Sunnudagur 04.09.2011 - 14:21 - 21 ummæli

Landspítalinn – innlegg borgarfulltrúa

Borgarfulltrúarnir Dagur B. Eggertsson og Gisli Marteinn Baldursson hafa blandað sér í umræðuna um hugsanlegan umferðavanda vegna nýbyggingar Landspítalans. Þeir eru nokkuð sammála þó þeir séu á sitt hvorum væng stjórnmálanna. Þeir vilja báðir auka hlut almenningsflutninga í borginni og að fólk gangi meira og hjóli.

Því ber að fagna.

Gísli Marteinn tjáði sig í athugasemdarkerfi vefsíðunnar í síðustu færslu (liður 11 og 13) þar sem fram kemur sterk sýn hans á heildarmyndina og þróun vesturhluta borgarinnar næstu áratugina. Gísli Marteinn rökstyður skoðun sína ágætlega og telur að með þéttingu byggðar vestan Kringlumýrarbrautar muni umferðin minnka og grundvöllur almenningsflutninga styrkjast.

Þetta er að líkindum rétt mat hjá Gísla Marteini.

Dagur B. Eggertsson tjáir sig í Ríkisútvarpinu í dag og slær hugmyndir um mislæg gatnamót út af borðinu. Hann afgreiðir sérfræðingin Ólaf Guðmundsson, verkefnisstjóra EuroRap sem er samevrópskt vegaeftirlitskerfi, með að segja að hugmyndin sé “fráleit” og bætir við “að flestar borgir séu horfnar frá lausnum sem felast í slaufugatnamótum”.

Þarna finnst mér Dagur þurfi að ganga lengra og skýra málið betur. Þessi afgreiðsla nægir ekki.

Stjórnmálamenn þurfa að gæta sín þegar þeir taka þátt í umræðu um bygginga- og skipulagsmál.

Því er nefnilega þannig háttað að fólk almennt er vel upplýst og hefur vaxandi áhuga á umhverfi sínu. Það vill upplýsta umræðu en ekki órökstuddar staðhæfingar. Ég er ekki að segja að Dagur hafi ekki rök fyrir skoðun sinni. Ég segi bara að hann þurfi að upplýsa okkur um rökin.

Dagur  telur umferðasérfræðinginn, Ólaf Guðmundsson; hafa rangt fyrir sér og styður skoðun sína með því að benda á hvernig þetta er gert í “flestum borgum” án þess að nefna einstök dæmi.

Ég hef trú á því að í þeim borgum sem Dagur hefur í huga sé þéttleikinn mun meiri en hér í Reykjavík og að aukin notkun almenningsflutninga sé afleiðing góðrar almenningsþjónustu og góðu borgarskipulagi.

Ætli það sé ekki þannig að eftir að búið er að þétta borgina, byggja neðanjarðarlestarkerfi eða  þegar búið er að koma upp virku almenningsvagnakerfi þar sem vagnarnir koma með 5-7 mínútna millibili og ekki er lengra en 400 metrar út á stoppistöð að þá fyrst sé grunvöllur til þess að setja fram áætlanir sem byggja á almenningssamgöngum í stað einkabíla.

Þessar hugmyndir umferðavanda Landspítalans minna á danska stjórmálamanninn sem lagði til í svipaðri umræðu að það yrði alltaf meðvindur á reiðhjólastígunum til þess að létta hjólandi fólki að komast leiðar sinnar.

Það er rétt að hafa það í huga að Reykjavíkurborg er skipulögð eins og úthverfi. Í slíku skipulagi er kostnaðarsamt að reka virkt almenningsflutningakerfi í samkeppni við einkabílinn. Þess vegna er það meginhlutverk skipulagsyfirvalda nú að þétta byggðina.

Til þess að forðast misskilning þá endurtek ég þá skoðun mína sem marsinnis hefur komið fram í þessum pistlum að einkabíllinn er slæmur kostur til samgangna í borgum. Því fagna ég allri umræðu  og aðgerðum um betri almenningssamgöngur á kostnað einkabílsins.

Sjá umfjöllun RUV:

http://www.ruv.is/frett/mislaeg-gatnamot-fraleit-hugmynd

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (21)

  • Guðl. Gauti Jónsson

    „… skilyrði í deiliskipulagsvinnu að stórar stofnanir setji sér samgöngustefnu.“

    Mér er næst að segja að þótt stór fyrirtæki setji sjálfu sér samgöngustefnu hafi það ekkert með almenningssamgöngur að gera. En ég læt þó nægja að fullyrða að það er langur langur vegur frá því að fyrirtæki setji sér samgöngustefnu og þess að það sé komið á nohæfu og eftirsóknarverðu samgöngukerfi fyrir hinn almenna borgara.

  • Hilmar Þór

    Gott að heyra þetta frá þér Páll en ég verð að viðurkenna vanmátt minn og vanþekkingu á skipulagsfræðum.

    Þú nefnir Háskólann í Reykjavík.

    Ég skil til dæmis ekki hvernig staðsetning HR fellur að samgöngustefnu sem á að byggja á almenningssamgöngum.

    Ég skil reyndar ekkert í staðsetningu HR yfirhöfuð enda skilgreindi ég hana sem eitt stærata skipulagsslys sögunnar í könnun nýverið.

  • Páll Gunnlaugsson

    Sammála því borgin þarf að sýna frumkvæði þegar kemur að stuðningi við almenningssamgöngur. Vil benda á að borgin hefur einmitt sýnt ákveðið frumkvæði með því að gera að skilyrði í deiliskipulagsvinnu að stórar stofnanir setji sér samgöngustefnu. Þetta gildir ma. um Landspítalann, Vísindagarða Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík og að nokkru leyti um vinnu við endurskoðun deiliskipulags Borgartúns. Þá hefur einning verið starfandi samráðshópur stórra stofnana við Vatnsmýrina (Landspítalinn, Icelandair, Háskólinn í Reykjavík, Háskóli Íslands, Strætó, Reykjavíkurborg ofl.) þar sem fjallað er sérstaklega um samgöngumál á svæðinu. Borgin hefur þannig sýnt ákveðið frumkvæði, svo eigum við ekki að segja að hænan sé mætt á svæðið?

  • Guðl. Gauti Jónsson

    @Páll

    ……hissa á hve neikvæðir menn eru gagnvart almenningssamgöngum???

  • Hilmar Þór

    Páll

    Ég held að fólk sé almennt jákvætt í garð almenningssamgagna og það er rétt hjá þér að það er mulið of mikið undir einkabílinn. Því er haldið fram að hann sé annar stærsti útgjaldaliður visitölufjölskyldunnar og að fyrir hvern bíl þurfi um 6 bílastæði. Þessu til viðbótar kemur kostaður samfélagsins við einkabílinn. Blikkbeljan er böl, einkum í borgum.

    Hinsvegar varðandi þá umræðu sem hér fer fram er meginmálið spurningin hvort kemur á undan eggið eða hænan. Hvort koma almenningsamgöngur á undan vilja fóklsins til að nota þær eða kemur vilji fólksins fyrst og samgöngurnar svo. Sennilega er það bland af þessu þannig að eggið og hænan komi samtímis.Ég veit það ekki en hitt veit ég að opinbert hlutafélag á ekki að vera með stefnumótun í samgöngumálum borgarinnar. Það á borgin sjálf að gera þó svo að opinbera hlutafélagið styðji áætlunina. Og ég þakka ykkur í Spitalhópnum fyrir að koma því í stefnumótun Landspítalans. En það getur ekki orðið forsenda skipulags borgarinnar á þessu stigi.

    En varðandi innlegg borgarfulltrúa í almenningssamgönguumræðuna þá eru þeir ekki trúverðugir. Sérstaklega ekki sá eða þeir sem lögðu til að Háskólinn í Reykjavík yrði byggður á besta útivistarsvæði borgarinnar gjörsamlega úr tengslum við það litla sem heitir strætisvagnakerfi hér í borg. En batnandi mönnum er best að lifa og þeim er fyrirgefið.

    Þú segir að við lærum aldrei neitt. Ég get huggað þig. Þetta er að smákoma. M.a. vegna ykkar vinnu hjá Spital um þessar mundir.

  • Páll Gunnlaugsson

    Svolítið hissa á hve neikvæðir menn eru gagnvart almenningssamgöngum. Er það svo að ekki verði hægt, nokkurn tíma, að koma upp venjulegum almenningssamgöngum í Reykjavík? Ég held að helsta ástæðan fyrir skorti á almenningssamgöngum sé óheft aðgengi einkabíla og ókeypis bílastæði. Annars hætti ég mér varla í þessa umræðu .. hún er endurtekning áratuga gamallar umræðu um sama hlutinn. Við lærum bara aldrei neitt! (Tek fram í lokin að ég er „hagsmunaaðili“ þar sem ég vinn við tillögu að nýjum Landspítala .. en það kannski kemur þessu afmarkaða máli ekki beint við)

  • Guðl. Gauti Jónsson

    @Hilmar Þór

    Það er örugglega einn af stóru þáttunum að fólk sé ekki lengur á leiðinni með almenningssamgöngum en með einkabíl. Helst fljótara. Þá þarf að mæla tíma allrar ferðarinnar frá upphafsstað og á áfangastað.

    Í úthverfi í Oslo upplifði ég að það var hægt að stilla úrið sitt eftir T-banen. Gallinn var sá að ef ég var á síðasta snúningi og gat ekki alveg treyst því að ég væri með rétta klukku þá vissi ég ekki hvort vagninn var farinn eða ekki. Það er áreiðanlega auðvelt að sýna upplýsingar um síðustu og næstu ferð á rafrænan hátt á hverri biðstöð. En ferðinn niður á Teaterplads tók engan tíma.

  • Guðl. Gauti Jónsson

    @Anna

    Ég er þeirrar skoðunar að vegna þess hve miklu þægilegra það er að setjast inn í bíl, jafnvel inni í bílskúr, og keyra nánast að tröppum áfangastaðarins en að arka út á næstu biðstöð í roki og kulda og roki og rigningu og roki og síðan frá biðstöð að áfangastað í roki og snjókomu og roki, þá þurfi almenningssamgöngur að vera eins aðlaðandi og mögulegt er til að fólk noti þær í miklum mæli í staðinn fyrir bílinn.

    Þess vegna held ég að þær þurfi m.a. að vera mjög ódýrar eða jafnvel ókeypis. Auk þess held ég að þó fólk greiði ekki beint fyrir ferðirnar þá geti slíkur ferðamáti verið ódýrari fyrir samfélagið en risavaxinn bílafloti. Gallinn er sá að sparnaðurinn skilar sér ekki alltaf beint til þeirra sem leggja út kostnaðinn við kerfið.

  • Hilmar Þór

    Í framhaldi af hugmyndum Guðl. Gauta vil ég nefna að í nokkrum borgum í Evrópu er búnaður í strætó sem er þannig að það kviknar grænt ljós á götuvitum þegar þeir nálgast.

    þetta er gert til þess að leiðin sé greiðari fyrir strætó en aðra bíla.

  • @ Guðl. Gauti Jónsson

    Varðandi 4. punkt þinn, hver eru rökin fyrir því að almenningssamgöngur eigi að vera ókeypis? Ég færi persónulega að hafa áhyggjur ef almenningssamgöngurnar væru ókeypis því þá gætu neytendur engar kröfur gert til þeirra. Ég hef reynslu af samgöngum í Stokkhólmi og þar eru strætókortin dýr, en það var bara hluti af lifikostnaði. Eins og að leigja húsnæði og kaupa matvöru. Ekki virðast íslendingar sjá ofsjónum að reka jafnvel tvo eða þrjá bíla á fjölskyldu svo afhverju tíma þeir ekki að leyfa okkur hinum að greiða sanngjarnt gjald (ekki ódýrt!) fyrir góðar samgöngur?

  • Guðl. Gauti Jónsson

    Það er með almenningssamgöngurnar svipað og tölvumyndirnar. Hvorutveggja er notað til að fegra raunveruleikann og slá ryki í augu væntanlegra notenda. Þetta á svo sannarlega við um skipulagstillöguna sem liggur fyrir á LHS-lóðinni. Aðstæður eru aðrar hjá okkur en í öllum nágrannalöndunum sem þekkjum best og við berum okkur saman við. Almenningssamgöngur þurfa að taka tillit til þessa ef þær eiga að ná útbreiðslu og notkun sem skiptir máli fyrir samgöngukerfið. Nokkur dæmi:

    1. Ferðir þurfa að vera miklu tíðari og öruggari en nú er.
    2. Biðskýli þurfa að vera björt, þurr og hlý og skiptistöðvar og biðstöðvar á stórum vinnustöðum þannig að hægt sé að ganga í og úr vögnum innanhúss.
    3. Áætlanir þurfa að vera rafrænar og vagnar GPS tengdir þannig að fólk geti fylgst með vögnunum heiman frá sér eða þar sem þeir eru staddir þegar þeir hyggjast nota kerfið
    4. Notkunin þarf að vera mjög ódýr (helst ókeypis) og greiðslufyrirkomulag lipurt.

    Ef skipuleggendur og borgarfulltrúar, sem telja sig geta breytt samgöngumunstri Reykvíkinga á stuttum tíma, treysta sér til að koma á kerfi sem uppfyllir ofangreind atriði að miklu leyti þá er þetta líklega hægt. Ef það er langt í land með að hægt sé að koma á svona kerfi þá er líka langt í land með að Reykvíkingar breyti um samgöngumáta. Fjöldi reiðhjólastæða á lóðinni leysir ekki samgöngumálin.

    Vegna þess hve fólki er mikið í mun að ræða skipulagsatriði tillögunnar þá eru mörg arkitektónísk og umhverfisleg atriði minna rædd. Þar eru hinsvegar fjöldi þátta sem mæla mjög sterklega gegn þessari staðsetningu. Mér heyrist það vera eitt af því sem Gísli Marteinn talar um og er það vel.

  • Hákon Hrafn

    Það var frétt í kvöld á ruv um auknar hjólreiðar í Köben.

    Það væri hægt að minnka umferðarvandamál í borginni ef það væri einfaldlega tekin upp gjaldskylda í öll stæði við opinber fyrirtæki og stofnanir og helst Kringluna og Smáralind líka.

    Þetta yrði gríðarlega óvinsælt og þessvegna er enginn stjórnmálamaður tilbúinn að ræða þetta.

  • Steinar I

    Hvað er mikilvægasta atriði borgarskipulags? Ég hefði t.d. haldið að það væri að finna hina allra bestu staðsetningu á spítölum og kannski líka bestu staðsetningar á skiptistöðvum almenningssamgangna. Í dag er landspítalinn staðsettur á bakvið umferðarhnúta og aðalskiptistöðin lengra niðrí bæ. Hvernig væri ástandið t.d. ef spítalinn væri staðsettur nálægt Elliðaárósum og skiptistöðin nálægt Kringlu? Betri? Svo á að stækka spítalann og lækka hann niður, sem er nú önnur heimska! Þetta er nú fyrir utan öll launakjör starfsfólks og aðbúnað, semsagt djöfulsins rugl, afsakið orðbragð.

  • Jón Guðmundsson

    Það er eðlilegt að spyrja Dag hversvegna mislæg gatnamót séu „fráleit“ og hann hýtur að svara því. Það er líka nauðsynleht að sérfræðingurinn, Ólafur Guðmundsson rökstyðji sína skoðun. Meginþorri fólks er hætt að treysta sérfræðingun og stjórnmálamönnum ef ekki fylgja velformúleruð rök.

  • Guðrún Bryndís hefur lengi mælt af góðu viti um þessi mál. Það er lágmarks kurteisi að valda-kerfið láti svo lítið að svara hennar góðu spurningum, í stað þess að vaða áfram í blindu og svíma sæta-brauðanna í embættiskerfinu og nefndum þess.

  • Séra Jón, ertu að boða tossabandalags-meðvirkni með þinni postullegu kveðju? Ég spyr: Ég er hér, en hvar ert þú?

  • Nú er Landspítalinn stór vinnustaður og ef fer fram sem horfir á starfsmönnum bara eftir að fjölga.

    Menn tala um hjól og almenningssamgöngur sem er allt hið besta mál.

    Hér kemur ein hugmynd. Setja upp innanhústölvukerfi á spítalanum sem fær nafnið „Samferða“. Kerfið býður starfsmönnum sem eru að fara í og úr vinnu á sama tíma og búa í nágrenni hvors annars að finna hvern annan.

    Starfsmenn spara, við spörum, allir spara.

  • Guðrún Bryndís

    Í skipulagsfræðum er jafnvægi borga metið útfrá jafnvægi milli búsetu og vinnustaða íbúa. Það er gert með því að reikna út svokallaðar þyngdarmiðju búsetu og vinnustaða. Til þess að skapa jafnvægi er leitast við að þessar miðjur liggi nærri hvor annari. Það sem meira er að borgum er oftast skipt í svæði og að jafnvægi sé innan svæðis.

    Gísli Marteinn bent á að borginni sé skipt svona:
    -70% vinnustaða eru vestan Kringlumýrarbrautar
    -50% íbúa búa austan Elliðaáa

    Lausninni sem er lýst virðist felast í því að þétta byggðina vestast í borginni og ná þannig janfnvægi milli búsetu og vinnustaða. Þannig að 70% íbúa búi vestan Kringlumýrarbrautar.

    Þessi hugmynd gæti gengið upp ef þeir sem búa austast í borginni og flyttust í þau hverfi sem stendur til að þétta og byggð leggðist af í austasta hlutanum.

    Ég spyr:
    Hversu margir íbúar borgarinnar búa vestan Kringlumýrarbrautar?
    Hvers vegna er ekki tekið tillit til landfræðilegrar skiptingu borgarinnar (við Elliðaár) þegar jafnvægi milli búsetu og vinnustaða er skoðuð?
    Hvers vegna er litið svo á að miðja Reykjavíkur sé í miðbænum?
    Hvaða hugmyndir hafa skipulagsyfirvöld um uppbyggingu í landfræðilegri miðju Reykjavíkur sem er við Ártúnshöfðan?

  • Hvað segir nú Páll Hjaltason úr Besta?

  • Steingrímur segir steypa
    í stóra excel-gatið.
    Skipulagsstjórinn er AGS!

    Þetta er nú allt skipulagið, þegar mannamál er notað
    í stað tals bergþursa og daglegra bakvindsmanna.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn