Sunnudagur 11.09.2011 - 11:37 - 7 ummæli

LSH – Sjónarmið heilbrigðisvísindafólks

Magnús Karl Magnússon prófessor við læknadeild Háskóla Íslands hefur lagt til málanna í umræðu um uppbyggingu háskólasjúkrahússins við Hringbraut.

Hann sendi inn athugasemt við færslu sem heitir ”Landsspítalinn –Öskubuskueinkenni”

Þar fjallar hann um mikilvægi samþættingar á starfssemi Háskólasjúkrahússins og Háskóla Íslands ásamt því að svara áleitnum spurningum.

Gefum Magnúsi Karli orðið:

”Þakka góðan pistil, samlíkingin er ágæt en mér finnst þó dálítið skrítið að líkja hagsmunum sjúklinga við vondu stjúpsysturina! En látum það liggja milli hluta.

Það er rétt að það komi strax fram að ég er prófessor við Læknadeildina og rétt að lesa mín komment með það í huga.


Þú spyrð góðra og mikilvægra spurninga:
1. „Er aðalatriðið ekki að hann sé allur á einum stað?“
2. „Sama má segja um hagsmuni Háskólans. Ég hefði viljað heyra hvort það skipti höfuðmáli hvort heilbrigðisvísindasvið sé einhverri fjarlægð frá aðalbyggingu HÍ svo fremi það sé í nánum tengslum við sjálft sjúkrahúsið?“

Varðandi spurningu nr. 1. Allt á einum stað eða ekki? Það skiptir miklu máli að öll bráða- og leguþjónusta (bráðamóttökur og legudeildir) sé öll á einum stað. Þannig næst mikill sparnaður, ekki þarf tvær röntgen- eða rannsóknardeildir eins og nú þarf. Sama gildir um samvinnu ólíkra sviða/deilda. Flestir mikið veikir sjúklingar þurfa a þjónustu margra deilda og slík þjónusta verður þeim mun betri sem samvinna þessara deilda er nánari. Þannig verður þjónustan hagkvæmari og hún verður einnig betri fyrir sjúklingana. Með öðrum orðum, ódýrari og betri heilbrigðisþjónusta.

Varðandi spurningu 2; hagsmunir háskólans og nálægð heilbrigðisvísinda við önnur svið skólans. Það eru fjölmörg og sterk rök sem þarna liggja að baki líka. Þar er fyrst til að telja samvinna heilbrigðisvísinda við aðrar deildir. Þau er nú þegar mjög mikil á sviði vísinda- og rannsókna og þau munu mjög aukast á næstu árum. Sem dæmi þá eru mjög vaxandi samvinna verkfræði og lífvísinda á fjölmörgum sviðum rannsókna. Þar má nefna vefjaverkfræði, þróun nýrra tækja og síðan nýjar fræðigreinar, s.s. kerfislíffræði sem nú þegar er ein af sterkari rannsóknardeildum HÍ og er rekin í nánu samstarfi Verk og náttúruvísindasviðs og Heilbrigðisvísindasviðs. Í öðru lagi eru flestir sammála umþað að í uppbyggingu háskóla framtíðarinnar þá sé þverfræðileg nálgun mjög mikilvæg. Slík nálgun er nauðsynleg til að leysa ýmis af stóru vandamálunum framtíðararinnar, s.s. loftslagsbreytingar, félagsleg vandamál hraðra þjóðfélagsbreytinga o.s.frv. Í þriðja lagi, þá er HÍ þrátt fyrri allt mjög lítill háskóli. Hann mun þurfa að nærast á mikilli samvinnu deilda, m.a. með samnýtingu tækja. Þannig eru ýmsar deildir í HÍ í dag nú þegar í mikilli samvinnu við læknadeild s.s lífræðiskorin. Í fjórða lagi þá má benda á að Vatnsmýrin er hugsuð sem þekkingarþorp Reykjavíkur. Heilbrigðisvísindi eru án efa eitt sterkasta fræðasvið HÍ. Að flytja þá starfsemi úr Vatnsmýrinni væri í algerri andstöðu við skipulagsmarkmið um þekkingarþorp og þekkingruppbyggingu. Eitt af sterkustu rannsóknafyrirtækjum heims, Íslensk Erfðagreining er lykilaðili í þessu þekkingarþorpi. Nálægð við heilbrigðisvísindi HÍ og LSH eru augljóslega mikilvæg bæði fyrir tækinu og þessum stofnunum.

Ég skil áhyggjur af umferðarvandamálum en ég tel að þarna eigi allir aðilar leggjast á eitt um að breyta ferðavenjum okkar. Í athugasemd hér fyrir ofan segir Guðrún Bryndís:
„Hvort er verið að byggja utanum starfsemina eða aðlaga fólk að byggingunni?“
Ég held að við eigum að nota skipulagsákvarðanir til að aðlaga fólk að borgarsamfélagi („aðlaga fólk að byggingunni“!!) . Ég segi það kinnroðalaust og vona að borgaryfirvöld og áhugafólk um skipulagsmál séu sammála mér. Hingað til hafa skipulagshugmyndir haft veruleg áhrif á hegðun Reykvíkinga. Það er mjög gott samhengi milli fjölda bifreiða og stefnu borgaryfirvalda að dreifa byggðinni. Þessu þarf að snúa við. Ef að við erum aldrei tilbúin að taka þann slag að snúa við þeirri þróun þá mun ekkert breytast.

Það er stundum talað um ógurlegt byggingarmagn á þessum fermetrum sem þarna standa til boða. Mér sýnist þó að byggingarmagnið sé mun nær því sem við viljum sjá í borgarumhverfi. Það verður að líta á byggingarmagnið í samhengi við skipulagsáætlanir framtíðarinnar ekki nálægrar fortíðar (þar sem mantran var dreifð byggð). Samkv. tillögum borgarinnar um Vatnsmýrina (Massey tillagan) er reiknað með 3-5 hæða þéttri byggð rétt eins og sjúkrahúsbyggingarnar eru. Mér sýnast þessar byggingar falla vel inn þær hugmyndir“.

Í næstu færslu mun Páll Torfi Önundarson yfirlæknir og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands fjalla um tvo staðsetningarvalkosti á lóð gamla Landsspítalans sem hann telur kunni að vera enn hagkvæmari og falla betur að byggðinni en sú staðsetning sem nú er til umræðu.



Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Ágæti Magnús.
    Vafalaust hef ég verið full orðhvass í þinn garð og bið þig afsökunar á því,
    en ég tel reyndar að Hrekkjalómur hafi einungis stráð salti í sárin.

  • Magnús Karl Magnússon

    Ágæti Jón.
    Tel að hrekkjalómur hafi svarað spurningu þinni um rekstur vs. húsnæðikostnað ágætlega. Vildi helst forðast umræðu um heilbrigðismál almennt hér á þessari síðu Hilmars Þórs – enda hún með fókus á skipulagsmál / arkitektúr. Vil sýna honum þá virðingu að vera ekki að rífast um allt milli himins og jarðar hvað varðar niðurskurð í heilbrigðismálum.

  • Hrekkjalómur, þú þú segir ertu greinilega bara hrekkjalómur,

    því samkvæmt þeirri hugmynd sem Páll Torfi varpar fram, þá tengjast einmitt hin ýmsu svið spítalans betur saman, en hjá þeim sem stefna út í mýri og láta mýrarljósin ráða sinni för.

  • Hrekkjalómur

    Jamm Jón,
    Bæði Magnús og heilbrigðisráðherra gera sér grein fyrir að peningarnir sem á að nota til að byggja eru einfaldlega ekki fáanlegir í rekstur spítalans. Og verða aldrei. Þannig að það er tómt mál að tala um.

    Páll Torfi er með ágætishugmynd. Gallinn við hana er sá að þessi hugmynd passar alls ekki við þær forsendur sem farið var af stað með, t.d. tengingu við aðrar sjúkrahússbyggingar, svo sem kvenna- og barnadeildir. Ef á að fara að hans humgynd þá þarf einfaldlega að byrja upp á nýtt. Og það er ekki víst að það sparist ein einasta króna ef farið yrði að hugmynd Páls. Þannig að hvað höfum við þá grætt? Sé ekki alveg málið.

    Hrekkjalómur

  • Magnús Karl er heiðarlegur hvað varðar að viðurkenna strax sín eigin hagsmunatengsl, sbr. þessi orð hans:

    „Það er rétt að það komi strax fram að ég er prófessor við Læknadeildina og rétt að lesa mín komment með það í huga.“

    En þá að einni einfaldri staðreynd, sem er sú, að á sama tíma og á að fara út í galtóma steypu, þá er skorið blóðugt niður í málaflokki heilbrigðismála hér á landi og þjónusta skert við sjúklinga.

    Finnst Magnúsi það -sem prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands- í lagi?

    Svipaða sýn virðist velferðarráðherra hafa, enda lifir hann í volterskum „allra besta heimi“:
    http://www.dv.is/gula_pressan/2011/9/2/etum-hataeknisjukrahus/

    Spurningar mínar eru tilkomnar vegna efnahagsaðstæðna í þessu þjóðfélagi okkar, þar sem spurningin hlýtur að snúast um forgangsröðun, eða amk. að menn sníði sér stakk eftir ásigkomulagi þjóðarlíkamans.

    Að mínu mati lýsir álit Páls Torfa sem birst hefur í grein eftir hann í Mogganum lýsir næmari skilningi á „ástandinu“, en hip hip hurra álit Magnúsar.

  • stefán benediktsson

    „er verið að byggja utanum starfsemina eða aðlaga fólk að byggingunni?“(GB).
    Tek undir með MK. Það á að stefna að því að „aðlaga fólk að byggingunni“ og þá á ég ekki bara við LSH heldur borgina alla. Aðalskipulagið 1964 gerbreytti lifnaðarháttum Reykvíkinga. Þangað til fóru menn ferða sinna í strætó eða leigubíl. Fjölskyldufeður sem unnu í miðbænum fóru heim í hádeginu að borða, með strætó. En eftir 64´breyttist RVK í einkabílaborg.Bílaeign í Reykjavík varð að nauðsyn vegna þess að borgaryfirvöld kusu það og við kusum þau.
    Nú viljum við að borgin bjóði upp á bílfrían lífstíl, borgabúum til megrunar og heilsubótar.

  • Hafsteinn

    Það virðist ljóst að þetta er rétti staðurinn fyrir háskólasjúkrahús. Magnús Karl hefur sannfært mig um það.

    Það er líka augljóst að þetta er of stórt fyrir staðinn. Má ekki byggja tvö sjúkrahús? Er ekki mikil áhætta fólgin í því að hafa þetta allt á einum stað. Ég er að hugsa um bruna, jarðskjálfta, hriðjuverk o.þ.h.?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn