Föstudagur 17.01.2020 - 13:51 - Rita ummæli

Miðborgin/Laugavegur – Gott viðtal.

 

 

 

Hér er fjalað um hluta af viðtali við í Morgunblaðinu við Guðrúnu Jóhannesdóttur framkvæmdastjóra Kokku um miðborgina og Laugaveg.

Allir sem fylgjast með skipulagsmálum og þróun miðborga hafa tekið eftir mikilli breytingu þar um víða veröld undanfarin ár. Dregið hefur úr dreifingu byggðar, miðborgirnar eru að styrkjast og vinsældir verslunarmiðstöðva í jöðrum borganna fara minnkandi. Þær skipta hundruðum hinar svokölluðu „kringlur“ sem lokað hefur verið í Bandaríkjunum umdanfarin ár og það sama er að gerast í Evrópu. Netverslunin er sífellt að taka til sín meira af kökunni og verslun við aðalgötur borgann eru að taka breytingum. Það að versla er orðin afþreying og upplifun. Fólk er farið að sækja í miðborgirnar til þess að njóta þess að versla, borða og hitta fólk. Maður er manns gaman og verslun er að breytast úr nauðsynlegum hversdagslegum og leiðinlegum skylduverkum í nánast skemmtun og upplifun. Líklegt er að ein af meginorsökum þess að verslanir fari af Laugaveginum er hátt fasteignaverð, hátt fasteignamat og þ.a.l. mikil aðsemiskrafa af húsnæðinu.
++++
Í Morgunblaðinu í vikunni var fróðlegt og skemmtilegt viðtal við Guðrúnu Jóhannesdóttur framkvæmdastjóra og einn eiganda verslunarinnar Kokka á Laugavegi. Hún er einnig stjórnarformaður í stjórn samtakanna „Miðborgin Okkar“ og hefur mikið hugsað um verslun í miðborginni.

Guðrún tekur undir að þróunin síðustu ára í nágrannalöndunum sé sú að verslanamiðstöðvar séu á undanhaldi, á meðan miðbæjarverslun sækir í sig veðrið og segir hefðbundin verslun eigi almennt undir högg að sækja alls staðar í heiminum. „Fjögur þúsund verslunum var til dæmis lokað í Bretlandi árið 2019. Á sama tíma eykst netverslun.“ segir hún í viðtalinu við Morgunblaðið sem tekið var af Þóroddi Bjarnasyni blaðamanni Morgunblaðsins.Hér fara á eftir nokkur áhugaverð brot úr viðtalinu.

Veldur þessi þróun þér áhyggjum?
„Maður þarf auðvitað alltaf að vera á tánum og endurhugsa sinn rekstur alla daga. En ég held að fólk muni alltaf vilja sækja í ákveðna þjónustu og upplifun, og það hjálpar okkur að halda velli.

„Það er vanmetið hvað það er rosalega mikið af nýjum íbúðum í miðbænum. Það er margt fólk að flytja inn í þessar íbúðir. Ég finn mjög mikið fyrir því. Með breytingum í ferðaþjónustunni er líka minna um útleigu á íbúðum á AirBNB. Þá flytja íbúarnir aftur í íbúðirnar sínar.“

Guðrún segir að í skoðanakönnun Kokku hafi verið spurt hvaðan viðskiptavinir kæmu. Í ljós kom að flestir koma úr nálægum póstnúmerum,en einnig kom fólk alls staðar að af höfuðborgarsvæðinu og utan af landi. Þá var spurt hvernig fólk kæmi í miðbæinn. Svörin voru á þá lund að langflestir komu á bíl.

Í framhaldi var spurt hvort erfitt hefði verið að finna bílastæði. Svar flestra við þeirri spurningu var nei. „Það er ekkert mál að finna bílastæði niðri í bæ. Við erum með fjögur þúsund stæði í bílakjöllurum og þúsundir af stæðum ofanjarðar. Það er bara ekki satt þegar sagt er að fólk komi ekki í bæinn út af bílastæðavanda.“ Guðrún segir að einnig hafi verið spurt hvernig fólki litist á göngugötur í miðborginni. Þar sögðust 73% vera hlynnt því. „Þá hlýt ég sem kaupmaður að gera það sem viðskiptavinurinn vill. Þetta er samhljóma öðrum könnunum sem gerðar hafa verið af borginni og öðrum en þar hefur hlutfallið sem vill göngugötur aldrei farið niður fyrir 50%. Þetta hlusta kaupmenn og borgin á við framtíðarskipulag miðborgarinnar.“

Eins og sagt hefur verið frá opinberlega er það stefna borgaryfirvalda að gera Laugaveginn allan að göngugötu. Því er Guðrún hlynnt, enda er það vilji meirihluta viðskiptavina. Hún segir að með því að gera Laugaveginn að göngugötu sé samhliða hægt að bæta aðgengi að öllum verslunum og veitingastöðum við götuna. „Þetta mun gera kraftaverk í aðgengi. Það eru svo mörg hús í dag með þrepi eða tröppum, og hægt verður að laga yfirborðið á allt annan hátt en hægt er í dag. Það góða við framkvæmdirnar er að það er búið að endurnýja allar lagnir. Því verður bara um yfirborðsmeðhöndlun að ræða. Rask verður miklu minna en var til dæmis á Hverfisgötunni, og gerði mörgum erfitt fyrir.“

Guðrún er formaður samtakanna Miðborgarinnar okkar.„Það eru bæði skiptar skoðanir meðal félagsmanna og stjórnarmanna í félaginu. Félagið tekur ekki opinbera afstöðu, enda er það ekki pólitískt. Við vinnum fyrst og fremst að markaðssetningu fyrir miðborgina, og ég vil bara segja það að reglulegar upphrópanir örfárra kaupmanna við Laugaveginn um að allt sé ómögulegt í miðborginni, er versta markaðssetning sem til er. Ef sú mantra er síendurtekin í fjölmiðlum fer fólk að trúa því. Það er alltaf verið að hamra á því að bærinn sé að tæmast af verslunum..“ „Þetta er ( ) klárlega öflugasta verslunarsvæði á landinu. Allt tal um að hér sé allt á vonarvöl er ( ) tóm vitleysa.“ Guðrún bendir á að flóran sé sífellt að verða skemmtilegri og fjölbreyttari. Miðborgin stækkar, Hverfisgatan sé að verða hugguleg, og nýir rekstraraðilar spretti þar upp. Einnig bætast sífellt við skemmtilegar verslanir og veitingastaðir í hliðargötum eins og á Njálsgötu og Frakkastíg.

+++
Það var ánægjulegt að lesa þetta viðtal vegna þess að hér kveður við annan tón en þann sem hefur verið áberandi í umræðunni um um Laugaveginn og miðborgina undanfarið. Þetta eru bjartsýnisleg og lausnamiðuð sjónarmið sem koma fram hjá Guðrúnu Jóhannesdóttur.

Því er hinsvegar ekki að neita að skipulagsyfirvöldum hefur ekki tekist að höndla deiluna um Laugaveg göngugata þannig að sátt finnist. Með einhverri þvermóðsku og réttrúarofstopa hefur þeim tekist að viðhalda deilunni og jafnvel dýpkað hana. Steininn tók úr þegar þau ákváðu að breyta akstursstefnunni á miðri götunni. Þetta gerði ekkert annað en að skaprauna fólki. Þetta var eins og eitthvað „stríðnistrikks“ í rifrildi milli manna sem gerir það eitt að skaprauna fólki eins og dæmin sanna.

Það er ljóst að Laugavegur mun verða göngugata þegar fram líða stundir og við eigum að stefna að því. Það hefur verið nefnt hér á þessum vetvangi nokkru sinnum að gera götuna, til að byrja með, að „PPS“ götu (pedestrian priority street) þar sem gangandi hafa forgang. Þetta væri millileikur sem án vafa mun leiða á eðlilegan, varfærnislegann og mjukan hátt að þeirri æskilegu niðurstöðu sem stefnt er að.Það er að gera Laugaveg frá Snorrabraut að hreinni göngugötu allt árið. Í mínum huga mun verða víðtæk sátt um slika nálgun. Munum að góðir hlutir gerast hægt. Ofbeldi borgar sig ekki meðan málamiðlun skilar oftast betri árangri.

Efst er mynd tekin að vetri til á Laugavegi að morgni þar sem gangandi og flutningabílar með aðföng eiga vandræðalaus samskipti. Strax að neðan eru tvær myndir af PPS götum. Annarsvegar frá Kaupmannahöfn og hinsvegar í París þar sem gangandi hafa yfirtekið göturnar og bílaarnir víkja. Þeir sem þurfa að fara ferða sina í bíl, aldraðir eða faltlaðir eða af öðrum ástæðum geta ekið um götuna en það er tafsamt og ekki auðvelt. En það er leyft.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn