Mánudagur 10.05.2010 - 18:34 - 9 ummæli

LOS ANGELES

Lett getty

Vita menn að Los Angeles er í raun ekki borg,  heldur hérað sem samanstendur af tæplega 90 sveitarfélögum með 13 milljónum íbúa?

Í LA er glæpatíðni hærri en víðast,  lítið um opin græn svæði og einkabíllinn er allsráðandi í samgöngumálum,  þó til sé ófullkomið og mjög ódýrt almenningssamgöngukerfi. Fargjaldið kostar sáralítið og fólk yfir sextugt greiðir fjórðung af fullu gjaldi fyrir ferðina.

Borgin er afar illa skipulögð og þegar horft er á þau tækifæri sem lesa má úr landslaginu verður maður hryggur. Borgin er margskorin í sundur af gríðarlegum hraðbrautum og margskipta borgarmiðju.

Fátt er um fína drætti í byggingalistinni þegar á heildina er litið.  Þarna virðast mér vera mun færri fermetrar af góðum byggingum á hverja þúsund íbúa en í Reykjavík, svo dæmi sé tekið.  Þetta er að mestu einkennalaus arkitektúr þar sem öllu ægir saman.

Það verður þó að halda því til haga að þarna er líka að finna sumar af albestu byggingum veraldar. Bæði nýjar og gamlar.  Sumar hverjar í gæðaflokki sem sjást ekki á mörgum stöðum.  Ég nefni “Disney Concert Hall” eftir Frank O. Gehry og “Paul Getty Center” eftir Richard Meier sem er eins og himnaríki á jörðu,  með útsýni yfir alla borgina.

Þarna er að finna ný hús sem byggð eru í anda þeirra húsa sem byggð voru í Evrópu fyrir meira en 100 árum.  Þetta er kostulegt í því ljósi að ekki er um “inn fill” að ræða eða samræmingu við eldri byggð sem gæti réttlætt þessa nálgun fullkomlega.

Ég var þarna í síðustu viku og þessi fleyga setning kom mér í huga:  “It is a nice place to visit, but I would not like to live there”

Getty 2lett

Getty Center er hannað útfrá kennisetningunni um að arkitektúr tilheyri ákveðnum stað og noti þau tækifæri sem þar eru um leið og hann er í sterkum tengslum við umhverfið.  Richard Meier notar mátkerfi  úr gatnakerfi LA svæðisins annars vegar og stefnu hraðbrautar við hlið bygginganna hins vegar til þess að ákveða stefnu húsanna. Til viðbótar opnar hann og lokar á víxl útsýni yfir borgina og til fjalla og hafs.

Gehry lett

gehry2lett

Þetta er „Disney Concert Hall“ eftirFrank O. Gehry  Það verður ekki fram hjá þessu húsi litið og það verður að viðurkennast að það er tilkomumikið og vel gert. Því hefur verið haldið fram að í sumum húsum Gehry fylgi formið ekki funktioninni heldur fylgi funktionin forminu.  Það vill samt þannig til að þetta hús fullnægir öllum þeim starfrænu kröfum sem til þess eru gerðar.

Gamalt Beverly

Hér má sjá nýleg hús í Bevely Hills sem byggð eru í anda löngu liðins tíma.  Jafnvel ljósastaurarnir eru í stíl gaslukta liðinna alda og granitsteinarnir í götunni eru lagðir eftir gamalli hefð.  Þarna eru dýrustu verslanir LA svæðisins.

UCLAlett

UCLA campusinn er eins og vin í eyðimörk.  Húsunum er komið fyrir á svæði þar sen engir bílar eru og þetta er eitt af örfáum grænum svæðum sem þarna er að finna.

Perloff Hall lett

Í Perloff Hall er arkitektaskóli UCLA.  Þetta er lítill skóli með skólagjöldum sem eru milli 14 og 25 þúsund dollarar. (1,8-3,2 milljónir króna). Fastir fyrirlesarar og prófdómarar þarna eru menn á borð við Tadao Ando, Peter Eisenman,  Frank O. Gehry,  Zaha Hadid,  Steven Holl,  Bjarke Ingels, Rem Koolhaas, Richard Meier, Glenn Murcott,  Jean Nouvel, Bernhard Tschumi og marga fleiri.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

  • Árni Davíðsson

    Í umhverfisvísum Reykjavíkurborgar kom reyndar fram einhverntímann að Reykjavík var með lengri fjarlægðir í útivistarsvæði heldur en flestar samanburðarborgirnar á Norðurlöndum, sem mig minnir að hafi verið höfuðborgir norðurlanda. Við höfum byggt dreift um mikil flæmi og lagt allt náttúrulegt í rúst á þeirri leið nema Elliðaárdalinn og Laugardalinn og Fossvogsdalinn. Helgunarsvæði stofnbrauta þó þeir séu stærstu skrúðgarðar borgarinnar eru ekki útivistarsvæði og strandlengjan norðan megin er að mestu eyðilögð með uppfyllingum. Reykjavík er borg hinna miklu grasflæma í kringum stofnbrautir og óendanlegs útsýnis út í fjarskann.

    Mér skilst að í UCLA í bílaborginni miklu þurfa bæði nemendur og kennarar að borga fyrir bílastæðin. Er það svo?

  • Ólafur Gísli Reynisson

    Af 54 borgum um allan heim er Los Angeles áttunda dreifðasta borgin með einungis 22 íbúa á hvern hektara. Af níu völdum borgum skera Los Angeles og Atlanta sig úr með nánast sama fjölda fólks á hektara, hvort heldur í miðborginni eða í 29 km fjarlægð frá henni (Alain Bertaud, Order Without Design, 2005). Þetta hlýtur að segja sitt um heildarmynd Los Angeles.

  • Það eru margir sem sjá ekki borgirnar fyrir húsum.

    Það er allt og lítið um að menn skoði og skýri út heildarmyndina eins og vakin er athygli á hér.

    Greining á skipulagmynstrum borga er áhugaverð en maður sér hana nánast aldrei.

    Til dæmis, hver er munirinn á skipulagsmunstri Kaupmannahafnar og London eða Parísar?

  • Þorsteinn

    Spurningin er hvort vandamál höfuðborgarsvæðisins hér á Íslandi sé ekki það sama og í LA?

    Það er að segja að sveitarfélögin vinni að sínum skipulagsmálum án þess að horft sé á stóru myndina eins og Hilmar bendir á í þessum ágæta pistli.

    Það er löngu ljóst að einmitt þessi skipting sveitarfélaganna 6 hér á suðvesturhorninu er að valda okkur tjóni. Nægir þar að nefna slagsmálin um staðsetningu Háskólans í Reykjavík, samgöngumálin og þjónustu margskonar.

    Ef Los Angeles eða höfuðborgarsvæðið hér á suðvesturhorninu hefði frá öndverðu verið undir einni skipalagslegri stjórn væri þetta sennilega mun betri borgir hvað varðar allar höfuðlínur.

    Vegna ummæla McCarthy hér að ofan þá tek ég undir að það eru margir skemmtilegir og sjarmerandi staðir í borginni sem vert er að skoða en það er ekki efni færslunnar þó tekin séu þrjú dæmi um hluti sem vel eru gerðir.

    Pistlahöfundur er bara ekki að fjalla um þá heldur stóru myndina og þar hefur hann lög að mæla. Los Angeles er illa skipulögð hvað varðar umferðamál, græn svæði, kjarnamyndun og margt fleira þó svo að nokkrar perlur sé að finna í kraðakinu.

  • Santa Monica fjöllin eru í miðri borginni. Þú keyrir í raun eftir anga þeirra þegar þú ferð Mulholland Drive og sérð þá hvernig landið liggur. Þeim er ekki hægt að líkja við Heiðmörkina. Þeir sem greindu „græn svæði“ fyrir borgirnar sem þú hefndir hafa greinilega ekki talið fjöllin og strendurnar með.

    Annað sem þú hefur greinilega algerlega misst af eru öll ethnísku hverfin, sem finna má um alla borg og eru af afar ólíkum toga. Japanski hluti Sawtelle, Thai-hluti Hollýwood og svo tveir kínverskir bæjarhlutar, auk Koreatown. Ef þetta er ekki heillandi og spennandi, þá veit ég ekki hvað.
    Macinn

  • Skemmtilegur pistill eins og venjulega Hilmar.

    Ég hef bara einu sinni komið til Los Angeles og fékk svipaða tilfinningu og þú lýsir í pistlinum. (Það breytist sjálfsagt þegar maður býr í borginni og fer að læra inn á alla króka og kima).

    Hinsvegar fékk ég alveg nýja sýn á borgina með því að lesa skrif Reyners Banham um borgina. (T.d. The Architecture of Four Ecologies) Hann er breskur háskólaprófessor sem var ekki einu sinni með bílpróf þegar hann kom til L.A. fyrst, en heillaðist af borginni, ekki síst umferðinni og skemmtuninni af því að aka um göturnar. Hann lagði alla fordóma og gamlar kennisetningar til hliðar, og reyndi að njóta borgarinnar eins og hún er. Úr verður stórskemmtileg greining á borginni, sem gaf mér nýtt sjónarhorn, sem ég hlakka til að bera saman við mína eigin upplifun þegar ég kom næst þangað vestureftir.

  • Hilmar Þór

    Sæll Macci.

    Þakka þér athugasemdina sem ég má til með að svara.

    Það er auðvitað alltaf þannig að menn sjá hlutina á mismunandi hátt. Sem betur fer. En það er ekki endilega merki um að menn séu með fordóma eða tali af vanþekkingu.

    Þegar ég segi að það sé lítið af “grænum útivistarvæðum” í LA, þá tel ég fjöllin umhverfis borgina ekki með frekar en ég telji Heiðmörk, Esjuna eða jafnvel Þingvelli úutivistarsvæði borgarskipulags Reykjavíkur þó Reykvíkingar noti þessi svæði til útivistar. Ég skilgreini þau ekki sem útivistarsæði í borgarskipulaginu þó þau séu útivistarsvæði Reykvíkinga og í raun landsmanna allra.

    Innan borgarskipulags Reykjavíkur er hvergi meira en 5 mínútna gangur frá heimili á opið útivistarsvæð. Hvað þetta varðar er Reykjavík vel skipulögð.

    Af tilefni athugasemdar þinnar “googlaði” ég nokkrar borgir sem ég tel mig þekkja og hef heimsótt (Kaupnannahöfn, London, Paris, Róm, Bejing, Shanghai, Sydney, New York, Chicago, San Fransisco og Los Angeles) og sá það sem ég vissi að Los Angeles skar sig úr hvað aðgengi að grænum útivistarsvæðum innan borgarmarkanna varðar. Í LA er það verst.og Reykjavík sennilega best.

    Ég er sammála því að borgin hafi sjarma en það breytir því ekki að aðgengi að grænum svæðum er með þvi minnsta sem gerist og að samgöngur fara að mestu fram með einkabílum og að borgin er í raun samansafn af tæplega 90 sveitarfélögum sem er sennilega aðalástæða skipulagsins.

    Þarna er hvorki um vanþekkingu né fordóma að ræða af minni hálfu.

  • Verslunarmenn sem selja tískuvörur og neysluvörur hafa tilfinningu fyrir vilja og draumum viðskiftavina sinna. Það er staðreynd. Þeir vita líka um óskaumhverfi viðskiftavina sinna..
    Versluarmenn hafa nef fyrir óskum fólks.

    Er það af þeim ástæðum sem verslunarmenn við Rodeo Drive í Beverly Hills velja 100 ára gamla byggingalist frá annarri heimsálfu fyrir verslanir sínar?

    Þetta eru góð dæmi sum góðan arkitektur em hér eru sýnd þó svo að þau séu fullkomlega úr sinni hvori áttinni.

  • Þessir pistlar þínir eru farnir að einkennast af gríðarlegri vanþekkingu. Þetta yfirlit yfir LA lýsir allavega gríðarlegum skorti á þekkingu. Skortur á grænum svæðum? Borgin er troðfull af þeim! Stærsta svæðið eru náttúrulega Santa Monica fjöllin sem eru gríðarlega vinsælt útivistarsvæði. Sástu ekki strendurnar meðfram allri borginni? Þær eru endalaust útivistarsvæði sem er notað frá morgni til kvölds. Og sástu ekki heldur allann fjöldann af görðum og íþróttasvæðum sem borgin hefur upp á að bjóða?

    Vissulega er LA ekki fullkomin borg. En hún hefur gríðarlegan sjarma fyrir þá sem nenna að kynna sér hana. Það er hins vegar auðvelt að fordæma hluti sem maður þekkir ekki. Þú ættir að hafa það í huga næst þegar þú skrifar pistil og reyna að vera aðeins opnari fyrir hlutum/borgum sem þú þekkir ekki.
    Macinn

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn