Þriðjudagur 19.05.2020 - 15:21 - Rita ummæli

Manneskjulegt umhverfi í Reykjavík.

Ég var að skoða vandað Aðalskipulag Reykjavíkur AR 1984-2004 í gærkvöldi. Þá fór ég að hugsa um hvað margir fótgönguliðar í arkitektastétt hafa áratugum saman barist fyrir því að draga úr vægi einkabílsins í borgarskipulaginu og gera borgina manneskjulegri.

Þessi þrotlausa vinna virðist nú vera að skila árangri. En það er samt svo að það er eins og þessi langa barátta sé að mestu gleymd. Það er eins og að núna séu arkitektar að fleyta rjómann af allri vinnu fyrirrennara sinna og hafi gleymt áratuga baráttunni.

Ég man þegar ég hóf störf á teiknistofu Gests Ólafssonar vorið 1975 þegar stofan hans var að vinna að endurskipulagningu eldri hverfa í Reykjavík. Þetta var svæði frá Snorrabraut niður í Lækjargötu og frá Lindargötu að Skólavörðustíg. Þá var lykilorðið „manneskjulegt umhverfi“. Gestur hafði aðra nálgun hvað landnotkun varðaði en áður tíðkaðist. Landnotkunin var ekki svæðaskipt eins og áður var algengt heldur lagskipt þannig að neðst voru verslanir og þjónusta og á annarri hæð skrifstofur og atvinnustarfssemi og á efri hæðum íbúðir. Í tengslum við þetta var lagt til að Laugavegurinn yrði í framtíðinni göngugata frá Snorrabraut alla leið vestur í Aðalstræti. Til þess að þetta gæti gerst þurfti að fæða miðborgina um Skúlagötu/Sæbraut og gera Hverfisgötu að þjónustugötu þar sem einkabíllinn fór um og framboð af bílastæðum nægjanlegt. Svo gengu menn frá upp á iðandi göngugöruna, sólríka og fallega með sínum sterku einkennum sem siðar hefur verið kallaður staðarandi. Þetta var allt faglega og vel unnið. En það voru engar glansandi söluteikningar eins og við þekkjum núna.

Hverfisgötubílastæðunum var komið fyrir við Vitatorg og gengt Þjóðleikhúsinu en af einhverjum ástæðum eitt á Stjörnubíóreit sem voru auðvitað mistök ef gera á Laugaveg að göngugötu.

Nokkrum árum síðar var samýkkt deiliskipulag Kvosarinnar þar sem hún var næstum öll gerð að bíllausu svæði. Það var kvosarskipulag Dagnýjar Helgadóttir og Guðna Pálssonar arkitekta. Um svipað leiti var hluti Laugavegarins gerður að vistgötu. Það voru arkitektarnir Jóhannes Kjarval og Krisján Ásgeirssin sem höfðu umsjón með þeirri vinnu. Jóhannes heitinn sagði mér frá baráttunni. Það var ekki bara hugmyndaleg barátta heldur líka hönnunarleg. Smáatriði eins og hellulögn og steypujárnsrósettur umhverfis trjástofna kostuðu mikla baráttu. En það versta var að notendur kunnu ekki að nota götuna. Hvorki rekstraraðilar né vegfarendur.Líklega var það vegna þess að nánast engin umræða var um skipulagsmál á þessum árum. Það var eins og fólk héldi að skipulagið kæmi frá Guði. Bílarnir töldu sig hafa sama rétt og áður og skipti þá engu máli hvort hér væri vistgata eða ekki. (Ég held jafnvel að hugtakið „vistgata“ hafi ekki verið til á þessumárum frekar en „staðarandi“)

Í AR1984-2004 er mynd af Óðinstorgi sem er gert að göngusvæði um leið og bílastæðin sem þarna voru eru færð undir yfirborðið og fjölgað nokkuð. Svo er önnur mynd þar sem hugmynd af endurbótum á Skarphéðinsgötu austan Snorrabrautar er útfærð í skissuformi þar sem mannífið er í fyrsta sæti.

Þessar hugmyndir um að draga úr áhryfum einkabílsins voru allar samkvæmt fræðunum sem okkur var kennd í arkitektaskólunum á árunum uppúr 1965. Þetta er líka í samræmi við aðgerðarinna í USA í byrjun sjötta áratugarins, með Jane Jacobs í fararbroddi. Það má því segja að nú hefur baráttan um manneskjulega miðborg Reykjavíkur staðið í 55 ár eða allar götur síðan bílaskipulagið AR1962-84 var samþykkt. Það er ekkert nýtt undir sólinni og góðir hlutir gerast hægt og eiga að gerast hægt þegar um skipulagsmál er að ræða.

+++

Allar myndirnar í þessari færslu eru úr AR1984-2004 og gefa vísbendingu um hvað menn voru framsýnir á þessum árum og vildu vel. Formaður skipulagsráðs var Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson lögfræðingur, skipulagsstjóri Þorvaldur S. Þorvaldsson arkitekt og borgarstjóri var Davíð Oddsson. Efsta myndin sýnir Austurstræti á góðum degi. Þarna var hvorki menningarnótt né 17. júni. Líklaega bara góður föstudagur. Ef mér skjátlast ekki er fremstur á myndinni Egill Helgason fjölmiðlamaður sem hefur alla tíð verið mikill borgari og borgarrýnir.

Hér gefur að líta ljósmynd úr AR1984-2004 þar sem vistgata samkvæmt hönnun Jóhannesar Kjarval og Kristjáns Ásgeirssonar er fullgerð. Þarna er hellulögnin látin ganga frá húsvegg að húsvegg og lítill greinarmunur gerður á svæði gangandi og akandi.  Notendur, hvorki vegfarendur né rekstraraðilar áttuðu sig á tækifærinu. Líklega vegna þess að umræða um skipulagsmál var á þessum árum nánast enginn og fólk áttaði sig ekki á hugmyndinni og tækifærunum sem lögð voru á borð. En hugmyndin er jafngóð fyrir því.

Hér er mynd úr AR 1984-2004 sem sýnir hve mikill einhugur var um að gera miðborgina manneskjulegri. Bílarnir eru settir undir yfirborðið og mannekjan i félagslegt umhverfi baðað sól og yndislegheitum. Teikningin er gerða af Guðrúnu Jónsdóttur arkitekt

Hér er dæmi úr Norðurmýrinni þar sem hugmynd Guðrúnar Jónsdóttur arkitekts er að gera hluta Skarphéðinsgötu að hreinni göngugötu til þess að auka mannlífið milli húsanna í hverfinu.

Mynd úr A1984-2004 sem sýniir hluta Kvosarinnar sem göngusvæði. Þarna er gert ráð fyrir endurhönnun Austurvallar þannig að hann henti betur útifundum aðgerðarsinna og fl. Bílar eru víkjandi fyrir fótgangandi.

Þar sem Kvosin og torgin þrjú sem þar eru, Lækjartorg, Ingólfstorg og Austurvöllur voru hugsuð sem borgartorg með hörðu yfirborði var lögð áhersla á að gera Arnarhól mjúkan og grænan. Myndin að ofan er af fyrstuverðlaunatillögu Birnu Björnsdóttur. Af einhverjum ástæðum var ekki nema lítill hluti hugmyndarinnar framkvæmd eins og flestar þær frábæru hugmyndir sem fram komu í AR1984-2004 til þess að gera Reykjavík að manneskjulegri borg. Einar E. Sæmundsen landslagsarkitekt og pistlahöfundur unnu með Birnu að þessu verki.

Laugardalur var hannaður sem einskonar lunga borgarinnar með margvíslegri starfsemi ætlaða til lýðheilsu. Þarna á uppdrætti Reynis Vilhjálmssonar er gert ráð fyrir tónlistarhúsi Guðmundar Jónssyni arkitekts austast En Dalbrautin er þarna ekki lengur sem hugsuð var sem tengibraut milli Dalvegar og Grensásvegar ef ég man rétt.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn