Miðvikudagur 26.10.2016 - 12:40 - 17 ummæli

Landspítalinn – Ný staðarvalsgreining er nauðsynleg.

untitledkjhkjhiuy

Hver skyldi vera ástæðan fyrir því að forsvarsmenn Nýs Landspítala ohf og þeirra sem hafa unnið að málinu umnanfarin 16 ár hafni nýrri faglegri, opinni og óháðri staðarvalsgreiningu?

Er líklegt að embættismenn og stjórnmálamenn sem unnið hafa að uppbyggingu við Hringbraut í áratugi vilji nýha staðarvalsgreiningu eða fari að segja það sína skoðun um að byggja eigi á öðrum stað?

Í sjö ár hefur breiður hópur fólks óskað þess að ný staðarvalsgreining verði gerð. Þessi ósk er komin fram og studd með þéttum rökum og vítækum stuðningi alls almennings.

Skoðanakannanir sýna að mikill, meirihluti lækna, hjúkrunarfólks, sjúkraflutningamanna vilja nýjan spítala á betri stað og hafna Hringbrautarúrræðinu. Það sama er uppi á teningnum hjá miklum meirihluta alls almennings!

Embættismenn og stjórnmálamenn hafa öll þessi ár borið við að það sé of seint að standa faglega að undirbúningnum hvað þetta varðar og hafnað því að ný staðarvalsgreining verði gerð!

Af hverju?

Ég tel mig vita svarið.

Landspþversn

Langsnið

Efst er mynd af Landspítalalóðinni fullbyggðri og hér rétt að ofan sniðmyndir í landið. Þetta er yfirgengilega fyrirferðamikið. Margir telja að þessi áætlun stangist á við Menningarstefnu hins opinbera í mannvirkjagerð sem undirrituð var af tveim ráðherrum, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Illuga Gunnarssyni.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (17)

  • Og eru þeir að reyna að segja okkur að það verði búið að byggja þetta allt fyrir 2023 og kannski endurnýja gömlu húsin?

  • Skoðið myndina með greininni vel. Þessi litla umferð sem sýnd er á Hringbrautinni er lýsandi fyrir áróðurinn.

  • Einar Erlendsson

    Það er augljóst að staðarvalið var ekki vandað 2002 og grundvöllurinn fyrir að velja Hringbraut er molnaður undan ákvörðuninni.

    + Menningarstefnan er eitt.

    + Túrisminn er annað,

    + Flugvöllurinn þriðja,

    + Breytingar á umferðamannvirkjum þriðja fjórða og fimmta (Holtsgöng, Öskjuhlíðargöng og Miklabraut á tveim hæðum),

    + Breytt aðalskipulag það sjötta og svo má lengi telja.

    Þetta er orðið hallærisleg þráhyggja hjá Nýjum landspítala ohf sem heldur uppi ómálefnalegum áróðri á kostnað skattborgara til þess eins að verja vitleysuni í sér.

  • Síðan 2009 eru liðin 7 ár. Ef það tekur virkilega 10ár að endurskoða staðsetninguna væri sú vinna rétt ókláruð núna ef hún hefði verið hafin þá.

    Löngu fyrir 2009 voru komnar verulegar efasemdir um réttmætti þess að byggja svona stórt mannvirki á svona þröngum og umsetnum stað. Það er klúður og klúður ofan að hafa ekki farið allmennilega í að meta aðra staði 2009 og geta þá verið að hefja byggingar núna með góðri vissu að besta leiðin hafi verið valin hvort sem lokaniðurstaðan væri Hringbraut eða annar staður.

  • Finnur Jónsson

    Ef Hringbrautarsinnar eru svo innilega sannfærðir um að niðurstaða faglegs mats sé að Hringbraut sé besti staðurinn, af hverju þeir svona eindregnir í andstöðu sinni við að það sé framkvæmt?

    Kostnaðurinn er hverfandi í stóra samhenginu og hægt er að halda áfram við Hringbraut á meðan þannig að það tefur ekki.

    Ég held að málið sé að þeir óttast að niðurstaðan verði að Hringbraut sé versti hugsanlegi kostur fyrir staðsetningu núna 2016. Fjölmargar forsendur fyrir staðarvali 2001 eru ekki lengur til staðar. Síðan hefur ekki farið fram faglegt mat. Ef þá hægt er að kalla matið 2001 faglegt.

    Hvað er það sem er svo séríslenskt að hægt er í nágrannalöndum að hanna og byggja álíka stóran spítala á 6-8 árum en hérna tekur það 15-20 ár?

    Bara eitt dæmi um fjölmarga hluti í forsendum sem stenst ekki lengur er að gert er ráð fyrir að nota gömlu Landspítalabyggingarnar undir legudeildir sjúklinga. Núna eru húsin 15 árum eldri, viðhald allan tímann í algjöru lágmarki og myglan hefur reynst sums staðar svo illskeytt að talað er um að jafn hús við jörðu. Samt gera áformin ráð fyrir að endurnýta húsin með kostnað upp á 10-20% af nýbyggingarkostnaðir. Það sér hver maður að þetta er della.

    Ég og margir fleiri hafa upplifað það á vinnustað að hafa byggingarframkvæmdir í næsta nágrenni. Sem eru þó smákofar í samanburði við meðferðarkjarnann. Mér finnst alveg með ólíkindum að nokkrum manni detti í hug að bjóða starfsfólki og sjúklingum svona aðstæður árum saman.

    Skipulagsmál eru erfið og snúin þegar reynt er að troða byggingum á staði þar sem vantar pláss fyrir þær. Á Vífilstöðum er nægt pláss og stutt í stofnbraut með nægri afkastagetu.

    Sjúkrahús eru byggð fyrir sjúklinga og það á að staðsetja þau með hagsmuni þeirra í huga. 5-10% af starfsemi spítalans tengist Háskólanum, það er fáránlegt að láta það ráða staðsetningu.

  • Þór Saari

    Það er margt sem styður það að seinkunin yrði 10-15 ár. Það þarf að gera nýtt aðalskipulag fyrir svæðið, sama hvaða svæði er valið, með gríðarlegum breytingum og áhrifum á nærliggjandi hverfum og umferðarmannvirkjum. Það fer eftir staðarvalinu hvort þarf umhverfismat sem líka tekur tíma og ekki er hægt að gera það fyrr en skipulag liggur fyrir. Það þarf að ganga frá landakaupum. Það þarf að gera ítarlegt deiliskipulag. Það þarf að fara í alla hönnunarvinnu upp á nýtt. Það þarf ekki nýja staðarvalsgreiningu því hún er til þar sem skoðaðir voru fjórir staðir, Hringbraut, Bryggjuhverfið, Borgarspítalasvæðið og Vífilsstaðir. í þeirri greiningu kom Hringbraut best út.
    Ég er ekki að hafna faglegum vinnubrögðum heldur þeirri staðhæfingu að þarna hafi verið stunduð óvönduð vinnubrögð og fyrirfram pöntuð niðurstaða keyrð í gegn. Það er einfaldlega rangt. Varðandi þá sem komu á fundi nefndarinnar þá, eftir hundruði nefndarfunda í mörgum nefndum og hundruði gesta og umsagna um hin ýmsu mál yfir þetta fjögurra ára tímabil, þá man ég ekki nöfnin en allir þessir fundir eru skráðir á nefndarsviði Alþingis. Fjárlaganefnd lagði mikla áherslu á að vanda sig enda var verið að stíga fyrstu skref til stærstu útgjalda í sögu ríkissjóðs vegna framkvæmda, með þessari ákvörðun.
    Ég hef heldur ekki séð að það hafi neinar forsendur breyst sem skipta einhverju máli. Menn hafa talað um Öskjuhlíðargöng sem hafa víst verið afskrifuð. Þau skiptu ekki höfuðmáli í þessu en svo fer Öskjuhlíðin ekki neitt og menn geta áfram gert göng í gegnum hana vilji þeir það. Menn þurfa líka að hafa í huga að það er í gangi víðtæk uppstokkun á samgöngumátanum á höfuðborgarsvæðinu þar sem áhersla verðu lögð á meiri almenningssamgöngur sem einnig gerir þörfina fyrir Öskjuhlíðargöng minni.

    • Hilmar Þór

      Þakka þér andsvarið Þór Saari.

      Ég fer nú yfir svar þitt lið fyrir lið en sleppi sumu,

      Fyrst þetta með seinkunina. Ég sagði í síðustu athugasemd að þessi 10-15 ára seinkun er þvílíkt ofmnat að það er ekki ástæða til að ræða hana sérstaklega. enda liggja engin rökstuðningur eða gögn um málið hjá stofnununum tveim sem hægt er að byggja gagnrýnina á.

      Þessvegna lít ég sem svo á að hún sé ekki ti,l enda er hún ekki til. Kallaðu bara eftir henni. Það hef ég gert. Jafn flinkur „debattör“ og þú átt ekki að falla í þá gryfju að nota flökkusögur til þess að rökstyðja þitt mál.

      Breytingar á aðalskipulagi eru ekki eins stórt mál og þú heldur. Það er stanslaust verið að gera breytingar á samþykktum aðalskipulögum. Bara hér í Reyjakjavík gerist það margsinnis á hverju ári.

      Svæðaskipulagið mun ekki standa í vegi fyrir Þjóðarsjúkrahúsinu sem við viljum öl fá sem fyrst. Ekkert sveitarfélag mun leggja stein í götu sjúkrahússins með einhverju þófi um skipulagsmál ef fyrir liggur vönduð staðarvalsgreining.

      Það þarf ekki að fara í alla hönnunarvinnuna uppá nýtt: Það er hægt að byggja forsögnina á því sem fyrir liggur. Við erum ekki að byrja uppá nýtt heldur að flytja framkvæmdina umset. Og það er (væntanlega) hægt að semja beint við þá ráðgjafa sem hafa unnið að verkefninu fram að þessu án undangenginnar samkeppni.

      Það er ekki rétt hjá þér að staðarvarsgreining sé til. Hún var kannski til miðað við umhverfið 2002 en ekki miðað viða umhverfið 2016.

      Og Hringbaraut kom ekki best út í fyrri vinnu. Það er bara vitleysa. Erlendu ráðgjafarnir vildu helst að byggður yrði nýr spítali frá grunni einhversstaðar á opnu landi en ef það væri ekki hægt þá væri Fossvogur besti kosturinn.

      Ég man ekki eftir að Bryggjuhverfið hafi verið nefnt.

      Og auðvitað var þetta keyrt í gegn. Þetta er líklega líka keypt álit. Lestu bara greinina í Morgunblaðinu í dag.

      Og svo vísar þú í skráningu gesta fjarlaganefndar og biður mig um að slá því upp á nefndarsviði Alþingis.

      Ég nenni ekki að slá þessu upp enda veit ég ekki um neinn andmælanda sem kallaður var fyrir nefndina þó ég þekki þá ágætlega marga og er með mikið tengslanet.

      Og að lokum. Auðvitað reyna nefndir Alþingis að vanda sig og reyna að gera sitt besta en ég hef á tilfinningunni að nefndin hafi verið afvegaleidd og tekið sínar ákvarðanir í góðri trú?

      Svo segir þú að forsendur hafi ekki breyst! Þetta er auðvitað bara þekkingarleysi sem ég ætla ekki að fara yfir hér. En ég væri til í að taka stutt spjall um það mál yfir kaffibolla einhverntíma fljótlega.

  • Hilmar Þór

    þakka þér þáttökuna í þessari mikilvægu umræðu Þór Saari.

    Ég ætla að byrja á því að segja þér að að það er hvergi skráð og engin skjöl að finna um það að finna nokkursstaðar að það muni seinka opnun sjúkrahússins um 10-15 ár ef leitað yrði að nýjum stað fyrir sjúkrahúsið með faglegum hætti.

    Framkvæmtasýslan á engin gögn um þetta og heldur ekki Skipulagsstofnun Ríkisins. Leitaðu bara eftir greinargerðinni hjá stofnununum. Þú munt ekki fá þær vegna þess að þær eru ekki til.

    Þetta er hinsvegar orðin flökkusaga sem allir trúa.

    Eina sem til er er þingskjal nr.: 1654/145 sem þetta byggist á. Þar er talað um 5 ára frumathugunartíma, 6-18 mánaða greiningartíma og 5 ár til hönnunar og áætlanagerðar. Alls 12 ár.

    Þetta er ríflega áætlað, órökstutt og ekki er tekið tillit til þess að flýta megi verkefninu með ýmsum þekktum aðgerðum eins og að vinna nokkra þætti samsíða.

    Þetta er algerlega órökstudd pöntuð áætlun sem stenst ekki en allir tala um. Þetta er orðin flökkusaga sem enginn ber ábyrgð á og upplýst fólk tekur ekki mark á.

    Einn þeirra sem kom að deiliskipulaginu og ég ber mikla virðingu fyrir er Helgi Bollason Thoroddsen arkitekt. En hannfullyrti fyrir nokkru að það mundi seinka framkvæmdinni um þrjú ár ef farið yrði í nýa faglega og óháða staðarvalsgeriningu sem sýndi fram á að byggja þyrfti annarsstaðar en á Hringbraut. Ég tek meira marka á Helga en stofnununum tveim.

    En ég minni á að ef niðurstaðan verður Hringbraut í slíkri könnun verður auðvitað engin seinkun.

    Af hverju hafnar þú faglegum vinnubrögðum í svo umdeildu máli, Þór?

    Taktu til í hugmyndum þínum um þetta mál.

    Ég spyr þig í lokin hverja þið kölluðuð til sem ráðgjafa í fjárlaganefnd 2009-2013? Ég hef skrifað um þetta mál frá því 2009. Það var haldin stór ráðstefna um málið í ráðstefnusal Íslenskrar Erfðargreiningar haustið 2009 þar sem málið var rætt. Voru einhverjir andstæðingar Hringbrautaráætlunarinnar kallaðir fyrir fjárlaganefnd 2009-2013? Eða voru það ekki bara „the usual suspects“, Ingólfur Þórisson og Co?

  • Vilhjálmur Ari Arason

    Jón Saari. Eitt sinn treystum við alþingismönnum að vinna vinnuna sína vel. Nú biðjum við hjá SBSBS þjóðina að treysta heilbrigðisstarfsfólkinu í þessu máli og sem veit betur.

  • Vilhjálmur Ari Arason

    Bara til fróðleiks og til að geta haft eftir. Hvað mörk tonn af klöpp þarf að sprengja upp og keyra burt gegnum miðbæinn við jarðvegsvinnu meðferðarkjarnans? Veit það einhver?

  • Þór Saari

    Það var farið mjög rækilega yfir alla þætti þessa máls. þar á meðal staðarvalið sérstaklega, af hálfu fjárlaganefndar Alþingis þegar ég átti sæti í henni frá 2009-2013. Þá var ákveðið að veita fjármunum í fyrstu skref nýs Landspítali og í upphafi var engin halelújakór fyrir málinu. Það var ekki fyrr en eftir vandlega yfirlegu og gagnrýni og mikla vinnu við að fara yfir umsagnir og hlusta á gesti að nefndin komst að samhljóða niðurstöðu um málið í heild sinni. Það hefur verið ótrúlegt að fylgjast með þessum kór fólks sem vill ekki nýjan spítala fyrr en eftir 10-15 ár, því það er einmitt það sem þetta þýðir, vegna þess að þau voru ekki með í ferlinu frá upphafi. Hvet ykkur til að láta fá þessari vitleysu og finna annað og betra áhugamál því nýr Landspítali er brýnasta verkefnið í heilbrigðismálum þjóðarinnar.

  • Róttækir umhverfisverndarsinnar, flestir í 101 Reykjavík hafa engin afskipti og engar áhyggjur af röskun umhverfis í höfuðborginni. Mosann í Reykjavík má skerða að vild og hraunið mola mélinu smærra. Vatnasvið tjarnarinnar þurrka upp og nota hvern skika og hverja smugu í borginni til stórbygginga. Hótelin rísa hvert af öðru í húsagötum miðborgarinnar, umferðaröngþveitið magnast ár frá ári og ofan í allt saman stefna menn óhikað að mesta skipulagsslysi í sögu landsins með Landspítalasteypubákninu við Hringbraut.
    Nágrannaþjóðirnar sem svo oft er vitnað til byggja ekki nýju spítalana sína í ofurþrengslum miðborga og bæja. Þær eru ekki svo vitlausar.

  • Grétar J.

    Nú vilja Vinstri Grænir ekki að þetta fari í mat en þeir hamra á umhverfismati um hvert eitt lítilræði í náttúrunni. Skítur ekki skökku við? Er í grundvallaratriðum einhver munur á „landslagi“ og „borgarlandslagi“ (eins og Hilmar kallar það) í þessu samhengi. Ætti verklagið að vera það sama?

  • Hilmar Þór

    Vegna breyttra forsendna er fullkomlega óábyrgt að gera ekki faglega staðarvalsgreiningu vegna staðsetningar Landspítalans. Það kostar lítið og mun ekki tefja framkvæmdir við Hringbraur ef niðurstaðan verður Hrinhbraut. Vönduð greining mun skapa frið um málið.

  • Og svarið er?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn