Gangandi vegfarendur fá að njóta sín í miðborg Reykjavíkur í sumar ef áætlanir ganga eftir. Á fundi í umhverfis- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar þann 25. janúar s.l. var samþykkt að skoðað yrði hvort möguleiki væri á að gera Laugarveg frá Klapparstíg alla leið að Ingólfstorgi að ”sumargötu”. Sumargata er nýyrði sem ég hef ekki heyrt áður og er sennilega hugtak sem nota á við götur sem lokaðar eru bifreiðaumferð um sumartímann. Skólavörðustígur frá Bergstaðastræti að Laugarvegi fær svipaða meðferð ásamt Pósthússtræti. Á mótum Lækjargötu og Bankastrætis/Austurstrætis kemur nýtt götuform sem kallað er ”samrými” á teikningu. Samrými er sennilega það sem kallað er ”Shered street” á ensku og er gata þar sem bílum og gangandi er blandað saman.
Þessa tilraun á að gera í náinni samvinnu við verslunar-og þjónustuaðila og íbúa í nánasta nágrenni. Tilraunin á að standa frá 15. maí til 1. september í sumar. Vonandi heppnast þessi tilraun þannig að framhald verði á því hér er mikið framfaramál í sigtinu. En til þess að svona gangi vel þarf að huga að samgöngumálum í stærra samhengi.
Hjálagt er slóði að frekari upplýsingum um tilraunina:
Fundargerð Umhverfis- og samgönguráðs:
http://www.reykjavik.is/desktopdefault.aspx/tabid-725
Af vef Reykjavíkurborgar:
http://www.rvk.is/desktopdefault.aspx/tabid-259/1198_read-24977/
Vistgata í Japan
Tillaga að húsagötu þar sem Shered Street hugmyndin liggur að baki útfærslunni
Fyrir dyrum stendur að gera Exhibition Road í London að „Samrými“ (Shered Street)
Þetta er ekkert nema aðför að rúntmenningu Reykvíkinga. Á maður ekki að fá að taka „einn laugara“ lengur? Hvert geta menn núna farið á rúntinn þegar það er búið að loka laugaveginum og bankastræti? Þetta endar með einhverri pínulítilli bílaröð í gegnum Pósthússtræti-Hafnarstræti.. og aftur Pósthússtræti? Hlölli á eftir að loka lúgunni vegna mengunnar…
Svo getur þetta varla talist gott fyrir búðirnar á svæðinu. Hver nennir að labba frá Snorrabraut eða finna bílastæði í nærliggjandi götum til að versla þarna? Þær götur eru nb. íbúagötur – íbúar viljið þið að stæðin ykkar fyllist af bílum viðskiptavina? Smáralinda og Kringlumenn eru eflaust ánægðir með það að fólk fái enn eina ástæðu til að versla hjá þeim í stað þess að kúldrast niðrí bæ.
Mér finnst hugmynd Önnu vera mjög góð. Í stað þess að gera laugaveginn að göngugötu þá fengi umferðin að silast þarna niður en engin væru stæðin. Þá fengi fólkið það sólríka svæði, einmitt norðanmeginn í götunni, og hægt væri að koma þar fyrir reiðhjólastíg, blómakerum, bekkjum og svo bara aukið svæði fyrir fólk á rölti.
Það væri nefnilega synd að loka alveg fyrir laugaveginn því það er hálfgerður partur af menningu okkar að taka „rúntinn“ niður laugaveginn. Það væri svo auðvitað hægt að loka honum alveg þegar það á við líkt og gert er niður í bæ.
Það er eitthvað til sem heitir “seitlandi” umferð sem er þegar til staðar á Laugavegi neðan Vitastígs. Það þarf að bæta um betur og fara að ráðum Önnu Th. og leggja niður bílastæðin í götunni. Nú er það þannig að bílarnir taka sennilega 1000% meira pláss en gangandi þó það sé sennilega 20 sinnum fleira fólk sem gengur en ferðast með bílum.
Borgin er á réttri leið
Sælir!
Ég bý á Laugaveginum og hef haft nóg tækifæri til að fylgjast með atferli bæði gangandi vegfarenda og ökumanna á þeirri götu í gegnum tíðina.
Ég giska á að á sumrin séu u.þ.b. 40-60% ökumanna bara á rúntinum (silast niður Laugaveginn til að kíkja í búðarglugga, virða fyrir sér þá sem eru fótgangandi, tékka á því hvað er að ske í bænum — sem mér finnst bara alltsaman ósköp eðlilegt) og 40-60% séu að leita að bílastæðum. Innifalið í þeirri tölu eru auðvitað þeir sem eru að koma með vörur.
Að mínu mati eru bílastæðin aðalbölvaldurinn á svæðinu — ekki bílaumferðin. Mér líst ekkert illa á að gera Laugaveg að sumargötu en finnst að borgaryfirvöld ættu líka að íhuga annan kost, þ.e. að lofa bílum að silast þarna í gegn en leggja niður öll bílastæði. Gera t.d. þá tilraun í sumar og sjá hvernig það reynist.
Á Laugaveginum yrðu þó að vera ‘stoppistöðvar’ fyrir sendibíla, minibussa (þarna eru hótel), leigubíla og jafnvel stæði fyrir fatlaða. En þeim stoppistöðvum ætti að koma fyrir sunnanmegin (þ.e. skuggamegin).
Eins og málum er nú háttað liggja blikkbeljurnar í röðum sólarmegin í götunni og taka upp alveg gríðarlegt pláss. Þetta er alveg sérlega meinlegt í góðu veðri á sumrin vegna þess að það myndast flöskuhálsar þar sem gangandi fólk (ekki síst með barnavagna) á í megnustu erfiðleikum með að komast leiðar sinnar. Það er MJÖG MIKIÐ um fólk með barnavagna á góðviðrisdögum.
Birta og hlýja er fyrir öllu!
Laugavegurinn er mjög próblemísk gata vegna þess að hún liggur mjög illa við sól og í öðru lagi er hún alveg afskaplega þröng. Það er beinlínist grátlegt að horfa upp á kyrrstæða bíla leggja undir sig alla helstu sólskinsblettina.
Þegar franska Risessan kom hingað til lands, sællar minningar, var ferlíkið m.a. látið ganga niður Laugaveginn. Af því tilefni var hann algjölega hreinsaður af kyrrstæðum bílum kvöldið áður. Þetta var alveg einstök sjón (sem sennilega enginn hefur upplifað síðan í upphafi bílaaldar á Íslandi) og ég ætla ekki að lýsa því hvað Laugavegurinn fríkkaði!
Í sem stystu máli sagt: Burt með bílastæðin (á sumrin) en leyfum rúntliðinu að sniglast niður götuna á farkostum sínum.
Göngugötuhugmyndin er fráleitt vond en mann grunar að þetta sé hálfgerð dilla, hugmynd sem borgarfulltrúar upplifa sem sniðuga og skella sér á hana án þess að gerð sé hin minnsta tilraun til að analýsera í hverju vandamál Laugavegarins raunverulega liggja.
„Sumargötur“ þetta er gott hugtak og framkvæmdin getur varla misheppnast. Við höfum séð þetta undanfarin sumur þegar Austurstræti og Pósthússtræti var lokað á góðviðrisdögum. Ég trúi því ekki að hagsmunaaðlilar fari á standa í veginum fyrir þessu. Það hefur komið fram allstaðar að velta eykst og húsaleiga hækkar við svona aðgerðir.
eða shared space en hvergi stendur til að loka fyrir aðkomu vöruflutninga
Það er rétt hjá þér Steinarr Kr. að það heitir „Shared Street“.
Svona mistök eiga sér stundum stað í hita og þunga dagsins, en ég vona að þetta hafi skilist.
Varðandi skiljanlegar áhyggjur Alla þá er ég þess fullviss að þeir sem sjá um útfærsluna munu leysa þetta vandamál.
Sennilega á svipaðan hátt og gerist í miðborgum annarsstaðar. T.d í grennd við Covent Gardens í London, í Mýrinni í Paris og „den indre by“ Kaupmannahafnar.
Oftast með því að hleypa sendibílum að fyrir klukkan 11 á morgnana áður en þeir gangandi fá yfirráðin.
Alli: Fá ykkur trillur og rölta með varninginn frá bílastæði.
Á ekki að standa „Shared street“ en ekki „Shered street“.
og hvar eigum við sem vinnum á sendlabílum að koma vörunum ef göturnar eru lokaðar að fyrirtækjunum??