Miðvikudagur 09.12.2009 - 11:41 - 1 ummæli

Mies van der Rohe

 

Ef velja ætti 10 byggingar sem mest áhrif höfðu á byggingarlist tuttugustu aldarinnar þá yrði framlag Þýskalands á heimssýningunni í Barcelona árið 1929 ein þeirra. Nú eru rétt 80 ár síðan skálinn var reistur.

 

Byggingin var ekki aðeins stefnumótandi heldur þótti hún og þykir enn afburða vel gerð út frá fagurfræðinni einni saman og kollvarpar hún þar með kennisetningum um að fegurðin komi innan frá og sé óaðskiljanleg funksjóninni ásamt því að byggingarlist eigi að endurspegla ríkjandi menningu þess tíma sem hún er byggð á.

 

Byggingin hafði nefnilega engan annan tilgang en að vera hús/skáli og hún var í engu sambandi við ríkjandi menningu þess tíma þegar hún var reist. Hún var langt á undan sinni samtíð og varð mótandi fyrir þróun í byggingarlist nánast allrar heimsbyggðarinnar í hundrað ár.

 

Það læðist að manni sá grunur að kennisetning Mies van der Rohe, “Less is more” hafi orðið til í tengslum við þessa byggingu og í framhaldinu minimalisminn.

 

Í stuttri færslu eins og þessari er ekki hægt að fjalla um bygginguna nema á afar yfirborðslegan hátt.

 

Ég vil þó nefna tvennt. Annars vegar að burðarvirkið er óháð rýmismótuninni. Veggirnir eru ekki berandi nema að litlum hluta til. Berandi krómaðar súlurnar standa til hliðar við veggina sem mynda rýmin. Þetta hefur haft áhrif á alla skýjakljúfa aldarinnar fram á okkar daga.

 

Hitt sem ég vil nefna er hvernig farið er með dagsljósið. Bæði hliðarljós og ofanljós. Þarna eru ekki veggir með götum fyrir glugga eins og tíðkaðist. Heldur eru lokaðir fletir og svo opnir heilir gluggaveggir. Þar sem húsdýpt er mikil og þök ganga langt út fyrir útveggi kemur ofanljós. Deili eru fá og endurtaka sig aftur og aftur.

 

Efnistökin með krómuðum súlum og steinklæðningum sem er flett þannig að skemmtileg spegilmynd kemur í ljós. Hvergi annars staðar í húsinu er symetríu að finna, En symmetría var ein af lykilreglum í byggingarlist öldum saman.

 

Svo má ekki gleyma stólunum sem enn eru í framleiðslu og njóta mikilla vinsælda.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • Upprunalega byggingin var að vísu rifinn eftir heimssýninguna í Barcelona árið 1929 , en vandlega endurreyst aftur af kollegum og öðrum aðdáendum á Spáni fyrir ekki svo mörgum árum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn