Föstudagur 09.09.2011 - 11:59 - 10 ummæli

LSH – Stórkallalegt skipulag

Guðlaugur Gauti Jónsson arkitekt hefur kynnt sér deiliskipulag Landspítalans vel. Hann sendi eftirfarandi pistil í athugasemdarkerfi vefsíðunnar; ”Landspítalinn-Öskubuskueinkenni”

Athugasemdin á erindi í umræðuna og er birt hér með hans leyfi ásamt ljósmyndum sem eru frá honum fengnar.

„Mér finnst skipulagstillagan í öllum meginatriðum sýna fram á að þetta byggingarmagn kemst ekki fyrir á þessum stað. Ég veit ekki hvort menn gera sér grein fyrir að samkvæmt tillögunni verða byggingarnar sem fyrir eru almennt þær minnstu á lóðinni.

Nýbyggingarnar verða að mestu 5-6 hæða frá götu en húsið hans Guðjóns er t.d. 3½ hæð og byggingarnar fyrir aftan það jafnháar en rúma einni hæð meira vegna annars byggingarmáta. Læknagarður, sem er ekki lítið hús, verður einni hæð lægra en húsin í kring.

Samkvæmt tillögunni verður meðferðarkjarninn 4-6 hæðir frá Neðrigötu, 6 hæðir frá Sóleyjartorgi og 5 hæðir frá Efrigötu. Á Efri- og Neðrigötu verður skuggi langmestan hluta ársins vegna húsahæðanna og húsalengdanna, en meðferðakjarninn verður um 1½ fótboltavöllur (150-160 m) að lengd. Dæmi um hús af þessari stærð er Borgartún 8-16 þar sem skrifstofur borgarstofnanna eru til húsa. Það hús er 6 hæðir með inndreginni 7. hæð og um 110 m á lengd, 40-50 m styttra en meðferðarkjarninn.

Til dæmis um þau vandræði sem skapast vegna þessarar staðsetningar á LSH má kannske benda á að beint fyrir utan gluggana á legudeildunum og ofan á rannsóknahúsinu, sem væntanlega er fullt af hárnákvæmum tækjabúnaði, verður þyrlupallur. Það verður sýning í lagi þegar þyrlan skellir sér þar niður að næturlagi.

Ég hlustaði á mál þeirra félaga Hjálmars Sveinssonar og Gísla Marteins Baldurssonar sem báðir koma til með að hafa um framtíð þessa máls að segja. Í máli þeirra fannst mér koma fram veigamikil rök fyrir því að þessi staðsetning passi ekki fyrir þetta byggingarmagn og þessa starfsemi:

1. Þungamiðja búsetu liggur talsvert austar í borginni en þungamiðja atvinnutækifæra.
2. Of háar og of langar byggingar.
3. Byggingar falla illa að núverandi byggðamynstri.

Í skipulagi er oftast hægt að koma fyrir því byggingarmagni sem menn vilja á tilteknu landsvæði ef byggingarmagnið er eina eða langveigamesta forsendan sem skipuleggendur gefa sér. Ef menn vilja hinsvegar halda heiðri við gamalgróin vinnubrögð við að skapa fólki og fyrirtækjum gott og heilsusamlegt umhverfi þá þarf að taka tillit til margra annarra þátta en byggingarmagns. Það hefur að mínu mati ekki verið gert nægjanlega mikið í þessari tillögu.

Sumir tala um að þéttleiki byggðarinnar á lóðinni sé ekki meiri en víða gerist í borgum erlendis. Það kann að vera rétt en aðstæður erlendis eru ekki þær sömu og hérlendis. Hnattstaða er ráðandi um sól og skugga og oftast um veðurfar líka en hvorutveggja hefur afgerandi áhrif í skipulagi.

Það er vert að geta þess að tölvumyndirnar sem fylgja kynningunni sýna ekki ýtrustu mörk deiliskipulagstillögunnar. Sumt er líka villandi. Ég nefni t.d. að stærð Gamla hússins virðist óeðlilega mikil þegar horft er frá Sóleyjartorgi. Aðkoma fyrir bráðamóttöku er frá neðri hluta Sóleyjartorgs og samkvæmt tillögunni fer allur neðri hlutinn undir bílastæði og þarna má líklega reikna með talsverðri umferð.

Líkingin við Öskubusku sem Hilmar notar er glettilega góð og það má halda dálítið áfram með hana. Stjúpsysturnar limlestu sig til að komast í skóinn góða þannig að önnur sneið af sér stóru tánna en hin hælinn. Það voru svo dúfur sem bentu prinsinum og hans mönnum á að það væri blóð í skónum. Hvar eru dúfurnar núna?“

Í næstu færslu mun Magnús Karl Magnússon prófessor við HÍ  fjalla um mikilvægi samþættingar á starfssemi Háskólasjúkrahússins og Háskóla Íslands ásamt því að svara áleitnum spurningum.

Myndin efst er af Læknagarði við Hringbraut sem er einni hæð lægri en fyrirhugaðar byggingar sem tengjast garðinum. Hinar myndirnar tvær eru af húsinu við Borgartún sem fjallað er um í greininni. Ljósmyndirnar og fyrirsögnin koma frá Guðlaugi Gauta arkitekt.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Þetta er fín grein hjá Páli Torfa sem á ákveðinn samhljóm með athugasemd sem kom frá Þorgeiri Jónssyni við færsluna um Öskubuskueinkennin. Það væri gaman að geta sett tengil við grein Páls eða fengið að birta hana í heild sinni hér á þessum vef.

    Hér er komment Þorgeirs:

    „Þorgeir Jónsson

    Takk fyrir umfjöllunina Hilmar

    það gleymist alveg hvers vegna við neyðumst nú 2011 að byggja nýtt hátæknisjúkrahús. Það er vegna ófaglegrar íhlutunar stjórnmálamanna gegnum tíðina á málefnum spítalans. Á meðan byggingarlistin var nánast einkamál Húsameistara ríkisins og yfirmaður hans var sjálfur forsætisráðherra voru verkefni á Landspítalalóð á hans yfirráðasvæði. Þar var verkefnum ráðstafað eftir tillögu Nefndar um framkvæmdir á Landspítalalóð. Það var unnið af metnaði hjá Húsameistara og fyrirhugað, að fyrir aldamót (2000) væri spítalinn tilbúinn. En raunin varð önnur…öll verkefni sem forsætisráðherra heimilaði hönnun á voru stöðvuð eftir að framkvæmdir hófust. Geðdeildin, Tanngarður, K-byggingin, eldhúsið, fæðingadeildin, já nánast allar nútíma byggingar á lóðinn eru ekki fullbyggðar!
    K-byggingin er og átti að vera hátæknihluti spítalans með 4 fullkomum skurðstofum, dauðhreinsun, geislalækningum og röntgendeild, en aðeins 1/3 er byggður. Stjórnmálamenn og þá aðallega ráðherrar málaflokksins voru fljótir að skrúfa fyrir fjárveitingar svo klára mætti hannaðar byggingar á lóðinni. Þess vegna og aðeins þess vegna er spítalinn byggingartæknilega ónothæfur og aðeins hægt að bíða eftir nýjum spítala. En ég ætla að vera spámaður hér og nú og spá því að fyrirhugaður spítali verði ekki fullbyggður vegna íhlutunar ráðherra í komandi ríkisstjórnum. Þeir halda áfram uppteknum hætti í framtíðinni og rústa metnaðarfullum áformum í nafni sparnaðar og ríkisfjármála. Munið mín orð.“

  • Jón Guðmundsson

    Ég mæli með grein Páls Torfa. Hún er bæði gagnrýnin og bendir á lausn. Er ekki hægt að setja linkinn hingað á þetta blogg?

  • Páll Torfi Önundarson

    Sæll vertu.

    Leyfi mér að benda ykkur á grein sem ég birti í Morgunblaðinu í dag um aðra leið á gömlu Landspítalalóðinni; þ.e. efri hluti lóðarinnar. Þar er nóg pláss ef gamli Hjúkrunarskólinn er rifinn. Þar er hægt að byggja samþjappaðri spítala með minni áhrif á ásýnd Reykjavíkur.

    Bkv.

    Páll Torfi Önundarson.

  • hrekkjalómur

    Kverúlantakór Reykjavíkur farinn af stað enn eina ferðina að gagnrýna sjúkrahússbygginguna, undir stjórn Egils Helgasonar.

    Hugsiði nú málið aðeins betur. Ef 5000 manna vinnustaður í miðbæ Reykjavíkur er fluttur eitthvað annað (segjum bara á Vífilsstaði – Fossvogur kemur ekki lengur til greina vegna bæði íbúðar- og umferðarmannvirkja), hvað verður þá um miðbæ Reykjavíkur? Hann verður úthverfi, rétt eins og Seltjarnarnesið og Breiðholtið. Hvað gerist þá á Vífilsstöðum? Jú, þar verður til stór vinnustaður með miklu flæmi bílastæða og enga tengingu vinnustaðarins við umhverfið. Er það betra en að hafa spítalann við Hringbraut?

    Þessar byggingar eru ekkert stórkarlalegar. Hér er um hefðbundna randbyggð að ræða, byggð sem menn þekkja úr erlendum stórborgum og gefa þeim heimilislegan brag. Við þyrftum að byggja mun meira í þessum stíl.

    Hrekkjalómur

  • Guðmundur Guðmundsson

    Inn í umræðuna um þessa skipulagspönnuköku má bæta eftirfarandi hugleiðingum :

    Fyrir nokkru síðan átti ég leið um Kópavogstúnið. Á því svæði var í eina tíð starfrækt heimili fyrir þroskahefta sem í daglegu tali kallað Kópavogshælið. Athygli mína vakti þá 3 eða 4 hæða fjölbýlishús með ca 20 til 25 íbúðum sem stóð autt og yfirgefið.
    Það stóð víst til að rífa húsið í hámarki þenslunnar, en eftir að verktakinn fór á hausinn dagaði húsið uppi.

    Húsið virðist upphaflega vel byggt og er fallega hlutfallað. Skv mínum heimildum var hús þetta upphaflega byggt fyrir uþb 50 árum sem starfsmannahús á svæðinu.

    Þetta er nokkuð athyglisvert. Þarna var og er enn stór spítalalóð, fyrsta byggingin var gamli holdsveikraspítalinn, Sögulegt og fallegt steinhús sem var í reiðileysi síðast er ég vissi.

    En mergur málsins er þessi : þarna var byggt hús fyrir starfsmenn sem gátu síðan gengið í vinnuna.
    Var þetta almennt áður fyrr ?

    Þessi hugmyndafræði er síðan þá löngu horfin. Í allri umræðunni um LSH lóðina, byggðaþéttingu og umferðarstíflur hef ég ekki séð eitt orð um að etv. væri æskilegt að hafa eitthvað af íbúðum á svæðinu ?
    Sjálfsagt þykir hins vegar að leggja heilu túnþekjurnar undir bílastæði eins og afskræmd dæmin sýna frá nærliggjandi Háskólasvæði.

    Á Íslandi eru grunnstörf í ummönnun svo láglaunuð að varla er hægt að lifa á þeim skv. könnun frá velferðarráðuneytinu.
    Erfitt er því að manna þessi störf sem bitnar á þjónustunni.
    Hversu margar þannig stöður fylgja Hátæknihúsinu ?

    Fólk í þessum störfum er síðan oft í húsnæðishrakningum síðan verkamannabústaðir voru lagðir niður, og leigumarkaðurinn í Reykjavík skv hefð eins og í Villta vestrinu.

    Kannski væri hægt að slá margar samfélagslegar flugur með því að byggja íbúðir á svæðinu þar sem fólk í grunnstörfum eigi kost á ódýru húsnæði í göngufæri við vinnustaðinn.
    Umferðin til og frá svæðinu minnkar að sama skapi og sumir gætu jafnvel lifað bíllausu lífi.

  • Það er rétt Hilmar, þögn margra kollega okkar og sosum fleiri er að verða ærandi.
    Eru allir orðnir svo niðurbarðir, vesælir og þústaðir, að þeir mega vart mæla?
    Enn og aftur þakka ég þér fyrir að halda úti þínu þarfa og góða bloggi.

  • Hilmar Þór

    Tek undir með Pétri kollega mínum um að setja þetta mál í samhengi.

    Það mættu fleiri kollega okkar taka til máls hér á þessum vef.

    Það er hægt að horfa á þetta mál frá mörgum kögunarhólum.
    Þetta mál varðar fleiri en margan grunar

  • Guðlaugur Gauti setur hér hlutina í samhengi. Það er vel.

  • Þorvaldur Ágústsson

    Það er gagnlegt að setja þessi miklu hús í samhengi við eitthvað sem við þekkjum. Það er vel til fundið. Það renna vissulega á mann tvær grímur við lesturinn. En nú er að bíða eftir næsta áliti sem kemur að sögn frá háskólamönnum. Það var ágæt yfirferð í fréttablaðinu í morgunn. Þar vakti athygli að skipulagsstjóri taldi þetta ekki heyra til síns friðar. Það er sennilega rétt. En spyrja má hvort hann gæti ekki haft eitthvað um þetta að segja…..bara svona sem fagmaður?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn