Þriðjudagur 27.02.2018 - 10:53 - 15 ummæli

Miklabraut í stokk – aftur! – Hvað með Landspítalann?

 

 

Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024 var mikið bílaskipulag. Í því var gert ráð fyrir göngum undir Skólavörðuholtið að Landspítalanum og öðrum göngum frá Suður Mjódd undir allan Kópavog endilangan að Kringlumýrarabraut að miklum mislægum gatnamótum og aftur undir Öskjuhlíð að Landspítalanum. Þá var gert ráð fyrir að Miklabraut yrði sett í stokk að gatnamótum Bóstaðavegar og Snorrabraut.  Þar fyrir utan var gert ráð fyrir einum sex nýjum mislægum gatnamótum í borginni vestan Elliðaáa.

Núgildandi aðalskipulag AR2010-2030, hvarf frá þessum miklu einkabílaáætlunum. Samfara þessari breytingu hefði þurft að gera ýmsar breytingar í skipulaginu sem væru móvægisaðgerðir til þess að minnka bifreiðaumferð.  Má þar nefna meiri dreifingu atvinnu og þjónustutækifæra og flutning þeirra austar í borgina, byggja meira af íbúðum vestast í borginni, gera borgarhlutana sjálfbærari,   stuðla að breytingu á ferðavenjum borgaranna  ásamt fleiru.  Þetta hefur ekki gemngið eftir væntingum. Umferðavandinn hefur vaxið og stefnir í óefni.

Nú hafa verði lagðar fram hugmyndir um að endurvekja áratuga gamla hugmynd um Miklubraut í stokk sem var með formlegum hætti strikuð út af aðalskipulaginu AR2010-2030.  Mislæg gatnamót  á mótum Miklubrautar og  Kringlumýrarabrautar sem var líka í AR 2001-2024,  þau hafa líka verið endurvakin sýnist mér.

Maður veltir fyrir sér hvað veldur þessari miklu aðalskipulagsbreytingu sem er í raun stefnubreyting. Þarna er verið að greiða  leið fyrir einkabílismann sem áður var stefnt að því að  takmarka.

Samkvæmt frummatinu um Miklubraut í stokk opnast land sem er um 23 hektarar  þar sem nýbyggingasvæði er rúmlega helmingurinn. Gert er ráð fyrir þróunarsvæði þarna  og mikilli aukningu byggina. Samtals er um að ræða um 140.000  fermetra af íbúðum (um 1400 íbúðir) og 66.000 fermetra vegna verslunar og þjónustu. Þetta er ekki að finnna í AR2010-2030. Þessi hugmynd rýrir markmið aðalskipulagsins um línulega miðborg frá Vesturbugt að Keldum eftir Suðurlandsbraut.

Ef við gefum okkur að Meðferðarkjarni Nýja Landspítalans verði tekin í notkun samkvæmt áætlun árið 2023 og miðað er við álit Framkvæmdasýsunnar og Skipulagsstofnunnar um flækjustig skipulagsmála og tímaáætlanir. Þá verður búið að reka meðferðarkjarnann í um fimm ár þegar framkvæmdir við þennan stokk hefjast.

Þá mun þurfa að loka Miklubrautinni, Kringlumýrargatnamótin munu ýmist vera lokuð eða með skerta flutningsgetu. Það sama á við um gatnamót Snorrabrautar, Bústaðavegar og Hringbrautar. Þessar tafir og lokanir munu líklega verða viðvarandi í 6-10 ár. Ef þetta gengur eftir verður aðgengi að nýja Þjóðarsjúkrahúsinu við Hringbraut fullkomlæega óásættanlegt um margra ára skeið.

Þarna koma enn ein rök fyrir því að gera þarf nýtt og óháð staðarvalsmat vegna þessarar  miklu og nauðsynlegu framkvæmdar.

Ef litið er á þetta sem einangrað samgöngumál væri vert að skoða hvort göng frá Grensásvegi í Vatnsmýri væri ekki eitthvað sem rétt væri að skoða. Þá væri hægt að byggja Miklubraut upp sem sjarmerandi borgargötu án þess að setja umferðakerfi borgarinnar allrar í uppnám.

+++

Efst er ljósmynd af Miklubrautinni eins og hún var nokkrum árum eftir að hún var opnuð. Hún virkar gríðarlega stór og miklu stærri en mann óraði fyrir að þörf væri fyrir. En nú er hún orðin allt of lítil og ástæðurnar fyrir því eru fyrst og fremst skipulagsmál.

 

Að ofan er tölvumynd sem sýnir Miklubraut eftir breytinguna samkvæmt áætlunum sem nýlega voru kynntar. Götunni er breytt úr eins kég onar hraðbraut í borgargötu, iðandi af mannlífi, seitlandi bifrteiðaumferð,  hljóðlátri Borgarlínunni, logn, sól og blíða.  Umhverfi sem flestir sækjast eftir og enginn getur verið mótfallinn. Ég held að þetta geti verið góð hugmynd sem vert er að velta fyrir sér þegar sú línulega miðborg sem AR2010-2030 stefnir að er komin upp og orðin starfhæft hryggjarstykki Reykjavíkurborgar.

 

Ef horft er á þessa mynd að ofan sér maður að það er áformað að byggja mikið á helgunarsvæði núverandi Miklubrautar ef af þessu verður. Það er auðvitað sjálfsagt og ágætis hugmynd sem liggur í augum uppi. En ef maður rýnir í myndina sér maður strax að þessi uppbygging er ekki í neinu samræmi við AR2010-2030. Þarna er í raun um stefnubreytingu að ræða því þarna er verið að færa samgönguás aðalskipulagsins til frá Suðurlandsbraut að Miklubraut og gera þar þróunarsvæði sem ekki er að finna í AR2010-2030. Í AR2010-2030 er ekki gert ráð fyrir neinu þróunar- eða uppbyggingarsvæði og ekki gert ráð fyrir Miklubraut í stokk.

 

Miklabraut í stokk á að vera um 1700 metra löng samkvæmt þessum hugmyndum og ná nánast frá Háaleitisbraut að Landspítalanum. Samkvæmt upplýsingum á stokkurinn að vera um 20 metra breiður. Til þess að koma honum fyrir þarf að grafa og sprengja um 10 metra niður í jörðina, samkvæmt tölum frá Mannviti. Jarðvinnan verður líklega um 30 metra breið. Þarna þarf því að fjarlægja meira en 500.000 rúmmerta af jarðvegi vegna framkvæmdanna og aka líklega um 150.000 rúmmetra af annarsslags efni til baka. Líklega færi þetta efni í landfyllingar í Örfyrisey og Bryggjuhverfi.

Við gatnamót Bústaðavegar, Hringbrautar, Snorrabrautar og Miklubrautar er  hugmyndin að endurskipuleggja allt og rífa þau mannvirki og brýr sem þar eru. Við framkvæmdina þarf að brjóta allar núverandi brýr og taka allar þessar götur úr sambandi hvora við aðra í styttri eða lengri tíma. Þannnig mun aðgengi að Nýja Þjóðarsjúkrahúsinu við Hringbraut verða mjög slæmt um langt árabil.

 

Sneiðingar í miklubraut. Á efra sniðinu er gatan eins og yrði á yfirborðinu áður en komið er að göngunum, með tveim sérrýmum fyrir Borgarlínuna og sex fyrir bíla. Við göngin verða akreinarnar jafn margar með fjórum akreinum fyrir einkabíla neðanjarðar og tvær ofanjarðar ásamt Borgarlínunni. Þessar sex bílaakreinar  munu flytja eitthvað meira vegna þess að ekki þarf að stoppa við gatnamót eða göngubrautir í neðra.

 

Í aðalskipulaginu 1996-2016 0g AR 2001-2024  var grert ráð fyrir að Miklabraut væri sett í stokk eins og sést á korninu að ofan (AR2001-2024) Þarna eru líka mislæg gatnamót við Kringlumýrarbraut. Hætt var við þetta í AR2010-2030.

Í AR2010-2030 sem myndiun er af að ofan sést að búið er að fella stokkinn  við Miklubraut niður í skipulaginu. Það má líka sjá að samkvæmt gildandi aðalskipulagi er ekki gert ráð fyrir þróunarsvæði eða samgönguás við Miklubraut. Samgöngu og þróunarás aðalskipulagsins 2010-2030 er hinsvegar meðfram Laugavegi og Suðurlandsbraut sem er í takti við meginhugmynd aðalskipulagsins um línulega miðborg.

Samgöngu og þróunarás aðalskipulagsins 2010-2030 er vel útfærður, vel hugsaður og í fullkomlega eðlilegum takti við þróun borgarinnar frá öndverðu. Undir myndinni sem er í aðalskipulaginu stendur.:  „Hugmyndin að þróunarásnum verði smám saman heildstæð breiðgata sem liggur eftir endilöngu nesinu, nokkursskonar línuleg miðborg. Þétt blönduð byggð hverfist um ásinn í þægilegri göngufjarlægð frá biðstöðvum almenningssamgangna. Sambærilegur þróunarás á síðan að liggja til suðurs frá miðborginni um framtíðarbyggð í Vatnsmýrinni og yfir í Kársnes í Kópavogi (bindandi stefna)“.

 

Hér gefur að líta fyrstu teikningu sem ég sá af hugsanlegri Borgarlínu. Umfang hennar og lega virkaði sannfærandi  þega teikningin kom fram. Þessi áætlun er í fullkomnu samræmi við AR2010-2030 ef frá er talin leiðin yfir í Kársnes.  Maður sá fyrir sér svona 20 km langa hágæða Borgarlínu sem væri svo studd með virku hefðbundnu strætisvagnakerfi út í íbúðahverfin. Nú hefur verkefnið stækkað og breyst svo mikið að það er ekki auðvelt að átta sig á því.

Hér er kort úr AR2010-2030 sem sýnir fjarlægðir og ferðatíma frá þungamiðju Reykjavíkur. Þungamiðja höfuðborgarsvæðisins er nokkru austar og sunnar.

Að ofan er skjámynd þar sem tekin eru til helstu markmið AR2010-2030 um almannaflutninga. Þarna er talað um „léttlest í framtíðinni“. Nú er verið að hverfa frá þessu eða færa á annan stað og gera kerfið flóknara og stærra.

Að ofan er mynd af fyrirhugaðri legu og umfangi Borgarlínunnar eins og hún hefur verið kynnt.  Það er allnokkur munur á þessum áætlunum og þeim sem kynntar voru í aðalskipulagi Reykjavíkur AR2010-2030 sem samþykkt var fyrir tæpum fimm árum, í júní 2013.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (15)

  • Það er lykilatriði að verkefni eins og borgarlína gangi fljótt og vel fyrir sig. Valdi ekki óþarfa röskun í umhverfinu. Komist sem fyrst í gagnið á stöðum þar sem vænta má að fólk noti borgarlínuna.Þ.e. fari um svæði þar sem þegar er þétt byggð og möguleikar eru til þéttingar án mikillar fyrirhafnar. Stokkur í Miklubraut er ekki að hjálpa í þeim efnum. Er eiginlega allt of mikið vesen m.t.t. að aðrar leiðir sem bent hefur verið á eru vel færar. Eins og leið um Suðurlandsbraut með tengingu við Vogabyggð og áfram til austurs. Stokkur í Miklubraut má vera framtíðarmúsík eftir að borgarlínan hefur sannað sig.

    • stefán benediktsson

      Það er ekki verið að hætta við þróunarásinn og Suðurlandsbraut eða „flytja“ Borgarlínu.
      Miklubrautarstokkurinn er til að leysa umferðartappann við Miklubraut og brúa gjána sem hefur klofið hverfið og græða saman suður og norðurhluta hverfisins. Aðaláhrifin eru lýðheilsubót og samfélagsbót.

    • Það eru umferðartappar út um allt höfuðborgarsvæðið. Á alltaf að byggja frá þeim? Hættan er sú að þú færir bara til umferðartappana. Borgarlínan er mikilvægari fyrir þróun höfuðborgarsvæðisins. Hún léttir á umferðarvandanum til lengri tíma litið ef vel er haldið á málum. En er ekki of mikið horft til þess að byggja sig frá vandanum þegar afar einföld og ódýr lausn er til? Það er að lækka umferðarhraðann almennt í borginni. Ég veit að það er á brattann að sækja en ef hámarkshraðinn væri almennt 40 og kannski 60 þar sem er mislægt og ef því væri fylgt fast eftir væri borgin allt önnur hvað varðar lýðheilsu borgarbúa.

  • stefán benediktsson

    Takk fyrir þetta Hilmar. Upplýsandi að venju. Frábær loftmynd Lesbókarinnar sýnir vanda Miklubrautarinnar Skringileg lykkja á götunni sem byrjar austan við Stakkahlíð og endar við Snorrabraut er afleiðing þess að Borgarstjórn hætti við að fjarlægja öll hús sunnan götunnar milli Stakkahlíðar og Snorrabrautar eins og Aðalskipulag gerði ráð fyrir. Afleiðingin er Lönguhlíðatappinn sem enn hefur ekki verið leystur.

    Smá leiðrétting vegna umræðu um Borgarlínu og þróunarás:

    Bókun Borgarráðs og niðurstöður hverfisskipulagsráðgjafa:
    Borgarráð samþykkti í lok janúar 2017 að kannað yrði hvort það er fýsilegt að setja meginstraum umferðar á Miklubraut í stokk. Verkefnið hefur verið unnið í tengslum við vinnslu hverfisskipulags og nú liggja fyrir tillögur hverfisskipulagsráðgjafa um þróunarmöguleika byggðar og umhverfis ef Miklabraut færi í stokk að hluta. Eins liggja fyrir niðurstöður umferðarspáa og frummat á stofnkostnaði við vegstokk.
    Niðurstöður
    Frummat bendir til þess að fýsilegt sé að setja meginstraum umferðar á Miklubraut í stokk frá
    Snorrabraut og austur fyrir Kringlu.
    Með því megi bæta samgöngur allra ferðamáta, skapa góðar aðstæður fyrir almenningssamgöngur, gangandi og hjólandi og styðja vöxt vistvænni samgangna.
    Með því megi draga mjög úr neikvæðum áhrifum bílaumferðar á loftgæði og hljóðvist þar sem þau eru mest í borginni. Skapa megi mun betri N-S tengingar milli hverfahluta fyrir um 17 þús. manns sem búa á svæðinu í dag.
    Með því megi þróa byggð á vannýttum veghelgunarsvæðum – fjölga íbúðum og byggja upp atvinnu og þjónustu á eftirsóttum reitum, miðsvæðis í borginni.
    Með uppbyggingu megi fjármagna hluta stofnkostnaðar við stokk.

    Miklabraut í stokk er umfangsmikið verkefni sem kallar á mun ítarlegri greiningar en liggja fyrir nú á frumstigi.
    Í næstu skrefum þyrfti m.a. að greina samgöngumálin með mun ítarlegri hætti og kanna kosti, galla og áhrif annarra valkosta til að þróa Miklubraut og nágrenni hennar.

    Þetta er samþykkt Borgarráðs og niðurstöður frummats hverfisskipulagsstjóraog. Ekki eitt orð um flutning þróunaráss eða Borgarlínu, en lögð áhersla á lýðheilsu og mannlíf:
    „Með því (stokknum) megi draga mjög úr neikvæðum áhrifum bílaumferðar á loftgæði og hljóðvist þar sem þau eru mest í borginni. Skapa megi mun betri N-S tengingar milli hverfahluta fyrir um 17 þús. manns sem búa á svæðinu í dag.“

  • Jón Gunnarsson

    Þétting byggðar hefur gengið of hægt og leitt af sér hækkað nýbyggingaverð íbúða umfram nágrannasveitafélögin. Menn eru að fara á taugum og skella fram svona vanhugsuðum hugmyndum korter fyrir kosningar í von um að heilla kjósendur.

  • Sverrir B

    Það er rétt að gangnamunninn er ekki lengur sýndur á uppdrættinum. Í kaflanum um Samgöngur segir samt: • Miklabraut
    Stokkalausnir/jarðgöng. Þörf á framkvæmdum verður
    fyrst og fremst metin út frá loftgæðum og hljóðvist í
    aðliggjandi byggð og þeim tækifærum sem skapast við
    að tengja hverfi betur saman norðan og sunnan götunnar.

    • Hilmar Þór

      Sverrir B.

      Ég nefndi þetta í athugasemd eða svari við athugasemd fyrr í dag kl 15:31.

      Svarið var svona

      Annars er rétt að geta þess að í AR2010-2030 eru fjórar línur sem segja að rétt sé að halda þessari stokkhugmynd opinni, en það er á forsendum loftgæða og hljóðvistar en ekki á forsendum einkabílsins og almannaflutninga eins og nú er verið að tala um.

      Málsgreinin er svona orðrétt á síðu 136 í prentuðu útgáfu aðalskipulagsins:

      „Miklabraut
      Stokkalausn/jarðgöng. Þörf á framkvæmdum verður fyrst og fremst metin útfrá loftgæðum og hljóðvist í aðliggjandi byggð og þeim tækifærum sem skapast við að tengja hverfin saman norðan og sunnan götunnar.“

      Ég túlka þennann texta alls ekki sem eitthvað fyrirheit um stokk við Miklubraut. Frekar þannig að höfundur er að segja að jafnvel þó stokkurinn sé þurrkaður út þá sé ekki útilokað að hann komi einhverntíma seinna og yrði þá byggður vegna loft og hljóðmengunar.

      Þarna er verið að róa fólkið við götuna og segja að skipulagið sé ekki búið að gleyma þessum stokk hvað varðar mengun en hans sé ekki þörf vegna umferðarinnar.

      Nú er hinsvegar verið að leggja til að hann verði byggður vegna umferðamála.

      Ég held að það sé ekki nokkur leið að líta öðruvísi á þetta e svo að þarna er verið að breyta aðalskipulaginum og meginforsendum þess. Bæði hvað varðar umferðamál og landnotkun. AR2010-2030 hefur að markmiði að draga úr vægi einkabílaumferðar, skapa línulega miðborg og byggja upp þróunarásinn.

      Svo er það margt fleira sem þarna er óljóst. Ég nefni 66.000 m2 verslunar og þjónustuhúnæði. Einhverntíma var viðmiðunartala fyrir þesskonar húsnæði 3,5 m2 á íbúa. Ef það er enn í gildi mundi þessi verslun og þjónusta sem þarna er fyrirhuguð nægja fyrir tæplega 19.000 manns. Er þörf fyrir það þarna á þessu svæði sem er með kringluna, Skeifuna og þróunarás aðalskipulagsin í næsta nágrenni með hundruð þúsunda verslunar, þjónustu og jú atvinnuhúsnæði?

      Ég held að svona lylkiltölur vanti í þessa áætlun.

      En fyrir mér er aðalmálið að þessi hugmynd útilokar að Þjóðarsjúkrahúsið geti risið við Hringbraut.

      Ég sé að þú hefur lesið AR2010-2030 betur en margir. Ég væri þér þakklátur ef þú mundir bregðast við þessu svari frá mér.

      Án umræðu verða engar framfarir.

    • Sverrir B

      Hilmar!
      Ég er ekki viss um að ég taki undir túlkanir þínar, hvorki á því sem var breytt varðandi stokkinn í AR2010-2030 frá fyrra AR né ástæður þess að verið er að skoða hann núna.
      Ég held að staðsetning gangnamunna hafi verið frekar hamlandi því það er ómögulegt að þurfa að breyta aðalskipulagi ef menn komast að því að hann eigi að vera einhverja hundruði metra til eða frá.
      Ég var byrjaður að tala fyrir því að Borgarstjórn færi í þetta verkefni af alvöru fyrir svona 2 árum og þá var það aðallega til að lagskipta umferðinni í hraða gegnumumferð einkabíl annars vegar og hægari umferð og almenningssamgöngur hins vegar. Markmiðin að mínu viti er að gera umhverfið ofanjarðar vistlegra án þess að svipta burt tengihlutverkinu sem Miklabrautin sannarlega hefur.

  • Hermann Ólafsson

    Sæll Hilman,
    Sammála þér að stór mislæg gatnamót eru ekki í góðum anda aðalskipulagsins, en hugmyndin um Miklubraut í stokk finnst mér hinsvegar vera góðra gjalda verð til að stórbæta landgæði, tengja saman hverfi og búa til pláss fyrir almenningssamgöngur. Hvort hús sé raunhæf aftur á móti skal ósagt látið.

  • Heimir H. Karlsson

    Sæll Hilmar.

    Takk fyrir góða og frólega pistla.

    Áhugavert að lesa um þróun skipulagsmála.

    Samgöngur er mál sem snertir okkur öll.
    Pistillinn hér að ofan, myndir og útskýringar er fræðandi.
    Mikið sagt í stuttu máli, á skýran hátt.

    Ég sleppi því í bili, að ræða mínar skoðanir, mína reynslu og upplifun á núverandi skipulagi.
    Það yrði allt of lang mál.

    Óvenjumikil umræða um samgöngumálin þessi misseri.
    Gott að fá fræðandi og sögulegar upplýsingar um þau mál.

    Skemmtilegt að sjá gamlar myndir af borgarskipulaginu og gamlar hugmyndir varðandi skipulagsmál.
    Verður áhugavert fyrir fólk í framtíðinni, að kynna sér hugmyndir okkar í dag, varðandi skipulagsmál.

  • Svona óháð hversu mikið þetta er í samræmi við aðalskipulag, finnst þér þetta góð eða slæm hugmynd?

    Mér finnst þú aðallega gagnrýna þetta út frá hvað þetta yrði mikið vesen á framkvæmdatíma. Maður veltir því fyrir sér, hversu mikið vesen er þess virði að taka á sig í 5-10 ár fyrir 100+ ár af einhverju sem er miklu betra en við höfum í dag.

    Takk annars fyrir góðan pistil.

    • Hilmar Þór

      Jú Gunnar, ég held að þetta geti verið góð hugmynd sem vert er að velta fyrir sér þegar sú línulega miðborg sem AR2010-2030 stefnir að er komin upp og orðin starfhæft hryggjarstykki í Reykjavík.

      Það þarf líka að vera búið að leysa öll vandamálin áður en maður setur svona hugmynd á flot.

      Eitt vandamálið er Landspítalinn sem væri hægt að leysa með því einu að flytja hann á skynsamlegan stað.

      +++

      Annars er rétt að geta þess að í AR2010-2030 eru fjórar línur sem segja að rétt sé að halda þessari stokkhugmynd opinni, en það er á forsendum loftgæða og hljóðvistar en ekki á forsendum einkabílsins og almannaflutninga eins og nú er verið að tala um.

      Málsgreinin er svona orðrétt á síðu 136 í prentuðu útgáfu aðalskipulagsins:

      „Miklabraut
      Stokkalausn/jarðgöng. Þörf á framkvæmdum verður fyrst og fremst metin útfrá loftgæðum og hljóðvist í aðliggjandi byggð og þeim tækifærum sem skapast við að tengja hverfin saman norðan og sunnan götunnar.“

  • Hilmar Þór

    Það má líka bæta því hér við að það er sjálfsagt að láta aðalskipulagið ekki flækjast fyrir sér ef menn átta sig á að eitthvað megi fara betur. Jafnvel í grundvallaratriðum.

    Þá er heldur ekki ástæða til þess að hætta að velta hugmyndum fyrir sér þó þær stangist á við aðalskipulag.

    Það er heldur ekkert því til fyrirstöðu að leggja fram hugmyndir sem stangast á við aðalskipulag og leggja fram til umræðu eins og nú er verið að gera með Mikluraut í stokk.

    Að sama skapi er full ástæða til þess að gera óháða staðarvalsgreiningu vegna staðsetningar Landspítalans ef tilefni er til. Sem auðvitað er raunin.

  • Stefán G.

    Ég skil þetta ekki alveg. Þarf ekki að fylgja aðalskipulaginu? Má bregða út af því þegar mönnum dettur í hug? Ég hélt að það væri mjög bindandi.

    • Hilmar Þór

      Það má breyta aðalskipulagi og það er sifellt verið að ger það. En oftast er um minniháttar breytingar að ræða en ekki markmið. Núverandi aðalskipulagi AR2010-2030 hefur verið breytt eflaust svo tugum skiptir. Oft eru þetta nauðsynleg smáatriði og áherslur en sjaldan grundvallaratriði eins og hér er sagt frá.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn