Miðvikudagur 29.08.2012 - 19:51 - 22 ummæli

LSH – Menningarstefnan

 

Á blaðsíðu 23 í “Menningarstefnu í mannvirkjagerð”,  sem er stefna íslenskra stjórnvalda í byggingarlist  stendur:

“Áhersla skal lögð á heildarmynd og mælikvarða þegar byggt er í og við eldri byggð. Til að tryggja heildrænt og sögulegt yfirbragð húsa, götumynda og byggðamynsturs er nauðsynlegt að stjórnvöld framfylgi skýrri stefnu þar um”

Ég geri ráð fyrir að  þetta ákvæði sé sett í stefnuna til þess að tryggt sé að þegar byggt er í eða við eldri byggð eigi yfirbragð húsa, götumyndir, byggðamynstur, heildarmynd og mælikvarði að halda sér.

Er það ekki réttur skilningur?

Fyrir tæpu ári gafst þeim sem höfðu áhuga á uppbyggingu Landspítala Háskólasjúkrahúss við Hringbraut kostur á að gera athugasemdir til skipulagsráðs um deiliskipulagsdrögin sem þá lágu fyrir.

Sextán einstaklingar og hópar notuðu tækifærið og settu fram velígrundaðar spurningar og athugasemdir sem þeim þóttu mikilvægar og óskuðu eftir skýringum á.

Ég var einn þeirra sem gerði athugasemd við deiliskipulagið og  vildi vekja athygli skipulagsráðs á ofangreindu ákvæði í menningarstefnunni.  Ég taldi og tel enn að skipulagið standist ekki Menningarstefnu hins oipinbera í mannvirkjagerð frá árinu 2007.

Það liðu rúmlega 8 mánuðir þar til svar barst frá skipulagsráði við fyrirspurnunum.  Þessi seinagangur  skapraunaði mér. Mér fannst réttur til þess að gera athugasemdir vera niðurlægður.

Þegar svar loks barst frá skipulagsráði segir það að “ekki sé hægt að gera kröfu um að byggingar á lóð spítalans séu í sama kvarða og fíngert byggðamynstur Þingholtsins”

En gengur menningarstefnan ekki eimitt út á að koma í veg fyrir að svona lagað gerist?

Bíðum  við. Hvað er skipulagsráð að segja?

Það segir að ekki sé hægt að aðlaða byggingarnar nálægri byggð.

Hvernig bregst maður við því?

Maður finnur auðvitað húsunum annan stað þar sem þær falla vel að umhverfi sem fullnægir flestum þeim óskum sem sjúkrahúsið gerir til staðsetningarinnar.

Maður getur líka hamast eins og rjúpa við staur og barið málið í gegn eða í þriðja lagi gefið nýlegri Menningarstefnunni langt nef eða jafnvel náðarhöggið og sagt að stefnan eigi ekki við í þessu tilfelli.

Það varð niðurstaða skipulagsráðs í þessu máli.

Það átti auðvitað að skoða samkeppnislýsinguna og húsrýmisáætlunina  á sínum tíma í ljósi metnaðarfullrar Menningarstefnunnar og setja það sem skilyrði að eftir henni væri farið við tillögugerðina.

Annað eru ófagleg vinnubrögð.

Er Menningarstefnan kannski endanlega dauð?  Reyndi aldrei á hana meðan hún lifði? Hér var tækifærið, þó ekki væri annað en til þess að verja stefnuna hver sem niðurstaðan yrði.

En hver átti að verja stefnuna?

Hún var samin af stjórnsýslunni og af hennar frumkvæði.  Arkitektafélag Íslands og Listaháskóli Íslands komu að samningu hennar.

Það er augljóst að í tilfelli LSH gat stjórnsýslan, sem er verkkaupi átt erfitt með að beita henni gegn sjálfri sér.

En það gat Arkitektafélagið og Listaháskólinn og áttu að gera, en gerðu ekki.

Efst í færslunni ljósmynd af viðbrögðun skipulagsráðs við fyrirspurnum sem varðaði Menningarstefnuna. Myndin að neðan sýnir nýbyggingarnarog tengsl þeirra við eldri byggð á Skólavörðuholti.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (22)

  • Hilmar Þór

    Frábært er að fá viðbrögð frá einstaklingum í hönnunarteyminu, þá Helga Bollason og Þorstein Helgason.

    Það er fengur af þeirra þáttöku í umræðunni og hún styrkir málstað þeirra.

    Eða öllu heldur er hann ekki eins veikur og áður..

    Arkitektar eiga að taka meiri þátt í allri umræðu um þeirra málaflokk á breiðum grundvelli. Þeir eiga að láta af allri mærðarfröðu í málflutningu sínum eins og oft hefur loðað við þeirra orðtak.

    Var það ekki Jan Gehl sem sagði að sá arkitekt sem ekki er þjóðfélagsgagnrýnandi (samfundkritiker) væri alls enginn arkitekt?

  • Pétur Örn Björnsson

    Tek svo að lokum undir orð Hilmars Þórs, í nýjasta pistli hans um þetta mál:

    „Hönnunarteymið og verkkaupi hafa spyrt sig saman og unnið marvisst áfram án þess að taka tillit til efasemdaradda. Þvert á móti hefur byggingamagnið blásið út og áhyggjur fólks af umferðamálum og staðaranda látin lönd og leið.

    Verkefnið hefur öðlast sjálfstætt líf og enginn virðist hafa kjark eða dug í sér til að gera neitt.“

  • Pétur Örn Björnsson

    Þorsteinn, þú vinnur við þetta. Skiljanlegt að þú reynir að verja ruglið.

    En finnst þér það siðrænt rétt, að skuldsetja börn og barnabörn hinna dauðu til að stórverktakar bankanna geti steypt allri þjóðinni í taumlausar skuldir?

  • Rétt hjá Stefáni að aðliggjandi byggð nýbygginganna eru húsin á Landspítalalóðinni. Það eru mörg dæmi í borgum um byggingar með mismunandi mælikvarða sem fara vel saman, t.d. þétt 5-6 hæða ibúðarbyggð öðru megin við götu og svo jafnvel „kolonihavehús“ hinumegin. Á Fredriksberg í Kaupmannahöfn eru sambærilegar aðstæður og við Landsspítalann; Einbýlishúsareitir umluktir hærra byggðarmunstri. Það þarf ekki að vera neikvætt að það sé skalamunur á milli aðliggjandi svæða í borgum getur jafnvel verið meira spennandi að ferðast á milli þeirra. Skipulag Landspítalareitsins byggir á reitaskipulagi sem er ríkjandi í Þingholtunum en er líka hugsað sem rökrétt framhald af núverandi spítalabyggð, í skala og byggðarmynstri. Það er því í samræmi við menningarstefnu í mannvirkjagerð.

  • Pétur Örn Björnsson

    Og hvenær fáum við að sjá allar slaufurnar og raunhæfar lausnir á umferðarmálum og fóðrun þessa tröllvaxna bákns?

    Venjulegt fólk út um allan bæ hlær að þessu hjólandi kjaftæði. Aldraðir og öryrkjar og fólk með krankleika og sjúkdóma eiga víst að koma hjólandi, eða svífandi um í alsælu á skautum eða skíðum. Það er eins og sumt fólk sé svo gott og sælt að það haldi að alsæla þeirra eigi við um alla aðra. Það lifir í hinum allra besta heimi sýndarmennkunnar.

    Er ekki nær að doka nú við og að horfa á öll heilbrigðismálin og þjónustuna (sem hefur verið skorin blóðugt niður, bæði í borg og út um allt land) heildstætt?

    Eru ekki heilbrigðis- og sjúkrastofnanir örugglega aðallega hugsaðar fyrir sjúklingana, meðan þeir enn lifa?

    Eða á að skuldsetja börn og barnabörn hinna dauðu til að stórverktakar bankanna geti steypt allri þjóðinni í taumlausar skuldir?

  • Pétur Örn Björnsson

    Hvað ertu að segja Helgi minn? Jú Hallgrímskirkja er „langt út úr skala ef miðað er við fíngerða byggðina í kring.“
    Ertu samt að mæla með því að slíkt se endurtekið, en nú enn tröllslegar?

  • Helgi Bolllason Thóroddsen

    Þetta er mjög einkennileg umræða. Það hlýtur að þurfa að taka tillit til hverskonar starfsemi er í húsunum. Hvernig samrýmist t.d. Hallgrímskirkja þessu? Samrýmist hún mælkvarða byggðarinnar í kring? Hún er langt út úr öllum skala ef miðað er við fíngerða byggðina í kring. Samkvæmt ofansögðu er hún allt of stór og hefði aldrei átt að byggja svo stóra.

  • Hvað er Arkitektafélagið og Listaháskolinn að hugsa? Hafa aðilarnir ekki í það minnsta gefið út sína skoðun á málinu?

  • Þórður

    Jú Elín, hann er aleinn i þessu deilskipulagsmáli þó hann hafi heilan her stuðningsmanna hvað aðþrent húsnæði varðar

  • Elín Sigurðardóttir

    Landspítalinn er alltaf einn.

  • Pétur Örn Björnsson

    Þannig má endalaust byggja og byggja langt út í mýri og segja að það sé eina aðliggjandi byggðin; hvar endar sú vitleysa?

  • Pétur Örn Björnsson

    stefán benediktsson, ertu að grínast í okkur?

    Hvað kallar þú byggð? Hvað kallar þú aðliggjandi byggð?
    Eru húsin á Landspítalalóðinni, aðliggjandi byggð þeirra?

    • Stefán Benediktsson

      Gauti og Pétur. Það eru hús á milli. Alveg frá gömlu Hringbraut/Barónstíg, norður , vestur og suður að gatnamótum Snorrabrautar og Hringbrautar. Fuglasýn á byggingarnar segja fólki ekert um samhengi við byggð sem venjulegt fólk upplifir úr tæplega tveggja metra hæð.

    • Pétur Örn Björnsson

      Sæll Stefán, ég vona að þú virðir mér það til vorkunnar, að ég eigi í smá basli með að skilja hvað þú ert að meina. Ég er samt allur af vilja gerður.

      Fyrst segirðu: „Eina aðliggjandi byggð nýbygginganna eru húsin á Landspítalalóðinni.“

      Svo segirðu: „Það eru hús á milli …“

      Hvaða hús eru á milli hvaða húsa? Vona að þú takir því ekki illa, en meginspurning mín til þín er þessi: Hús á milli hvers?

  • stefán benediktsson

    Eina aðliggjandi byggð nýbygginganna eru húsin á Landspítalalóðinni.

    • Guðl. Gauti Jónsson

      Er það af því að það er gata á milli?

  • Á kynningum hefur ítrekað komið fram að þessi byggð falli vel að skipulagi Vatnsmýrarinnar og sé mikilvægur hlekkur milli eldri og ‘nýrri’ byggðar.
    Það hefur líka komið fram að samgöngumiðstððin (núverandi BSÍ) verði vel staðsett með tilliti til stærsta vinnustaðar landsins og þéttri byggð Vatnsmýrarinnar.
    Þegar svona metnaðarfull áform eru í húfi, þá má menningarstefnan í mannvirkjagerð víkja.

  • Pétur Örn Björnsson

    Það sér það hver heilvita maður, sem horfir á myndina af áformuðum nýbyggingum, að þetta er ávísun á stærsta skipulagsslys borgarinnar, ef af verður. Samfylkingin mun þurfa að axla hina pólitísku ábyrgð af því, ef svo fer fram sem nú horfir. Telur hún sig virkilega svo vel í stakk búna, að hún treysti sér til þess?

  • Góður pistill Hilmar. Tek svo undir athugasemdirnar hér að ofan. Mig langar þó til að taka sérstaklega undir orð Guðl. Gauta Jónssonar:
    „Gísli Marteinn spurði réttu spurningarinnar í fréttunum nú áðan:
    „Ef það á ekki að byggja þetta af hverju er þetta þá þarna?““

    Er þetta kannski bara allt saman grín undir stjórn Besta og Samfylkingar í borginni og Samfylkingar og VG í ríkistjórninni? Samnefnari grínsins og vitleysunnar virðist vera Samfylkingin.

  • Dr. Samúel Jónsson

    „Er ríkið að brjóta sína egin menningarstefnu?“

    Svar: Já og beitir öllum sínum ráðum og nefndum til þess.

  • Guðl. Gauti Jónsson

    Það er varla að maður trúi þessum barnalega útúrsnúngi í svarinu.

    En ég sé að þú hefur fundið myndina sem er horfin af vef Nýs Landspítala OBH. Myndina sem sýnir fyrirhugaðar byggingar á lóðinni í samræmi við deiliskipulagið, sem forsvarsmenn verkefnisins segja nú hver á fætur ððrum að engin áform séu um að gera að veruleika. Gísli Marteinn spurði réttu spurningarinnar í fréttunum nú áðan: Ef það á ekki að byggja þetta af hverju er þetta þá þarna?

  • Ég sem maður á plani segi bara: „Eigum við að ræða þett eitthvað?“

    Þetta þarf að endurskoða frá grunni.

    Er ríkið að brjóta sína egin menningarstefnu?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn