Fimmtudagur 24.07.2014 - 10:37 - 28 ummæli

Matvöruverslanir aftur inn í íbúðahverfin

slides-myndir0821lett

 

Í nýju aðalskipulagi Reykjavíkur er stefnt að vistvænni borg með minni bifreiðaumferð, betri þjónustu í íbúðahverfunum og meira mannlífi milli húsanna og á götunum.

Þetta eru allt góð markmið sem flestir ættu að geta sæst um.

Til þess að ná þessum markmiðum eru margar leiðir. Ein sú miklvægasta er að flytja matvöruverlanir aftur inn í íbúðahverfin.

Efst í færslunni er mynd af verslununum við Dunhaga tekin úr efstu hæð í símamannablokkinni við Dunhaga

Sennilega er myndin tekin 1960-62. Göturnar enn ómalbikaðar og engar eru gangstéttirnar. Öll sjónvarpsloftnetin vísa til herstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli.  Í verslunarkjarnanum við Dunhaga var mjólkurbúð, hannyrðaverslunin PERLON, fiskbúð (Dóra fisksala), matvöruverslun KRON og að mig minnir skósmiður. Handan Dunhagans voru 2-3 búðir; bókabúð og hárgreiðslustofa sem er þarna ennþá og ein til viðbótar.

Skammt frá, við Fálkagötu var Stebbabúð og svo Ragnarsbúð á horni Suðurgötu og Fálkagötu, Bakaríið var og er um miðja Fálkagötu og Árnabúð á horninu á móti. Svo var ekki langt í verslunarkjarnann við Hjarðarhaga (Hagabúð) og Melabúðina sem er enn á sínum stað og fjölda annarra verslana í hverfinu.

Eins og höfundar upphaflegs skipulags gerðu ráð fyrir var allt við hendina, bæði dagvöruverslanir og skólar. Þarna var auðvelt að búa án þess að hafa einkabíl til umráða. Mikið líf var á götunum og allt í göngufæri.

En í tímans rás misstu menn einhvern vegin tök á skipulagi verslunar í hverfinu og dagvöruverslanirnar lokuðu hver af annarri eftir að verslunarstarfssemin var flutt að mestu út á hafnarsvæðin við Granda. En eins og allir vita er matvöruverslu ekki hafnsækin starfssemi.

Þegar ég segi að menn misstu tök á skipulaginu á ég við að þeir sem véluðu um skipulagsmál á þeim tíma sem heimilað var að reka matvörubúðir og „nærþjónustu“ á hafnar- og iðnaðarsvæðum hafa sennilega ekki skilið samhengi hluttanna eða verið truflaðir af tíðarandanum. Ekki skilið að allt þarf að skipuleggja og allt er háð skipulagi og allar skipulagsákvarðanir hafa afleiðingar. Þetta á við skipulag gatna, lóða og skipulag verslunar. Þessi breyting á verslunarháttum og flutningu matvöruverslunnar út úr íbúðahverfunum varð ekki til vegna óska þeirra sem versluðu.

Það voru stóru verslunarkeðjurnar sem sáu þarna viðskiptatækifæri og útbjuggu matvöruverslanir í skemmum á hafnarsvæðinu við Granda með velþóknun skipulagsyfirvalda. Varan varð ódýrari og viðskiptavinirnir töldu hagstætt að versla þar þó að um langan veg væri að fara.

Vissulega var vöruverðið lægra en kostnaður einstaklinganna við að nágast vöruna stórjókst og kostnaður sveitarfélagsins vegna gatnagerðar og viðhalds gatna varð meir en að óbreyttu. Mengun varð meiri og slysahætta jókst.

Grundvöllur verlanareksturs inni í íbúðahverfunum brast og fullkomið verslunarhúsnæði stóð tómt  í íbúðahverfunum þar sem neytandinn bjó. Þessu húsnæði var oft breytt í skrifstofur eða afspyrnulélegt íbúðahúsnæði.

Með því að leyfa verslanir utan íbúðahverfa í skemmum á hafnar- og iðnaðrvæðum misstu menn tök á skipulaginu. Sáu sennilega afleiðngarnar ekki fyrir . Upphaflegt þaulhugsað skipulag t.a.m. á Melum og Högum brast. Það virtist sem forkólfar skipulagsmála hafi farið að skipuleggja fyrir og með hagsmuni stórmarkaðanna í stað þess að skipuleggja fyrir fólkið og neytandann og bæta hverfið sem var fyrir. Þetta gerðist þrátt fyrir að samkvæmt tölfræðinni var umframframboð á verslunarhúsnæði í borginni.

Nú er í aðalskipulagi Reykjavíkur AR2010-2030  gerð tilraun til þess að snúa þessu við. Góðu heilli. Styrkja hverfisheildir og færa þjónustuna nær neytandanum og auka þar með gæði og mannlíf hverfanna.  Hverfaskipulag sem unnið var að í vetur er stór liður í þessu ferli.

Þótt ótrúlegt kunni að virðast heyri ég á kollegum mínum að þeir trúi ekki á þessa þróun. Þeir trúa ekki á meginmarkmið aðalskipulagsins.

Þeir halda að ekki sé hægt að snúa þessu óheillaferli við.  Hafa gefist umm eða skilja þetta ekki. Þarna er jafnvel um að ræða arkitekta sem eru stórtækir í ráðgjöf í skipulagsmálum borgarinnar.

Auðvitað kanna að vera að menn vilji ekki snúa þessu við og vilja halda áfram að aka 2-6 km til þess að sækja sér mjólk út í kaffið. Vera lausir við að mæta nágrönnum sínum á gangstéttinni o.s.frv.

En vilji maður snúa þessu við þá er það kannski ekki auðvelt en vel hægt.

Ég nefni eitt atriði sem tengist umræðunni um að leyfa sölu léttvíns í matvörubúðum. Ef krafan yrði að léttvín yrði ekki selt í verslunum yfir einhverri lágmarksstærð, segjum 200-300 m2, og alls ekki í stórmörkuðum utan íbúðahverfa mun hagur kaupmannsins á horninu vænkast. Hann mun fá nýtt tækifæri.

En það mikilvægasta er að átta sig á að skipulag hefur áhrif og afleiðingar og það þarf að, stjórna skipulaginu með almannahagsmuni í huga. Sennilega sáu þeir sem um þetta verslunarskipulag véluðu á sínum tíma ekki fyrir afleiðingarnar af því að flytja matvöruverslun út úr íbúðahverfunum og þess vegna má segja að þeir misstu tökin á matvöruverlunarskipulaginu í borginni.

+++

Sjá einni umfjöllun og umræður um efnið á eftirfarandi slóð:

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/10/10/hafnarsvaedi-steinn-i-gotu-skipulagsstefnu/

Og um léttvínssölu í matvöruverslunum hér:

http://blog.dv.is/arkitektur/2014/03/22/lettvin-i-matvoruverslanir-til-kaupmannsins-a-horninu/

 

untitledbonus

Mikið framboð er af matvöruverlunum á hafnarsvæðunum sem dró úr samkeppnishæfni kaupmannsins á horninu. Þessi skipulagsákvörðun jók bifreiðaumferð og ferðakostnað heimilanna auk þess em mannlíf á götunum dróst saman og hverfiskjarnar og grenndarsamkennd íbúanna minnkaði.

photoccc

Nú eru skrifstofur í hverfiskjarnanum við Dunhaga þar sem áður var fjöldi verlana í rúmgóðu sérhönnuðu húsnæði

photodddd

Handan hverfiskjarnans sérhannaða við Dunhaga voru 2-3 verslanir sem hefur verið breytt í íbúðarhúsnæði. Hárgreiðslustofan er þarna enn.

photoaa

Á horni Suðurgötu og Fálkagötu var Ragnarsbúð sem var ágæt matvöruverslun hins frjálsa kaupmanns. Kaupmaðurinn bjó á efri hæð hússins.

 

photobalari

Um miðja Fálkagötu er nú Björnsbakarí og á horninu á móti (sjá mynd að neðan) var Árnabúð sem lagðist af fyrir allmörgum árum. Þar er nú íbúðarhúsnæði.

photobbb

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (28)

  • Af hverju eru arkitektar svona fyrirferðalitlir í umræðunni um þetta mál. Eru þeir kannski upp til hópa á móti skipulaginu eða of háðir hagsmunaaðlilum til þess að geta verið faglegir?

  • Ég ætla bara að vona að AR2010-2030 verði til þess að líf færist aftur í íbúðahverfin þannig að það sjáist fólk á götunum annarsstaðar en í 101,

    Hér er mikið hagsmunamál á ferðini og liður í því að jafna íbúðaverð í borginni.

    Hvernig geta menn verið svo steinrunnir og þröngsýnir að sjá þetta ekki? Og vilja ekki einusinni gefa þessu tækifæri?

    Og að lokum spyr ég; Hvaða arkitektar, „stórtækir í ráðgjöf um skipulagsmál“ eru það sem vilja ekki skilja þessi háleitu og skynsamlegu markmið? Þeir eiga að finna sér annað starf.

    • Magnús Birgisson

      Það er hinn mesti misskilningur að það sé ekki „líf“ í íbúðarhverfunum. Eini munurinn á 101 og íbúðarhverfunum að þessu leiti er að það eru ekki ferðamenn í íbúðarhverfunum og því ekki sú þjónusta til staðar sem þeir þurfa á að halda.

      Sem er gott…

  • Ömurlegt þegar innlegg fá ekki að vera í friði. Til hvers að skifa ef þetta er svona.

    • Hilmar Þór

      Ég átta mig ekki á hvað þú átt við Magnús. Öll innlegg fá fullkominn frið hér. Undantekningar hafa verið þagar menn koma með persónuleg ónot í garð fólks en það er afarsjaldgæft og hefur ekki gerst í marga mánuði.

  • Stefán Benediktsson

    Takk Hilmar fyrir að endast til að halda þessu fundartorgi aðgengilegu. Ég undrast fjölda úrtölumanna og megna vantrú á að hægt sé að hafa áhrif á þróun umferðar og verslunar.

    Það má nefna fjölda dæma um borgir og sveitarfélög annarra landa sem hafa náð árangri í þessum efnum og bætt lýðheilsu með því að stýra innkaupa- og neysluvenjum fólks og áður en menn fara að tala um kommúnisma má benda á að neysluvenjum og umferð er stýrt í dag af skipulagi sem enginn kaus um.

    Síðustu borgarstjórnarkosningar eru fyrstu kosningar sem haldnar eru í meira en hálfa öld, þar sem Aðalskipulag og markmið þess lágu skýr fyrir, voru rædd og samþykkt að því leiti að þeir frambjóðendur sem studdu markmið skipulagsins fengu meirihluta atkvæða alls 10 fulltrúar af 15. Gagnrýni á markmiðin og framkvæmd þeirra verður að byggja á einhverju öðru en fullyrðingum. Gagnrýni er sjálfsögð en verður að styðjast við rökstuðning byggðan á reynslu og halda sig frá því að væna sérfræðinga um heimsku og vankunnáttu. Það er td órökrétt og óhugsandi að allir stjórnmálamenn og opinberir starfsmenn séu vitleysingar, er það ekki?

  • Takk fyrir þessa færslu Hilmar.

    Hér er áhugaverð umræða í gangi og að venju eru markaðssjónarmiðin ofarlega í huga þeirra sem hér tjá sig. Það er einnig áhugavert að sjá hugleiðingar/fullyrðingar um möguleg umhverfisáhrif þess að styrkja nærþjónustu í hverfum borgarinnar. Ég hef fjallað talsvert um þessi mál á eigin vefsíðu og þá einkum í tengslum við versnandi lýðheilsu þjóðarinnar og þann gríðarlega kostnað sem fylgir offitu í nútímasamfélögum. Ég bendi áhugasömum á eftirfarandi greinar og hvet jafnframt alla sem hér leggja orð í belg að hugsa um þessa hluti í eins víðu samhengi og kostur er. Þessi umræða kann að virðast léttvæg en í raun er um grafalvarlega hluti að ræða þar sem skammtímasjónarmið mega alls ekki ráða för.

    http://gudmkri.is/samhengi-hlutanna
    http://gudmkri.is/asbest-samtimans

  • Heimir H. Karlsson

    Sæl Öllsömul.

    Áhugaverður pistill.

    Mér finnst alltaf gaman að sjá gamlar myndir af lífi liðinna tíma, og heyra sögu liðins tíma.
    Takk fyrir þær.
    Mikilvægt að viðhalda sögunni, og geta lært af henni.
    Lærdómsríkt að velta fyrir sér þróun, hvers vegna hlutir voru eins og þeir voru, og hver vegna þeir eru eins og þeir eru í dag.
    Til þess þurfum við að þekkja sögu okkar.

    Mjög athyglisverðar hugmyndir, þetta með þjónustu í nærumhverfi okkar.

    Hvað fær okkur til að velja hvar við verslum ?
    Hvers vegna verslum við á einum stað umfram annan ?
    Viljum við búa nálægt verlsun og þjónustu, og þá hvers konar verslun og þjónustu ?

    Hvað er góð verslun ?
    Vöruverð ? Þjónusta?
    Er til sú vara sem við sækjumst eftir ?
    Skiptir aðgengi að, og umhverfi við verslun máli ?
    Athugið, að aðgengi eru fjölmargir þættir.
    Bílastæði, hjóla- og göngustígar, ( er verlsun í göngu- eða góðu hjólafæri ) Stigar eða lyftur, lýsing utandyra og innan, hálkuvörn, hávaði eða annað óþægilegt áreiti inni í eða við verslun.

    Er búseta nálægt þjónustu og verslun breytileg eftir aldri og fjölskyldusamsetningu ?

    Hverfisverslun, þarf hún ekki að bjóða eitthvað umfram stórvörumarkað, til að vera samkeppnishæf ?
    Og stórmarakður, hann þarf líka að bjóða eitthvað, sem hverfisverlsunin hefur ekki, svo einhver vilji versla þar.

    Opnunartími verslanna er hluti af þjónstu.
    Einu sinni var það háð mjög ströngum lögum, hvað mátti selja, á hvaða tíma, og hvar.
    Man einhver eftir lítilli verslun, sem átti sitt blómatímabil, á bæjarmörkum Reykjavíkur og Seltjarnarness ? 🙂

    Í dag er verlsunatími frjáls, að mestu, og ég býst ekki við því, að fólk vili hverfa aftur til fyrri tíma.

    Hver skyns neyslustýring, að neyða fólk til að eiga einhver ákveðin viðskipti, hefur aldrei gefist vel.
    Hvergi í sögunni hefur slíkt hlotið almennar vinsældir.
    Minnst er á sjónvarpsloftnet í upphafsgrein hér að framan.

    Mér dettur í hug Austur þýskaland.
    Man einhver hér eftir því ?
    Hvert sneru flest öll sjónvarpsloftnet þar ? Af hverju ?
    Hvaða vörur voru seldar í búðum þar ?
    Hvernig búðum ?
    Hvað gerðist svo, þegar fólk fékk að velja, á milli búða í Austur-þýskalandi og Vestur Þýskalandi ?
    Og hvers vegna ?

    Það er hægt að koma með allskonar hugmyndir, gera allskonar skipulag, jafnvel þvinga fólk til að lifa, versla og lifa á ákveðin hátt.
    Slíkt hefur hvergi gengið farsællega til lengdar.

    Verslun og þjónusta virðist mér snúast um tvennt í dag.
    Hvað fólk vill og hvað hægt er að koma fólki í trú um að það vilji eða vanti.
    Verlsun og þjónusta snýst ekki um að taka það af fólki sem það hefur eða vill hafa.

    Sumir vilja hafa stórmarkaði, geta keypt meira en þeir geta borið.
    Slíkt er örugglega hagur verslunarinnar.
    Það er hugsunin á bak við innkaupakörfu á hjólum í stórmarkaði, og næg bílastæði við stórmarkað. Að fólk geti keypt meira en það getur borið.
    Til er kenning, sem segir, að þeir sem koma gangandi eða hjólandi, og geti minna borið, komi oftar (eðlilega) í verlsunina, og…. kaupi þá frekar meiri óþarfa, versli því í heild meira.

    Ef fólk er svona hrifið af hverfiskaupmönnum, af hverju eru þá ekki fleiri slíkir ?
    Af hverju fækkaði þeim,hver er raunveruleg átæða ?
    Og hvaða sérstöðu hafa þeir hverfiskaupmenn, sem þó eru til í dag ?

    Varðandi vistvænni borg, þá leyfi ég mér að draga í efa vistvernd þess, að fjölga litlum verslunum í íbúðahverfum.
    Það þarf að flytja vörur til þessara hverfisverslanna.
    3 öxla flutningabíll er 14 tonn, tómur.
    Hægt að fá upplýsingar um þessa þyngd hjá bifreiðaumboðum eða verkstæðum. þyngd einnig skráð í skírteini ökutækis.
    Svo bætist við varan sem bíllinn flytur.
    Fleiri litlar verslanir þýða fleiri þunga flutingabíla á ferðinni…. inni í íbúðarhverfunum.
    Til viðbótar við þá bílaumferð sem er þar þegar.
    Það þýðir meir mengun, í íbúðarhverfum.
    Flutningabílar geta illa notað aðrar vélar en brunahreyfla, vegna eigin þyngdar, þannig að þeir verða seint rafbílar.
    Nema til komi framfarir í þéttum eða öðrum orkugeymslum.
    Aukin umferð, stærri ökutækja í þéttbýlum íbúðahverfum getur varla talist vistvæn.

    Alltaf áhugavert að lesa greinar um skipulag og arkitektúr.
    Fróðlegar greinar og lærdómsríkar.

    Kveðja,

    Heimir H. Karlsson.

  • Steinarr Kr.

    Bílastæðin við Melabúðina kosta líka fé. Á háannatíma verða umferðartafir, þar vegna þessara stæða þau kosta líka. Efast um að stöðumælar inni á einkalóðum myndu einhverju breyta.

  • Magnús Birgisson

    Þetta er alveg voðalega gildishlaðinn og fullyrðingaglaður pistill og forsendurnar standast varla nokkra skoðun.

    Aukin verslun inní hverfin EYKUR umferð, slysahættu og mengun. Af einhverjum ástæðum sjá menn fyrir sér fólk labba í hægðum sér eða hjóla eftir mjólkurpottinum en staðreyndin er sú að fólk hefur kosið með framdekkjunum og verslar í stórmörkuðum vegna vöruverðs, vöruúrvals og vegna þæginda. Það er akkúrat engin sveifla í aðra átt nema í átt að meiri netverslun. Það hjálpar „kaupmanninum á horninu“ ekki neitt enda alveg eins hægt að tala um „okrarann á horninu“. Þróunin hér á landi virðist vera í átt að minni verslunarcentrum í útjaðri hverfa með góðum tengingum við stofnbrautir.

    Flestir svara já við aukinni þjónustu inní hverfum en nei við umferð í íbúahverfum og nei við háu vöruverði. Svarið ætti því að vera að auka þá þjónustu sem þörf er á í nærumhverfi en láta annað þróast einsog vill.

    Margir sem tjá sig um skipulagsmál tala niður til úthverfa og tala um „svefnhverfi“. Fátt á eins illa við því hverfin sem fólk velur sér til að heyja lífsbaráttuna, sinna sínu fjöldskyldulífi og ala upp börnin sín eru allt annað en „svefnhverfi“. Þau iða af lífi…allan daginn…7 daga vikunnar…365 daga ársins. Sú þjónusta sem þörf er á í úthverfum og myndi raunverulega ná fram markmiðum um aukna þjónustu og minni notkun bifreiða tengist skólum, tómstundastarfi, heilsugæslu, hreyfingu, öryggi, umhverfisvernd, útivist…osfrv…osfrv.

    Horfum yfir ástandið í Reykjavík og veltum fyrir okkur forgangsröðun borgaryfirvalda undanfarin ár. Það er verið að loka skólum í úthverfum til að spara örfáar milljónir. Börn eru keyrð um langar vegalengdir til stunda íþróttastarf eða komast í tónlistarskóla. Börn eru keyrð í önnur sveitarfélög til að komast í skólasund. Skólastarf er sumstaðar stundað í skúrum sem eru fullir af raka og myglu. Stór hverfi eru án heilsugæslu eða heilsuræktaraðstöðu og það vantar 60 heilsugæslulækna til starfa í Rvk. Bókasafn hefur ekki verið byggt eða stofnsett í Reykjavík síðan…tja…guð má vita hvenær. Mörg hverfi eru án félagsaðstöðu fyrir börn og unglinga eða hún rekin við ófullnægjandi aðstæður, gjarnan í leiguhúsnæði. Það eru fleiri stöðumælaverðir í 101 en lögreglumenn í úthverfum (give or take…) og já…ég þekki vel hlutverkaskipti ríkis og og sveitarfélaga. Græn svæði eru vernduð nær miðbænum í aðalskipulaginu en þeim fórnað í úthverfum. Osfrv…osfrv…

    Að hafa verslun í nærumhverfi er hið besta mál fyrir þá sem fyrir það vilja greiða. En ef það væri raunverulegur vilji til að gera hverfin sjálfbær og minnka umferð þá eru aðrir þættir sem eru mikli nærtækari og skjótvirkari. En það þýðir að taka þarf kíkirinn af blinda aukanu og það mun ekki eiga sér stað í bráð…

  • Steinarr Kr.

    Í Sörlaskjóli voru amk. tvær búðir hér áður fyrr. Ekki myndi ég vilja sjá vörubílana sem notaðir eru til að koma aðföngum í búðir í dag í þessari þröngu götu.

    Það er líka ömurlegt að lesa hugmyndir um neyslustýringu eins og að rukka í bílastæði stórmarkaða, bara af því að einhverjum er illa við þróunina. Hvaða forræðishyggja verður þá næst?

    • Merkilegt hvað fólk horfir fram hjá því að bílastæði kosta fé. Þú greiðir fyrir þau í hærri álagningu á vöruna. Álagningu sem leggst líka ofan á vöruna hjá þeim sem koma gangandi, hjólandi eða í strætó. M.ö.o. þeir greiða óbeint niður vöruna fyrir þann sem kemur akandi í einkabíl.

      Við val á samgöngumáta þarf kerfið að vera þannig að hver samgöngumáti njóti sannmælis hvað varðar verðlagningu. Ef svo væri myndi hverfisverslunin betur njóta sín.

  • Helga Jónsdóttir

    Ég held að þetta með aukna vinnu kvenna utan heimilis skipti miklu í þessu sambandi. Hver má vera að því eftir langan vinnudag að þælast gangandi milli margra verlsana í hverfinu? Víst er ágætis úrval í Melabúðinni en hún er þröng og leiðinleg að fara um hana, og hún er hrikalega dýr. Ég hef aldrei fundið fyrir þessari ánægju sem sumir virðast finna fyrir við að sýna sig öðrum í Melabúðinni. Hver er ánægjan af því að kaupa t.d. hveiti á 400 kr, sem kostar 200 í Bónus eða Krónunni, eða lambakjöt, nákvæmlega jafngott, á 5000 sem kostar tæp 4000 í hinum búðunum? Ég fæ satt að segja ekki mikið út úr því. Eða verslun yfirleitt.

    • Orri Ólafur Magnússon

      Sammála Helgu ; “ „fæ satt að segja ekki mikið út úr því. Eða verslun yfirleitt“ Kaup á matvöru er fyrir mig ill nauðsyn – reyni að ljúka því af á sem allra skemmstum tíma og með hámarks hagræðingu. Bónus & Co. eru hagkvæm lausn á þessum vanda. Stebbi bendir auk þess réttilega á það að á sjötta áratug fyrri aldar hafi fáir átt bíl og þess vegna bókstaflega verið bundnir við næsta nágrenni sitt. Þessari þróun, bílismanum & stórmörkuðum, verður ekki við snúið með rómantískum hugmyndum um nágrannavæn hverfi á teikniborði skipulagsfræðinga og arkítekta. Í miðborgum Evrópu ( Þýskalandi ) er heldur engar matvöruverslanir að finna – þær eru allar komnar í úthverfin. Reyndar er ástandið í miðbæ Reykjavíkur einstaklega ömurlegt og fábreytt ; ekkert að sjá nema kaffihús, pizzustaðir og gistihús.

    • Hilmar Þór

      Auðvitað leggur fólk misjafnt mat á lífsins gæði. Í mínum vinahópi er matur meginmál.

      Máltíðin er skemmtilegt ferli sem notið er frá upphafi til enda. Þetta er hin besta skemmtun og líka tómstundagaman.

      Máltíðin hefst þegar hún er skipulögð. Síðan koma innkaupin sem stundum er hápunktur ferlisins. Máltíðin er um það bil hálfnuð þegar sest er að borðum.

      Matarinnkaup er ekki „ill nauðsyn“ heldur hin besta skemmtun hvort sem litið er á þau sem upphaf máltíðar eða sem félagsleg samskipti við kaupmann eða aðra viðskiptavini.

      Og svo þessi sífelldi misskilningur. Hér er ekki verið að tala um einhverjar rómantískar hugmyndir á teikniborðum arkitekta og matvöruverslun í miðborgum. Í aðalskipulaginu er verið að tala um að færa matvöruverslunina inn í íbúðahvefin og gera matvöru aðgengilegri fyrir íbána. Líka í úthverfunum.

      Og ég er sammála Jóni Gunnarssyni oh Helgu Jónsdóttur að aukin vinna kvenna utan heimilis hefur haft veruleg áhrif á þessa þróun.

    • Ég fullyrði að matarkarfan í Melabúðinni er ekki eins og Helga segir. Það kostar eitthvað meira að versla í Melabúðinni en lágvörumörkuðunum, eðlilega. En vöruúrvalið er meira og þjónustan betri en í lágvöruverslunum fyrir utan að þegar kosnaðurinn við að nálgast vöruna (og enga þjónustu) er lagður ofaná matarkörfuna er munurinn sáralítill ef nokkur og svo er svo skemmtilegt að versla í búð þar sem maður hittir fyrir verslunareigandann og alla sína nágranna..

      Áfram AR2010-2030

  • „Sjónvarpsloftnetin stefna beint á herstöðina á Keflavíkurflugvelli“ er bráðskemmtileg setning og lýsir tíðarandanum vel. Ég er ekki hissa á að kommarnir hafi látið þetta fara í taugarnar á sér 🙂

  • Einar Jóhannsson

    Góð umræða og þörf.

    Augljóst að það þarf að gera hverfaskipulag af allri borginni og stuðla að þorpsstemmingu þar sem flestir vita hverjir flestir eru í nágrenninu.

    Það stuðlar að velferð, öryggi og skemmtilegra mannlífi.

    Þessu markmiði aðalskipulagsins er auðveldast að ná með hverfisbúðum þar sem selt er léttvín, hverfisknæpum, bílastæðagjöldum við stórmarkaði, lækkun fasteignagjalda húsnæðis kaupmannsins á horninu, skörpum verslunarmönnum o.s.frv.o.frv.

    Úrtöluraddir þurfa að heyrast og það þarf að mæta þeim á máefnalegan hátt.

    P.S. Er ekki hægt að lokka Krónuna til þess að opna við Dunhaga og Bónus við Hjarðarhaga og málið er steindautt?

  • Jón Gunnarsson

    Þetta er vissulega ekki leikur einn og hægt er að halda því fram að í marmiðum aðalskipulagsins sé viss fortíðarþrá eða rómantík.

    Bara það að allar konur vinna nú úti og börn eru vistuð í skólum og stofnunum allan daginn hefur líka áhrif á verslunarhættina.

    En víst er að þetta eru góð markmið sem er öllum til góða og vel er hægt að ná.

    Fyrirgefið en þessar úrtöluraddie eru algert afturhald og enn verra uppgjöf.

  • Kristján Sveinsson

    Ætli verslunin fari ekki mestmegnis fram á netinu í framtíðinni og fólk fái varning sinn sendan heim. Þetta er nú þegar orðið í talsverðum mæli — þó ekki matvöruverslun ennþá — og eykst að líkindum. Það gæti dregið umtalsvert úr umferð einkabíla við slíkar breytingar. Líklega mætti einnig þróa aðferðir við að draga úr umbúðanotkun með þessu verslunarfyrirkomulagi.

    • Jón Gunnarsson

      Netverslun er aðalástæðan fyrir því að það lokar að meðaltali einn Mall á dag í Bandaríkjunum.

      En ekki gleyma að það að versla í hverfisversluninni þar sem allir þekkja andlit hvers annars er ekki bara mikilvægt félagslega heldur líka góð skemmtun

  • Þórhallur

    Eru ekki flestir sammála þessu í aðalskipulaginu: „Í nýju aðalskipulagi Reykjavíkur er stefnt að vistvænni borg með minni bifreiðaumferð, betri þjónustu í íbúðahverfunum og meira mannlífi milli húsanna og á götunum“. ?

    Mér finnst löðurmannlegt að gefast strax upp eins og Stebbi leggur til. Ef við viljum þá er þetta unnin barátta.

    Hægt er að nota afslátt og skattaúrræði eins og að lækka fasteignagjöld á hverfisverslunum (stenst kannski ekki ESB?) Skapa aðstæður þannig að Bónus, Krónan, Nóatún og fl. sjái sér hag í að reka verslun á Hjarðarhaga eða Dunhaga og annarsstaðar í hverfunum. Svo má auðvitað nota þessa hugmynd með léttvínin og fl.

    Það hljóta að vera margar leiðir.

    Það hljóta að vera einhverjir snillingar í verslun sem geta fundið á þessu flöt.

    En að gefast upp hefu löngum þótt slappt.

    • Gefast upp, hvar stendur það?

      Það þarf að greina vandamálið og koma með úrræði sem halda. T.d. skikka stórverslanir til að rukka kúnnan um sanngjarnt gjald fyrir bílastæði. Hver hefur pólitískt þrek til þess? Einhver? 🙂

  • Þegar ég var að alast upp voru kaupmenn á hverju horni. Vörur voru afgreiddar yfir búðarborðið. Tveir óskyldir aðilar, þ.e. heildsali (birginn) og smásali (kaupmaðurinn) komu vörum á framfæri við neytendur. Fáir áttu bíl. Um það bil árið 1960 opnar Einar Bergmann fyrstu kjörbúðina á Baldursgötu. Það var Kjöt og Fiskur og jafnframt fyrsta stóra skrefið við að grafa undan kaupmanninum á horninu. Næsta stóra skrefið er líklega tilkoma Bónus þá sameinast kaupmaðurinn og birginn í einn og sama aðila. Held reyndar að hatur sjálfstæðismanna á Bómusfeðgum eigi rætur sínar hér. Heildsalar héldu uppi Sjálfstæðisflokknum áður en útvegsmenn komu til sögunnar. Bílaeign borgarbúa eykst stórum skrefum samhliða. Kaupmaðurinn á horninu kemur ekki til baka vegna þess að einhver ákveður það í skipulagi borgar. Það eru önnur öfl að verki.

  • Kristján Sveinsson

    Á síðasta tug 20. aldar var sjoppa (sælgæti, tóbak og myndbönd) í stærstum hluta verslunarhúsnæðisins á Dunhaga. Þangað komu margir viðskiptavinir á bílum sínum. Reynt var að starfrækja fiskbúð um tíma á Dunhaga en gekk víst ekki og henni var lokað. Byssusmiður var þarna um skeið. Það var nokkuð kyndug starfsemi í íbúðarhverfi þar sem ríkti ágætur friður, já ætli það hafi bara ekki verið grenndarsamkennd og kannski var það þessvegna sem byssumaðurinn hvarf líka af vettvangi. Alltaf dró þróttinn úr verslunum þarna og þær hurfu ein af annari. Þó var ekki farið að starfrækja matvöruverslanir á Örfirirseyjargranda þá. Þær komu ekki fyrr en slík verslun hafði lagst af á Dunhaga. Hagabúðin á Hjarðarhaga hætti einnig starfsemi. Það var samt ágæt verslun og stór miðað við hinar. Í staðinn kom klukkubúð. Fólk verslaði bara ekki í hverfisverslununum. Verðið var of hátt og vöruframboðið lítið. Þær voru ekkert skipulagðar í burt þessar smáverslanir. Og fólk lifir ekki lífi sínu í samræmi við skipulag arkitekta. Þó þeir haldi það nú sumir.

    • Hilmar Þór

      Ég man eftir allri þessari þróun kaupmannsins á horninu niður á við svo ekki sé minnst á byssumanninn. Þetta er auðvitað ekki auðvelt og sennilega er almenn og aukin eign einkabifreiða stór þáttur í þessu. Menn gátu sótt daglegar nauðsynjar sínar um lengri veg með tilkomu einkabílsins.

      En ég tel að skipulagsyfirvöld hefðu átt að stuðla að því að leysa þetta innan íbúðahverfanna á sínum tíma.

      En eins og þú segir þá var verðið of hátt í hverfisverslunum og fók fór annað eins og segir í pistlinum. En ég hef á tilfinningunni að vöruúrvalið hafi ekki verið litið hjá kaupmanninum á horninu. Allavega held ég að t.a.m. vöruúrvalið í Melabúðinni sé meira en í flestum stórmörkuðunum.

      En síðasta komment þitt er alger misskilningur. Arkitektar skipileggja ekk líf fólks og forðast það. Hinsvegar reyna þeir að skipuleggja samkvæmt þörfum fólks en það gengur ekki alltaf vel sennilega vegna þess að fólk veit oft ekki hverjar þarfir þess eru!

  • Í aðalatriðum sammála efni pistilsins, en tímalínan og orsakasamhengi er aðeins einfaldað um of. Krónan úti á Granda opnaði ekki fyrr en 2007, Bónus ári síðar (þegar búðinni þeirra á Seltjarnarnesi var lokað, vegna breytinga á skipulagi?). Þá voru litlu hverfisbúðirnar flestar þegar horfnar og Vesturbæingar farnir að sækja í Nóatúnsbúðina í JL-húsinu og Hagkaup á Eiðistorgi og Bónus þar rétt hjá, og Kringlu, Skeifu o.fl. á leið heim úr vinnu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn