Mánudagur 20.09.2010 - 15:25 - 10 ummæli

Menningarstefna í mannvirkjagerð

 

Forsidalett

Fyrir þrem árum kom út bæklingur sem fjallar um menningarstefnu íslenskra stjórnvalda í byggingarlist. Bæklingurinn er um 50 vel skrifaðar síður og hlaðinn góðum ásetningi.

Í honum er lagður grunnur að opinberri stefnu í mannvirkjagerð.

Í stefnunni er horft til varðveislu mikilvægra mannvirkja, til nýbygginga og skipulags. Stefnan leggur áherslu á fallegt starfrænt umhverfi og hampar þeim virðisauka sem góð byggingalist færir samfélaginu. Þá er rík áhersla lögð á sjálfbærni, líftímakostnað og sambýli manns og náttúru og margt fl.

Þetta er merkilegt rit sem allir ættu að kynna sér. 

Það kom því nokkuð á óvart að á fundi sem arkitektar voru boðaðir til hjá umhverfisnefnd Alþingis nýverið  urðu arkitektarnir þess áskynja að nokkrir þingmenn, í sjálfri umhverfisnefnd, þekktu ekki menningarstefnu stjórnvalda í byggingarlist.

Þeir sem vilja kynna sér þessa merkilegu stefnu geta nálgast hana hér:

http://bella.mrn.stjr.is/utgafur/menningarstefna_mannvirkjagerd.pdf

Bæklingurinn er gefinn út af Menntamálaráðuneytinu, Sölvhólsgötu 4 í Reykjavík.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Menningarstefnan er ágæt eins langt og hún nær. Í þessu riti er aðeins birt stefna íslenskra stjórnvalda um hönnun og byggingu opinberra mannvirkja.
    Í nágrannalöndum okkar t.d. Skotlandi nær stefnan ekki aðeins til opinberra mannvirkja heldur alls hins byggða umhverfis.

  • Halldóra Vífilsdóttir

    Nú eru rúm þrjú ár síðan Menningarstefna í mannvirkjagerð var samþykkt. Því miður virðist stundum eins og stefnan hafi gleymst. Menningarstefnu sem ekki er framfylgt, er einskis virði en stefnu sem fylgt er eftir með framsýni, metnaði og þori er mikilvæg í eflingu hins manngerða umhverfis. Þó að menningarstefnur séu víða komnar á dagskrá er framkvæmd þeirra almennt ábótavant.

    Menningastefnan var samþykkt í ríkisstjórn. Stefnunni var fylgt eftir af starfshópi með fulltrúum ráðuneyta umhverfis-, fjármála-, mennta og menningarmála auk þess sem fulltrúi AÍ hefur verið í þeim starfshópi. Stefnan hefur verið kynnt á fjölmörgum opnum fundum, t.d. í Norræna húsinu, í Listasafni Reykjavíkur og í Þjóðminjasafninu. En þetta er alls ekki nóg og betur má ef duga skal.

    Ef ég horfi til baka á síðustliðin þrjú ár sem að liðnir eru frá því að stjórnvöld samþykktu Menningarstefnu í mannvirkjagerð og ég ætti að nefna eitthvað sem hafi hugsanlega breyst á þessum árum þá er það að með menningarstefnunni hafi komið visst aðhald sem getur og á að hafa haft áhrif á ákvarðanatöku. Fulltúar A.Í. hafa verið iðnir við að halda stefnunni á lofti og hefur stefnan þannig orðið að hvatningu. Stefnan er tæki sem við getum notað til að þrýsta á að gera betur.

    Það er aftur á móti mín skoðun að mikilvægasta leiðin til að fylgja gæðastefnu eftir er með reynsluverkefnum. Með reynsluverkefnum er hægt að sannreyna stefnu, læra af reynslu og bæta gæði manngerðs umhverfis. Hús íslenskra fræða fylgir útfærslu á Menningarstefnu í mannvirkjagerð er þannig reynsluverkefni á sviði menngarstefnu og á sviði stefnu um vistvæn innkaup frá 2009. Hugmyndin að baki menningarstefnunni fellur vel að vistvænni hönnun og liggur beint við að þróa þessar tvær aðferðir samhliða. Jafnframt er ein bygging komin á framkvæmdastig eftir að hafa farið í gegnum slíkt ferli en það er Gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs á Skriðuklaustri. Allar þessar byggingar munu fá alþjóðlega vottun sem vistvænar samkvæmt alþjóðlega vottunarkerfinu BREEAM.

    Menningarstefnur eiga að þróast með viljanum til að gera betur og finna nýjar lausnir. Viðmið verða sífellt að vera í endurskoðun. Það er ekki góð stjórnsýsla að framsala ábyrgð á umhverfi okkar til einnar fagstéttar í landinu. Fræðsla og skilningur á mikilvægi góðs umhverfis er undirstaða þess að við náum að feta okkur áfram.

  • Mér er ekki kunnugt um að Menningarstefna í Mannvirkjagerð hafi hlotið
    sérstaka kynningu, hvorki í stjórnkerfinu né úti í þjóðfélaginu. Hér er verk að vinna fyrir Arkitektafélag Íslands og Mennta- og menningarmálaráðuneytið.

  • Árni Ólafsson

    Með því að skilgreina góða byggingarlist og orða þá eiginleika,sem sóst er eftir (eins og leitast er við í þessum gögnum), höfum við fengið í hendur áhald eða verkfæri, sem auðveldar markvissra umræðu. Ekki aðeins umræðu sérfræðinga eða arkitekta heldur allra, sem áhuga hafa.
    Með vísan í ákveðnar pælingar eða skilgreiningar, sem þarna finnast, má komast fram hjá frasanum „þetta er bara spurning um smekk” – og þar með þoka umræðunni og hugsuninni áfram í stað þess að stappa í sömu sporunum.
    Síðan er væntanlega langur vegur þangað til menningarleg byggingarlistarstefna gegnsýrir skipulagsmál og byggingariðnað landsins. En umræðan er forsenda þess.

    Byggingarlistarstefna Akureyrar var unnin af þverfaglegu teymi með þátttöku m.a. verktaka og iðnaðarmanna.

  • Það kemur hér fram að það er mikið unnið í stefnumálum margskonar. Allir eru af vilja gerðir. Menningarstefna Akureyrar er orðin 9 ára gömul sér maður eftir að hafa skoðað link Árna hér að ofan. Meningarstefna Menntamálaráðuneytisins er komin á fjórða ár. Orð eru til alls fyrst en það þarf eftirfylgni og hún þarf að vera markviss og það þarf að halda henni sívakandi. Það er eins og að Framkvæmdasýslan og Umhverfisnefd Alþingis viti ekki að stefnan sé til eða hafi gleymt henni.

    Getur einhver sem að þessari áætlun stóð sagt jákvæðar reynslusögu af árangrinum?

  • Árni Ólafsson

    E.t.v. mætti í þessu samhengi benda á brautryðjendaverk á þessu sviði hér á landi.
    http://www.akureyri.is/skipulagsdeild/ymsargreinar/nr/201

  • Hafsteinn

    Áhugaleysi „menningarvitanna“ á byggingalist er yfirþyrmandi

  • Borghildur Sturludóttir

    ….er búið að senda Merði hana?

  • stefán benediktsson

    Það ætti kannski að standa yfir dyrum alþingis, þar sem menn fara út. MUNIÐ AÐ LESA HEIMA. Það er áberandi hvað þeir mæta illa undirbúnir í vinnuna. T.d. kom hrunið þeim, að því er virðist, mjög á óvart.

  • Guðmundur G.

    Þetta hefti ætti að vera kennslugagn í öllum framhaldsskólum og skyldulesning allra starfsmanna Framkvæmdasýslunnar og Ríkiskaupa.

    Fyrstu setningarnar í hinum almenna texta er svona:

    ”Þau gildi, sem vert er að huga að þegar reist eru mannvirki, eru óháð tíma og hafa verið óbreytt frá örófi alda: að mannvirkin þjóni tilgangi sínum, séu vel gerð og til yndisauka. Notagildið, varanleikinn, fegurðin. Vægi þessara gilda vitnar um vitund þjóða, – sögu þeirra, menningu og efnahag.”

    Fólk ætti að lesa bæklinginn sem er bæði fróðlegur, skemmtilegur og gagnlegur.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn