Laugardagur 16.04.2011 - 12:32 - 10 ummæli

Landþörf samgangna og þétting byggðar

Árið 2004 gaf Skipulags- og byggingarsvið út drög að úttekt á landnotkun vegna gatnakerfisins í Reykjavík. Í skýrslunni er að finna ógnvænlegar  tölur um landnotkun gatnakerfisins. Þar kemur m.a. fram að landnotkun vegna samgöngumannvirkja í Reykjavík er um 48% af landrýminu, opin svæði eru 10% og byggð svæði 42% af landinu. Byggðin tekur minna land en göturnar.

Í skýrslunni má einnig lesa að bifreiðastæðin í borginni þekja milli 475  og 700 hektara lands sem er fimm sinnum meira en Reykjavíkurflugvöllur tekur í Vatnsmýrinni.

Í drögunum er tafla þar sem borið er saman flatarmál gatnakerfis við fjölda íbúða í völdum hverfum borgarinnar.  Þar kemur fram að þróunin hefur gengið í óheillavænlega átt undanfarna áratugi.  Hverfin verða með hverjum nýjum áfanga frekari á landrými þegar gatnakerfið er skoðað.

Til dæmis fara um 75 fermetrar lands í samgöngumannvirki á hverja íbúð í nýja Vesturbæ (sunnan Hringbrautar), 152 fermetrar á íbúð í Fossvogi, 257 fermetrar á íbúð í Grafarholti.  Í Staðarhverfi fara heilir 322 fermetrar undir samgöngumannvirki vegna hverrar íbúðar, sem er  meira en fjórum sinnum meira en í nýja Vesturbæ. Hver er ástæðan fyrir þessari þróun?

Allt frá því um 1980 hafa verið færð sterk rök fyrir þéttingu byggðar í Reykjavík. Helstu rökin voru hagsmunir almannasamgangna, bættrar þjónustu, sparnaður á landi auk þess að stuðla að hagkvæmara samgangnakerfi og borgarrekstri almennt . Þar var almenn sátt um þessi sjónarmið.  Þess vegna kemur það á óvart að land undir samgöngumannvirki hafa sífellt tekið meira landrýni með hverjum nýjum áfanga ef marka má skýrsluna.

Þessi þróun er sérkennileg vegna þess að það hefur alltaf legið fyrir að dreifð byggð er óhagkvæm í alla staði. Hvort sem horft er á stofnkostnað eða rekstrarkostnað.

Höfundar skipulags í austurhluta borgarinnar, verkkaupinn og ráðgjafar hans hafa alltaf verið meðvitaðir um alla ókosti dreifðrar byggðar. Það er líka skrítið að fólk sem skipuleggur borgarhverfi þar sem samgöngumannvirki taka sem nemur 322 fermetrum á íbúð sé á sama tíma að tala um að hrekja Reykjavíkurflugvöll úr borginni vegna þess að landið sér svo verðmætt!!

Eins og fyrr segir kom skýrslan út árið 2004 og er úttekt á því sem þegar hafði verið gert. Ég geri ráð fyrir að í kjölfarið hafi orðið nokkrar umræður hjá skipulagsyfirvöldunm með markvissri stefnubreytingu í framhaldinu.

Sýrsluna er hægt að lesa í heild sinni hér:

http://www.reykjavik.is/Portaldata/1/Resources/adalskipulag/skyrslur/Land_oerf_samgangna-NER-HS2004.pdf

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Guðmundur

    Ég veit að þetta kemur seint, en ég rakst á þessa stuttu heimildarmynd um daginn sem rímar vel við þessa umræðu:

  • Hilmargunn

    Sammála Hilmari Þór varðandi rannsóknarstörf háskólanna. Það er gríðarlegur doði og meðalmennska í gangi. Það verða aldrei neinar alvöru framfarir í þessum málum nema að auka rannsóknir í íslensku samhengi og auka samvinnu á milli einkafyrirtækja, opinberra stofnana og háskólasamfélags. Ég hef grun um að víða liggi pottur brotinn í þessu samhengi en mér finnst það segja sig sjálft að frumkvæðið verði að koma frá arkitektastéttinni sjálfri, vítt og breitt.

    Mér finnst stundum eins og Listaháskólinn sé einum of upptekinn af því að einangra sig frá raunveruleikanum. Það hefur endurspeglast m.a. af húsnæðismálum þeirra. Ekkert þrífst í einangrun !

  • Hilmar Þór

    Gestur Ólafson nefnir háskólana.

    Þannig er að skipulagsfræði er kennd í fjórum æðri menntastofnunum hér á landi. Það má ætlast til og krefjast að stofnanirnar væru virkar í rannsóknarstarfi og umræðu um skipulagsmál. En svo er ekki.

    Ég batt miklar vonir við LHÍ í þessum efnum. En þar er doðinn allsráðandi. Það er eins og skólinn sé ekki til þegar arkiteltúr og skipulagsmál eru annarsvegar.

  • Gestur Ólafsson

    Þessi þróun heldur því miður áfram svo lengi sem fólkið sem við kjósum til að stjórna borginni vill ekki nota nútíma aðferðafræði og þekkingu í skipulagsfræðum og líðst að senda okkur íbúunum reikninginn fyrir öll mistök sem eru gerð – og yfirleitt umræðulaust. Vettvang fyrir faglegar umræður um þessi mál vantar líka og ekki er að sjá að þeir háskólar sem kenna þessi mál hér á landi hafi mikinn áhuga á að bæta þar um.

  • Ja hérna.
    Þvílík sóun á landi og auðlindum.

  • Mér hefur alltaf fundist vera offramboð á götum í 107. Þær eru að minnstakosti flestar of breiðar. Samt eru göturnar í staðahverfi fjórum sinnum stærri!!

  • Fannar Hjálmarsson

    byggjandi á holtum, hæðum og heiðum. er kannski ekki vandinn í hnotskurn að hér á landi má ekki rífa neitt? það má ekki rífa gamalt hús eða kofa til þess að byggja nýtt. það er öfgar í allar áttir en menn verða að gera sér grein fyrir því að ef aldrei eru rifin hús, þá er eina leiðin til að fjölga íbúðum, að byggja ný hverfi.

    síðan þegar menn fara í einhverjar framkvæmdir þá er aldrei hugsað til framtíðar. ef menn vilja bílastæði þá eiga þau að vera í bílastæðakjallara. bílastæðahúsið á stjörnubíós reitnum er til fyrirmyndar í stærð og hönnun. önnur íslensk bílastæða hús og þá sérstaklega þau sem eru eldri bera öll merki þess að menn halda að bílastæðakjallari sé eitthvað sem aldrei verður notað eða þá að arkitektarnir geri sér ekki grein fyrir því hvaða notkun fer þar fram. þeir allir þröngir, litlir og með alskyns steypu bitum sem standa út í allar áttir þannig að erfitt er um vik.

  • Anna Sigurðar

    Hörður.
    Þetta er gróf mynd sem þú sýnir með athugasemd þinni og sennilega sönn. Líklega væru allir jöklar veraldarinnar fyrir margt löngu bráðnaður ef öll heimsbyggðin væri jafn frek á landrými og olíu og íbúar Houston Texas.

    Fyrir utan að olíubyrgðir heimsins væru tómar og tæmdar.

  • Skil ekki áhuga Íslendinga á Barcelona og Prag.Væri ekki betra að fara til Dallas ,Houston.Þessar borgir hljóta að standa okkur nær.Flugleiðir ættu kannski að bjóða upp á borgarferðir þangað. Hvaða borgir kjósum við fyrir okkur.?
    http://upload.wikimedia.org/wikipedia/en/6/64/Revised_petrol_use_urban_density.JPG

  • Guðmundur G.

    Það er ekki síður athyglisvert þegar skoðaðar eru upplýsingar skýrslunnar um fjölda íbúða á hektara. Þær eru 47 í þingholtum, 35 í nýja Vesturbæ, 35 í efra Breiðholti, 14 í Fossvogi, 13 í Grafarholti, 10 í Staðarhverfi. Sífellt verri og verri landnotkun eftir því sem árin líða (og bensínið hækkar) Þetta er m.a. ástæðan fyrir því að það er nánast ómögulegt að reke hér almenningssamgöngukerfi.

    Það er stöðug útþennska byggðarinnar innan hverfanna fyrir utan að þeim er komið fyrir upp um holt og hæðir meira og minna þjónustulaus. Þessi þ´ruin hefur gengið þvert á vilja sem fram kemur í umræðunni um skipulagsmál.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn