Sunnudagur 27.04.2014 - 01:59 - 3 ummæli

Mannvirkjagerð – Þéttbýlismyndun á Íslandi

Hér í fimmta hluta yfirferðar Sigurðar Thoroddsen arkitekts um síðbúna þéttbýlismyndun á íslandi fjallar hann um mannvirkjagrð. Að ofan er uppmælng af bænum Gröf í Öræfasveit frá því fyrir rúmum 900 árum. Neðst í færslunni er að finna mynd af íbúðahúsi em byggt var á svipuðum tíma á Englandi.

Mannvirkjagerð

Vitað er um nokkra nafngreinda snikkara og smiði sem störfuðu við kirkjubyggingar og  bátasmíði,  en þeir hafa  örugglega verið fleiri þó nöfn þeirra hafi ekki verið skráð.  Talið er að fyrstu menntuðu   handverksmennirnir  hafi numið iðn sína í Danmörku á 19. öld, enda engin formleg handverksmenntun  í landinu,   fyrr en í byrjun 20. aldar.

Mannvirki   sem byggð voru í landinu fyrstu 1000 árin voru  íveruhús,  gripahús, geymsluhús   og kirkjur.  Um vegagerð,  hafnargerð, vatnsveitur, fráveitur  eða önnur slík  mannvirki (infrastrúktúr)  var ekki að ræða, enda ekkert sameiginlegt framkvæmdavald í landinu.

Húsagerð frá 13. öld og jafnvel  landnámi og til loka 19. aldar má skipta   í fimm meginflokka, eða: Torfhús, aðrar byggingar úr torfi og/eða timbri,  steinhús,  timburhús og    steinbæi.

Torfhús

Fyrstu 1000 árin   var húsakostur landsmanna torfhús,  byggð  úr  torfi og  grjóti   og efnið tekið við túnfótinn. Þannig að þetta voru ódýrar byggingar.  Rekaviður og innflutt timbur í minna mæli,   var  notað  sem burðarvirki í veggi og  þök, og reft yfir með torfi og við tiltekin veðurskilyrði láku þök.  Torfhúsin voru nánast ekkert upphituð nema við hlóðareld  á daginn   og   eldsneytið var  mór. Í  húsum   myndaðist  því raki og án efa    myglusveppur,    enda heilsufar manna ekki upp á marga fiska.

Húsgögn þekktust varla,  og  dæmi voru um að kýrhausar eða hryggjarliðir úr hvölum væru notaðir þessum tilgangi.   Fólk svaf á hlöðnum bálkum og dýnum sem fylltar voru með reiðingstorfi. Þar sem timbur var af skornum skammti,  þekktist lengi vel  ekki að leggja timburgólf, og   moldargólf látin nægja. Slík gólf höfðu hinsvegar þann ókost,  að þau gátu  breyst  í forarvað í rigningum.

Sömu byggingaraðferðum var beitt við  gripahús og önnur útihús. Girðingarefni úr timbri   þekktist ekki,  en þess í stað voru garðar  hlaðnir úr grjóti og torfi  til að hafa taumhald á búfénaðinum. Grjótgarðar voru líka  hlaðnir umhverfis kirkjugarða.

Í ferðasögu Íslandsleiðangurs Gaimard 1835 og 1836,  eru  greinargóðar lýsingar á högum og hýbýlakosti landsmanna. Húsakynni voru að þeirra sögn eins og dimm,  óupphituð og rök  jarðhýsi úr timbri, grjóti og torfi.    Þök   voru klædd með torfi með  2-3 glergluggum,  þannig að dimmt hefur verið innandyra.  Matseld var á hlóðum og  eldsneytið  þurrkaður mór með tilheyrandi reyk og mengun.   Framfarir í húsagerð voru  engar öldum saman,  og   þetta voru  hýbýli sem hvergi þekkjast  nema í fátækum og  vanþróuðum löndum. Í  ferðasögu Gaimard er minnst á ýmis atriði s.s. jarðhitann, upphitun og gólfklæðningar  úr timbri  í stað moldargólfa,   sem menn höfðu ekki kunnáttu til að nýta.

Torfhúsabyggingar  voru helsta  byggingaraðferðin,  frá upphafi byggðar á Íslandi  til loka 19. aldar,  eða  frá 874  til 1900  og eru dæmi um að slík hús hafi verið reist svo seint sem 1920. Byggingarsaga þessara húsa er því  mjög löng eða  um  10 aldir,  en tæknilegar   framfarir  engar.  Fyrirkomulag upphitunar, hreinlætisaðstöðu,   einangrunar,  þéttleika,  rakaþéttingar   og  birtuskilyrða í þessum húsum  þróaðist ekki  til hins betra  allan þennan tíma.

Helstu breytingar  voru á innra fyrirkomulagi torfbæjanna,  en upp úr 1450-1550 breyttist grunnmyndin  á þann veg, að svonefndir gangnabæir komu fram.  Í  þeim var  einn aðalgangur inn bæinn og hinum  ýmsu rýmum  raðað   sinn hvoru megin.

Aðrar  framfarir  vörðuðu staðsetningu torfhúsanna,  á þann veg   að við endurgerð þeirra   byggðu menn á  reynslunni  um   hvar  best  væri  að byggja.  Málið var  að torfhús entust illa, eða  aðeins í 60-80 ár,  og    þá þurfti að endurbyggja.   Gegnum aldirnar safnaðist  saman   dýrmæt staðbundin  reynsla   af  veðurfari,  útsýni,  jarðvegsgerð og  hættu vegna náttúruhamfara og fleiru,  þannig að   á  endanum var hentugasti staðurinn valinn.

Aðrar byggingar og mannvirki  úr torfi og/eða timbri

Sömu byggingaraðferðum var beitt við kirkjubyggingar og við torfhúsin  og eru heimildir um að nánast allar  sveitakirkjur, klaustur  og klausturkirkjur hafi verið byggðar með þessari aðferð.  Auk þess voru  torfgarðar byggðir umhverfis kirkjugarða  og víðar. Þekkt  mannvirki   er torfgarður,  sem gerður var  þvert yfir Rosmhvalanes. Þessi garður  var margra kílómetra langur  og sjást enn merki eftir hann. En þessir garðar voru yfirleit byggðir til að halda búfénaði í skefjum.

Dómkirkjurnar í Skálholti og að Hólum voru í upphafi  reistar úr timbri sem hefur verið einsdæmi miðað við aðrar  dómkirkjur í Evrópu á þessum tíma, en þær voru flestar byggðar úr steini. Timbur sem byggingarefni heyrði því til algjörra  undantekninga og aðeins á færi þeirra efnameiri.

Steinhús

Sagnir eru um að á miðöldum hafi steinhús verið byggð á  Íslandi,  en engar leifar finnast þó sem sanna þetta. Hugsanlegt er að þau hafi síðar verið rifin og grjótið  notað í undirstöður annarra húsa.

Á 18. öld  voru nokkrar  opinberar byggingar byggðar  úr tilhöggnu grjóti af Dönum og á þeirra  kostnað.   Um var að ræða   8  hús sem byggð voru    á árunum 1753 til 1777.  Þetta voru  bæði kirkjur og veraldleg hús og eru þau í tímaröð: Landfógetahúsið í Viðey 1753, Hóladómkirkja 1757, Bessastaðastofa 1761, Nesstofa 1761,  Fangahúsið í Reykjavík 1765 sem breytt var í Stjórnarráðshús 1819 (1904), Viðeyjarkirkja 1766, Landakirkja á Heimaey 1774 og Bessastaðakirkja 1777.   Þessar byggingar höfðu þó takmörkuð áhrif á húsagerð í landinu, enda  mjög dýr byggingaraðferð  og iðnaðarmenn flestir erlendir sem snéru til síns heima að verki loknu.

Í þessu sambandi má nefna  kirkjuna að Þingeyrum í Húnaþingi sem byggð  var 100 árum síðar eða á árunum 1864 til 1877  úr  tilhöggnum steini   sem  fenginn var út  námu vestan  við Hópið og dregið þaðan  yfir ís.  En væntanlega voru iðnaðarmenn að þessu sinni íslenskir.

Timburhús

Við upphaf einokunarverslunarinnar 1602,   byggðu  kaupmenn timburhús sem í upphafi voru til íbúðar, en þá hafði   sú breyting orðið á högum þeirra, að margir þeirra höfðu vetursetu í landinu.    Þessi húsagerð hafði áhrif og voru ýmis innlend hús alþýðunnar sniðin eftir þeim og  dæmi um slíkt er húsaþyrpingin í Neðstakaupstað á Ísafirði.

Þegar kaupstaðarréttindin voru veitt áðurgreindum 6 stöðum árið 1786  byggðu kaupmenn sér íbúðarhús og komu þau tilsniðin til landsins með skipum verslunarinnar. Þessi hús voru af þremur gerðum.  Algengust voru bindingsverkshús með múrsteinum í grindinni, en flest voru þessara  húsa voru  klædd með borðaklæðningu til hlífa þeim gegn slagveðri. Plankahús voru einnig byggð,  en einkum sem vörugeymsluhús. Efniviður útveggjanna voru gegnheilir timburstokkar.

Þriðja gerðin voru svokölluð bolhús og  gerð úr tilsniðnum timburstokkum. Þök þessara húsa voru öll svipuð að gerð. Þök voru  með 45° halla, á þeim var skarsúð og  þar yfir rennisúð. Þök og útveggir voru tjargaðir,  þannig að yfirbragð allra húsanna hefur verið svipað.

Þessi hús þróuðust  síðar  eftir   íslenskum aðstæðum, en margt  bendir þó  til   að smiðirnir hafi verið danskir. Þessi dönsku verslunarhús  höfðu einnig áhrif á byggingar Íslendinga sem byggðu sér slík hús í kaupstöðunum,  en  minni.    Ennþá voru  þó flest hús á  vegum  Íslendinga í kaupstöðunum  torfhús,  enda miklu ódýrari í byggingu en dönsku timburhúsin.  Á fyrri hluta 19. aldar var farið að reisa timburkirkjur í stað torfkirknanna,   með sömu byggingaraðferð og íbúðarhúsin.

Um miðja 19.öld fer að gæta meiri fjölbreytni í húsagerðinni. Áhrif berast  erlendis frá,  og Íslendingar fara erlendis í auknum máli til smíðanáms, einkum  Danmerkur 0g  Noregs.  Klassísk byggingarlist fer að berast til landsins frá Danmörku  og húsin verða fíngerðari í útliti. Útveggir voru  smíðaðir  með svokallaðri listasúð og   málaðir   í ljósum litum. .

Eins og  fram hefur komið,  var þjóðinni veitt algjört verslunarfrelsi  1855 og upp úr 1870 aukast  verslunarviðskipti við Bretland,  þannig að þaðan fara  að berast áður óþekkt  byggingarefni s.s. bárujárn og  þakskífur sem notaðar voru   á útveggi og þök.

Um svipað leyti  fer að ryðja sér til rúms nýr íslenskur byggingarstíl „Íslensk klassík“.  Þessi hús voru með meiri vegghæð en áður þekktist en   þakhalli minni, með þakskeggi sem náði lengra út fyrir útveggina og á göflum var í mörgum tilfellum sett  útskorið  skraut.  Um  1880 fer að gæta enn nýrra  áhrifa  frá Noregi,  en þar í landi var hafin verksmiðjuframleiðsla á  húshlutum. Til Noregs höfðu borist áhrif frá Mið Evrópu s.s. Þýskalandi og til verður hinn  svokallaði Sveitserhússtíl. Mörg slík  hús voru flutt  hingað til lands rétt fyrir aldamótin  og náðu þau  töluverðum vinsældum. Einnig var mikið um það að íslenskir smiðir aðlöguðu sín hús að þessum byggingarstíl.

Steinbæir

Steinbæir eru aftur á móti  sér Reykvísk húsagerð frá tímabilinu 1870-1905. Steinbæirnir tóku við af torfbæjum og voru byggðir samkvæmt hefð og fyrirkomulagi torfbæja en ekki eftir fyrirfram ákveðnum teikningum.  Upphaflega voru um   170 steinbæir  byggðir  í Reykjavík,  en nú  standa rúmlega 20 eftir.  Flestir smiðir munu hafa verið innlendir og margir numið handverkið hjá dönskum steinsmiðum sem unnu við byggingu Alþingishússins á árunum 1880-1881.

+++++

Að neðan er ljósmynd af steinbæ við Nýlendugötu í Reykjavík. Einn af þeim 20 sem eftir eru. Þarna kemur vel fram skyldleikinn við törfhúsin þar sem langveggir eru úr steini og nánast án glugga meðan gaflar eru byggir úr timbri.

Þetta er hús frá tólftu öld sem stendur í borginni Masham í North Yorkshire á Englandi. Þúsundir ibúðahúsa frá þessum tíma standa víðsvegar um Evrópu og gegna upprunalegu hlutverki sínu ágætlega.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Þetta er Mýrargata. Nýlendugata er ofar.

  • Orri ÓLafur Magnússon

    Athyglisverð saga bygginga á þessu kalda og hrjóstruga landi. Ég minnist þess að hafa lesið einhvers staðar að skýringin á fáum / engum hlöðnum steinhúsum á Íslandi sé fyrst og fremst skortur á kalki í steinlím / þýska :“Mörtel“ / e.: „mortar“ ( ? ) á eldfjallalandinu. Er eitthvað til í þessu og hvernig fóru danskir húsamiðir að sem reistu hér steinhúsin um miðja 18. öld ?

  • Stefán Benediktsson

    „tæknilegar framfarir engar“. Verra en það. Timburgaflarnir drógu mikið úr einangrun gegn kulda. Vann við mælingar á steinhúsum frá 13. öld í námi. Þar höfðu menn bætt við annarri hæð á 19. öld með batnandi lífsafkomu. Þessi hús voru auðvitað ekki vel einangruð en þau mátti kynda duglega á brunahættu.
    Það er rannsóknarefni hversvegna við byggðum ekki steinhús. Maður áttar sig á að verkkunnátta var mikil þegar maður stendur í stofunni í Selinu í Skaftafelli. Allur viður er rekaviður sagaður í gólfborð, veggþiljur, loftbita og loftaklæðningu. Viðurinn er heflaður í plan og kantar falla saman án þess að gapa, veggpanell fjaðraður saman til að draga úr trekk og strikaður útlitsins vegna, strikaðir gólflistar og kverklistar, gluggar tappaðir saman og strikin standast á lárétt og lóðrétt, gluggakistan felld inn í gluggakarminn og veggklæðninguna, strikaðar áfellur kringum glugga og hurð, spjaldahurð sem gæti verið smíðuð á verkstæði. Sumsé verkþekkingu ekki ábótavant.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn