum undir Öskjuhlíðina. Nema það eigi að leggja veg þvert yfir Fossvogskirkjugarð?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn