Fimmtudagur 04.07.2013 - 12:04 - 19 ummæli

„Micro“ íbúðir

yo-home-transforming-london-apartment

Um það bil sem ný byggingareglugerð átti að taka gildi hér á landi samþykktu borgaryfirvöld í San Francisco heimild til þess að byggðar væru íbúðir sem eru allt niður í 20 fermetrar.

Þetta eru svokallaðar “micro apartments”  sem njóta vaxandi vinsælda í miðborgum margra borga á vesturlöndum

Ástæðan er sú að vaxandi hópur meðaltekjufólks óskar eftir því að búa í miðborgunum þar sem stutt er til vinnu og þjónustu og þar sem þau þurfa ekki að reka einkabíl. Þróunin undanfarin ár hefur verið sú að fólk með háar tekjur hefur verið að flytjast úr úthverfum inn í miðborgirnar meðan millitekjufólk og jafnvel fólk með lægri tekjur er að flytja í úthverfin.

Þessi þróun hefur gert það að verkum að húsaleiga í miðborgunum er svo há að millitelkjufólk hefur ekki lengur efni á að búa þar.

Markmið borgarinnar og borgarstjórans  í San Francisco var að mæta húsnæðisþörf fyrir einhleypa og stuðla að lækkun húsaleigu íbúða í miðborginni. Þetta vilja þeir gera með því að byggja mjög litlarog hagkvæmar íbúðir.  Michael Bloomberg í New York hefur einnig unnið að því að byggja micro íbúðir þar í borg eins og fram kemur á hjálögðum myndum og fréttamyndbandi.

Arkitektar hafa unnið að því að hanna micro íbúðir  mörg undanfarin ár þar sem íbúðunum er komið fyrir í gömlum byggingum af öllum gerðum og nýbyggingum á vannýttum lóðum og jafnvel á bifreiðastæðum.

Ekki veit ég hvort þetta sé góð eða slæm hugmynd en hún á ábyggilega vel við víða. Ég væri ekki hissa þó það væri hægt að koma 3-500 íbúðum af þessari gerð innan gömlu Hringbrautar í Reykjavík. En ný íslensk byggingareglugerð er svo skammsýn og þröngsýn að hún gefur ekki tækifæri fyrir þessa lausn í husnæðismálum fyrir einhleypa sýnist mér.

Hjálagt eru nokkrar ljósmyndir af micro íbúðum

Efst er mynd af micro íbúð fyrir efnameiri. Þar er dagstofunni sökkt um 70 cm niður í gólfið meðan svefnherbergið sígur úr loftinu.

Fyrstu fimm myndir og teikningar að neðan eru frá byggingu sem verið er að undirbúa í New York fyrir svona íbúðir. Þetta er unnið í kjölfar samkeppni sem borgarstjórinn Bloomberg átti frumkvæði að. Íbúðirnar þar eru ætlaðar tekjuminni einstaklingum. Þess má geta að í stórborginni er um helmingur íbúanna einhleypur.  Neðst er svo stutt fréttamynd sem segir frá niðurstöðu í samkeppni um micro íbúðir í NY.

Þetta er sagt stærsta nýja „trendið“ í miðborgum stúrborga hins vestræna heims. Ef „micro apartment“ er Gúglað kemur það strax í ljós.

nyc-micro-apartments

dance-studio-jpg_032050

floorplan-apt-4d-jpg_032050

 

Að neðan er þrívíð teikning af micro íbúð.

micro-apartments

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (19)

  • Ég bendi á umræðu um litlar íbúðir hérna: http://blog.pressan.is/hjalmarsveinsson/2013/03/05/borgaribudir-i-new-york/

    …og þá staðreynd að síðustu 8 árin fyrir hrun voru byggðir á Íslandi ca. 750m3 á hvert mannsbarn sem bættist við þjóðina.

    Það er ekki útlit fyrir að þurfi að byggja næstu áratugina, heldur þarf að endurskipuleggja það sem byggt er nú þegar.

    • Afsakið hér fór ég með fleipur.
      ca. 350m3 bættust við pr. hvern nýjan íbúa og ca. 0.7 stykki ný íbúð á mann

      ekki að það veiki röksemdina verulega…

    • Er svo ástæða til þess að undrast þá lágdeyðu sem er í byggingariðnaðinum eftir hrun. Ef einhver heldur að það sé að lagast þá er það miskilin bjartsýni. Það er allt of mikið húsnæði til á landinu. Eðlilegur fermetrafjöldi íbúðahúsnæðis á einstakling er um 30 fermetrar að meðaltali. Hérlendis er hann sennilega um 50!!

      Eða getur einhver komist að því nákvæmlega?

  • Rúnar Ingi

    Hefðbundar Íbúðir þurfa að vera með eftirfarandi rýmum

    -Eitt íbúaherbergi að lágmarki 18 fm

    -Eldhús að lágmarki 7 fm – þó má samnýta að hluta með stofu (íbúðaherbergi)
    baðherbergi að lágmarki 5 fm

    -Andyri að lágmarki 2,25 fm (1.5 x 1.5 )

    -Ef fleiri íbúðarherbergi eru til staðar þurfa þau að vera að lágmarki 8 fm

    -Þvottaherbergi að lágmarki 3,24 fm ( 1.8 x 1.8)

    -Geymslu rými að lágmarki 2.5 fm ( f/ 45 fm íbúð – svo stækkar krafan í þrepum miðað við stærð í búðar og fer mest í 6 fm fyrir 70 fm íbúð og stærri)

    -Ef húsið er fjölbýli skulu vera 2 fm geymsla fyrir hjól/vagna- þetta má samnýta með sérgeymslu ( verður þá lágmarksgeymslann 4.5 til 8 fm)

    -Lágmarksstærð svala á annari hæð og ofar er 4 fm

    -einnig er krafa um lyftu ef húsið er þriggja hæða eða meira.

    -Breytt ganga skal vera 1.5 í fjölhæða fjölbýlishúsi

    -þessar tölur eru nýtingartölur – birt flatarmál er töluvert stærra (ytri veggir og innveggir)

    -lofthæð íbúða skal vera 2.5

    -ljósop hvers íbúðarherbergis skal vera að lágmarki 1/10 af gólffleti þess,þó aldrei minni en 1 fm.

    Þetta er svona það helsta sem þarf að hafa í huga við innréttingar íbúða- að auki koma fram kröfur um 90 cm hurðir allstaðar og að umferðarleiðir innan íbúða sé að lágmarki 1.10 m- (þetta er vegna aukinna krafna um aðgengi hreyfihamlaða)

    • Rúnar Ingi

      Svona fljótt á litið þá eru Þetta ca 40 fm að nýttum fermetrum

      Svo þarf að bæta við plássi fyrir veggjum og þá erum við komin í ca 50 fm að lágmarki.

      -einnig þarf að bæta við aðgengi að húsinu (lyftu, stigapöllum-stigagöngum osfr.)

    • Ólafur Gunnarsson

      Sem sagt, það verða ekki byggðar neinar microíbúðir hér á landi að óbreyttri byggingareglugerð?

  • Hilmar Gunnarsson

    Mjøg áhugavert. Takk fyrir færsluna.

  • Í nýrri byggingarreglugerð má einstaklingsíbúð innan stúdentagarða vera eitt herbergi (alrými) sem er að lágmarki 28,0 m²Í (sjá gr. 6.10.4). Þá skal hæfilegt geymslurými vera í sameign, sameiginlegt þvottahús og sameiginleg hjóla og vagnageymsla. Byggingarreglugerðir hinna norðurlandanna (sem eru allar mjög nýlegar) leyfa ekki svo smáar íbúðir sem 20m2. Það væri mjög áhugavert að fá í gang faglega umræðu um orsakir þess að reglusmiðir norðurlanda vilji ekki svo litlar íbúðir. Í ljósi breytinga á sambúðarmynstri og fjölgun þeirra sem búa einir, er greinilega ástæða til að skoða þetta vel.

    • Dennis Davíð

      Ef ég skil þetta rétt hjá Birni þá gildir lágmarkið 28.0 m2 eingöngu fyrir stúdentaíbúðir. Hvað með aðrar einstaklingsíbúðir?

  • Guðmundur Guðmundsson

    Þarf endilega að vera samasemmerki á milli ódýrra húsnæðiseininga og slumvæðingar
    ? Það er morgunljóst að núverandi húsnæðiskerfi mætir ekki þörfum markaðarins.
    Á stríðsárunum komu Bretar og ameríkanar með Bragga sem voru settir saman á einum degi eða svo.

    Sjö áratugum síðar standa þessi mannvirki ennþá hér og þar. Um áratuga skeið bjó fólk í bröggum í höfuðborginni þar til önnur úrræði tóku við.
    Gætu td. braggar eða vinnubúðir á stórum vannýttum grasflötum Háskólalóðanna leyst vandamál stúdenta ?

    Spyr sá sem ekki veit

  • Þorvaldur Ágústsson

    Þetta er snilld.

    Efsta myndin sýnir lausn sem er algerlega pottþétt.

    Maður notar ekki svefnherbergið nema á blánóttinni og þess vegna er upplagt að láta það hverfa og stækka stofuna um jafn mikið gólfpláss og þvi nemur. Svo þarf ekki einusinni að búa um!.

    Maður fær við þetta rúmgóða stofu í mikróíbúð og rúmgott svefnherbergi.

    Hvað vill maður meira?

    Eina sem þarf er salarhæð, svona 70 cm meiri en gengur og gerist. Og svo auðvitað lyftibúnaðinn.

    Er verið að segja að byggingareglugerðin leyfi ekki þessa lausn?

    endurtek…tær snilld.

  • Steinunn.

    Svona íbúðir væru líka góður kostur fyrir okkur sem búum úti á landi og eigum oft erindi til Reykjavíkur. Ætli byggingarkostnaður væri ekki svona 300 þúsund á fm. Ég væri til í að kaupa 20fm íbúð innan Hringbrautar á 10 miljónir. Sæmilegur hagnaður þar, sennilega 50-60% 🙂

  • Svona íbúðir þarf að byggja í Reykjavík, jafnvel svo hundruðum skiptir. Gæta verður samt þess að þetta slumvæðist ekki. Það er hægt að gera með því að setja þær kvaðir á íbúðir undir t.a.m. 30 fermetrum að eigandur búi í þeim sjálfir.

    Það eru til einhverjar svipaðar kvaðir á ódýrum litlum íbúðum í Kaupmannahöfn.

  • 40 feta gámur er ad mig minnir 28m².

    Myndi duga mér.

  • Ólafur Gunnarsson

    Einhvern tima var eitthvað sem hét ‘ungdomsboliger“ í danmörku, allavega er staðalfjölskyldan á undanhaldi og einhleypingar til lífstíðar fara fjölga di

  • Gu[mundur Gu[mundsson

    Hingað til hafa byggingarverktakar ekki haft áhuga á að byggja smáíbúðir.
    Fleiri fermetrar pr íbúð þýðir meiri hagnaður fyrir byggingaraðilan.

    Þannig stækkuðu flestar íbúðir í fasteignabólunni. Þetta er eitt af vandamálunum og svo bætir ekki úr skák að það virðist enginn vilji eða áhugi hjá stjórnvöldum um að byggja upp leigumarkað.
    Stefnan, eða öllu heldur stefnuleysið virðist vera það sama og fyrir hrun.

    Það hlýtur að þurfa nýja nálgun til að byggðar verði smáíbúðir innan Hringbrautar. Sennilega þarf borgin að byggja þannig íbúðir svipað og tíðkast á hinum Norðurlöndunum.

    Annars er hætt við að þannig íbúðir fari á túristamarkað eða annað brask.

  • Dennis Davíð

    Þess má geta að á Íslandi eru um 30% heimila eins manns og má því ætla að full þörf sé á litlum íbúðum hérlendis. A hinum Norðurlöndunum er fjöldi eins manns heimila um 37% og fer vaxandi (heimild OECD). Fróðlegt væri að vita hversu litlar íbúðir er heimilt að byggja hérlendis samkvæmt nýju byggingarreglugerðinni. Mér segir hugur að þær seu töluvert stærri en 20m2. Eru skipulagsyfirvöld að gera ráð fyrir litlum ibúðum á nýbyggingarsvæðum?

    • Minnstu íbúðir sem byggðar hafa verið undanfarið ár eru sennilega stúdentaíbúðir Félagsstofnunnar Stúdenta. Þær voru um 40 fermetrar (38.8m2) fyrir reglugerðarbreytingu. Ekki veit ég hvað reglugerðabreytingin breyttu miklu í þessu samhengi, en það hefur sennilega verið 20-30%.

      40 fermetra stúdentaíbúðirnar virka ágætlega. Spurningun er um einhvern milliveg milli 20 fermetra og 40. Vissulega má fá jafn mikið út úr 20m2 of 40m2 ef vel er að hönnun staðið eins og sjá má ef farið er á WWW.

      Það er vissulega þörf fyrir svona íbúðir í Reykjavík hér og nú. En það verður að tryggja að þær fari ekki í hendur ferðaiðnaðargraskara eins og Guðmundur nefnir að neðan og pistlahöfundur bendir á.

  • Ólafur Guðmundsson

    Frábær hugmynd fyrir einhleypa, stúdenta, fráskilda, unglinga og sem viðbót í íbuðaflóruna. Það er orugglega þörf fyrir 500 svona íbuðir innan Hringbrautar. Tryggja þarf að þær fari í langtímaleigu og túristum haldið frá.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn