Laugardagur 22.03.2014 - 21:58 - 11 ummæli

Léttvín í matvöruverslanir – til kaupmannsins á horninu!

 

Léttvín í matvöruverslanir?

Hvað hefur það með arkitektúr eða skipulag að gera?

Jú það hefur áhrif á verslunarvenjur fólks og verslunarvenjur fóks varðar borgarskipulagið.

Alveg eins og þegar skipulagsyfirvöld heimiluðu rekstur stórmarkaða á iðnaðarsvæðum, hafnarsvæðum og svæðum utan íbúðahverfa gerðist margt sem áhrif hafði á umhverfið.

Kaupmaðurinn á horninu hætti rekstri og einkabíllinn varð nauðsyn fyrir þá sem vilja eða þurfa að búa í þéttbýlinu. Bifreiðaumferð jókst og gangandi og hjólandi sáust varla í húsagötum. Svifryk og mengun jókst og slysum fjölgaði. Vöruverðið í stórmörkuðunum var eitthvað lægra en kostnaðurinn og fyrirhöfnin  við að nálgast vöruna óx verulega.

Við almennari eign einkabíla brustu rekstrarforsendur almenningsvagnakerfisins og götulífið varð leiðinlegra og líflausara. Persónuleg tengsl við kaupmanninn á horninu og nágranna minnkaði. Félagsleg samskipti urðu minni innan hverfiseininganna

Þetta er svona einföld skýring á afleiðingu þess að dagvöruverslanir voru fluttar út úr íbúðahverfunum og fjær notandanum.  Þetta stefnuleysi skipulagsins hefur valdið samfélaginu tjóni eins og margoft hefur verið færð rök fyrir.

Í nýju aðalskipulagi Reykjavíkur AR 2010-2030 er lögð áhersla á að snúa þessu við þannig að fólk geti sótt sínar daglegu nauðsynjar fótgangandi frá heimili sínu. Með því er markmiðið að stuðla að hagkvæmara heimilishaldi, vistvænna umhverfi, líflegra götulífi, sterkari grenndartilfinningu og ekki síst meiru félagslegu öryggi o.fl.

Í Viðskiptablaðinu í  vikunni var kynnt könnun um viðhorf Íslendinga til þss að selja létt áfengi í stórmörkuðum. Niðurstaðan var sú að um 67% aðspurðra voru því fylgjandi.  Það verður að teljast mikið.

Einn helsti galli við skoðanakannanir og líka helsti óvissuþátturinn er í orðalagi sjálfrar spurningarinnar.

Þarna var spurt: Á að leyfa sölu á léttu áfengi í stórmörkuðum?

Líklegt er að svörin hefðu verið eitthvað á annan veg ef spurt hefði verið: Á að leyfa sölu á léttu víni hjá kaupmanninum á horninu ?

Ég hefði að minnsta kosti tekið betur í þá spurningu. Ég vil ekki sjá vínsölu í stórmörkuðum. Þá get ég eins farið í ríkið. Ég vil versla við minn kaupmann. Kaupmanninn á horninu þar sem allir vita hver er hver og þar sem er beinlínis skemmtilegt að versla.

Það er líka vegna þess að ég er sammála því sem kemur fram í nýju aðalskipulagi Reykjavíkur AR 2010-2030 um að styrkja matvöruverslanir inni í íbúðahverfunum og draga úr þjónustu stórmarkaðanna á jaðarsvæðunum.

Sumir segja að þessu sé ekki hægt að snúa við. Þetta sé orðinn hlutur. Aðrir segja að ef við viljum hafa dagvöruverslanir í göngufæri þá skulum við leita leiða til þess. Ekki bara sætta okkur við orðinn hlut.

En hverjar eru leiðirnar?

Ég veit það ekki en ég tel að þær munu finnast. Sumir segja að leiðirnar séu að beita  ívilnandi aðgerðum fyrir kaupmanninn á horninu. Þar eru nefnd atriði eins og afsláttur eða niðurfelling fasteignagjalda. Aðlaga strætisvagnaumferð að kaupmanninum á horninu. Skipuleggja samgöngur á borð við gönguleiðir og hjólaleiðir m.t.t. kaupmannsins. Mynda hverfiskjarna eins og AR 2010-2030 stefnir að.

Og svo hitt að leyfa að selja léttvín í verslunum sem eru undir 300 fermetrum og staðsettar eru í hverfiskjörnum íbúðahverfanna. Þannig mun kaupmaðurinn á horninu eiga viðreisnar von.

En sennilega sýnist sitt hverjm um þetta.

Efst er mynd af hverfisverslun í vesturbæ Reykjavíkur sunnan Hringbrautar þar sem væntanlega verður hverfiskjarni í náinni framtíð og að neðan er úrklippa úr Viðskiptablaðinu.

Hér er slóð að frétt Viðskiptablaðsins:

http://www.vb.is/frettir/103292/

Vínlett

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • Þessi stórmarkaðs bylgja sem kom frá ameríku er búin að vera.

    Mollarnir í BNA eru að loka.
    Sama gerist hér.
    Kaupmaðurinn á horninu mun opna aftur hvað sem skipulagsfræðingar gera eða segja.
    Þessi óheillaþróun með stórmarkaði og Molla er sjálfdauð sem betur fer. Menn hætta að kaupa gleraugu hjá skósmiðnum og mjólk á bensínstöðvum.

    Sérverslanir munu vakna til lífsins og fólk fer aftur að:

    Kaupa handverksbrauð hjá bakaranum,
    Lífrænt ræktað kjöt hjá kjötkaupmanninum.
    Fisk hjá fisksalanum
    Ost í ostabúðinni
    o.s.frv.

    Og lífil verður yndislegt þar sem amstur hversdagsleikans verður tær skemmtun………

  • Stefán Benediktsson

    Til þess að Magnús geti „valið“ að búa í úthverfi með tvo bíla verð ég og þú og þú að leggja honum til nægilega stóra lóð til að rúma amk. tvö bílastæði (50 fm), húsagötu með bílastæðum fyrir gesti (500 fm), tengibraut (2-4 akreinar) milli húsagötu og aðalumferðaræðar (4-6 akreinar) auk 8-10 ókeypis bílastæði nálægt vinnustað og stórverslunum. Því til viðbótar koma mælastæði annarstaðar. Valfrelsi Magnúsar snýst um allt of mikinn kostnað okkar hinna. Stórverslanir virðast ekki eiga í neinum vandræðum sama hvernig árar en hornakaupmenn hverfa hver af öðrum vegna rangrar áherslu í skipulagsmálum. Þessari áherslu er hægt að breyta með rökréttum ákvörðunum sem draga úr kostnaði okkar hinna af „valfrelsisáhrifum“.

    • Magnús Birgisson

      En samt er það svo skrítið að þegar ég keypti lóðina mína þá greiddi ég fyrir hana fullu verði…þ.m.t. bílastæðin sem ég útbjó á eigin kostnað. Og lóðagjöldin…og gatnagerðargjöldin…stóðu undir allri uppbyggingu hverfisins. Þar með talið gatnakerfisins, grunnskólans og leikskólans. Gjöldin áttu líka að standa undir íþróttamiðstöðinni sem ég er ekki ennþá búinn að fá.

      Og það sama má segja um stórmarkaðinn. Hann greiddi bílastæðin fullu verði. Og rukkar fyrir í vöruverði…sem er umtalsvert lægra en hjá kaupmanninum „á horninu“. Einu bílastæðin sem eru niðurgreidd af almannafé…þau finnurðu í 101.

      Og hvað með stofnbrautirnar? Fyrir þær er greitt með eldsneytinu sem fjöldskyldubíllinn brennir. Meira en þarf og afgangurinn rennur til heilbrigðis- og menntakerfisins. Þetta eru sömu stofnbrautirnar og strætó notar.

      Það er nefnilega ekki alveg augljóst hver greiðir fyrir hvað…þegar málin eru skoðuð án fordóma…

  • Að mínu mati þarf að skipta þessari umræðu í tvennt:

    1. Á að leyfa sölu áfengis í matvöruverslunum?
    2. Á ríkið að hafa einkaleyfi á sölu áfengis?

    Að mínu mati er svarið nei við báðum spurningunum.

    Ég tel að af félagslegum ástæðum eigi ekki að leyfa sölu áfengis þar sem fólk er að versla aðra hluti sem hafa ekkert með áfengisneyslu að gera, þ.m.t. matvöru. Að mínu mati snýst þetta um „push“ eða „pull“, þ.e. hvort áfengið komi til fólks eða hvort fólk þurfi að sækja það. Rannsóknir sýna að það að áfengið sé í boði þar sem fólk er að kaupa sér tómata og brauð eykur neyslu annars vegar ungs fólks og hins vegar þeirra sem eiga í erfiðleikum með áfengi. Þeir sem ekki eiga í erfiðleikum með áfengi – þetta skiptir þá litlu máli. Auðvitað er þetta forsjárhyggja og þannig óæskileg – en ég er á þeirri skoðun að sú breyting að bjóða áfengið þar sem fólk er að versla matvöru hefði meiri neikvæðar en jákvæðar afleiðingar í för með sér.

    Að mínu mati á því áfram að selja áfengi í sérverslunum þar sem aðrar vöru eru ekki í boði en þær sem tengjast beint neyslu áfengisins.

    Í dag rekur ríkið þessar verslanir. Mér finnst það óþarfi og sé ekki af hverju ríkið á að reka verslanir. Að mínu mati á hver sem er að geta rekið áfengisverslun en hún á að hafa sérinngang en ekki vera inni í t.d. matvöruverslunum af fyrrgreindum ástæðum.

    Verði þetta niðurstaðan þá ætti hvort heldur sem er að vera hægt að koma áfengisverslunum fyrir í verslunarmiðstöðvum eða í nágrenni kaupmannsins á horninu. Neytandinn á hins vegar að þurfa að sækja áfengið en það á ekki að koma til hans þar sem hann er að versla eitthvað annað. Til þess er markhópurinn of viðkvæmur.

    Þessi lausn ætti því að uppfylla óskir þínar og draga úr þörf fyrir einkabílinn þegar kemur að innkaupum á áfengi.

  • Það er rétt hjá Magnúsi að það er hægt að sjá þarna tilburði til þess að hafa áhryf á samkeppni. En er það ekki réttlætanlegt stundum?.

    Til dæmis að setja takmörk á stærðir matvörubúða. Ef hámarkið væri 200 fermetrar þá munu verslanirnar dreifast meira. Þá mun til dæmis Krónan og Bónus á Granda dreifa sér um 101 og 107 og auka þar með samkeppni.

    Ég held, Magnús, að þetta óhefta frelsi í viðskiptum skili sér ekki til viðskiptavinarins ef það er skoðað gaumgæfilega.

    Fórum við ekki illa út úr frelsinu fyrir Hrun.

    Það á að beita öllum ráðum til þess að færa verslunina nær neytandanum..Öllum. Stærðartakmörkunum, ívilnandi aðgerðum af öllu tagi(fasteignagjöldum o.fl.) og léttvíni.

  • Steinarr Kr.

    Mikið er ég sammála þér Hilmar. Það er til mikils að vinna að halda vínsölunni frá Baugi, Norvik og svoleiðis stórum aðilum. Einnig að koma í veg fyrir að svipað ástand myndist eins og á vínveitingastöðum, þar sem einungis er selt frá einum innflytjanda/framleiðanda.

  • Magnús Birgisson

    Það er aldeilis sem verið er að koma út úr skápnum í þessum pistli. Trúin á nýja aðalskipulagið er sem sagt ekki meiri en svo að það verður að beita brotum á samkeppnislögum til að þröngva markmiðunum fram.

    Markmiðin munu ekki nást fyrir frjálst val neytenda á markaði heldur þarf að beita vöruaðgreiningu, mismunun í skattlagningu og gamakunnum vopnum stjórnmálamanna þegar þarf að hygla ákveðnum aðilum, deiliskipulaginu.

    Þjóðfélagsgreiningin er nú líka þunn svo ekki sé meira sagt. Uppbygging stórmarkaða bætti svo mjög kaupmátt fólks að fjölskyldubílli varð almenningseign. Ofan af þessari þróun telur pistahöfundur nauðsynlegt að vinda? Til hvaða árs villtu snúa? 1974?…eða er 1976 nóg?

    Og svo voru áhrif fjölskyldubílsins miklu áhrifameiri en svo að loksins var hægt að kaupa brennivínspelann í þokkalegum þægindum.

    Það fylgdi nefnilega líka að nú var hægt að velja sér búsetu þar sem t.d. lóða- og íbúðaverð var hagstætt. Upp byggðust nágrannasveitarfélög Reykjavíkur sem á síðustu árum hafa orðið val meirihluta nýrra fjölskyldna á höfuðborgarsvæðinu.

    En meira kom til. Nú var einnig hægt að finna sér þann vinnustað sem bauð best launin án þess að vera háður almenningssamgöngum eða að búa í göngufæri. Með fylgdi aukin samkeppni um vinnuafl og vaxandi kaupmáttur sem allavega til skamms tíma var á par við það besta sem gerðist…

    Og eigum við að fara útí atvinnuþátttöku kvenna? Áhrif bættra samgangna á vöruverð?

    Að nota aðalskipulagið til þess að þjónka hatri klíkunar, sem fer með stjórn í Rvk í augnablikinu, á fjölskyldubilnum er stærsti galli þess.

    • Hilmar Þór

      Magnús.
      Allt þetta sem þú segir er tilefni til þess að skoða vel.

      En þú misskilur meginatriði einkabílaumræðunnar.

      Það sem verið er að segja að við þurfum að skapa borg þar sem yfirráð yfir einkabíl er ekki forsenda búsetu þar. Þ.e.a.s. að hægt sé að búa í borginni án þess að þurfa að eifga einkabíl. Það er ekki verið að leggja stein í götu þeirra sem vilja eiga einn eða fleiri einkabíla og nota þá. Heldur er ekki verið að fyrirbyggja að einhverjir fái draum sinn um að búa á jaðarsvæðum fái hann uppfylltan.

      Það er verið að segja að við þurfum að hafa val. Skipulaggja þannig að einkabíllinn sé ekki eini valkosturinn til samgangna í þéttbýli.

      Ég þekki margar borgir og marga íbúa í litlum og meðalstórum borgum sem eiga einkabíla en nota þá nánast ekki nema um helgar. Þeir hafa val og þeir velja að ganga flestra sinna daglegu erinda eða taka almenningflutninga.

      Við þurfum að skipuleggja þéttbýlin hér á landi þannig að fólk hafi val milli samgangna með einkabíl eða einhvern annars kosts.

      Það er málefni líðandi stundar í samgöngumálum borga. Ekki að útiloka einkabílinn.

      Svo má bæta því við að sennilega hverfur ávinningurinn af því að versla hagkvæmt í stórmörkuðunum þegar hluti af næststærsta útgjaldalið heimilanna, einkabíllinn, er settur ofan í matarkörfuna.

    • Þeir sem vilja eiga og reka einkabíl mega gera það fyrir mér. (kostar minnnst kr. 100 þús á mánuði)

      En ég vil gjarna geta búið hér án þess að þurfa að eiga einkabíl en það er ekki hægt.

      Af hverju má ég það ekki úr því að það er hægt eins og sannað hefur verið víða í borgum af svipaðri stærð og Reykjavík.

      Ég styð þau sjónarmið sem lagt er upp með í aðalskipulaginu.

  • Stefán Benediktsson

    Borgarstjórn ræður hvar er selt vín. Vínsala í stórverslunum á Granda, í Skeifu, Kringlu og Sundum myndi endanlega ganga af hornkaupmanninum dauðum og vinna þvert gegn umferðarmarkmiðum skipulagsins, því á þessa staði fer varla nokkur gangandi.

  • Sigrún Magnúsdóttir

    Now you are talking.

    Það er mikilvægt að endurvekja kaupmanninn á horninu með ölllum tiltækum ráðum. Stórmarkaðir á iðnaðarsvæðum eru drulluleiðinlegir og hafa lagt dauða hönd á íbúðahverfin.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn