Föstudagur 31.08.2012 - 08:41 - 12 ummæli

LHS – Kynningarferlið o.fl.

 

Í orði hefur kynningaferli vegna uppbyggingar Landspítala Háskólasjúkrahúss verið ágætt.

Fyrst var samkeppnin kynnt og þegar niðurstaða lá fyrir voru úrlausnir til sýnis á Háskólatorgi.

Í framhaldi var sérstakur kynningarfundur haldinn um vinningstillöguna.

Þá voru haldnir nokkrir opnir fundir þar sem áformin voru kynnt og rædd.

Verkefnastjórnin kallaði til sín aðila á einkafundi þar sem fólki gafst tækifæri til þess að tjá sig milliliðalaust og spyrja upplýstra spurninga.

Brugðið var út af venju þannig að auglýst var eftir formlegum athugasemdum við drögum að deiliskipulaginu. Þetta var fyrir 11 mánuðum.

Nú hefur deiliskipulagstillagan verið auglýst formlega samkvæmt lögum og geta þeir sem telja sig eitthvað hafa að segja um áformin sagt sína skoðun áður en lengra er haldið.

Þetta er allt gott og blessað, jafnvel vandað.  Sérstaklega í ljósi þess að upphaflegar hugmyndir eru afrakstur samkeppni þar sem 7  hönnunarteymum gafst kostur á að segja sitt álit.

En hver er svo ávinningurinn af öllu þessu kynningarferli.

Hann er enginn.

Gagnríni og leiðbeiningar frá fjölda aðila hafa engin áhrif haft. Hvergi á ferlinu er að sjá að hönnunarteymið eða aðrir hafi gert tilraun til þess að mæta óskum þeirra sem hafa tjáð sig um málið. Samræður eiga sér varla stað. Svar við einföldum spurningum eins og af hverju nýbyggingarmagnið á lóðinni hefur aukist úr ætluðum 50-70 þúsund fermetrum í 220 þúsund hefur ekki borist. Menningarstefnan er hundsuð o.m.fl. 

Hönnunarteymið og verkkaupi hafa spyrt sig saman og unnið marvisst áfram án þess að taka tillit til efasemdaradda. Þvert á móti hefur byggingamagnið blásið út og áhyggjur fólks af umferðamálum og staðaranda látin lönd og leið.

Verkefnið hefur öðlast sjálfstætt líf og enginn virðist hafa kjark eða dug í sér til að gera neitt.

Þetta er síðasta færsla mín í bili um þetta stóra mál.  Mörgum finnst sjálfsagt að ég hafi farið mikinn. Það kann að vera rétt enda ekki ástæðulaust. Þetta er stærsta skipulagsmál sem komið hefur upp í Reykjavík síðan Guðjón Samúelsson gerði fyrsta skipulag af borginni sem unnið var á árunum 1924-27 þar sem Hringbrautin var mörkuð.

Það vill svo til að þetta tæplega 90 ára gamla skipulag hefur haldið að mestu, þar til nú þegar umrætt skipulag er lagt fram. Bara það er ástæða til að staldra við.

Ég hvet þá sem einhverja trú hafa á lýðræði, samtalspólitík eða trúa því að athugasemdatækifærið skipti einhverju máli skrifi til skipulagsráðs fyrir 4. sept n.k. og segi sína skoðun.

Að lokum endurtek ég það sem margoft hefur komið fram.

Síðan er opin öllum þeim sem vilja tjá sig um skipulag og arkitektúr. Ef einhver þykir ég hafa farið með rangt mál eða þeir vilja koma andstæðum sjónarmiðum sínum á framfæri er sviðið þeirra.

Sérstaklega mundi ég fagna öllum þeim sem vilja verja deiliskipulag það sem er nú á lokastigi og varðar LSH.

Gjörið svo vel.

Að neðan er ljósmynd eftir Árna Sæberg sem birtist í Morgunblaðinu í gær. Hún var tekin í fyrradagsmorgun kl. 8.00 þegar fólk var á leið í vesturhluta borgarinnar að sækja vinnu sína. Þessi ljósmynd hlýtur að hafa vakið upp einhverjar efasemdir þeirra sem einbeita sér að því að stækka ennfrekar stærsta vinnustað á landinu við Hringbraut. Maður veltir fyrir sér hvort ekki væri viturlegra að flytja sjúkrahúsið austar í borgina þó ekki væri nema til þess að minnka umferðaálagið og auka afkastagetu gatnakerfisins.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Doktor Samúel Jónsson

    Mas. Gísli Marteinn hefur nú fengið massa á öngulinn og spýtir upp í ginið á honum og segir massann algjörlega galinn. Hann er fisknari en Páll:

    http://eyjan.pressan.is/frettir/2012/08/31/segir-blekkingum-beitt-i-umraedu-um-nytt-sjukrahus-algjorlega-galid/

  • Kemur þá ekki Páll og hrósar sjálfum sér, fyrst enginn annar gerir það.

  • Nýtt skipulag Landspítala við Hringbraut er róttækasta tilraun til að skipuleggja „borg“ innan marka Reykjavíkur síðan á tíma Guðjóns Samúelsonar. Eigum við ekki að fagna því? Menn tala um hátt nýtingarhlutfall en hér er um að ræða sama nýtingarhlutfall og þekkist víða í gömlu Reykjavík. Hér er líka um að ræða sama nýtingarhlutfall og var niðurstaða í samkeppni um byggð í Vatnsmýrinni. Verið er að byggja hús við götur en ekki einn stóran hlunk á bílastæði eins og svo oft áður. Krúttlegur landspítali utan byggðar eins og þú (og fleiri) hefur stundum talað fyrir Hilmar, er abbsúrd hugmynd, hvort sem hugsað er úr frá sjálfbærni eða borgarskipulagi … að ekki sé talað um hagkvæmni … sem forresten virðist skammaryrði þegar kemur að skipulagsmálum í bænum okkar.
    Þú hefur staðið þig vel í þessari baráttu og verið plattform fyrir „grasrótarhreyfingu“ (sem þú kallar svo) gegn áformum Landspítala í þessu máli. Þú hefur líka manað okkur höfunda til „samræðna“ en mér amk. hefur ekki hugnast að munnhöggvast við hreyfinguna. Hafðu samt þökk fyrir elju þína, því þrátt fyrir allt er gaman að lesa það sem þú hefur fram að færa, þó mér þykir orðræða hreyfingarinnar ekki uppá marga fiska … og reyndar sami fiskurinn og borinn var á borð fyrir misserum síðan.

    • Hilmar Þór

      Takk fyrir viðbrögðin Páll. Í hvert sinn sem þið félagar stigið fram til þess að verja verk ykkar bætist staða verkefnisins örlítið. Þið eigið að vera duglegri að taka þátt í allri umræðu. Var það ekki Jan Gehl sem sagði að sá arkitekt sem ekki er „samfundskritiker“ væri enginn arkitekt. Samkvæmt því eru ekki margir arkitektar hér á landi…en velkomnir í hópinn.

      Eitt sem ekki má gera í umræðu og það er að tala niður til viðmælanda og muna að enga hugmynd er hægt að afgreiða með því einu að segja að hún sé „absúrd“. Maður þarf að bera virðingu fyrir fólki og þeirra verkum. Allir eru að gera sitt besta (vonandi)

    • Pétur Örn Björnsson

      Ég tek undir orð Hilmars Þórs um að í athugasemd þinni Páll talar þú niður til okkar, kollega þinna. Það þykir mér miður, því það ber vott um oflátungshátt að tala ískalt og kalkúlerað niður til fólks, að því er virðist einungis vegna hagsmunavörslu teiknistofu þinnar.

      Vafalaust telur þú þig meiri mann fyrir vikið, en ég er ekki viss um að öðrum kollegum þínum finnist sem þér, nema þeim sem hafa sömu prívat hagsmuni að verja sem þín stofa nú.

      En kannski megi virða þér það til vorkunnar, að fleiri mönnum en þér hættir stundum til að gleyma sínum betri manni þegar þeir kjósa sér í stundaræði sínu að verja verktakaskipulag auðnarinnar, fh. stórbankanna og gjörspilltra stjórna lífeyrissjóðanna. Það kallast að taka strútinn á þetta og endaði síðast með hruni fyrir rétt tæpum 4 árum.

  • Hilmar Þór

    Jú, það er rétt hjá þér Jón Kaldal. Ég á við skipulag innan Hrinbrautar og Snorrabrautar.

    Þakka falleg orð í garð vefsíðunnar.

  • Jón Kaldal

    Sæll Hilmar,
    ein örlítil athugasemd um leið og þakkað er fyrir kraftmikinn vettvang fyrir umræðu um skipulag, hönnun og arkitektúr. Í færslu dagsins nefnir þú að skipulagið frá 1927 hafi að mestu haldið í 90 ár. Þarna áttu væntanlega aðeins við innan Hringbrautar? Skipulag byggðar í Þingholtunum á til dæmis fátt sameiginlegt með skipulagi Hlíðanna þó aðeins séu nokkur hundruð metrar þar á milli. Skipulagið frá 1927 miðaði að því að Reykjavík yrði bær í evrópskum stíl. Götumyndin sem var lögð til grundvallar gekk út á randbyggð nokkurra hæða hús. Samkvæmt ráðgjöf dönsku skipulagsfræðinganna átti byggðin að rúmast innan Hringbrautar, Ánanausta, Skúlagötu og Snorrabrautar og íbúar að búa í göngufæri við miðbæinn. Þetta skipulag sprakk þegar leið á fjórða áratuginn og byggðin fór að teygja sig með úthverfabrag stefnulítið í allar áttir, illu heilli fyrir framtíðarsvip borgarinnar og ekki síður íbúa hennar. Skipulag LSH svæðisins er hins vegar í þessum evrópska anda randbyggðra fimm til sex hæða húsa. Það er löngu tímabært að hverfa frá skipulagi sem má kenna við kassa á miðju bílastæði, eins og sjá má (og syrgja dag hvern) við Borgartúnið.
    kv
    Jón Kaldal

    • Hilmar Þór

      É var að átta mig á nýjum möguleika í athugasemdarkerfinu og endurtek því svar mitt við athugasemd Jóns Kaldal

      „Jú, það er rétt hjá þér Jón Kaldal. Ég á við skipulag innan Hrinbrautar og Snorrabrautar.

      Þakka falleg orð í garð vefsíðunnar“

  • Pétur Örn Björnsson

    Því miður, það er ekki spurningarmerki á eftir setningunni. Hún er svona:

    En sumir sjá hag sinn sem mestan í því að skuldsetja nú börn og barnabörn hinna dauðu til að stórverktakar bankanna geti steypt allri þjóðinni í taumlausar skuldir.

  • Pétur Örn Björnsson

    Tek heils hugar undir pistil þinn Hilmar Þór og sér í lagi þessi orð:

    „Hönnunarteymið og verkkaupi hafa spyrt sig saman og unnið marvisst áfram án þess að taka tillit til efasemdaradda. Þvert á móti hefur byggingamagnið blásið út og áhyggjur fólks af umferðamálum og staðaranda látin lönd og leið.

    Verkefnið hefur öðlast sjálfstætt líf og enginn virðist hafa kjark eða dug í sér til að gera neitt.“

    Á sama tíma hefur þjónustan við sjúklinga verið skorin niður, svo allir viðurkenna að fyrir löngu er komið að þolmörkum. Ekki fæst fé til endurnýjunar tækja. Sjúklingar deyja fyrr en ella hefði orðið.

    En sumir virðast sjá hag sinn sem mestan í því að skuldsetja nú börn og barnabörn hinna dauðu til að stórverktakar bankanna geti steypt allri þjóðinni í taumlausar skuldir?

  • Umfjöllunin hér á þessum vef og ljósmyndin neðst í færslunni hlýtur að vera áfall fyrir deiliskipulagshöfunda

  • Frá mínum bæjardyrum séð var það ekki fyrr en deiliskipulagstillögurnar af svæðinu voru kynntar í fyrrasumar sem næganlega góðar upplýsingar lágu fyrir til að hægt væri að átta sig á umfangi áætlananna. Fram að því voru kynntar hugmyndir sem voru í mótun og breyttust í bæði stóru og smáu milli kynninga. Stærðirnar eu meðal þess sem breyttust gífurlega mikið en það gerðu líka hugmyndir manna um grunngerð mannvirkjanna og hvar ætti að byggja þau á lóðinni.

    Sem dæmi má benda á að lengst af voru menn almennt með í huga að byggja eftir hryggjarstykkisfyrirkomulagi. Það byggist á að raða sérhæfðum deildum sitt hvoru megin við hryggjarstykki þar sem almenn starfsemi og þjónusta við almenning er staðsett (einfölduð mynd). Þetta fyrirkomulag er mikið notað og þykir vera hentugt þegar byggt er í áföngum og til að geta bætt við spítala eftir þörfum síðar.

    Allan hönnunartímann hafa bæði lærðir og leiknir gagnrýnt bæði staðsetningu og stærð spítalans. Meðal annars var haustið 2009 haldin ráðstefna þar sem fram voru borin ítarleg rök gegn framkvæmdunum. Jafnframt hafa mætir einstaklingar gagnrýnt stöðu nýja spítalans í heilbrigðiskerfinu og innra fyrirkomulag.

    Það er því engin furða þó pistlar þínir séu orðnir all nokkrir. Pistlarnir hafa verið og skrifaðir af hógværð og ávallt af þekkingu. Sama má segja um athugasemdirnar. Þær hafa að langmestu leyti verið málefnalegar. Ef til vill sýnir það best þörfina fyrir skrif af þessu tagi að nú síðast voru skrifuð 31 innlegg um spítalann vegna pistils sem í raun ekki um spítalann.

    Um leið og ég þakka þér fyrir framlag þitt til umræðunnar þá vona ég að bloggið þitt verði áfram vettvangur þar sem fjallað verður um þessa stærstu byggingarframkvæmd Íslandssögunnar. Sumir munu kannske segja að Kárahnjúkavirkjun sé stærri, en það eitt að hægt sé að bera þessa framkvæmd í miðri höfuðborginni saman við Kárahnjúka segir sitt.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn