Fimmtudagur 08.03.2018 - 14:17 - 6 ummæli

Miðbær Hafnarfjarðar

 

Í Morgunblaðinu í morgun voru kynntar nýjar hugmyndir um uppbyggingu í miðbæ Hafnarfjarðar.  Þetta var einkar ánægjuleg lesning. Einkum vegna þess að arkitektarnir í samstarfi við skipulags- og byggingaráð bæjarins nálgast verkefnið í anda „regionalismans“.  Það er að segja að staðarandinn ræður ferðinni. Umhverfið ræður útliti húsanna öðru fremur. Hjálagðar myndir sem unnar eru af ASK arkitektum og gefa vonandi fyrirheit um það sem koma skal.   Arkitektarnir brjóta framhlið hússins upp þannig að það lítur út eins og sambyggð hús. Mælikvarðinn verður við þetta manneskjulegur og samræmist fínlegri byggðinni í Hafnarfirði.

Það á að þétta byggðina í gamla miðbæ Hafnarfjarðar og það koma þrjár aðrar ágætar stofur að verkinu. Það eru T.ark, Tripolí og Sei. Þéttingarsvæðið (sjá mynd að neðan) tekur yfir allt svæðið sunnan verrslunarmiðstöðvarinnar Fjörður sem, að mínu mati, voru og eru skipulagsleg og einkum arkitektónisk mistök.

Svæðið sunnan Fjarðar er nú eitt bílastæðaflæmi fyrir um 900 bíla sem samkvæmt hugmyndunum á að hafa neðanjarðar í framtíðinni.  En stæðunum  þarf líklega að fjölga verulega vegna nýbygginga og ekki síður vegna Borgarlínunar sem fer þarna framhjá. Lílega þarf að tvöfalda bílastæðaframboðið, eða jafnvel þrefalda, ef bæði miðbærinn og Borgarlínan eiga að virka.


Í þessum byggingum á að koma hótel. Arkitektarnir brjóta framhlið hússins upp þannig að það lítur út eins og sambyggð hús.

Á myndinni að ofan er merkt hvar hótelið sem myndirnar eru af mun koma og gula svæðið er þéttingarsvæðið sem fjallað er um í Morgunblaðinu í morgun.

++++

Að neðan eru svo myndir af húsum sem nú eru að rísa á viðkvæmum stað í Reykjavík. Þarna er staðarandanum kastað til hliðar og byggð hús sem eins gætu verið í útjaðri borga á borð við London, París eða Róm.  En ekki í miðborgunum.

Þegar skipulag Hafnartorgs var í kynningarferli voru gerðar allmargar athugasemdir við deiliskipulagið. Þær gengu m.a. út á að krafa yrði gerð varðandi staðarandann og að gert væri ráð fyrir Borgarlínunni sem átti að fara þarna um. Vísað var í ágæta greiningu Guðna Pálssonar og Dagnýjar Helgadóttur á staðarandanum þarna. Sú vinna var unnin í tengslum við Kvosardeiliskipulagið 1986 og er enn í fullu gildi. Hvorug athugasemdin var tekin til greina með þeim árangri sem við blasir. Mér hefur verið sagt af innanbúðarmanni að það hafi verið klappað í umhverfis-og skipulagsráði þegar þessar teikningar voru kynntar. Reykvíkingar geta lært af Hafnfirðingum hvað þetta varðar.

Úr því að verið er að tala um lögbundið kynningarfeli varðandi skipulagsmál þá verður ekki annað sagt en að þau séu í einhverju óstandi.

Ég nefni eitt nýlegt dæmi. Ég gerði athugasemd við deiliskipulag við Gamla Garð um mitt síðasta ár. Athugasemdum átti að skila fyrir 17. ágúst 2017 og það gerði ég. Nú tæpum sjö mánuðum seinna, 8. mars 2018, hefur ekkert svar borist frá skipulagssviðinu. Hvorki mat á athugasemdum mínum né fréttir af því ferli sem málið er í eða hvert stefnir. Það ríkir alger þögn. Ekki þakklæti fyrir áhugann sem sýndur er eða skammir fyrir að ég skuli vera að blanda mér í einhvað sem ekki varðar mína sérhagsmuni. Kannski er tilefni til þess að líta á þessa þögn sem skammir, því það er mikil vinna að gera athugasemd við skipulag. Það þekkja allir sem til þekkja.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Þorbjörn

    Hafnartorg tengist gamla miðbæ Reykjavíkur. Vissu arkitektarnir sem hönnuðu ekkert um það? Ég bara spyr. Hefur skipulagsráð enga skoðun á útliti húsanna sem sótt er um?
    “Þetta er forljótt” og passar ekki inn í myndina af miðborg Reykjavíkur, eins og kerlingin sagði.

  • Þór Saari

    Eru fimm hæða hús sem skyggja á fallegu gömlu byggðina þarna fyrir aftan eitthvað sem heldur í „staðarandann“. Mér sýnist þetta bara framhald á klúðursskipulaginu sem þarna er fyrir og getur varla verið ljótar, sem og framhald á óskpnaðinum sem Norðurbakkinn er.

    • Hilmar Þór

      Þór Saari. Ég þakka þér fyrir þesa athuigasemd og margar góðar í gegnum árin. Þessu háttar þannig að fyrir sunnan þessi hús er verslunarmiðstöðin Fjörður og svo kemur Strandgatan og handan við hana eru nokkur gömul hús sem þessi falla ágætlega að. Þetta hús mun standa milli Pósthússins sem er svona sixties- bygging og Hafnarborgar sem við þekkjum. Mér sýnist þetta vera í afskaplega fínu lagi. En það þarf ekki að vera gott þó mér finnist það.

  • Jón Gunnarsson

    það er einhver næm tilfinning fyrir staðnum þarna á ferðinni. Þetta eru dæmigerð íslensk borgarhús. Þau hafa íslenskar rætur en eru samt nútímaleg.

    Batnandi arkitektum er best að lifa.

    Hafnarfjörður er að standa sig samanber þetta:

    http://blog.pressan.is/arkitektur/2017/07/15/hafnarfjordur-sleginn-nyr-tonn-a-traustum-grunni/

  • Stefán G.

    Arkitektanir eru smátt og smátt að átta sig á þvi að allt sem máli skiptir er “staðarandinn”. Þakka þér Hilmar!

  • Örnólfur Hall

    -Það er margt athyglisvert að gerast í nýja skipulaginu í Hafnarfirði sem gaman verður að skoða nánar !

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn