Mánudagur 15.09.2014 - 21:02 - 23 ummæli

Mannvirkjastofnun, íþyngjandi reglugerð.

untitled

 

Þann 1. janúar 2015 tekur gildi ný reglugerð Mannvirkjastofnunar sem segir til um að hönnunarstjórar,  byggingastjórar og iðnmeistarar skulu hafa gæðastjórnunarkerfi.

Gerð gæðastjórnunarkerfisins og virkni þess þarf að vera vottað/samþykkt af „faggiltri“ vottunarstofu eða Mannvirkjastofnun fyrir 1. janúar 2015.

Ég er búinn að reka reiknistofu í um 40 ár. Fyrst með námi í Danmörku og svo hér á Íslandi síðan fyrir 1980. Við höfum teiknað meira en hálfa miljón fermetra í byggingum og tugi hektara skipulags. Við höfum að sjálfsögðu verklagsreglur og ágæta stjórn á vistun ganga og traustar boðleiðir og feril ákvarðanna.

En við höfum aldrei haft vottað gæðakerfi og tölvuforrit á borð við Revit eða nýtt okkur BIM aðferðafræðina. Við þurfum þess ekki og viðskiptavinurinn aldrei beðið tjón vegna skorts á þessu.

Á öllum þessum árum hafa aldrei komið upp þau vandamál sem vottað gæðakerfi eða hin flóknu teikniforrit hefðu afstýrt.  En nú er verið að  þröngva þessum kröfum upp á aðila byggingariðarins sem þeir hafa engann anna kost en að tileinka sér.

En spurningin vaknar um hverjum þessi reglugerð eigi að þjóna og hverju á hún að bjarga?

Ég þykist vita að hún hjálpar ekki neytandanum, ekki litlu verktökunum, ekki litlu verkfræðistofunum eða litlu arkitektastofunum.

Ég tel líka að reglugerðin geri ungu fólki nánast ógerlegt að komu undir sig fótunum sem sjálfstætt starfandi sérfræðingar í fagi sínu i ráðgjöf  eða sem verktakar í öllum iðngreinum sem tengjast byggingariðnaði. Sumir velja sjálfsagt að hætta að praktísera og leggja niður  blómlega  starfssemi og einhverjir leggja drauma sína um að starfa sjálfstætt á hilluna. Einkum vegna skrifræðis og rglugerða af þessum meiði. Og það sem verra er að þessar kröfur koma einkum frá opnberum stofnunum sem eiga einmitt að gæta hagsmuna okkar minnstu bræðra en ekki sérstaklega stóru strákanna.

En hitt veit ég líka að þessi reglugerð þjónar stóru verktökunum, stóru verkfræðistofunum og stóru arkitektastofunum og ekki síður embættismönnum og eftilitskerfinu.

Er þetta skynsamlegt?

Þetta er íþyngjandi fyrir byggingariðnaðinn og mun ekki skila sér til neytanda að neinu marki. Þvert á móti öfugt. Þetta grynnir samkeppnisumhverfið og fækkar aðilum bygingariðnaðarins.

Ég hélt  að þetta væri eitthvað sáraeinfalt sem maður gerði bara svona í „forbifarten“.  En annað hefur komið í ljós. Gæðakerfið skal vottað af faggiltri vottunarstofu og boðið er uppá námskeið í fræðunum í Háskólanum í Reykjavík fyrir þá sem þurfa.

Þeir sem ekki hafa fengið vottað/samþykkt gæðakerfi fyrir 1. janúar 2015 verða að hætta starfssemi sinni ef ég skil þetta rétt.

Er þetta ekki eins og að nota fallbyssu til að skjóta spörfugl?

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (23)

  • Auðvitað eigum við arkitektar að fagna því að Mannvirkjastofnun ýti við okkur þótt skemmtilegra hefði verið að Arkitektafélagið hefði átt frumkvæðið í þessum efnum. Auðvitað eigum við líka að gera þá sjálfsögðu kröfu að arkitektadeildin okkar kenni nemendum nútíma vinnubrögð og mennti þá starfandi arkitekta líka sem þurfa að taka sér tak í þessum efnum. Þannig lagði AÍ líka upp með þessa deild í upphafi. Í leiðinni þyrfti líka að taka verklýsingum tak og öllum ferlinum frá hönnun í fullbúna byggingu. Til þess eru menntastofnanir í þessum geira. Við eigum t.d. ekki að þurfa að þrátta um það við verktaka hvað „sjónsteypa“ sé á 21. öldinni!!
    Auðvitað eiga arkitektar ekki að láta taka sig í bólinu í þessum efnum heldur eiga þar afgerandi forystu.
    Hér nægir að vitna í það sem Dr Frank Shaw, yfirmaður framtíðarathugana við the Centre for Future Studies í Englandi sagði í sumar: „Those professions that do not change will render themselves obsolete,“ – „Those that are able to transform themselves – and I mean „transform“ – will thrive and prosper.“ – Okkar er valið.

  • Þetta er mjög skemmtileg umræða í athugasemdunum, jafnvel þeir öfgafyllstu á báða bóga. Þetta mynnir mig svolítið á það þegar ég var að byrja námið mitt í arkitektúr fyrir all mörgum árum síðan. Þá skiptist kennaraflóran í tvo hópa sem höfðu mikla andúð á hvor öðrum. Einn hópurinn vildi að allar teikningar væru gerðar með blýöntum, því þeir væru mun nær sköpunaræðinni en önnur tól. Hinn hópurinn töldu að tæknipennar (frá Rótaring sérstaklega) væru það eina sem virkaði í fallegar og vel útlistaðar teikningar. Ég man eftir aðilum úr báðum hópum sem gengu um með stækkunargler til að skoða hæfni nemenda í þessum teikningum. Stuttu síðar fóru nemendur að nota Átokad til að teikna gervi- handgerðar tækniteikningar, og öll orrustan fuðraði upp í ekkert.
    Ég held að sköpun bygginga sé eitthvað sem er bæði hluti af tækniframfarasinnuðum iðnaði, sem er einnig nógu breiður til að bjóða sumum tækifæri til að starfa bæði á frumstæðari hátt ef þeir vilja eða í tilrauna enda hátækniaðferða. báðir þessir endar á skalanum eru þó, og verða ávalt smáir og sérstæðir.

  • Hárréttar ábendingar og athuganir. Þróun þessarra viðskiptahamla hefur verið í þróun í nokkur ár. Áður fyrr nægði að raflagnateikningar væru réttar og samkvæmt reglugerð og stöðlum, núna verður sá sem skrifar undir rafmagnsteikningu að vera með sérstakt hönnunarpróf. Lobbýistarnir á stóru stofunum eru á fullu að véla embættis- og stjórnmálamenn. Áður gátu einstaklingar komið yfir sig húsi þrátt fyrir að vera ekki á ofurlaunum, þetta gerðu þeir með því að leggja mikla eigin vinnu í húsið sitt og í kaupbæti fengu þeir mikla ánægju og reynslu út úr slíkum gjörningum, Núna kemst enginn í húsnæði nema að borga mikið yfirverð vegna allra þessarra hafta og skriffinsku og sem kosta formúga.

  • Þorsteinn

    Opinberar stofnanir hafa tilhneigingu til þess að taka sér vald og vera skipandi í stað þess að vera leiðbeinandi og gefa fólki frelsi til að athafna sig í sínu fagi. Við verðum líka að varast að framleiðendur ýmissa kerfa taki völdin. Hér í Danmörku er sagt að helstu talsmenn Revitt og BIM séu vanhæfir opinberir starfsmenn sem halda að kerfin ræddi þeim og ábyrgðin dreifist. Ekki eru husbyggjendur, fjárfestar eða hönnuðir sem eru að biðja um þetta og vissulega er þetta (bull) íþyngjandi fyrir unga hönnuði og lítil fyritæki í verktöku og hönnun.

    Er þetta kannski víðar svona?

  • Dr. Samúel Jónsson

    Traust skapar traust, að treysta.
    Traust verður aldrei öðrum fyrirskipað.

    Traust kemur til vegna uppsafnaðrar reynslu
    um að treysta megi viðkomandi og í því samspili

    myndast gagnkvæmni sem leiðir til virðingar milli viðkomandi aðila.

    Meginþorri þjóðarinnar vantreystir stjórnsýslunni.
    Stjórnsýslan ávinnur sér ekki traust með fyrirskipunum.

    Henni væri betra að ástunda lítillæti og hógværð
    og líta fyrst í eigin rann og bæta hegðun sína.

  • Það hafa verið byggð allt of mikið af óvönduðum húsum, sérstaklega rétt fyrir hrun. Gott dæmi 101 Skuggi sem kallast 101 Fúsk. Verst þegar fornarlömb fúskara þurfa að standa í málaferlum og einnig er algengt að fúskarar skipta um kennitölu. Vonandi mun reglugerðin bæta ásandið.

  • Stefán Benediktsson

    Við áttum aldrei að hætta að nota túss og penna. Það byrjaði með reglustikunni og virðing okkar er að engu orðin eftir að við urðum lyklaborðsþrælar og hrekjumst nú undan framfarakjaftæðisvindi.

    Standa menn ekki hér frammi fyrir sama hamri og alltaf er komið að, við breytingar. Kostnaðurinn er í byrjun óyfirstíganlegur en lækkar svo hratt þegar af staða er farið. Eigin starfsreglur eru góðar og auka eigin siðgæðisvitund en þær eru öllum öðrum lokuð bók og því ekki sannprófanlegar.

    • Stefán mikið óskaplega hlýtur þú að þjást yfir því að bréfdúfur töpuðu fyrir morse stafrófinu því þessi færsla þín virkar þannig á mann.

      Byggingar dagsins eru einfaldlega of flóknar til að vinna þær í höndunum.

    • Stefán Benediktsson

      Þetta var nú bara smá tilraun til fyndni Magnús. En fullyrðing þín um að byggingar séu of flóknar orðnar til að hægt sé að handteikna þær er algerlega úr lausu lofti gripinn og bendi ég bara á kirkjur miðalda og endurreisnsrtímans, en flóknari byggingu en t.d. Kölnardómkirkju tel ég varla til.

    • Hilmar Þór

      Mikið er ég sammála Stefáni og bæti því við að það flóknasta sem verður á vegi manns er skapandi þáttur ferilsins þar sem tölvan skiptir litlu máli. Í framhaldinu þar sem unnið er að verk teikningum, samræmingu, magntöku, verklýsingu, útfærslum, gæðastjórnun og framkvæmd eru tölvur og tölvuvinnan sjálf flóknust og flækjustigið er mest einmitt þar

    • Þannig að vandamálið er hversu tölvu-heftir þið eruð og forhertir afturhaldssinnar? Það er fleira flókið en útlitið t.d. er það yfirleitt sá tæknibúnaður sem fer í húsinn sem veldur mestum heilabrotum…

      Er ekki bara komin tími til að parkera ykkur tveimur eða heilsa nútímanum?

    • Hilmar Þór

      Jæja Magnús, málefnalegir ertu. Ég vil gjarna ræða þetta við þig en þá þarf èg fyrst að vita hver þú ert og hver þinn bakgrunnur er. En hitt veit ég að ég er ekki „tölvuheftur“ og ég veit líka að á teiknistofunum fer oft fram meiri umræða um tölvuvandamál, forrit, fonta, liti og línuþykktir en grundvallaratriði bygginga listarinnar.

    • Halldóra Árnadóttir

      Spennandi verður að fá að fylgjast með þessu samtali sem Magnús á eftir að hleypa af stokkunum með því að kynna sig.

      Ég vil vitna í skáldið og segja „nútíminn er trunta“ sem ekki alltaf er til bóta.

      Bíð spennt

  • Pétur Örn Björnsson

    Þjónar þessi nýja byggingarreglugerð almenningi?

    Varla, því með henni hækkar byggingarkostnaður um allt að 15-20%.

    „þessi reglugerð þjónar stóru verktökunum, stóru verkfræðistofunum og stóru arkitektastofunum og ekki síður embættismönnum og eftilitskerfinu“

    og vitaskuld einnig uppreistu fjármálafyrirtækjunum sem eiga nú byggingarvörusölurnar og bólgna nú út af ímynduðum hagnaði.

    Hér varð hrun … og vitaskuld er þá það fyrsta sem búrakrötum allra flokka dettur í hug að skjóta spörfugla með fallbyssum og rukka svo almenning alla þá „gæðastjórnun“ … svona alveg sérstaka útgáfu af fallbyssuskatti.

    • Pétur Örn Björnsson

      Hér varð hrun … og vitaskuld er þá það fyrsta sem búrakrötum allra flokka dettur í hug að skjóta spörfugla með fallbyssum og rukka svo almenning fyrir alla þeirra skinhelgu „gæðastjórnun“ … svona alveg sérstaka útgáfu af fallbyssuskatti fyrir að losa almenning við einyrkjahræin.

  • Smá um BIM:

    Þetta mál er ekkert nýtt af nálinni, hefur verið að ganga yfir önnur Evrópulönd síðustu árin í mismunandi mynd. Tek það fram að það hefur ekkert með Evrópusambandið að gera. Finnland var í fararbroddi, en þar var farið að krefjast BIM skjala fyrir nokkrum árum við byggingaleifisumsóknir. Nýjar reglur í Bretlandi krefjast BIM í öllum opinberum verkum. Gæðastýring er síðan gerð í gegnum BIM skjölin. Það þarf kannski að útskýra hvað BIM er.

    BIM stendur fyrir Building Information Modeling, en þetta stendur fyrir forrit sem ganga næsta skref í þróun teikniforrita fyrir byggingariðnaðinn. Flestir kannast við CAD teikni forrit, sem virka á svipaðan hátt og handgerðar teikningar, en gerðar í tölvu. CAD stendur fyrir Computer Aided Design (en innan tölvuhönnunar oft kallað Drafting). CAD skjal er tölvugerð teikning. Talvan gerir mönnum auðvelt að breyta hlutum, og endurtaka teikningarhluta hratt og nákvæmlega. Uppgerð CAD eru punktar, línur og yfirborðshlutir í Kartesísku hnitakerfi X,Y og Z. Allar teikningar eru í raun XYZ hnit og upplýsingar um hvað gerist þar á milli. Efni og notkun hluta í CAD teikningum er brotið niður í litum og hópum hluta, en í raun er engin munur á línu sem sýnir steinsteypu eða línu sem sínir stól.
    Það er hægt að mæla stærðir í CAD teikningum.

    BIM er svolítið annað. BIM er ekki teikniforrit sem slíkt, heldur er í forritinu búið til módel af mannvirkinu sem verið er að hanna. Hlutir módelsins, t.d. veggir, gólf eða gluggar eru ekki línur, heldur skilgreindir efnishlutar. Veggur er uppbyggður með efnum af mismunandi þykt og hver efni hefur sína náttúrulega hæfileika sem skilgreindir eru í forritinu. BIM fellur einnig undir breyða skilgreiningu á „parametric“ forritum. Það eru hönnunarforrit þar sem mismunandi hlutar eru tengdir saman með „hegðunarböndum“. T.d. ef teikna á hurð í vegg, þá er hurð valin, og hún sett í vegginn sem sjálfvirkt teiknar tengingu þessa hluta. Hönnuðir gera stjórnað þeim reglum sem þessi sjálfvirkni fer eftir.
    í hönnunarteimum nota allir sama módelið, þannig að arkitektinn, lagnahönnuður, landslagshönnuður og verkfræðingur eru allir að vinna mjög samhliða. Mismunandi forrit geta sjárkvrafa lýst upp vandamálum í módelinu þar sem eitt teimi hefur áhrif á annat. T.d. ef lagnahönnuður hefur sett pípu í gegnum burðarvirki.
    Það er óteljandi hlutir sem þessi forrit geta gert, og þau eru misjöfn. Eitt mikilvægt atriði er að útreikningar á magni, kostnaði, orkunotkukn ofl eru sjálfvirk og flest mjög góð. Þetta gefur opinberum aðilum og notendum mjög sterkt og auðvelt tól til að nota í sínum útreikningum. Módelin lækka einnig líkurnar á óvæntum hönnunarhlutum fyrir opinbera aðila.
    Það eru óteljandi ástæður fyrir af hverju BIM er sterkt tól fyrir opinbera aðila og notendur, og því nokkuð augljóst af hverju BIM mun á næstu árum verða standard krafa. En hvað með okkur arkitektana sem þurfa að nota þetta.

    Sjálfur er ég arkitekt með sérþekkingu í tölvunarhönnun (Computational Design) og nota reglulega mun flóknari forrit í daglegu starfi. BIM eru mjög einföld, og jafnvel einfeldingsleg forrit, og það er margt sem ekki er hægt að gera með þau. Sérstaklega þegar farið er út í flóknar geómetríur. En þetta hefur lítil áhrif á 99% arkitektúrs í heiminum, og er því lítið mál.
    Eitt versta vandamálið er kostnaðurinn. BIM forrit, og þar er Revit frá Autodesk í fararbroddi eru mjög dýr forrit, og hefur hingað til verið mjög stór biti fyrir lítil fyrirtæki. Revit og Archicad hafa verið dóminerandi á markaðnum hingað til, en ég sé að þett er eitthvað að breytast, og það eru smærri og ódýrari forrit að koma út. En gæðin eru misjöfn. Annar kostnaður er að menn þurfa að fá þjálfun á þessi forrit. Af reynslu verð ég að segja að það er ekki hægt að setja óþjálfað fólk í teiknistólinn. Með notkun á sama módelinu, getur einn einstaklingur gert ein mistök sem síðan eyða margra daga vinnu.

    En það eru þó einnig pósitífir hlutir. BIM eru mjög öflug forrit, og í raun gefa þau smáum fyrirtækjum sterka stöðu gegn stórum fyrirtækjum. Sérstaklega þegar öll hönnunarteimin vinna saman. Ég rek litla stofu í Lundúnum og er með tvær meðal stórar byggingar á byggingarstað í Tyrklandi. Önnur var teiknuð í CAD og hin í BIM. Þetta var fyrsta byggingin þar sem við notuðum BIM og það kom fljótt í ljós hve miklir styrkir eru í forritinu.

  • Jón Gunnarsson

    Mannvirkjastofnun er að standa sig vel við að auka gæði í byggingum.

  • Off topic

    Er þetta Harpa eða Hörpulíki?

    https://www.arkitekt.se/arkitekturgalan/

  • Ungur og feiminn

    Ekki „hægileikaríku“ heldur „hæfileikaríku“ fólki…fyrirgefið.

    Það er ekki hægt að leiðrétta færslur hér

  • Hilmar Þór

    Þetta er rætt á facebook þar sem spurt er hversu mikið fyrirtæki það er að fá slíka vottun og hversu umfangsmikið gæðakerfi er um að ræða? Hvort þetta sé mikið mál?

    Mjög góð hugleiðing sem hefði þurft að reyfa í pistlinum.

    Við þessu er það að segja að það eru allir (sem ég þekki) með gæðakerfi sem hentar starfseminni. Þau gæðakerfi eru stundum ekki einusinni skjalfest.

    Ef þeir sem reka fyrirækin og viðskiptavinir þeirra eru sáttir við það fyrirkomulag, af hverju þarf þá að blanda einhverjum vottunarstofum í það?

    Er ekki nægjanlegt er að Mannvirkjastofnun gefi út leiðbeiningar í stað þes að vera beinlínis skipandi yfirvald. Minnastakosti að svo stöddu.

    • Ungur og feiminn

      „Ef þeir sem reka fyrirækin og viðskiptavinir þeirra eru sáttir við það fyrirkomulag, af hverju þarf þá að blanda einhverjum vottunarstofum í það?“

      Og svarið er: Að halda spræku ungu, hægileikaríku fólki frá kökunni!

  • Jónas Gunnarsson

    Það er augljóst að gera þarf sömu kröfur til lítilla og stórra fyritækja. Stórra og lítilla ráðgjafafyritækja og stórra og lítilla verktatafyritækja og iðnmeistara.

    Sama gildir um fyrirtæki unga fólksins og sprotafyritækja í byggingariðnaði.

    Af þessu má draga þá álygtunað kröfur Mannvirkjastofnunnar ganga gegn nýsköpun og nýliðun á hennar sviði. Og ekki bara það, heldur bolar reglugerðin gömlum litlun fyritækjum og einyrkjum út af markaðnum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn