Mánudagur 03.03.2014 - 19:34 - 23 ummæli

Mikilvæg sjónlína skert í Reykjavík.

 

 

 

Sagt er að glöggt sé gests augað.

Þegar ég var á Akademíunni í Kaupmannahöfn hélt ungur danskur arkitekt, Alfred Homan, fyrirlestur um Reykjavík.

Hann skýrði upplifun sína af borginni með ljósskyggnum sem hann hafði tekið á göngu sinni frá Hlemmi niður á Hallærisplan.

Hann benti á hluti sem við hinir  höfðum ekki leitt hugan að áður.

Það þurfti útlending til, dana.

Hann lýsti göngunni niður Laugarveg þar sem með jöfnu millibili opnaðist sýn niður eftir þvergötum Laugarvegar þar sem voru fíngerð gömul hús í forgrunni, hafið í miðgrunni og svo stoppaði augað á bakgrunni sem var og er Esjan.

Þetta endurtók sig með vissu millibili eins og stef tónlistar og upplifunin jókst og varð áhryfameiri við hver gatnamót þar til komið var að gatnamótum Pósthússtrætis og Austurstrætis.

Þá var boðið uppá aðra upplifun. Farskip við kajan til norðurs og flugvélar að hefja sig til flugs til suðurs þar sem dómkirkjan og Alþingishúsið blöstu við.

Alfred Homan sagði að tilfinningin fyrir að vera komin í miðborgina hafa verið mjög sterk. Sterkari en almennt gerist í bæjum og borgum.

Svo hélt hann áfram til vesturs að aðaltorgi bæjarina, Hallærisplaninu. Og þar endar miðborgin mjög ákveðið. Morgunblaðshúsið er endi þessa áss. Hóman sagði þetta einstakt og einstaklega gott bæjarskipulag og gatnakerfi. Honum fannst reyndar að ásinn ætti frekar að enda á einhverri þýðingarmeiri byggingu en skrifstofuhúsi. T.d. tónlistarhúsi, réðhúsi eða slíku.

Það verður að segjast eins og er að arkitektinn, Alfred Homan, opnaði augu okkar íslensku arkitektanemanna við skólanum fyrir einhverjum mestu gæðum borgarskipulags Reykjavíkur innan Hringbrautar. Við höfðum ekki tekið eftir þessu áður.

Nú hefur annar kollegi kvatt sér hljóðs. Það er Jon Kjell Seljeseth sem er norðmaður. Hann er reyndar ekki gestur lengur heldur búsettur hér í borginni.

Jon Kjell Seljeseth og kona hans Elín Ebba Ásmundsdóttir hafa vakið rækilega athygli á þessum gæðum sem Hóman benti á. Þessum gæðum er nu ógnað með fyrirhuguðum háýsum sem verið er að hefja byggingu á.

Þau segja að nýbyggingar við Skúlagötu sem nú er verið að byggja muni  skyggja á útsýnið frá Skólavörðuholtinu og niður Frakkastíg að sjónum og um leið eyðileggja eina mikilfenglegustu sjónlínu borgarinnar. Þetta skýra þau með samsettri mynd sem sjá má efst í færslunni.

Það er mat hjónanna, sem vöktu fyrst athygli borgaryfirvalda á málinu í ársbyrjun 2008 að þarna stefni í óefni.

„Þetta skemmir ekkert fyrir okkur persónulega“ segja þau  „en það er verið að stúta svo miklum verðmætum borgarinnar og borgarbúa“ segir Jon Kjell í umfjöllun um mál þetta í viðtali í Morgunblaðinu í dag.

Þarna er verið að trufla sjónræn tengsl milli Sólfars Jóns Gunnars og Leifsstyttu Calders.

Það hefur lengi verið meginmarkmið arkitekta að styrkja gæði umhverfisins og stuðla að því að draga úr göllum þess með tillögum sínum.  Í þessu tilfelli sem Jon Kjell bendir á er þessu þveröfugt farið. Það er bætt við gallana og dregið verulega úr kostunum.

Þetta er einmitt dæmi um hversu fólk er illa að sér um skipulagsáætlanir. Það er eins og fólk átti sig ekki á hlutunum fyrr en kemur að framkvæmd. Dæmin eru mörg.  Skúlagötuskipualgið er áratuga gamalt að stofni til. Því hefur verið margbreytt síðan í upphafi. Oftast til verri vegar. Þegar svona stendur á missir fólk sjónar á aðalatriðunum eða missir áhuga og einbeitingu.

Og áttar sig svo þegar tækifæri til andmæla er nánast engin.

Þarf ekki að skoða allt  þetta samráðs- og athugasemdferli eitthvað betur?

++++

Á myndinni að ofan sést til vinstri  útsýnið frá Skólavörðuholti niður Frakkastíg að Sólfarinu eins og það er í dag. Hægra megin sést hvernig útsýnið, eða sjónlínan, yrði þegar framkvæmdum við háhýsið yrði lokið.

 

Sjá einnig:

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/02/09/gildistimi-deiliskipulaga/

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/09/13/kemur-adalskipulagid-fra-gudi/

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (23)

  • Hafþór

    Jesús Guð hjálpi okkur

  • Hilmar Gunnarsson

    Mér finnst mikill sómi af skipulagsyfirvöldum í Reykjavík sem hafa skilað góðu verki og lagt sitt af mörkum varðandi eflingu kynningarmála.

    Það mætti líka velta fyrir sér læsi almennings á skipulagsmálum sem eru á köflum meira hlaðin tilfinninga- heldur en gildisrökum. Það er nefnilega þannig að á tímum samfélagsmiðla er gríðarlegt framboð af skoðunum en minni eftirspurn eftir staðreyndum 🙂

    Er ekki kominn tími til að taka upp umræðuna um að koma arkitektúr inn í grunnskóla og framhaldsnámið eins og Danirnir hafa gert? Greinarhöfundur hefur margoft bent á þetta í skrifum sínum. Ættum við ekki að taka upp þann þráðinn núna?

  • G. Helga.

    Það er dagljóst að skipulagsmálin í borginni fara batnandi og umræðan er að vakna.

    En umræðan og kynningar eru alls ekki nægjanlega góð, mikil eða djúp.

    Borgin þarf að bregðast við með öflugri kynningu og ná til fólksins með betri og skilvirkari hætti en fram að þessu.

    Kannski í gegnum skólana eða félagasamtök eins og kirkju, skáta íþróttafélög o.fl.

    Það dugir greinilega ekki að kynna svona hluti á vef borgarinnar eða hengja þetta upp í stuttan tíma á skrifstofu bæjarfélagsins.

    Það þarf að þvinga fram sjóðandi og bullandi umræðu áður en stórar ákvarðanir eru teknar í skipulagsmálum.

  • Jón Brynjar Másson

    Varðandi Skuggahvefis Skúlagötu skipulagið.
    Þá held ég að með því skipulagi sé verið reyna láta borgina líta vel út frá hafi séð, með því að reisa þessi háhýsi til að fela ljóta Skuggahvefið sem er þar á bakvið og jú það var ljótt og er enn ljótt. En þessi nálgun er kolvitlaus og ber vott af engri virðingu fyrir því sem var þarna fyrir.

  • Þetta var ákveðið 2006
    Sorglegt að enginn hefur bennt á þetta fyrr.
    Að mínu mati er þetta of seint…. við þurfum bara að læra af reynslunni og passa að svona gerist aldrei aftur

  • Hilmar Þór

    Ég þakka Páli Hjaltasyni fyrir að taka þátt í umræðunni og skýra málin út. Það er vissulega rétt að hver nýr meirihluti þarf sinn djöful að draga og að skipulagsákvarðanir eru ekki afturvirkar. Þvi er nú verr.

    Það hefur mikið áunnist í skipulagsmálum Reykjavíkur með nýju aðalskipulagi AR 2010-2030 þar sem lagðar eru áherslur á vistvæna byggð fyrir fólk í stað bíla.

    Sterkasta einstaka atriðið er fyrirhugaður samgöngu- og þróunarás sem mætti klla þjónustuás eftir borginni endilangri. Og svo nánast bann við háhýsum innan Hringbrautar.

    Ég fyrir minn hlut tel miklu máli skipta að formaður skipulagsráðs sé arkitekt. Það er vegna þess að hann skilur tungumáið og ekki síður formmalið. Arkitektar (flestir) sjá heildina og skynja áhryf og samhengi hlutanna.

    Að lokum vil ég segja að ég skil ekki af hverju “Halli” (að ofan) skrifar undir dulnefni þegar hann er að hrósa þeim sem að skipulagsmálum hafa komið undanfarin ár. Ástæðurnar eru án efa fyrir hendi. Mér dettur í hug að þarna sé á ferðinni innmúraður, póltískur andstæðingur Samfylkingar og Besta flokksins sem getur , stöðu sinnar vegna, ekki hrósað þessum tvei andstæðingum sínum fyrir vel unnin störf undir fullu nafni. En hann finnur sig samt knúinn til þess að gera það.

  • Það einkennir meirihluta skipulagsnefndar viss einlægni eins og kemur fram hjá Páli Hjaltasyni hér að ofan. Hann er ekki að skammast heldur segir að hann sé að mæta þeim sjónarmiðum sem ganga út á að draga úr ýmsum vitleysum sem gerðar hafa verið undanfarin ár í skipulagi. Núverandi skipulagsráð er vel samsett með Páli og Hjálmari i öndvegi.

    Meginatriðið í málflutningi Páls er að skipulag virkar ekki aftur fyrir sig og fólk þarf að lifa við þær ákvarðanir sem teklnar hafa verið á fyrri tíð. Að skipulagið sé ekki “afturvirkt”

    Þessi skugalegu hús í skuggahverfnu munu rísa. Því miður.

  • Páll Hjaltason

    Þetta skipulag er upphaflega frá níunda áratugnum, það var umdeilt þá og því miður fór það ekki batnandi með þeim breytingum sem gerðar voru á því síðar. Það má sjá þessa þróun af þeim húsum sem hafa risið við Skúlagötuna síðustu tvo áratugi. Fyrstu húsin voru byggð næst Klapparstíg og þó að þau séu há, falla þau að mínu mati mun betur að eldri byggð en þau sem risu síðast (og eiga eftir að rísa).
    Nýtt aðalskipulag Reykjavíkur setur fram stefnur sem eiga að útiloka að þetta gerist í framtíðinni, svo sem stefna um hæðir húsa, verndun sjónása og verndun byggðamynsturs. Það er hinsvegar þannig að aðalskipulag er ekki afturvirkt en síðasta deiliskipulagsbreyting á Skuggahverfinu er síðan 2006. Sama ár voru samþykktar byggingarnefndarteikningar og í kjölfarið gerðir sökklar. Ekkert varð þó úr frekari framkvæmdum vegna efnahagshruns…fyrr en nú.
    Skipulagsmálin í borginni er þungur málaflokkur og óhætt að segja að visst stefnuleysi hafi einkennt hann síðasta áratug. Það hefur verið forgangsverkefni núverandi Umhverfis- og skipulagsráðs að ná yfirsýn yfir skipulagsmál borgarinnar. Það mikilvægasta var að klára endurskoðað aðalskipulag og að setja af stað hverfisskipulagsvinnu.
    Það hefur einnig verið eitt af stóru verkefnum síðustu 4 ár að vinda ofan af misgóðum skipulagsáætlunum eins og hægt er, má nefna Landssímareit, Hljómlindarreit, Brynjureit, Lýsisreit, Vísindagarða, Vesturbugt, Einholt-Þverholt ofl. Alltaf með það að leiðarljósi að minnka byggingarmagn og/eða vernda eldri byggð eða byggðarmynstur. Það hefur þó aldrei verið gengið svo langt að breyta skipulagi eftir að byrjað hefur verið á framkvæmdum. En það má alltaf gera alla hluti betur og að mínu mati eru nokkrar skipulagsáætlanir til viðbótar sem æskilegt væri að taka upp.

    • Dennis Davíð

      Mér líst að mörgu leiti vel á nýja aðalskipulagið. Vonandi tekst því að fyrirbyggja að alvarleg skipulagsmistök verði gerð í framtíðinni. Ég er nokkuð sannfærður um að það verður ekki gert nema með virku og upplýstu samtali við íbúa borgarinnar en þeirra hagur skiptir megin máli. Borgin er fyrir fólkið eins og stendur í nýja aðalskipulaginu. Það var því miður ekki tekið mikið mark á athugsemdum íbúanna þegar turnarnir við Sigtún, Borgartún og í Skuggahverfinu voru byggðir. Þarna eru stór skipulagsslys sem borgarbúar sitja uppi með. Mér eru sérlega minnistæð útvarpsviðtöl sem Hjálmar Sveinsson tók við íbúana í Túnunum, sem mótmæltu harðlega áformum við Höfðatorg. Þar réðu aðrir hagsmunir. Það er kaldhæðni örlagana að þar er nú aðsetur Umhvefis- og skipulagssviðs. Oft finnst mér samráð við íbúana vera formsatriði og athugasemdir þeirra ekki teknar nógu alvarlega. Eins tel ég Hverfisráðin vera of pólitísk en þau ættu samkvæmt eðli sínu að vera grasrótarsamtök og í þau ættu íbúarnir að velja sér hæft fólk óháð flokkspólitík til að standa vörð um hagsmuni sína.

  • Sorglegt að sjá.

  • Páll Torfi Önundarson

    Sá sem ekki lætur uppi nafn sitt er varla svaraverður, „hrekkjalómur“. En í mörgum borgum sem ég þekki vestanhafs hafa menn gætt að því að eyðileggja ekki gamla þorpið „village“ og að byggja stórborgina ekki þar. Dæmi Washington og Philadelphia. Svo eru líka dæmi um skemmdarverkin, t.d. London sbr. krítik Karls bretaprins á það óskipulag. En skora á þig, hrekkkjalómur, að segja hver þú ert.

  • hrekkjalómur

    Mér sýnast menn hér ekki vilja búa í borg, heldur í sveit þar sem þeir geta hoft í allar áttir óáreittir. Reykjavík er borg. Í borg geta menn ekki átt von á „sjónlínum“ í allar áttir.

    Hrekkjalómur

    • Einar Guðmundsson

      Ég er ekki hissa á því að þú skrifir undir nafnleynd „Hrekkjalómur“. Þessi athugasemd þin lýsir fullkomnum skorti á tilfinningu fyrir staðnum. Hvort heldur verið er að tala um borg eða sveit.

      Þetta dæmi sem hér er til umfjölunnar er víti til varnaðar ef ekki er hægt að stöðva þetta með einhverjum hætti áður en lengra er haldið.

  • Páll Torfi Önundarson

    Ég kannast við það sem Hallgrímur segir hér að ofan að það er ekki til vinsælda ráðamanna fallið að gagnrýna skipulag. En ímyndið ykkur að horfa í vestur um Austurstræti í kvöldsólinni ef engin væri Morgunblaðshöllin, horfa í vesturfrá Hótel Borg ef ekkert væri Símahúsið og gamli kirkjugarðurinn grænn og horfa á Háskólann úr austri ef Hótel Saga væri ekki á bakvið. Væri það ekki fagurt?

    Framundan eru slys, öll manngerð, t.d. mun nýauglýst skipulag skyggja á sjónlínu frá Lækjargötu að Hörpunni, Landspítalaferlíkið ef af verður mun skyggja á gamla Landspítalann og Háskólann og Þingholtin. Sá sem þetta ritar er ekki arkitekt en telur sig hafa fegurðarskyn í meðallagi. Af hverju hafa þeir sem fjalla um skipulagsmál ekki fegurðarskyn í meðallagi? Af hverju vilja þeir umlykja gamla Reykjavíkurþorpið með borg eða virkisvegg?

  • Garðar Garðarsson

    Auðvitað á að stöðva svona skipulagsslys áður en af verður þó að það kosti, því kosnaðurinn til lengri tíma litið mun alltaf vera meiri og tilfinnanlegri.

  • Orri Ólafur Magnússon

    Góð ábending. Kjarni málsins er samt afar einfaldur ; óskert útsýnið á haf út – eða fjallahringinn – er hér í Reykjavík sem í öðrum borgum selt dýru verði. Þeir sem kaupa húsnæði í þessum áformuðu háhýsum hafa efni á slíku – þeir kaupa útsýnið sem hluta af „pakkanum“ . Andspænis þessum tiltölulega fámenna hóp efnafólks stendur svo óskipulagt og sundrað bæjarfélag. Því fer sem fer : réttur hinna efnameiri og skipulögðu stendur skör hærra en hinna óskipulögðu og dreifðu. Hitt er svo allt önnur saga, hvort það sé efnirsóknarvert að búa í svona stál- og steinsteyputurni þegar allt eðlilegt og raunverulegt borgarlíf er löngu horfið úr nágrenninu – „sjarminn“ við gamla hverfið rokinn út í veður og vind og ekkert nema hótel og pizzustaðir fyrir erlenda ferðamenn eftir í hverfinu. Ég fyrir mitt leyti lít á þessa turna sem lið í stigmagnaðri „brútalíseringu“ miðbæjarins. Það líður ekki á löngu þar til ferðamennirnir, sem öll hótelin eru reist fyrir, snúa með hrolli baki við þessum óskapnaði sem gamli hlutinn – sjávarsíðan – Reykjavíkur er á leið með að verða – sbr. „búnkerinn“ á Mýrargötunni og annað álíka.

  • Hallgrímur Guðmundsson

    Það er hérumbil ekkert hægt að gera í þessu annað en að líta undan.

    Fólk nennnir ekki að mótmæla vegna þess að það er litið hornauga ef það bendir á galla skipulags í kynningarferlinu.

    Skipulagsslysin eru einu slysin sem gera boð á undan sér.

    Dæmin eru mörg:

    Háskólinn í Reykjavík

    Grand Hótel

    Landspítalinn

    Höfðatorg

    Borgartúnið.

    Grafarholt vestur.

    o.fl.

    o.fl.

    Maður er hálf dofin yfir þessu vegna þess að fólk er oftast að vanda sig. Kynningarfelið virkar ekki. Það á að taka öllum kverúlöntum fagnandi og virkja þá í umræðunni. Sennilega er það eina ráðið.

    Skipulagsfræðingar hafa ekki yfirsýn eins og ú þessu sjónlinumáli (Munið sjómannaskólann og Höfðatorg)

  • Einar Pálsson

    Hér má skoða deiliskipulagstillöguna frá 2006:
    http://lukrskjol.reykjavik.is/skipulagssja/upplysingar/DSK_PDF/Reitur11523_Skuggahverfi_2006.pdf

    Hvergi er gefið til kynna, að byggingarnar muni skaga út í sjónlínu Frakkastígs. Horn Frakkastígs og Lindargötu með bogadregnu byggingunni er ekki sýnt til fulls og því blasir samhengið ekki við þeim, sem ekki þekkir þeim mun betur til. Útlitsmyndin fyrir Skúlagötu gefur heldur ekki til kynna, hver afstaðan er gagnvart Frakkastíg í heild sinni.

    • Þórður Magnússon

      Er nokkuð viss um að húsið er sýnt of austarlega á þessari mynd efst á síðunni.

  • Í því ágæta landi Sviss greiðir fólk atkvæði um svona miklar skipulagsbreytingar. Ekki þjóðaratkvæði heldur greiða þeir sem búa eða vinna í nágrenninu atkvæði. Nágrennið er misjafnlega skilgreint eftir mikilvægi breytinganna og kann ég ekki nánari skil á því. Til að borgararnir geti áttað sig á sjónrænum áhrifum væntanlegra breytinga þarf sá sem stendur fyrir framkvæmdinni að slá upp grind sem sýnir útlínur mannvirkisins. Í síðari tíð er grindin oft klædd með dúk með áprentuðum teikningum. Flest þéttingarverkefni eins og áform eru uppi um í Reykjavík myndi þurfa kynna á þennan hátt.

  • stefán benediktsson

    Þetta versnar eftir því sem neðar kemur eins og td á Laugavegi. Sjónrænt er hæðin aðalvandinn.Hægt væri að lifa við hálfa hæð.
    Praktiskt eru upphaflega samþykktin og lögin aðalvandinn. Byggingaryfirvöld gáðu ekki, þrátt fyrir tölvutæknimöguleika, að sér og samþykktu. Þá kemur lagavandinn; með samþykktinni ertu búinn að stofna „eign“. Borgaryfirvöld hafa reynt að fá lögum/reglugerð breytt, án árangurs. Veit ekki hvað reynt hefur verið í samningum. Hálfur turn er trúlega ansi margra lóða virði í Úlfarárdal. Nýja Aðalskipulagið tekur vandlega á þessu atriði.

  • Sveinn Jónsson

    Það er ekki hægt að ætlast til þess að allir séu sífellt á heimasíðu Reykjavíkurborgar og skoða skipulagsáform. Það þarf að kynna skipulag eldri hverfa með einhverjum öðrum hætti sem er aðgengilegri. Ég veit ekki hvernig en það er eitthvað að þegar sífellt er komið aftan að fólki. Eins og í þessu tilfelli.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn