Laugardagur 06.05.2017 - 17:50 - 17 ummæli

Landspítalinn – Sleifarlag eða harmasaga?

 

Myndin að ofan er fengin úr samkeppnistillögu SPITAL hópsins sem sigraði í samkeppni um Landspítala Háskólasjúkrahús fyrir 7 árum. Gert er ráð fyrir að tekinn verði grunnur að svonefndum meðferðarkjarna í lok ársins 2018. Þá verða liðin meira en 8 ár frá því að samkeppni um spítalann lauk og niðurstaða lá fyrir.

Á átta árum ná Danir að auglýsa samkeppni um enn stærri spítalaframkvæmd, fá niðurstöðu sem sátt er um, hanna byggingarnar, byggja þær og afhenda til rekstrar og taka á móti sjúklingum.

Varðandi Landspítalaframkvæmdina við Hringbraut gengur hvorki né rekur.

Hvernig ætli standi á þessu?

Ég átti samtal við starfsfólk á Borgarspítalanum í vikunni, sem var almennt óánægt með staðsetningu Landspítalans við Hringbraut og nánast allt fyrirkomulag þar. Þetta fólk taldi að þetta sleifarlag mætti rekja til þess að það væri ekki sannfæring meðal ráðamanna og þjóðarinnar gagnvart verkefninu.

+++

Í byrjun aldarinnar var mikill hugur í fólki. Fundin var leið til fjármögnunnar Nýs Landspítala með sölu Símanns og Síminn var seldur. Svo hurfu peningarnir allir einhvernvegin þó Síminn sé hérna ennþá og í fullum rekstri.  Þetta er reyndar atriði sem ég ekki skil.  Síminn var seldur fyrir andvirði sem átti að vera nægjanlegt til að byggja nýjan Landspítala  Svo hurfu bara peningarnir! En Síminn er áberandi í öllu okkar umhverfi og daglegu störfum á árinu 2017.

+++

Í framhaldinu af sölu Símanns var ákveði þvert á ráðgjöf erlendra sérfræðinga að bygga upp Háskólasjúkrahúsið við Hringbraut. Haldnar voru  samkeppnir o.s.frv.

En þá kom Hrunið og allt stoppaði um stund. Svo fór allt af stað aftur ári eftir Hrun og nú átti að koma byggingariðnaðinum af stað, sem hafði algerlega stöðvast á þessum tíma Byggingariðnaðinum átti að koma af stað á ný með framkvæmdinni og klára spítalann við Hringbraut með hraði.

Auglýst var eftir þáttakendum í forvali vegna nýrrar samkeppni um áramótin 2009/2010 og samkeppnisgögn afhent 12. mars árið 2010. Aðeins þrem mánuðum síðar, þann 10. júní, skiluðu þáttakendur inn tillögum sínum.  Dómur féll mánuði síðar eða þann 9. júlí 2010. Þetta tók allt gríðarlega  stuttan tíma. Fjórum mánuðum eftir að samkeppnisgögn voru afhent var verkið komið á beinu brautina að mati flestra.

Það lá greinilega mikið á.

+++++

Um áramótin 2009/2010 var haldinn stór fundur í rástefnusal Landspítalans við Hringbraut þar sem farið var yfir málið í heild sinni.

Efni fundarins var forvalið, samkeppnin og framkvæmdin.

Einn fundarmanna spurði hvenær reiknað væri með að framkvæmdir við byggingu Nýs Landspítala hæfist. Gunnar Svavarsson verkefnisstjóri varð fyrir svörum og sagði að það væri áætlað á haustmánuðum 2011. Sennilega í nóvember. Fyrirspyrjandi var ánægður með áformin en þótti þetta stuttur tími til þess að klára samkeppnina, hanna húsin til útboðs og hefja framkvæmdir. Þá leiðrétti Gunnar þann misskilning og sagði að gatnaframkvæmdir munu byrja í nóvember 2011. Þetta leit sem sagt allt vel út. Ekki kom fram á þessum fundi hvenær uppbyggingunni átti að ljúka, en miðað við tímaáætlunina vegna hönnunar og byrjun framkvæmda gerðu menn auðvitað ráð fyrir að byggingarnar stæðu fullbúnar til notkunnar um þessar mundir, árið 2017-2018.

++++

Síðan eru liðin sjö ár og það er enn rúmt ár þar til útboðsgögn vegna framkvæmdarinnar verða afhent ef áætlanir standast. Húsgrunnur verður tekinn 8 árum eftir að samkeppninni lauk samkvæmt þessu! Þetta er gríðarlega langur tími. Allt of langur. Þetta hreyfist með hraða snigilsins. Á þessum mörgu árum hafa eldri byggingar drabbast niður og einungis hafnar framkvæmdir á Sjúkrahóteli, rými fyrir jáeindaskanna og nokkrir skrifstofugámar fyrir lækna hefur verið komið fyrir, (aðeins um 1-2% af heildarbyggingamagni Landspítalalóðar) annað ekki.

Samkvæmt deiliskipulagi á Landspítalalóðin að rúma alls 293.300 fermetra þar sem eldri byggingar sem á að endurhæfa eru aðeins  tæpur fjórðungur alls byggingamagnsins eða 73.600 m2. Þetta er gríðarlegt byggingamagn sem ekki er auðvelt á átta sig á. Jafnvel fyrir atvinnumann í greiningu skipulags og bygginga.

+++

Í Danmörku var haldin samkeppni um nýtt háskólasjúkrahús í Köge á Sjálandi. Köge er bær suðvestan við Kaupmannahöfn. Það vekur athygli að þar er enginn háskólinn sem segir manni að tengsl við almennan háskóla skiptir þar í landi litlu máli. Samkeppnin um sjúkrahúsið í Köge var haldin 2013 og gert er ráð fyrir að sjúkrahússbyggingin standi fullkláruð 8 árum síðar eða árið 2022. Hún er um 177.000 fermetrar.

Þetta er ekki álitið sérstaklega hröð framkvæmd þar í landi. Hún er álitin eðlileg. Þegar tekinn verður grunnur að meðferðarkjarna Landspítalans Háskólasjúkrahúss við Hringbraut í lok næsta árs verða liðin hátt á 9 ár frá því að úrslit um samkeppni vegna framkvæmdanna lá fyrir.

+++

Af hverju gengur þetta svona hægt hjá okkur? Er þetta sleifarlag? Slæleg vinnubrögð, hirðuleysi og trassaskapur? Eða er þetta ein harmasaga hugsanlega vegna þess að þetta byggist allt á veikum grunni hvað varðar skipulag, fjármál og hugmyndafræði? Ég veit ekki svarið en það er ljóst að ekki hefur tekist að ná upp faglegri umræðu um málið. Málið allt er vanreifað.

Það er sorglegt vegna þess að allt sem farið hefur verið fram á er að það fari fram óháð og hlutlaus staðarvalsgreining. Því er ítrekað hafnað og kerfið hefur makkað með einhverjum óskiljanlegum  þverpólitískum þingmeirihluta. Nú hafa svo margir komið að þessu að enginn er ábyrgur.

Menn hafa sagt undanfarin 7 ár að það væri of seint að taka upp fagleg vinnubrögð varðandi þetta mikilvæga mál!

Með sömu rökum má halda því fram að það sé orðið of seint að breyta bílaborginni Reykjavík í vistvæna borg fyrir fólk með Borgarlínunni.

++++

Efst er mynd úr samkeppnistillögu sem var valin til útfærslu þann 9. júlí 2010 og strax að neðan er svo fullunnin deiliskipulagstillaga þar sem bætt hefur verið við byggingamagnið einum 30 þúsund fermetrum næst nýju Hringbrautinni.

Neðst kemur svo mynd af Háskólasjúkrahúsi í Köge í Danmörku. Samkeppni var haldin árið 2013 og sjúkrahúsið verður tilbúið til notkunnar 2022, 8 árum síðar.

 

Að neðan er yfirlitsmynd af háskólasjúkrahúsinu í Köge suðaustan við Kaupmannahöfn. Þetta er gríðarstór bygging uppá 177.000 fermetra. Samkeppni var um húsið var boðuð árið 2013 og nú standa byggingaframkvæmdir yfir og verður lokið árið 2022.  Það er rúmt um stofnunina og aðgengi er gott. Það var ákveðið að efna til samkeppni um þessa miklu byggingu árið 2013 og allt bendir til þess að húsið verði opnað árið 2022.

Við fengum úrslit í samkeppninni um Nýjan Landspítala Háskólasjúkrahús 2010 og framkvæmdir munu hefjast rúmum 8 árum síðar ef áætlanir ganga eftir. Staðsetningin er í engu samræmi við raunveruleikann eins og hann er nú 15 árum eftir að staðurinn var valinn og forsendur staðarvalsins frá 2002 eru allar brostnar.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (17)

  • Hannes Þórisson

    Held að málið sé að það er engin Nýr Landspítali að koma á næstuni. Mér hefur fundist þessi umræða um Nýjan Landspítala hafa verið á villigötum. Sannleikurinn er nefnilega sá að það er verið að byggja við Gamla Landspítalan, verið að setja á hann bætur og plástra á meðan virðist lítið verið hugsað um að halda við því sem til er fyrir. Hefur einhver séð útreikninga á því hvernig á að fjármagn ný tæki á nýja meðferðarkjarnann? Á meðan ekki er hægt að kaupa eins sjálfsagða hluti og blóðþrýstingsmæla inná deildirnar hvernig á að vera hægt að fjármagna stærri tæki?

    Til að tala um Nýjan Landspítala þarf að byggja nýjan frá grunni á betra miðsvæði en sá gamler er á í dag. Ég hef reyndar gælt við þá hugmynd að Skeifan værri flottur staður fyrir nýtt sjúkrahús, miðsvæðis, nálægt stofnbrautum og möguleiki að hafa þyrlupall á þaki spítalans sem gætið staðið 4-7 hæðir.

  • Kolbeinn

    Þessar setningar eru tilefni til umhugsunar:

    „Menn hafa sagt undanfarin 7 ár að það væri of seint að taka upp fagleg vinnubrögð varðandi þetta mikilvæga mál!

    Með sömu rökum má halda því fram að það sé orðið of seint að breyta bílaborginni Reykjavík í vistvæna borg fyrir fólk með Borgarlínunni.“

    • Skupuleggur Matthildar

      Ég þarf að hugsa.

      ???????
      ???????
      ???????

      Jú þetta er rétt!

      Bílaborgin og AR1963-84 var gefið út 1965. Vinstri stjórnin 1978-1982 sveigði af þeirri leið aðeins 13 árum seinna og AR1984-2004 staðfesti þá stefnu og dró úr einkabílastefnunni. Svo kom AR2010-2030 og sneri þróuninni við.
      Staðsetning Landspítalans við Hringbraut þótti góð (af sumum) árið 2002 en sýnt var fram á að hún var röng af mörgum árið 2010 eða fyrr. Þá vantar bara kjark til þess að endurskoða staðsetninguna eins og menn gerðu þegar hætt var við að breyta Reykjavík úr borg fyrir bíla í borg fyrir fólk u.þ.b. 15 árum eftir bílaborgarskipulagið frà 1963!

      Flytjum spítalann sem fyrst.

  • Hlöðver Stefán Þorgeirsson

    Vegna vangaveltna um örlög Símapeninga:

    http://blog.pressan.is/olafurm/2016/12/09/10-atridi-um-opinber-fjarmal/

    Hann notar líka Landspítalaframkvændina sem dæmi í greininni.

  • Símapeningarnir voru lagðir inn í Seðlabankann, sem tapaði þeim í hruninu þar sem ónógra trygginga var krafist í lánastarfsemi bankans við fjármálafyrirtæki.

    Hér er upphæðin:
    http://www.visir.is/g/2010853201142/gjaldthrot-sedlabankans-kostadi-halfa-milljon-a-mann

    Og hér er ástæðan:
    http://www.vb.is/frettir/frettaskyring-rikisendurskoun-gagnrynir-velan-sela/3246/?q=Skuldir%20r%C3%ADkissj%C3%B3%C3%B0s

    • Friðrik

      Þá er það ljóst að Seðlabankinn skuldar þjóðinni eitt stykki sjúkrahús 🙂

    • Hilmar Þór

      Hér kristallisserast kostir umræðunnar. Það kemur margt í ljós í svona umræðu.

      Ég vissi til dæmis ekki hvað varð um Símapeningana þegar ég skrifaði pistilinn. En nú hafa Vilhjálmur, DBE og fleiri upplýst mig að minnstakosti og fleiri aðra sem vissu ekki hvað varð af peningunum fyrr en þessi upræða opnaðist (aftur)

      Þetta er rætt á nokkrum stöðum á netinu núna.

      En ég spyr: Er ekki hægt að nálgast þessa peninga núna þegar Seðlabankinn stendur vel?

      Er það kannski borin bon?

    • Hilmar Þór

      „Borin von“ átti að standa!

    • Hlöðver Stefán Þorgeirsson

      Það er mikilvægt að ala á tortryggni í garð Seðlabankans að óþörfu. Ég hvet ykkur, og alla sem áhuga hafa á fjármálum ríkisins, að lesa greinina eftir Ólaf Margeirsson sem ég var búinn að vísa í í fyrri ummælum.

      http://blog.pressan.is/olafurm/2016/12/09/10-atridi-um-opinber-fjarmal/

  • Steingrímur Jónsson

    Nú þurfum við fólk sem þorir að taka í stýrið og breyta stefnu í rétta átt. Fólk sem þorir að fara út af þessu óheillaspori og hugsa út fyrir þann þrönga ramma sem verkefnið hefur verið inni í. Nýja stjórnendur í Nýr Landspítali OHF strax sem hafa kjark til þess að ganga á Seðlabankann með hörku og lögfræðingastóði. Því þeir fengu peningana fyrir sölu Símanns ef þetta er rétt hjá Vilhjálmi. Ná í peningana í bankann og byrja að byggja á nýjum stað. Það gengur ekki að hjakka í sama pittinum á annan áratug öllum til ama og engum til gagns. Er ekki allt fyrir hendi?
    Peningar í Seðlabankanum og ekki erum við svo bágt sett að eiga ekki land. Vífilsstaðir, Keldur, Elliðaárósar ……. og margir aðrir góðir staðir….jafnvel Laugarnestanginn er margfalt betri en Hringbraut.

  • Svo skyldi maður halda að ríkið myndi halda sig við loforð og skuldbundingar tengt sölu á Símanum gamla fyrir Nýjum Landspítala á besta stað. Staðgreiðlu nánast með öllu. Alveg eins og fyrirtæki og einstaklingar fyrir og eftir hrun, nema þeir séu yfirlýstir gjaldþrota!

  • Páll Torfi Önundarson

    Já það er margt skrýtið í kýrhausnum. Landspítalinn var „sameinaður“ árið 2000. Þá var yfirstjórn sameinuðu en lækningum sundrað í tvö hús. Þannig er það enn 17 árum síðar. Það sem lá á að gera var að sameina bráðastarfsemina í eitt hús en önnur starfsemi gat verið áfram í einu húsi. Ætlunin var sem sagt að sameina bráðastarfsemina í eitt hús. Það var hægt að gera hvort heldur var á Hringbraut eða í Fossvogi. Þurfti þó mun minni nýbyggingar eða ca 50 þúsund fermetra á Hringbraut en hefði þurft um um 90 þúsund í Fossvogi (sem eru álíka margir milljarðar). Einhvers staðar í ferlinu breyttist planið í það að byggja nýjan spítala frá grunni en við Hringbraut. Ekki mátti nefna aðrar staðfestingar. Enginn hefur mátt segja neitt og allri settir út í horn sem hafa haft eitthvað um þetta að segja. Stjórnmálmenn eru eðlilega ruglaðir en hafa dregið lappirnar af því þeir skilja ekki neitt í neinu…þetta er ekki það sem lagt var stað með!

  • Hilmar Þór

    Hér er úrdráttur úr skjali sem Vilhjalmur Ari vísar í að ofan. Þar kemur fram að söluverðið skuli að fullu greitt 5 dögum eftir staðfestingu eftir 27. júlí 2005.!!

    Og hvar eru peningarnir og hvar er spítalinn?

    „Kaupverðið var 66,7 milljarðar króna miðað við gengisskráningu þann 27. júlí 2005, en tilboð í eignarhlutinn voru opnuð degi síðar. Með sölunni var lokið stærstu einkavæðingu Íslandssögunnar og söluferli sem rekur upphaf sitt til ársins 1999. Eftir viðskiptin hafði ríkisvaldið dregið sig að öllu leyti út úr samkeppnisrekstri á fjarskiptamarkaði.“

    „Að undangengnu útboði bárust 14 tilboð, sem að stóðu 18 innlendir og erlendir aðilar. Aðilar voru eftirtaldir:

    Carnegie og Verðbréfastofan
    Credit Suisse First Boston og Alfa
    Deloitte
    Deutsche Bank og MP Fjárfestingarbanki
    Ernst & Young
    Handelsbanken Capital Markets
    HSH Gudme
    JP Morgan og Íslandsbanki
    KPMG
    Landsbankinn
    Lazard
    Lehman Brothers og Allied Partners
    Morgan Stanley
    Pricewaterhouse Coopers “

    „Kaupverðið, 66,7 milljarðar króna, miðaðist við gengisskráningu Seðlabanka Íslands 27. júlí 2005. Skyldi greiðslan fara fram innan 5 virkra daga frá því að niðurstaða Samkeppniseftirlitsins lægi fyrir og að því gefnu að stofnunin samþykkti kaupin fyrir sitt leyti.“

  • Auðvitað skuldar ríkið (Seðlabankinn sem nú situr á digrum sjóðum) 66.7 milljarðana á gengisvirði ársins 2005 og þá væntanlega með dráttarvöxtum þessa oeninga til Nýs Landspítala og sem ríkisstjórnin var búin að lofa. „Þann 6. september 2005 greiddu Skipti ehf. ríkissjóði kaupverð hlutafjár ríkisins í Símanum í samræmi við ákvæði kaupsamnings og fékk eignarhlutinn í Símanum afhentan.“ https://www.forsaetisraduneyti.is/media/Einkavaeding/Siminn_lokaskyrsla.pdf

  • Fyndið þetta með misskilninginn hjá Gunnari á fundinum 2010 og gatnagramkvæmdirnar. Meginforsendur staðarvalsins týndu enda tölunni, umferðamannvirkin til að anna álaginu og Reykjavíkurflugvöllur 2012. Neyðarbrautin reyndar farin og óvíst með framhaldið. Sjúkraþyrlumálin síðan sett í slíkt óöryggi og uppnám að það jaðrar við þjóðaröryggið sjálft. Hvernig má þetta gerast og Alþingi situr bara (fram)hjá?!!

  • Friðrik

    Hugmyndakreppa, stjórnunarvandi og kjarkleysi eru hér saman í teymi! Og þverpólitískar blokkir „makka“ með.

  • Gunnar Jónsson

    Síminn er allt um kring en peningarnir hvergi sjáanlegir! Ég skil þetta heldur ekki! „Follow the money“ og byggjum þetta nauðsynlega sjúkrahús strax… sama hvar en alls ekki við Hringbraut.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn