Föstudagur 08.04.2011 - 10:19 - 4 ummæli

MIKLABRAUT- Þjóðvegur eða borgargata?

Í liðnum mánuði var gefin út skýrsla sem heitir “Miklabraut-þjóðvegur í þéttbýli?”

Skýrslan er skrifuð af hópi arkitekta sem kallar verkefnið  “Betri borgarbragur” og er unnið fyrir styrk frá Vegagerðinni.

Skýrslan sem er greining á Miklubraut/Hringbraut og nánasta umhverfi er gott innlegg í umræðu um samgöngur og borgarskipulag. Markmið vinnunar var að greina staðreyndir og vandamál og hafa áhrif á skipulagsmál framtíðarinnar í átt að vistvænni byggð.

Höfundar setja fram róttækar spurningar eins og  hvort hægt væri að minnka helgunarsvæði götunnar og gera hana að borgarstræti á borð við þungar umferðagötur stórborganna? Þetta er hugmynd sem Samúel T. Pétursson skipulagsverkfræðingur hefur sett fram víða og fjallað ýtarlega um. Skýrsluhöfundar spyrja einnig hvort mögulegt sé að gera Hringbraut frá Melatorgi að Ánanaustum að „Shared Street“ og margt fleira.

Miklabrautin er skilgreind sem þjóðvegur nr 49 í íslenska vegakerfinu.

Miklabrautin er sem sagt þjóðvegur í þéttbýli og þá vakna margar spurningar á borð við;  Hvar endar þjóðvegurinn og hvar byrjar borgin? Hvað er þjóðvegur að gera inni í miðri borg?

Eftir götunni við Elliðaár aka nú um 74 þúsund bílar á sólarhring og samkvæmt spám verður fjöldi bíla þarna 20 þúsund fleiri eftir 6 ár eða 94 þúsund bílar á sólahring. Þetta segir okkur að ástand skipulagsmála er ekki að batna í bráð.

Fullyrða má að mikið umfang götunnar á rætur sínar að rekja til óskynsamlegra skipulagsáætlanna sem hægt er að rekja til aðalskipulags sem samþykkt var fyrir tæpum 50 árum og sýnir það hvað aðalskipulag er áhrifamikið gagn.

Ég ætla ekki að gera lítið úr skýrslugerð almennt en segi að þær eru oft fyrirsjáanlegar og útreiknanlegar. Einkum ef þær eru samdar af verkfræðingum eða hagfræðingum. Það er í raun ótrúlegt hvað oft verkfræðingar eru ráðnir til þess að semja skýrslur um efni sem fyrst og fremst heyra undir starfssvið rkitekta. Nægir þar að nefna þarfagreiningar og húsrýmisáætlanir.  Skýrslur eru oft leiðinlegar vegna þess að í þær vantar innsæji og/eða einhverja hugmyndafræðilega sýn á viðfangsefnið. Arkitektar gera ekki mikið af skýrslum því miður. Þeir gera ástandsmat, SVOT greina viðfangsefni, spyrja spurninga, setja fram tilgátur og leita lausna.

Þegar arkitektar gera skýrslu eru þær gjarna vel myndskreyttar, briddað á nýjungum og hugmyndum, þær eru oft hlaðnar tilgátum sem eiga að feta í átt til lausna.  Skýrsla Betri borgarbrags er hér engin undantekning. Hún er ekki bara greinandi, upplýsandi, fróðleg og bráðskemmtileg hvað texta og myndskreytingu varðar heldur vekur hún upp margar mikilvægar og tímabærar spurningar.

Skýrsluna má lesa í heild sinni hér:

http://issuu.com/betri_borgar_bragur/docs/0915-110330-issuu?mode=embed&layout=http%3A%2F%2Fskin.issuu.com%2Fv%2Flight%2Flayout.xml

Ég mæli með því að fólk kynni sér skýrsluna. Þar kemur líka fram hvaða einstaklingar stóðu að heni m.m.

Myndin efst í færslunni sýnir teikningu af gatnamótum við Elliðaár sem er lögð yfir loftmynd af Kvosinni í réttum hlutföllum. Þessi samsetning er sláandi og sýnir hvað umferðamannvirkið er frekt á  landrými. Myndin er í raun ekki bara sláandi heldur beinlínis ógnvekjandi.

Að neðan er  svo önnur mynd úr skýrslunni sem sýnir hvað Miklabrautin tekur mikið landsvæði í samanburði við Kvosina. Blágrátt er malbik og grænt er helgunarsvæði götunnar. Alls er þarna um að ræða 78,4 hektara eða sem nemur ríflega helming þess svæðis sem núverandi Reykjavíkurflugvöllur stendur á.  78,4 hektarar fara sem sagt undir eina samgönguæð í smábæ sem telur rúmleg 100 þúsund íbúa. Þrátt fyrir  þessa staðreynd er enn til fólk sem heldur því fram að einkabíllinn sé heppilegasti samgöngumátinn í borgum.

Að ofan er loftmynd af gatnamótum við Elliðaár. Þarna mætast tvær götur sem taka landsvæði sem er stærra en öll Kvosin í miðborginni.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Ég mæli með lestri skýrslunnar sem er mjög merkileg og greinilega ekki með nálgun exelhugsunarháttar hagverkfræðinnar.

    Skoðið bara spurningarnar sem þarna eru Dæmi:

    Hvernig eru sambærilegar götur í erlendum borgum skilgreindar?
    Er eðlilegt eða hagkvæmt að miða við svo mikla aukningu umferðar í Aðalskipulagi án þess að gera ráð fyrir breyttum ferðavenjum?
    Eru göngubrýr heppilegasta leiðin til að tengja byggðir norðan og sunnanvið Miklubraut?
    Hvaða áhrif hefur uppbygging Landspítala við Hringbraut?
    Hvaða áhrif hefði lækkaður hámarkshraði á Miklubraut Hringbraut á afköst og mengun?

    Og mörgum fleiri spurningum er hent fram.

    Ég bæti einni við: Hvað hafa skipulagsyfirvöld verið að hugsa síðan 1962?

  • stefán benediktsson

    Þetta er ekkert flókið.
    First we take Manhattan, then we take Berlin!
    Eða!
    Ef þú byggir götu er hún notuð
    Ef þú stækkar hana nota menn hana meira.
    Ef þú minnkar hana hætta menn að nota hana
    Ef þú minnkar þær allar teppast þær
    Þá eykst eftirspurn eftir annarskonar samgöngumáta.
    Amen

  • Guðmundur

    Þetta er tímabært verk og gott framtak. Lagning stofnbrauta í þéttbýli hefur gríðarleg áhrif á byggðaþróun borgarinnar, og margir hafa fært rök fyrir því að hnignun miðborga í vestrænum borgum sé að miklu leyti slíkum framkvæmdum um að kenna. Í sjálfu sér er kannski ekki svo mikið við þá arkitekta og skipulagsfræðinga að sakast sem að málinu koma, heldur miklu frekar ákvörðunarferlinu (eins og sást m.a. með Vatnsmýrarævintýrið, sem enginn virtist bera ábyrgð á).

  • Ólafur Guðmundsson

    Það er mikið verk að vinna í skipulagsmálum Reykjavíkur. Umrædd skýrsla er tilefni umfjöllunar í stóru leiksviði. Þar ætti að kalla til alla helstu sérfræðinga landsins í skipulags og umferðamálum og láta þá sitja sem áheyrendur.

    Þessi gatnamót við Elliðavog eru of fyrirferðamikil og skökk. Á neðstu myndinni sést að þau eru með breytilegan radíus í slaufunum þannig maður finnur til óöryggis þegar ekið er um, alltaf að hreyfa stýrið til. Þessi gatnamót hafa alltaf verið slæm og það eykur á óánægjuna þegar þau eru sett í samhengi við Kvosina og landnotkun almennt… Hálf Vatnsmýri undir stofnbraut í smábæ!!.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn