Þriðjudagur 11.12.2012 - 12:34 - 10 ummæli

Laugavegur á aðventu –“PPS” gata?

  

Götur eru flokkaðar á margvíslegan hátt eftir hlutverki þeirra í borgarskipulaginu. Allt frá hraðbrautum um safngötur til húsagatna.

Svo eru til allskonar undirflokkar þar á milli.

Það er talað um götur á borð við Laugaveg eins og hann er nú sem götu með „seitlandi“ umferð bíla.

Svo eru það vistgötur (Shared Streets) þar sem gangandi og akandi hafa jafnan rétt. Og að lokum eru það hreinar göngugötur eins og Strikið í Kaupmannahöfn og austari hluti Austurstrætis.

Nú hefur hinn mikli hugmyndafræðingur, Jan Gehl,  skotið inn einum götuflokki til viðbótar. Það er gata sem hann kallar “Pedestrian Priority Street”. Þar á hann við götu þar sem bílaumferð er leyfð en gangandi hafa forgang. Það er að segja öfugt við Laugaveginn í dag. Á Laugaveginum á hin seitlandi umferð akandi réttinn og hinum gangandi ber  að víkja.

Umferðamál Laugavegarins hafa verið mikið rædd undanfarin ár. Fólk hefur einkum rætt tvo möguleika.  Annarvegar núverandi ástand og hinsvegar að gera götuna að göngugötu allt árið eða eftir árstímum.

Nú vísar Gehl á þriðja kostinn sem er “PPS” leiðin sem er auðvitað málamiðlun. Við þá leið geta þeir sem eiga erfitt um gang eða þurfa að komast akandi að dyrum verslana og þjónustu gert það, en það mun verða timafrekt vegna þess að gangandi vegfarendur munu tefja fyrir umferð bíla.

Spurt er hvort ekki sé tilefni til þess að gera Laugaveginn að “Pedestrian Priority Street” á aðventunni og yfir sumarmánuðina sem skref í átt að hreinni göngugötu framtíðarinnar?

Hjálagt eru tvö myndbönd. Annað sýnir ástandið á Laugaveginum í dag, á aðventunni, og hið síðara er stikla úr efni frá Jan Gehl um borgir fyrir fólk. Efst er mynd tekin á laugavegi s.l. sumar. Neðst er skemmtileg mynd sem sennilega er tekin á fjórða áratug síðustu aldar.

Sjá tengil um High line park í New York:

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/09/07/high-line-park-i-new-york-miklabraut/

Tngill um Broadway:

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/02/03/broadway-ny-gongugata/

Sjá tengil um vistgötu:

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/03/30/shered-street-vistgata/

Hér er tengill að mikilli skýrslu um tækifæri og skilning á “High Street” fyrir forfallna áhugamenn um slíkt. 

http://www.bis.gov.uk/assets/biscore/business-sectors/docs/u/11-1402-understanding-high-street-performance.pdf

 

 

 

Myndin að ofan er tekin  á Laugarveginum um það bil sem bílanir voru að taka völdin frá þeim sem ferðuðust fótgangandi.  Er ekki komið að því að fótgangandi endurheimti yfirráð sín á götunnu?

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Er PPA ekki einfaldllega það sem að á íslensku hefur verið kallað vistgata? „Göngugatan“ á Akureyri, þ.e. Hafnarstræti á milli Kaupvangsstrætis og Ráðhústorgs er vistgata og þar hafa gangandi forganginn. Það eru margar góðar hugmyndir sem hafa verið lagðar til í þessum svarhala. Bílastæðin á Laugavegi ættu fyrst og fremst að þjóna þeim sem erfitt eiga með gang og þau ætti að afleggja að mestu norðan megin í götunni.

  • Magnús Skúlason

    íbúasamtök Miðborgar eru þegar búin að leggja til við borgaryfirvöld að skoða vandlega þennan valkost á Laugaveginum.

  • Birna Einarsdóttir

    Ég er ekki alveg sátt við umræðuna. Ég er 61 árs fædd og uppalin í Reykjavík. Fékk liðagigt tvítug 1971 og ferðum mínum í Miðbæinn fækkar stöðugt. Ég fer ekki á 17. júní ekki á Menningarnótt og ekki á aðventu. Það er of erfitt. Ég er þó tiltölulega nýlega komin með P merki. Til þess þarf maður að jafnaði að vera ófær um að ganga meira en 400 m. Áður en maður uppfyllir þau skilyrði er maður kannski búinn að eiga lengi, stundum erfitt með gang. Stæði fyrir fatlaða í Miðbænum eru ekki mörg og ekki endilega þar sem fatlaðir eiga erindi. Mín tillaga er sú að stæði við Laugaveg og efstu og neðstu stæðin í hliðargötum væru ókeypis fyrir fatlaða en væru líka skammtímastæði með háu gjaldi ætluð fólki með „tímabundnar fatlanir“ og auglýst sem slík. Ég hef td. verið ólétt með grindargliðnun, fótbrotin og er ekki ein um það. Miðbærinn á að vera fyrir alla ekki bara fyrir unga og/eða fríska. Miðbærinn á að bjóða fólk velkomið, leggja áherslur á mismunandi lausnir fyrir mismunandi vegfarendur, tillitsemi við aðra. Sum okkar þurfa að vera á bíl aðrir með barnavagna, en fæstir eru að flýta sér þegar þeir fara Laugaveginn. Finnum sanngjarna lausn fyrir alla, ekki stilla fólki með misjafnar þarfir upp sem andstæðingum.

    • Hilmar Þór

      Mér sýnist Birna Eionarsdóttir opna hér nýjar dyr í bílastæðaumræðunni við Laugaveg og víðar þar sem hún vill blanda stæðunum þannig að bílastæðum fatlaðra verði fjölgað og þeir fái ókeypis afnot af þeim meðan aðrir geti notað þau í mjög skamman tíma gegn mjög háu gjaldi.

      Þá er hugmynd Egils um jólamarkað efst á Laugavegi athyglisverð. T.d. við Landsbankann að Laugarvegi 77 upplagður staður fyrir slíkt. Einungis þyrfti að leggja niður 8-10 stæði til þess að skapa rými fyrir slíka starfssemi.

  • Anna Th. Rögnvaldsdóttir

    Það mætti loka nær öllum bílastæðunum á aðventunni, skilja nokkur eftir handa fötluðum, vendilega merkt auðvitað. Flöskuhálsinn sem myndast við Vínberið vegna þriggja skitinna bíla er ekki sá eini í götunni.

    Ég skrifaði borgarfulltrúum s.l. vor og stakk upp á þessari málamiðlun vegna fyrirhugaðrar sumarlokunar, s.s. að byrjað verði á því að loka hreinlega bílastæðunum og sjá hvernig það kæmi út. Það myndi greiða mjög fyrir umferð gangandi vegfarenda og heilu svæðin myndu opnast fyrir alls kyns uppákomum úti undir beru lofti.

    Þótt hönnun götunnar sé fín og breytingin hafi verið mikil lyftistöng á sínum tíma þá voru það stór mistök að hafa svona mörg bílastæði norðanmegin í götunni, þar sem sólar nýtur helst. Að vísu held ég að á 9. áratugnum hafi engum dottið í hug að setja borð og stóla út á gangstétt. „Götulíf“ er eitthvað sem reykvíkingar eru tiltölulega nýbúnir að fá smekk fyrir. Það þarf að lagfæra aðeins þessa götu til að koma til móts við nýjar kynslóðir.

    • Einar Einarsson

      Ég gæti trúað að það sem Anna Th. Rögnvaldsdóttir segir sé rétt. Allt sem þarf að gera er að leggja niður öll önnur bílastæði en fatlaðra, sé nægjanleg aðgerð til að breyta götunni í „götu fyrir fólk“ eins og Gehl segir á enskunni sinni.

  • A clever mixture of pedestrian zone and shared space with „connected fingers“ in to the neighbourhood. Is there any question about it?

  • Ég styð að Laugavegur verði gerður að PPS götu allt árið. Frábær málamiðlun sem fullnægir þörfum allra.
    Ég vil bæta við þeirri hugmynd að efsti hlutinn götunnar sem á að tilheyra væntanlegu “Vitahverfi” (Frakkastíhur-Barónstígs) að þar verði árviss jólamarkaður eftir götunni miðri ens og við þekkjum víða í borgum meginlandsins, París og Vín. Þá mundi mótast liflegt mótvægi á aðventu við neðri hluta Laugarvegs ilmandi af harðfisk, glögg og hangikjöti.

    • Einar Einarsson

      Þessi hugmynd um jólamarkað á efst á Laugavegi er fjandi góð.

  • Guðmundur Björnsson

    Íslenska myndbandið er svakalegt og lýsir ástandinu vel.

    Ég vil “PPS” götu eins og skot.

    Þetta bílafargan er óþolandi þarna innanum okkur sem viljum njóta götunnar.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn